(Land)hreinsun

Þegar fréttamaður Pressunnar hringdi í mig undir miðnættið í gær og spurði formálalaust, hvort ég hefði sem utanríkisráðherra beitt mér fyrir ráðningu Árna Mathiesen, dýralæknis, í stjórnunarstöðu hjá FAO (Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna í Róm), svaraði ég: “Aldrei” – og bætti við, að ef þetta ætti að verða nýjasta útflutningsafurð Íslendinga, væri vart von á góðu. Við nánari umhugsun skynja ég, að framkallað svar á staðnum og stundinni við svo áhugaverðri spurningu er eiginlega of afundið. Spurningin verðskuldar meiri yfirvegun og meiri íhygli.

Var það ekki Þorvaldur Gylfason, sem benti á það, þegar kvótaekkjan frá Vestmannaeyjum munstraði Davíð Oddsson sem ritjstóra Moggans, að því væri helst að líkja við það, að Ameríkanar hefðu ráðið Richard Nixon eftir Watergate sem ritstjóra Washington Post? Auðvitað á að líta á málin í svona stóru samhengi. Ég hefði því átt að svara á þá leið, að áður en ég treysti mér til að mæla með fallít fjármálaráðherra við FAO, yrði ég að huga að jafnræðisreglunni og þar með því, að ég mætti ekki gera upp á milli okkar íslensku afreksmanna, sem sameiginlega stóðu yfir höfuðsvörðum íslenska lýðveldisins.

Ég hefði þá sem utanríkisráðherra hlotið að krefjast þess í samningum um aðild Íslands að Evrópusambandsinu, að Davið Oddsson tæki við af Jean Claude-Trichet sem seðlabankastjóri Evrópu.

Og hvað með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn – IMF? Er ekki Strauss-Kahn að fara í forsetaframboð í Frakklandi á móti henni Evu okkar Joly? Ég hefði auðvitað sem fjármálaráðherra hótað því að reka sjóðinn burt frá Íslandi, nema því aðeins að eigandinn (bandaríska fjármálaráðuneytið) samþykkti að gera okkar mann, Geir H. Haarde, að framkvæmdastjóra í staðinn fyrir Strauss-Kahn. Ef þeir hefðu ekki fallist á það, þá hefði ég sem menntamálaráðherra heimtað að John Hopkins háskólinn tæki aftur við nemanda sínum, Geir Haarde, en í þetta sinn sem yfirmanni hagfræðideildarinnar.

Og hvað með Sollu Samfylkingaroddvita og pólitíska sambýliskonu Geirs í hrunstjórninni? – Ekki má gleyma henni. Ég hefði auðvitað sem utanríkisráðherra byrjað á að setja það sem skilyrði fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu, að Solla tæki við af Ítölum sem kommissar yfir bönkum og fjármálastofnunum. En ef þeir hefðu nú ekki viljað svona huggulega klappstýru með þeim skúrkum, hefði ég að sjálfsögðu athugað, hvort ekki væri pláss fyrir hana einhvers staðar í dyngju Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Og hvað með Björgvin? Af því að hann var nú svo samvinnuþýður við að láta sniðganga sig í öllu sem máli skipti, á hann varla kröfu til stærri bita en að verða sendiherra á Möltu – eða jafnvel í Moldóvu.

Svona á að fara að þessu. Sem unnendur réttarríkisins megum við aldrei láta réttláta reiði eða forakt blinda okkur sýn eða gleyma grundvallarmannréttindum eða sjálfri jafnræðisreglunni um, að allir skuli jafnir fyrir lögunum. Og þegar ég væri nú búinn að losa landið við áðurnefnda afreksmenn, þannig að aðrar þjóðir mættu fara að biðja fyrir sér, mundi skapast rými til að hefja endurreisnarstarfið hér heima með bravúr.Hvernig væri þá, að Árni Johnesen tæki sjálfur við dómsmálaráðuneytinu? Umbætur byrja jú heima.