Fóstbræðrasaga hin nýja

NEI-sigurinn ógurlegi er fyrst og fremst sigur tveggja manna í íslenskri pólitík. Annar heitir Ólafur Ragnar Grímsson, en hinn heitir Davíð Oddsson.

Sá fyrrnefndi var einu sinni stuttlega formaður Alþýðubandalagsins, arftaka Kommúnistaflokks Íslands – in memoriam. Sá síðarnefndi var lengi vel formaður Sjálfstæðisflokksins, sem taldi sig löngum vera forystuflokk um vestræna samvinnu. Leitun mun vera að tveimur mönnum í landinu, sem fyrirlíta hvor annan jafn innilega.

Ólafur Ragnar stóð í ræðustól á Alþingi og sagði Davíð Oddsson haldinn „skítlegu eðli“. Þeir sem til þekkja segja, að álit Davíðs Oddssonar á núverandi forseta sé hreint út sagt ekki prenthæft. Nú hefur meiri hluti þjóðarinnar kjörið sér þessa tvo karaktera sem holdgervinga tilfinningalífs síns og leiðarljós út úr öngstræti hrunsins.

Vandinn er bara sá, að enginn veit, á hvaða leið fjandvinirnir eru.

Þeir málsaðilar, sem þjóðin kaus að setja ofan í við öðrum til viðvörunar, voru upp að telja: Alþingi, þingræðið, formenn stjórnarflokkanna, Steingrímur og Jóhanna, og nota bene – formaður Sjálfstæðisflokksins, sem settur var á skilorð fram að næsta landsfundi.

Niðurstaðan: Löskuð ríkisstjórn og farlama stjórnarandstaða. Stjórnlaust land. Það verður að framlengja gjörgæsluna hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og lengja í gjaldeyrishöftunum um ófyrirsjáanlega framtíð.

Klögumálin ganga á víxl

Aðalviðfangsefni stjórnvalda næstu misserin verður að standa í málaferlum.
Fyrst þarf að svara áminningarbréfi ESA um meint brot á EES-samningnum. Næst er að taka til varna frammi fyrir EFTA-dómstólnum. Að þeim dómi föllnum munu hefjast skaðabótamál fyrir hönd þeirra sparifjáreigenda í Bretlandi og Hollandi, sem íslenskir banksterar höfðu að féþúfu með vitund og leyfi íslenskra stjórnvalda.

Þetta mun taka upp meginið af þeirri orku, sem eftir er hjá örmagna stjórnmálamönnum, en skaffa fjölmiðlum og bloggurum næg umræðuefni í skammdeginu næstu vetur. Það sem er sérkennilegast vð þetta allt saman er, að í málflutningi sínum frammi fyrir dómstólum kemur það í hlut stjórnarinnar að tala máli stjórnarandstöðunnar, ef ég gef mér, að stjórnin hangi saman og lifi af, af því að það er enginn til að taka við af henni.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur nú þegar setið 15 ár á Bessastöðum.

Framan af kom þessi fyrrverandi galeiðuþræll stjórnmálanna fólki spánskt fyrir sjónir á friðarstóli á Bessastöðum. Hann hafði af einhverjum ástæðum það orð á sér að vera pólitískur tækifærissinni, upptekinn af eigin persónu meira en góðu hófi gegndi. Árin sem hann var veislustjóri auðkýfinganna, sem voru að féfletta þjóðina, og flutti bullræður um rasíska yfirburði þeirra, sló mörgum manninum fyrir brjóst, ekki síst þeim, sem höfðu vænst annars af þessum fyrrverandi foringja vinstri manna.

Í staðinn fyrir þann alþýðlega virðuleik sem einkenndi húshaldið á Bessastöðum í tíð Eldjárns og Vigdísar, sýndist ýmsum sem hégómadýrð og uppskafning setti um of svip sinn á þann búrekstur í seinni tíð. Sumir voru farnir að tala í hálfum hljóðum um O.Grimsson & Moussaieff ehf. sem eitt af útrásarfyrirtækjunum með óljóst lögheimili.

Sómi Íslands?

Samanburðurinn við Vigdísi, fyrrverandi forseta, varð ÓRG æ óhagstæðari. Hún virtist eiga hollustu vinstra liðsins og kvenþjóðarinnar óbrigðula. Hún var tákn þjóðlegra gilda og íslenskrar menningar. Hún naut álits í útlöndum sem fyrsta konan til að ná kjöri þjóðhöfðingja í heiminum.

Nú hefur öllu þessu verið snúið á haus, eins og hendi væri veifað. Vigdísi varð það á að upplýsa, að hún hefði greitt atkvæði með samningaleiðinni um Icesave.

Hún réttlætti það með því, að það væri siðaðra manna háttur að semja um ágreiningsmál við nágranna sína, fremur en að standa í argaþrasi við þá alla daga frammi fyrir dómstólum. Hún hafði ekki fyrr sleppt orðinu en hún var fordæmd í einum kór af forsöngvurum nei-liðsins í netheimum; hún var úthrópuð sem forréttindakelling, sem væri gengin á mála hjá elítunni og orðin viðskila við þjóðarsálina.

Samkvæmt sömu heimildum er Ólafur Ragnar hins vegar tekinn við af Jóni Sigurðssyni (sem Danir héldu uppi á prófessorslaunum í áratugi sem leiðtoga sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, af því að það var svo gott að semja við hann) – og er orðinn í lifanda lífi „sómi Íslands, sverð og skjöldur“. Þar með hefur Ólafur Ragnar þurrkað út fortíð sína sem meðreiðarsveinn og veislustjóri útrásarinnar og tryggt sér endurkjör sem forseti „for life“ að hætti kollega sinna í Afríku.

Fjandvinur Ólafs, Davíð, er líka á góðum vegi með að þurrka út fortíð sína sem höfuðpaur hrunsins.

Rannsóknarnefnd Alþingis komst sem kunnugt er að þeirri niðurstöðu, að Davíð hefði sem forsætisráðherra orðið á meiri háttar mistök og sem seðlabankastjóri hefði hann gert sig sekan um embættisvanrækslu, sem leiddi m.a. til gjaldþrots Seðlabankans í kjölfar hruns efnahagslífsins.

En nú hafa þessir fornu fjandvinir svarist í vanheilagt fóstbræðralag um að þurrka út þessa smánarlegu fortíð.

Ólafur Ragnar setti leikverkið á svið. Davíð skrifaði handritið: „Við borgum ekki, við borgum ekki…“, í anda Darios Fo, hins ítalska farsahöfundar, og leikstýrði því í kaupbæti.

Og má þá ekki mín elskulega þjóð prísa sig sæla, þegar þessir fornu féndur hafa nú strikað yfir fornar væringar og fallist í faðma hinna „sögulegu sátta?“

Það mun koma í ljós fyrr en flesta grunar.