Að loknu formannskjöri lagðist ég í ferðalög. Hundrafundaferðin hét það, undir leiðarstefinu: Hverjir eiga Ísland? Fundaferðin stóð yfir á annað ár. Dropinn holaði steininn. Smám saman komst boðskapurinn til skila. Í sveitarstjórnarkosningum 1986 reyndist Alþýðuflokkurinn vera næststærsti flokkur þjóðarinnar. Við vorum á réttri leið.
Óvíða voru viðtökurnar betri en á Suðurnesjum. Þetta var einvalalið. Flokkur og verkalýðshreyfing órofa heild, rétt eins og á Ísafirði í gamla daga. Við fengum hreinan meirihluta í hverju sveitarfélaginu á fætur öðru á Suðurnesjum í kosningunum ´86. Það sem einkenndi mína menn á þessum slóðum var sjálfstraust, raunsæi og verksvit.
Það var í þessum mannraunum, sem ég kynntist Reyni Ólafssyni fyrst. Hann var þá ungur maður, þéttur á velli og þéttur í lund. Viðskiptafræðingur á kafi í atvinnulífinu á Suðurnesjum, öllum hnútum kunnugur, réttsýnn og ráðagóður. Ég þóttist eygja í honum gott mannsefni.
Suðurnesjakratar kunnu flestum öðrum betur að gera sér glaðan dag: Árshátíðir, þorrablót, góugleði og hvað þetta nú hét. Ævinlega með tilþrifum og stæl. Að fenginni þessari lífsreynslu skildum við Bryndís, að það er ekki tilviljun, að Keflavík var uppeldisstöð og Mekka dægurtónlistar á Íslandi. Þaðan barst endurómur af ljúfum bítlavinum og grjóthörðum rokknöglum í bland við rammþjóðlega sjómannarómantík.
Þarna voru samankomin flottar stelpur og knálegir kallar, allt iðandi af krafti og fjöri. Seinna, þegar óvinsældir formanns Alþýðuflokksins náðu hámarki eftir „matarskattinn“, sællar minningar, hafði Bryndís á orði við mig, að ef ég þyrfti einhvern tíma á lífvörðum að halda, þá færu Suðurnesjakratar létt með það. Það væri á fárra færi að abbast upp á þá.
Þegar ég hugsa til baka til þessara gömlu góðu daga, kemur Reynir Ólafsson mér fyrir sjónir sem tákngervingur þeirra vösku manna, sem gerðu Alþýðuflokkinn að stórveldi á Suðurnesjum á þessum tíma. Það var áreiðanlega ekki mulið undir hann í æsku. Sjómannssonur, vanur öllum verkum til sjós og lands frá blautu barnsbeini. Braust til mennta og útskrifaður í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands. Hann kom víða við í atvinnulífi Suðurnesjamanna,farsæll og traustur í störfum sínum. Að baki honum stóð mikill frændgarður atgervisfólks, sem munað hefur um í þeirra heimabyggð.
Við Bryndís kveðjum Reyni þakklátum huga fyrir góð kynni og sendum fjölskyldu hans og gömlum félögum hugheilar samúðarkveðjur.