Maí í Andalúsíu

Baráttukveðjur til ykkar allra á 1. maí. Ég vona, að þið hafið farið í kröfugöngu, jafnvel þótt þið hafið orðið að taka gönguskíðin með.

Það liggur við, að við séum farin að fíla okkur sem innfædda Andalúsa. Þrjá daga í röð um páskahelgina horfðum við af hliðarlínu á preláta páfans, uppstrílaða bissnissmenn og guðhræddar konur með ómálga börn í eftirdragi bera líkneski Krists og Maríu Guðsmóður hring eftir hring um krákustigi þorpsins. Allt í einu rann upp fyrir mér, að svona fer PP (arftakar Francos í íhaldsflokknum) að því að hræða lýðinn til fylgilags við sig. Svona er skurðgoðadýrkunin lífseig. Allt er þetta gert í nafni sjálfsupphafningar – allir aðrir heita trúvillingar – og er arfur frá Rannsóknarréttinum. Blessaðar konurnar eru búnar að gleyma því, að þær voru brenndar á báli sem nornir, innblásnar af hinu illa, ef þær ekki fylgdu valdboði krossfara kirkjunnar upp á punkt og prik.

En svo náðum við að rétta okkur aðeins af í gær. Það eru bæjar- og héraðsstjórnakosningar þann 22. maí. PSOE-sósíalistaflokkur vinnandi fólks byrjaði kosningabáráttuna á laugardagskvöldi í hátíðarsalnum í ráðhúsinu. Ég held það hefði ekki einu sinni þýtt að reyna það í Alþýðuflokknum í gamla daga að bjóða upp á pólitíska eldmessu á laugardagskvöldi. Forvitnin rak okkur á staðinn. Við bjuggumst við að sjá þarna fáeinar hræður – gamla kalla sem hefðu lifað af morðæði Francos fyrir slysni – en það var nú eitthvað annað. Troðfullt hús, ungir og gamlir, karlar og konur og rífandi stemning. Það kom á óvart, hvað trúboðstæknin er orðin hætekk. Borgarstjóraefnið var kynnt á video, vegfarendur sungu honum lof og prís í götuviðtölum, prógrammið var presenterað myndrænt, og lýðurinn áminntur um að leggja ekki hlustir við hræðsluáróðri um, að það sé sami rassinn undir öllum pólitíkusum; og að póítíkin sé bara spillingardýki, sem framapotarar misnota í sjálfauðgunarskyni: Gandhi er ekki sama og Hitler; Mandela ekki sama og Franco; Obama ekki sama og Bush. Þetta var smart. Bryndís segir mér, að spænskan eigi ekkert orð yfir ræður – og ekki heldur yfir fundi – en samt voru haldnar þarna langar ræður á fundinum. Ég skildi sirka tíunda hvert orð (en Bryndís hvíslaði þýðinguna í eyrað á mér, þegar henni fannst einhverjum mælast vel) og ég lét mér það vel líka. Á eftir var bjór og tapas og mikið bræðralag.

En áður en ég hafði skráð mig í flokkinn, var Bryndís farin með mig upp í hæðir í grannaþorp, þar sem hún hafði fundið út, að farið væri með ekta flamenco aftan úr márískri fortíð. Þetta var eins og að koma á fund hjá Ásatrúarsöfnuðinum eða kvæðamannafélaginu Rámurödd, ef það er til. Þarna sátum við hugfangin langt fram á nótt og hlustuðum á kalla – og eina konukind – kyrja kvæðin sín af grátbólginni angist, sjóðheitri sjálfsvorkunn og társtokkinni rómantík – allt með grátstafinn í kverkunum – öll á iði af smitandi ritma. Það merkilega var, að þarna sáum við aftur mörg andlit, sem höfðu verið á kratafundinum fyrr um kvöldið. Venjulega er það íhaldið, sem heldur uppi svona hefðum í nafni þjóðrembunnar, en “cante flamenco og gijares” er greinilega alþýðleg tónlist, sem tjáir sorg og gleði, vonir og vonbrigði, ástir og ástvinamissi hinna þjáðu og undirokuðu. Bryndís stóðst að lokum ekki mátið og fór að dansa. Kallinn við hliðina á mér sagði það liggja í augum uppi, að þessi kona ætti sér dulda fortíð aftur í aldir að al – Andaluz. Þar með var hún orðin heiðursfélagi í Flamenco félaginu. En ætli ég verði ekki bara í heiðursætinu á lista flokksins undir merki rósarinnar og hnefans við hreppsnefndarkosningarnar í vor. Ég vona, að það gangi betur en í Mosó í fyrra.

Með endurteknum baráttukveðjum 1. maí.
Ykkar að eilífu