Minning: INGÓLFUR MARGEIRSSON

HONUM Ingó var flest til lista lagt, sem prýða má einn lífskúnstner, trúbador og gleðimann. Það neistaði af húmornum í góðum félagsskap, og hlátur hans var smitandi. Hann var listateiknari og músíkalskur fram í fingurgóma (enda stutt í gítarinn) og bítlavin öðrum betri.

En fyrst og síðast var hann næmur, íhugull og athugull rithöfundur, sem lét sér fátt mannlegt óviðkomandi. Það besta sem hann skrifaði í formi ævisögunnar ber mannskilningi hans og listatökum á íslensku máli órækt vitni. Og mikið lifandis ósköp gat hann Ingó verið hlýr og uppörvandi félagi í dagsins önn. Því fengum við að kynnast, sem áttum því láni að fagna að vera vinnufélagar hans, á einhverju tímabili starfsævinnar. Þess vegna var hann vinmargur og eftirsóttur félagi.

Ingólfur var jafnaðarmaður af lífi og sál – af hugsjón. Sú lífsskoðun hans var ofin mörgum þráðum. Í námi sínu og starfi á Norðurlöndum, í Svíþjóð og Noregi, lærðist honum að meta hið norræna velferðarríki jafnaðarstefnunnar að verðleikum.Hann vissi sem var, að sú samfélagsgerð er hin eina af hinum miklu þjóðfélagstilraunum liðinnar aldar,, sem staðist hefur dóm reynslunnar “with flying colours”. Um það er ekki lengur deilt, að hvergi á jarðríki er betra að búa en þar.

Jafnaðarstefnan er lífsskoðun, sem hafnar hvoru tveggja – hömlulausri græðgi eigingirninnar og ofstjórnaráráttu og forsjárhyggju Stóra sannleiks. Í þjóðfélagi jafnaðarstefnunnar er lögð rækt við einstaklinginn, menntun hans og þroskaleiðir til þess að hann fái notið frelsisins. Og í því þjóðfélagi gleymast ekki okkar minnstu bræður og systur – samfélagið gengst fúslega undir þá skyldu sína að rétta þeim hjálparhönd, þegar á þarf að halda.

Sjálfur lagði Ingólfur áherslu á, að hann væri kristilegur jafnaðarmaður. Ef hann átti sér einhvern leiðsögumann á torfærum lífsins, þá var það meistarinn frá Nazaret og boðskapur Fjallræðunnar: “Það sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra.” Það má nærri geta, að manni með þessa lífssýn hefur runnið til rifja, hversu grátt skammsýnir menn og ófrómir hafa leikið samfélag okkar síðustu árin. Það er illt verk að afvegaleiða heila þjóð. Leiðarhnoða uppbyggingarstarfsins getur aðeins verið eitt: Að snúa til baka til samfélags norrænna velferðarríkja, þar sem við eigum heima.

Ingólfur Margeirsson var ekki einasta sannur jafnaðarmaður – hann var góður maður – og það var mannbætandi að kynnast honum. Við Bryndís flytjum Jóhönnu og fjölskyldum þeirra beggja, heima og heiman, okkar innilegustu samúðarkveðjur.