“Atburðirnir 9. nóvember sýndu ljóslega, að í raun er ekkert ríkisvald á Íslandi”.
– de Fontenay, sendiherra Dana á Íslandi til Thorvalds Stauning, forsætisráðherra, í skýrslu um Gúttóslaginn 9. nóv., 1932.
Sú kenning Jónasar frá Hriflu, að Bretar mundu hindra byltinguna með því að leggja undir sig landið, væri varasamasta og “ein veigamesta mótbáran gegn valdatöku verkalýðsins á Íslandi”.
– haft eftir Einari Olgeirssyni, sjá Þ.W., bls. 206
“En það mætti segja, og það með nokkrum rétti, að það ríki, sem ekki hefur nægilega lögreglu til þess að halda uppi lögum og reglu, geti ekki talist ríki, hvað þá sjálfstætt ríki”.
– Magnús Gíslason, alþm.Alþingistíðindi 1939, B, 927.
1.
Þessi bók á erindi við fleiri en ætla mætti við fyrstu sýn. Vissulega er þetta sagnfræðileg þrætubók um liðna tíð (1921 – ´46). En greining höfundar á innri veikleikum íslenska ríkisins, sem var lýst fullvalda ríki að nafninu til árið 1918, án þess að vera það í reynd, er í fullu gildi enn þann dag í dag. Í Gúttóslagnum 9. nóv. 1932 var lögreglulið höfðuborgarinnar ofurliði borið. Höfundur heldur því fram, að fámennur en harðsnúinn flokkur byltingarmanna undir dagskipan Alþjóðasambands kommúnista (Komintern) í Moskvu hefði getað hirt völdin (án þess þó að útskýra með viðhlítandi hætti, hvers vegna hann lét það ógert?). Einar Olgeirsson hafði að vísu sínar skýringar á því, sbr. tilvitnun í hann hér að ofan. Það var reyndar þannig, sem bolsévíkar Leníns rændu völdum í St. Pétursborg árið 1917. Það var í reynd valdarán (coup d´État) fámenns en harðsvíraðs minnihlutahóps byltingarmanna, en ekki bylting fjöldans, eins og sú sem við sáum í beinni útsendingu í Túnis um daginn.
Í október árið 2008 hafði fámennum klíkum fjárglæframanna tekist á fáeinum árum að leggja efnahag lýðveldisins í rúst, án þess að lýðræðislega kjörin stjórnvöld gripu í taumana í tæka tíð. Það var sjálfsprottin mótmælahreyfing fólks á götum Reykjavíkur, sem flæmdi ríkisstjórn Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar frá völdum. Það var í fyrsta sinn í sögu Íslands, sem ríkisstjórn var knúin til afsagnar í krafti fjöldamótmæla. Þessar staðreyndir kalla á rækilega rannsókn á hinu sögulega samhengi, sem skýri það á trúverðugan máta, hvers vegna stofnunum ríkisvaldsins er um megn að verja ríkið, þegar á reynir, hvort heldur er fyrir byltingarmönnum, sem vilja stjórnskipunina feiga, eða fyrir fjárglæframönnum, sem fá að leika lausum hala og vaxa að lokum stofnunum þjóðríkisins yfir höfuð.
Hrunið árið 2008 afhjúpaði innri veikleika ríkisvaldsins, hvern á fætur öðrum. Við erum minnt á það nánast daglega í fréttum, að stofnanir lýðveldisins, allt frá stjórnmálaflokkum til stjórnsýslustofnana, eru í lamasessi. Þær valda einfaldlega ekki hlutverkum sínum. Við höfum það sterklega á tilfinningunni, að við séum læst inni í ræningjabæli. Að fenginni reynslu er ástæða til að efast um það, að dóms- og réttarkerfið hafi burði til að koma lögum yfir glæpamenn, sem hafa rústað efnahag þjóðarinnar og rænt hana mannorði sínu og lánstrausti á alþjóðavettvangi.Það er tímanna tákn, að íslenska ríkið telur sig ekki hafa efni á að byggja öll þau fangelsi, sem þarf til að hýsa alla þá glæpamenn, sem ganga lausir í landinu og standa í biðröð eftir vistun.
M.a.s. sjálfur Hæstiréttur hefur með vanhugsuðum og illa grunduðum úrskurði, sem ógilti kosningar til stjórnlagaþings, vakið upp grunsemdir um, að dómurunum sé um megn að varðveita andlegt sjálfstæði sitt gagnvart því pólitíska valdakerfi, sem skipaði þá í embætti. Þá er endanlega fokið í flest skjól, ef æðsta stofnun réttarríkisins nýtur ekki lengur trausts, óháð pólitískum flokkadráttum.
Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis um “aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008” er náma upplýsinga um þær innri meinsemdir, sem leiddu til hrunsins.Fáeinar klíkur fjárglæframanna fengu, óáreittar af yfirvöldum, að breyta bönkum og fjármálastofnunum í ræningjabæli. Stjórnmálaforystan reyndist staurblind á viðvörunarmerkin allt um kring og flaut sofandi að feigðarósi. Eftirlitsstofnanir, eins og Fjármálaeftirlit og Seðlabanki, sem áttu að ábyrgjast heilbrigðisvottun einstakra fjármálastofnana og stöðugleika fjármálakerfisins í heild, reyndust vita gagnslausar. Fúsk og sjúsk einkenndi vinnubrögð stjórnsýslunnar. Fjölmiðlar í eigu fjárglæframannanna sjálfra voru mettir og mýldir. Sjálfur forseti lýðveldisins söng auðkýfingunum lof og prís og sæmdi þá æðstu heiðursmerkjum ríkisins, sem bestu syni þjóðarinnar.
Þar sem stjórnmálaflokkunum virðist fyrirmunað að gera upp við smánarlega fortíð sína og þar með að sýna fram á, að þeir geti lært af reynslunni, er að óbreyttu borin von um að vænta megi leiðsagnar frá þeim um leiðir út úr ógöngunum. Alþingi er rúið trausti. Þar ganga klögumálin á víxl í beinni útsendingu og samstaða um lausnir er vandfundin.
Getur verið, að þetta upplausnarástand eigi sér aðdraganda miklu lengra aftur í fortíðinni en flest okkar órar fyrir?
2.
Í lokakafla bókarinnar “Smáríkið og heimsbyltingin”, kemst höfundur þessarar bókar, Þór Whitehead, að þeirri niðurstöðu, að “íslenska ríkið sé enn í svipuðum sporum og 1918”. Hann segir (sjá bls. 430- 31):
“Með því að komast að miklu leyti undan þeirri frumskyldu fullvalda ríkja að þurfa sjálft að verja landsvæði sitt og tryggja stjórnskipulagið, fundu Íslendingar aldrei hjá sér knýjandi þörft til að ráða bót á veilunni, sem einkennt hafði ríkisvald þeirra frá upphafi 1918, en sagði fyrst til sín fyrir alvöru með starfsemi byltingarmanna í landinu á árunum 1921- 1946. Ýmis rök mætti færa fyrir því, að íslenska ríkið sé enn í svipuðum sporum og 1918 (feitletrun JBH). Það sé í raun vanbúið til að framfylgja lögum og vernda stjórnskipulagið, ef fjölmennur hópur manna tekur sig saman um að veita því andspyrnu eða ákveður að reyna að steypa löglega kjörnum yfirvöldum með valdi.
Sama er að segja um viðureign ríkisins við skipulagða glæpaflokka. * ) Sú staðreynd, að ríkið hafði betur í átökum við byltingarflokk á liðinni öld, skýrist af þróun og aðstæðum þess tíma. Veikleiki ríkisins blasir raunar við í annarri mynd, þegar þetta er ritað, og afleiðingar af stórfelldum fjárglæfrum ógna fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. (Feitletrun mín – JBH). Þeir, sem brjóta sundur lögin, brjóta sundur friðinn. Þá reynir á styrk lýðræðisríkisins og hollustu þjóðarinnar við það. Tilraun Íslendinga til að halda við sjálfstæðu ríkisvaldi er ekki lokið……..”
*) Eftir fall Sovétríkjanna og endurreisn Rússlands skipaði Dúman, að undirlagi Yeltsins, sérstakan rannsóknardómstól til að fara ofan í saumana á sögu Kommúnistaflokks Sovétríkjanna. Niðurstaðan var sú, að þessi flokkur hefði frá upphafi verið glæpasamtök. Sendiherra Rússlands á Íslandi, Victor Krazavin, afhenti mér á sínum tíma sem þáverandi utanríkisráðherra Íslands þessa dómsniðurstöðu – JBH
3.
Nei, tilrauninni um Ísland er ekki lokið. Enn er von. En við höfum orðið fyrir þungbærum áföllum. Það ríkir upplausnarástand. Sjálfstraust þjóðarinnar hefur beðið hnekki. Spurningunni um, hvort okkur lánast að læra af mistökum okkar, er enn ósvarað. Ég er sammála Þór Whitehead um það, að við erum enn í sömu sporum og 1918.Stofnanir lýðveldisins hafa reynst of vanburðugar, þegar á reynir, til að ráða við, hvort heldur er, ytri eða innri óvini. Hvers vegna er svona illa fyrir okkur komið? Það væri meira en einnar messu virði, ef sagnfræðingar okkar og aðrir þeir, sem reynslu sinnar vegna búa yfir sérþekkingu á þessu tímabili, vildu leggjast á eitt um að leita að trúverðugum svörum, þrátt fyrir ólík grundvallarsjónarmið í pólitík.Getur verið, að við séum, þegar allt kemur til alls, einfaldlega of fámenn þjóð til að rísa undir þeim kröfum, sem gerðar eru til fullvalda ríkja?
Sú heimsmynd, sem blasir við í sögutúlkun Þórs Whitehead, er svart/hvít. Annars vegar er Sjálfstæðisflokkurinn, burðarás lýðræðis (flokksbundnir sjálfstæðismenn voru uppistaðan í varalögreglunni). Hins vegar eru kommúnistar, óvinir ríkisins, fjarstýrðir frá Moskvu. Framsókn er hentistefnuflokkur, sem lætur stjórnast af valdafíkn (Hermann Jónasson kemur fyrir sjónir sem ofbeldisfullur framapotari, sem lætur embættisverk sín sem lögreglustjóri ráðast af persónulegum og pólitískum framavonum sínum). Jafnaðarmenn eru eins og milli steins og sleggju. Þeir heyja vonlitla baráttu um verkalýðsfylgið á tvennum vígstöðvum: Annars vegar gagnvart ofurróttækni og yfirboðum kommúnista til vinstri, hins vegar gagnvart hefðbundinni húsbóndahollustu verkafólks við atvinnurekendavaldið, sem mestu ræður um atvinnu þess og afkomu. Stríðið stendur milli lýðræðissinna undir forystu Sjálfstæðisflokksins annars vegar og kommúnista hins vegar.
Á þessi söguskoðun eitthvað skylt við veruleikann? Stenst hún nánari skoðun? Hvers vegna sneru þá sjálfstæðismenn og kommúnistar iðulega bökum saman um að hnekkja forræði jafnaðarmanna innan verkalýðshreyfingarinnar? Sáu þeir í þessu sameiginlega hagsmuni? Byltingarsinnaðir kommúnistar litu hvarvetna á lýðræðisjafnaðarmenn og umbótastefnu þeirra sem “stoð og styttu auðvaldsins”. Staða Sjálfstæðisflokksins sem fjöldaflokks, m.a.s. innan launþegahreyfingarinnar (sem byggði á valdi atvinnurekenda á tiltölulega fámennum vinnustöðum) réðst af því, að hér yrði ekki til fjöldaflokkur jafnaðarmanna með meirihlutafylgi innan verkalýðshreyfingarinnar, sem yrði ótvírætt forystuafl vinstra megin við miðju, á Íslandi eins annars staðar á Norðurlöndum.
Þetta árangursríka bandalag borgaraflokksins við byltingarflokkinn er ein af mörgum skýringum á því, hvers vegna stjórnmálaþróun á Íslandi varð í grundvallaratriðum ólík þeirri, sem varð annars staðar á Norðurlöndum. Þetta bandalag bendir líka til þess, að kommúnistar og íhaldsmenn hafi ekki verið þær ósættanlegu andstæður í reynd, sem oft var látið í veðri vaka í hinni pólitísku orðræðu.
Eða hvers vegna er það, þegar Sjálfstæðisflokkurinn loksins nær forystuhlutverki í íslenskum stjórnmálum (með meiri þingstyrk en Framsókn eftir kjördæmabreytingar 1942), þá er það fyrsta verk formanns Sjálfstæðisflokksins, Ólafs Thors, á morgni hins unga lýðveldis 1944, að mynda “nýsköpunarstjórn” með kommúnistum? Alla tíð síðan, þegar Ólafur fékk tækifæri til stjórnarmyndunar að loknum kosningum, var það hans fyrsta hugsun, hvort hann gæti ekki endurreist nýsköpunarstjórnina. M.a.s. í aðdraganda að myndun viðreisnarstjórnar Sjálfstæðisflokksins með Alþýðuflokknum, að lokinni kjördæmabreytingu og tvennum kosningum á árinu 1959, skrifar Ólafur Thors bróður sínum, Thor, sendiherra í Washington D.C. og leynir því hvergi, að hugur hans standi til þess að mynda ríkisstjórn með Alþýðubandalaginu, arftaka kommúnista í íslenskum stjórnmálum . *)
Viðreisnarstjórnin var mynduð utan um hugmyndir um tilraun til kerfisbreytingar í íslenskum efnahagsmálum, frá haftabúskap til vísis að markaðsbúskap, sem hefði verið fyrirfram útilokað að koma fram með atbeina kommúnista. Formaður Sjálfstæðisflokksins virðist því á þessum tíma varla hafa verið með á nótunum um, hvað stæði til, enda áttu viðreisnarhugmyndirnar ekki uppruna sinn innan Sjálfstæðisflokksins. Það var hinn hugmyndafræðilegi leiðtogi Alþýðuflokksins á þessum tíma, hagfræðingurinn Gylfi Þ. Gíslason, sem var hinn pólitíski frumkvöðull viðreisnarprógrammsins, með atbeina hagfræðinga í embættismannastétt, sem ekki gegndu pólitískum forystuhlutverkum.
4.
Þetta rímar býsna vel við það sem við vitum um samhengi stjórnmálasögunnar frá seinni heimsstyrjaldarárunum til okkar daga. Seinni heimstyrjöldin gerbreytti högum íslensku þjóðarinnar á einu vetfangi. Með hernámi Breta og síðar hersetu Bandaríkjamanna var snarlega bundinn endir á kreppu og atvinnuleysi. Það varð lífskjarabylting á örfáum árum. Vegna gjaldeyrishaftanna hlóðust upp gjaldeyrisinneignir í umsjá ríkisins í breskum bönkum. Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði í reynd verið sá sem hann sagðist vera (flokkur einkaframtaks, samkeppni á markaði, með takmörkuðum ríkisaafskiptum) fékk hann hér upp í hendurnar gullið tækifæri til að framfylgja yfirlýstri stefnu sinni með því að hverfa frá haftabúskap og skömmtunarkerfi kreppuáranna og innleiða í staðinn markaðskerfi á grundvelli markaðsgengis og frjálsra viðskipta. Þarna var tækifærið til að koma fram kerfisbreytingu í íslenskum efnahagsmálum, frá hálf-sovéskri ríkisforsjá til markaðsbúskapar í opnu hagkerfi, með öflugan gjaldeyrisvarasjóð að bakhjarli, til að fleyta okkur yfir byrjunarerfiðleika.
Mér er ekki kunnugt um, að þetta hafi svo mikið sem hvarflað að forystu Sjálfstæðisflokksins á þessum tíma. Alla vega vitum við, hvaða kost þeir völdu. Þeir mynduðu ríkisstjórn með kommúnistum. Og það sem meira var, algerlega á hugmyndafræðilegum forsendum kommúnista um ríkisforsjá og áætlunarbúskap. Gjaldeyrisinneignirnar í stríðslok voru nýttar til að kaupa togara, sem var skipt milli útgerða í eigu sveitarfélaga og einkaaðila.En það var í engu hróflað við hafta- og skömmtunarkerfi kreppuáranna. Þvert á móti var það útvíkkað og fest í sessi. Þar með var Sjálfstæðisflokkurinn eini valdaflokkur hægri manna í allri V-Evrópu, sem tók ákvörðun um að viðhalda haftabúskap kreppuáranna um ókomna tíð. Sjálfstæðisflokkurinn fékk annað tækifæri með umbótatillögum Dr. Benjamíns H.J.Eiríkssonar og Ólafs Björnssonar um tilraun til kerfisbreytingar á árunum 1949-50, en klúðraði því líka.
Ísland, sem hafði stórgrætt á stríðinu, varð engu að síður þiggjandi Marshallhjálpar Bandaríkjamanna, sem var hugsuð sem efnahagsaðstoð við stríðshrjáðar þjóðir, veitt gegn skilyrðum um að viðtökuþjóðir legðu af leifar haftabúskapar stríðsáranna og tækju upp markaðsbúskap og frjáls viðskipti. Ísland varð eina undantekningin. Við þáðum meiri aðstoð en flestar, ef ekki allar, hinar stríðsþjáðu þjóðir, en uppfylltum ekkert af settum skilyrðum.Þar með hófst mynstur á samskiptum okkar við umheiminn, sem löngum hefur loðað við Íslendinga: Að heimta allt fyrir ekkert.**)
**) Íslenskir fjölmiðlar eignuðu mér á sínum tíma þau ummæli, að með EES-samningnum hefðu Íslendingar fengið “allt fyrir ekkert”. Sannleikurinn er sá, að ég hafði þessi ummæli eftir utanríkisviðskiptakommisar Framkvæmdastjórnarinnar á þeim tíma, Hollendingnum Franz Andriessen. Þessi ummæli eru því mér ranglega eignuð – JBH
Það má merkilegt heita, að þessi makalausa ákvörðun forystu Sjálfstæðisflokksins í árdaga lýðveldisins, um að halda áfram haftabúskap kreppuáranna og að festa ráðstjórnina í sessi á eftirstríðstímanum, hefur ekki verið viðfangsefni fræðimanna í svokölluðum stjórnmálafræðum, svo að ég viti til. Samt er þetta ákvörðun, sem dró langan slóða á eftir sér, og var að mörgu leyti mótandi um seinni tíma stjórnmálasögu lýðveldisins.
Þór Whitehead fjallar að vísu um nýsköpunarstjórnina, en án þess að gefa nokkrar viðhlítandi skýringar á þeim hugmyndafræðilegu forsendum, sem að baki lágu – ef einhverjar voru. Kannski þarf ekki að leita flóknari skýringa en þeirra, að Ólafur Thors og Hermann Jónasson þoldu ekki hvor annan! Hins vegar lýsir Þór því með nokkrum tilþrifum, hversu vel fór á með oddvita íslensku borgarastéttarinnar, Ólafi Thors, og aðalhugmyndafræðingi heimskommúnismans á Íslandi, Brynjólfi Bjarnasyni:
“Þótt gjörólíkir væru um margt, náðu þeir Ólafur og Brynjólfur ótrúlega vel saman í ríkisstjórn, þ.e. innan þeirra marka, sem marx-leninismi menntamálaráðherrans setti samvinnu við borgarana. Vinsamleg og glaðleg samskipti þessara tveggja valdsmanna voru auðvitað fyrst og fremst reist á því, sem þeir skilgreindu sem sameiginlega hagsmuni (skáletrun mín – JBH). En þeir virtu hvor annan einnig mikils og mynduðu “í raun burðarás ríkisstjórnarinnar”, eða eins og náinn vinur og flokksbróðir Brynjólfs orðaði það: “Skapaðist með þeim góð vinátta, sem entist æ síðan”” (sjá bl.392).
5.
Eftir endurteknar breytingar á kjördæmaskipan og kosningalögum, seinast 1942, náði Sjálfstæðisflokkurinn loks forystuhlutverkinu af Framsóknarflokknum, í krafti meiri þingstyrks, og hélt þessu forystuhlutverki við stjórn landsins eftir það út lýðveldistímann. Reyndar hafa þessir tveir flokkar, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn, löngum deilt völdunum sín í milli. Undantekningarnar eru nokkrar og yfirleitt skammlífar vinstristjórnir (en svo kallast ríkisstjórnir undir forystu Framsóknar með Alþýðubandalagi og Alþýðuflokki).
En það eru Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, sem vegna langrar stjórnarsetu hafa haft mótandi áhrif á efnahagsþróun og stjórnarfar lýðveldisins. En hvort tveggja þetta, hagstjórnin og stjórnarfarið, hefur fyrst og fremst mótast af þeirri grundvallarreglu stjórnkerfisins, sem kenna má við “helmingaskipti” sjálfstæðis-og framsóknarmanna. Frávikin frá því í átt til markaðsbúskapar, frjálsari viðskiptahátta og minni ríkisforsjár, eiga rætur sínar að rekja nær eingöngu til tveggja ríkisstjórna, þar sem Alþýðuflokkurinn var samstarfsaðili Sjálfstæðisflokksins. Þetta eru Viðreisnarstjórnin (1959-71) og Viðeyjarstjórnin (1991-95). Þessar stjórnir skera sig úr.
Viðreisnarstjórnin (1959-71) gerði síðbúna atlögu að kerfisbreytingu í upphafi sjöunda áratugarins. Hún afnam flókið millifærslukerfi í sjávarútvegi, skráði gengið rétt og gaf innflutning að mestu frjálsan. En leifar haftakerfisins héldu samt sem áður velli á fjölmörgum sviðum (t.d.gegnum ríkisbanka – og sjóðakerfi, útflutningsleyfi, verðlagshöft, auk þess sem landbúnaðarkerfið var endanlega ríkisvætt). Þótt þessar umbætur væru takmarkaðar, voru þær samt forsenda þess, að Íslendingar teldust tækir í fríverslunarsamtök eins og EFTA, sem Dr. Gylfi Þ. Gíslason beitti sér fyrir, að Íslendingar sæktu um aðild að 1968-70. Sömu sögu sögu er að segja um aðild Íslands að innri markaði Evrópusambandsins (EES), sem samið var um á árunum 1989- 93. EES- samningurinn jafngildir aukaaðild að Evrópusambandinu og er trúlega róttækasta kerfisbreytingin á íslensku efnahagslífi og hagstjórn í frjálsræðisátt á lýðveldistímanum. Enn og aftur kom frumkvæðið frá Alþýðuflokknum. Sjálfstæðisflokkurinn var upphaflega á móti, en söðlaði um til að tryggja sér aðgang að ríkisstjórn.
Hvernig kemur þetta heim og saman við þá sjálfsímynd Sjálfstæðisflokksins, að hann hafi allan lýðveldistímann verið forystuflokkur um mótun utanríksstefnunnar? Sú fullyrðing rímar reyndar ekki við raunveruleikann, nema að því er varðar aðildina að NATO (1949) og varnarsamstarfið við Bandaríkin (1951). Vissulega voru það tímamótaákvarðanir, sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði forystu um, enda mæddi mest á Bjarna Benediktssyni við að móta þessar ákvarðanir og afla þeim brautargengis.
En þegar kemur að kerfisbreytingu í efnahagslífi og hagstjórn og samningum um utanríkisviðskipti, þar sem taka þarf á innlendum sérhagsmunaöflum (eins og t.d. í sjávarútvegi og landbúnaði) hefur Sjálfstæðisflokkurinn ýmist verið tregur í taumi, til hlés eða beinlínis í andófsliðinu miðju.
Sjálfstæðisflokkurinn ber ábyrgð á því að hafa framlengt hálfsovéskt ríkisforsjárkerfi á Íslandi langt fram eftir síðustu öld. Hann var ekki hugmyndalegur frumkvöðull að kerfisbreytingum viðreisnaráranna og það voru þröng takmörk fyrir því, hversu langt flokkurinn treysti sér til að ganga í umbótaátt. Hann var til hlés, að því er varðar aðildina að EFTA. Hann var á móti EES, en söðlaði um á síðustu stundu af pólitískum hagkvæmnisástæðum. Og nú, þegar Íslendingar standa frammi fyrir þeirri spurningu að stíga skrefið til fulls með því að semja um aðild að Evrópusambandinu, er flokksforystan í andstöðuliðinu miðju, í slagtogi með óforbetranlegum kommum og þjóðernissinnuðum framsóknarmönnum. Í ljósi þessarar sögu virðist Sjálfstæðisflokkurinn vera lítt til forystu fallinn, þegar þjóðin stendur frammi fyrir stórum ákvörðunum, þar sem reynir á innri styrk og sannfæringu um framtíðarhag þjóðarinnar. Þá þurfa aðrir einatt að taka hinar stóru ákvarðanir fyrir hann og láta brjóta á sér við að fylgja þeim eftir gagnvart kjósendum.
6.
En hver eru þá höfuðeinkenni stjórnarfars lýðveldisins, sem Sjálfstæðisflokkurinn óumdeilanlega ber höfuðábyrgð á, ásamt með Framsóknarflokknum, allt fram undir hrun? Höfuðeinkenni stjórnarfarsins má lýsa í tveimur orðum: Ríkisforsjá og pólitísku fyrirgreiðslukerfi. Verðmyndun var ekki frjáls og lengst af var svokallað verðlagseftirlit ríkisins við lýði. Fiskverð var ákveðið af pólitískri nefnd. Verð á búvörum var og er ákveðið af yfirvöldum. Innflutningur var háður leyfum stjórnvalda og lengst af skipt á milli innflutningsaðila samkvæmt helmingaskiptareglunni. Sama máli gegndi um “hermangið” – framkvæmdir og þjónustu við bandaríska herinn á Miðnesheiði. Hermangið stóð lengi vel undir stórum hluta af gjaldeyrisöflun þjóðarinnar og var bróðurlega skipt milli fyrirtækja á snærum helmingaskiptaflokkanna, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Það orð fór af Íslendingum meðal yfirstjórnar hersins í Norfolk, Virginíu, að þeir væru bæði heimtufrekir og þjófóttir.
Útflutningur var háður pólitískum leyfum. Gjaldeyrishöft voru lengst af ríkjandi, skilaskylda á gjaldeyri til yfirvalda og skömmtun á gjaldeyri til neytenda. Bankarnir voru í ríkiseigu, bankastjórar voru pólitískt skipaðir, sem og bankaráð og forstjórar og stjórnir opinberra fjárfestingasjóða. Þeir sem stóðu í atvinnurekstri, sem og heimilin í landinu, áttu öll sín ráð undir náð þessa pólitíska fyrirgreiðslukerfis.
Verðbólga var viðvarandi og óleysanlegt vandamál, þannig að verðþynning gjaldmiðilsins var stöðug og óviðráðanleg. Raunvextir voru lengst af neikvæðir (undir verðbólgustigi), þannig að lán, sem fengust í gegnum fyrirgreiðslukerfi flokkanna í bönkunum, voru gjafir til pólitískra skjólstæðinga. Bankarnir höfðu sparifjáreigendur stöðugt að féþúfu, því að glataður var geymdur eyrir. Stöðug verðrýrnun gjaldmiðilsins leiddi að lokum til þess, að tvö núll voru skorin af. Þetta leiðir hugann að samanburði á hagstjórnarárangri Íslendinga og Dana. Báðar þjóðir byrjuðu með krónuna á pari. Síðan hefur gildi íslensku krónunnar rýrnað um 99.95%. Þetta segir meira en mörg orð um hagstjórnarárangur Íslendinga á lýðveldistímanum. Loks var krónan í reynd lögð niður (þar sem enginn treysti sér lengur til að lána til langs tíma í þeim gjaldmiðli) og tekin upp verðtryggingarkróna í hennar stað.
Þetta átti að vera bráðabirgðaráðstöfun gegn verðbólgu, en hefur festst í sessi með þeim afleiðingum, að launþegar fá laun í verðþynntum og gengisfelldum krónum, en bera skuldir í verðtryggðum. Undir þessu kerfi er Ísland orðið að láglaunasvæði og stór hluti launþega kominn undir fátæktarmörk. Eftir hrun hefur hluti yngri kynslóðarinnar verið hnepptur í skuldafangelsi og lítur á landflótta sem skásta framtíðarkostinn. Að þessu leyti er líkt á komið með Íslendingum og frændum þeirra Írum.
Að því er varðar frelsi, mannréttindi og öryggi borgaranna samkvæmt grundvallarreglum réttarríkisins, hefur hrunið 2008 afhjúpað djúpstæðar veilur í stjórnskipuninni, sem áður voru að meira eða minna leyti huldar sjónum manna í daglegu lífi. Þegnar lýðveldisins hafa aldrei búið við þau grundvallarmannréttindi í lýðræðisríki, sem felast í reglunni: Einn maður eitt atkvæði. Í staðinn hefur misvægi atkvæðisréttar eftir búsetu verið grundvallarregla. Aðgangur að opinberum embættum og frami í opinberri þjónustu ræðst af flokkshollustu, fremur en hæfni. Þannig skiptast borgararnir í reynd í “fyrsta og annars flokks borgara”, eftir því, hversu vel inn undir þeir eru hjá ráðandi flokkum.
Þrátt fyrir lög um, að fiskistofnarnir á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar, var veiðiheimildum í upphafi úthlutað frítt til sérvalins hóps. Tímabundnar veiðiheimildir eru í reynd teknar gildar sem veð fyrir lánum, eins og um einkaeignarétt væri að ræða. Hin sameiginlega auðlind hefur þannig í reynd verið einkavædd í trássi við landslög. Handahafar veiðiheimilda þurfa ekki lengur, sumir hverjir, að hafa fyrir því að veiða sjálfir fiskinn, sem þeir fá úthlutað. Það gera leiguliðar í þjónustu sægreifanna. Þetta minnir einna helst á lénsveldi miðalda, enda hefur mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna komist að þeirri niðurstöðu, að þessi framkvæmd kerfisins brjóti í bága við hvort tveggja, sjálfa jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og ákvæði hennar um atvinnufrelsi, fyrir utan mannréttindasáttmála, sem Ísland er aðili að og skuldbundið að framfylgja. En virðir samt að vettugi.
Hér getum við látið staðar numið að sinni, því að þær hörmungar, sem dunið hafa yfir almenning eftir hrun, eru kapítuli út af fyrir sig. Um ríkisforsjár- og fyrirgreiðslukerfið, sem við kennum við helmingaskipti, og Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuðábyrgð á, ásamt Framsókn, nægir að segja, að í innsta eðli sínu var það á flestum sviðum gróft brot á þeirri grundvallarreglu réttarríkisins, að menn skuli vera jafnir fyrir lögum. Í þeim punkti minnti stjórnarfarið einna helst á Sovét-Ísland. Mismunun þegnanna eftir búsetu, stjórnmálaskoðunum, ætterni, vina- eða kunningjatengslum var sjálfur kjarni kerfisins. Allir þessir lestir, sem í útlöndum eru kenndir við “crony-kapitalisma” og fylgifiska þess, frændhygli, klíkuvensl og pólitíska mismunun, grafa að lokum hægt og bítandi undan trausti almennings á stofnunum ríkisins og þar með sjálfu réttarríkinu. Þarna held ég, að við séum farin að nálgast kjarna málsins.
7.
Í nýútkominni ævisögu Dr.Gunnars Thoroddsen lýsir höfundurinn, Dr. Guðni Th. Jóhannesson, framaferli sögupersónunnar innan þess spillta fyrirgreiðslukerfis sérhagsmuna, sem Sjálfstæðisflokkurinn var í öndverðu myndaður utan um. Sem afsprengi áhrifamikilla ætta má segja, að Gunnar Thoroddsen hafi verið borinn til valda. Enda leit hann sjálfur svo á, að hann væri réttborinn í nafni Flokksins, til allra æðstu embætta ríkisins, ef hann hafði hug á þeim á annað borð: Prófessor, ríkisbankastjóri, Hæstaréttardómari – “you name it, and he´s got it”. Gunnar er sagður annar af tveimur höfuðsmiðum valdakerfis Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Hinn var Birgir Kjaran, sem á námsárum sínum í Þýskalandi nazismans kynnti sér vel, hvernig þjóðernissósíalistaflokkur Hitlers var byggður upp sem fjöldaflokkur.
Allt ber þetta að skoða í samhengi við það pólitíska ríkisforsjárkerfi, sem Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir, einnig á landsvísu. En Reykjavíkurborg var samt sem áður kjarninn í þessu valdakerfi. Borgin var ört vaxandi. Stöðugur straumur fólks af landsbyggðinni þurfti á fyrirgreiðslu flokksins að halda við að finna húsnæði, fá lóð, fá vinnu eða að fá aðgang að þjónustu borgarinnar fyrir einhverja fjölskyldumeðlimi. Flestir atvinnurekendur, (aðrir en þeir sem handgengnir voru SÍS og Framsóknarflokknum) sáu sér hag í að leita skjóls í Sjálfstæðisflokknum. Þar með áttu þeir rétt á fyrirgreiðslu í bönkum og sjóðum og hjá borginni. Og meiri líkur á að fá hana gegn framvísun flokksskírteinis, ef þurfa þótti. Flokkurinn sá um sína. En fyrir gjald. Fyrirtækin þurftu að borga í flokkinn.
Þegar að því kom að útvega störf, voru fyrirtækin flokknum þóknanleg. Flest fyrirtæki (vinnustaðir) á Íslandi eru fámenn. Það myndast nánast sjálfkrafa tengsl milli eigandans/forstjórans og starfsfólksins. Þetta samband virkjaði Sjálfstæðisflokkurinn, þegar kom að kosningum, hvort heldur var í stéttarfélögum, í sveitarstjórnum eða til Alþingis. T.d. má nefna, að VR, eitt fjölmennasta stéttarfélag landsins hefur, fram undir það síðasta, verið eitt öflugasta apparatið í atkvæðasmölun flokksins, nokkuð sem væri óhugsandi annars staðar á Norðurlöndum – að launþegafélag væri burðarás atvinnurekendaflokksins. Þetta var vel smurð atkvæðamaskína, sem lengst af hefur skilað eigendum sínum yfirburðaárangri, hreinum meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, svo lengi sem elstu menn muna. Eins og nánar er lýst í ævisögu Gunnars Thoroddsen, skirrðist kerfið ekki við að beita beinum mútum til atkvæðakaupa, þegar mikið lá við. Raunsönn lýsing á því, sem hélt þessu kerfi gangandi, minnir meira á kosningamaskínur einræðisherra í þriðja heiminum, eða í sýndarlýðræði, eins og t.d. í Mexíkó, fremur en raunverulegt lýðræði í upplýstu, norrænu velferðarríki.
Vissulega breyttust hugmyndafræðilegar áherslur Sjálfstæðisflokksins við valdatöku Eimreiðarhópsins á ofanverðri seinustu öld. Lærisveinar Reagans og Thatchers vildu ekki láta sitt eftir liggja við að láta Draumalandið (útópíu frjálshyggjunnar) rísa hérna megin grafar. Takmörkun ríkisafskipta, einkavæðing, afnám reglugerða og eftirlits, skattalækkanir til hinna ríku, allt var þetta á stefnuskránni, ásamt þeirri bernsku trú, að ef út af brygði, myndi markaðurinn leiðrétta sig sjálfur.Þessi “harðlínustefna” er e.t.v. eina rökrétta skýringin, sem er finnanleg á hinni makalausu pólitísku lömunarveiki, sem ríkisstjórn Geirs Haarde virtist haldin til hinsta dags – og leiddi Ísland fram af bjargbrúninni – í hrunið.
En hrunið hefur afhjúpað illkynja veilur í stjórnmálalífi og stjórnarfari lýðveldisins, veilur sem eiga sér djúpar rætur langt aftur í fortíðinni, þeirri fortíð, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni. Einkavæðing, já – en ekki í opnu ferli skv. fyrirfram settum reglum, heldur í anda og með aðferðum gömlu helmingaskiptareglunnar. Fiskimiðin eru að vísu að lögum sameign þjóðarinnar, en framkvæmdin sniðgengur lögin í verki og brýtur í bága við grundvallarregur stjórnarskrárinnar um jafnræði og atvinnufrelsi. Fjárglæframenn, sem svífast einskis í blindri ágirnd sinni, fá að vaða uppi óáreittir og láta greipar sópa um fjármuni almennings. Stofnanir ríkisins, Alþingi, stjórnmálaflokkar, stjórnsýsla, eftirlitsstofnanir, dóms- og réttarfarskerfi, að ógleymdum fjölmiðlum, allar þessar lykilstofnanir lýðveldisins eru uppvísar að því að ráða ekki við verkefni sín.
Allar ódyggðir hins gamla og gerspillta fyrirgreiðslukerfis, sem miða að því að hygla einum og hafna öðrum, í krafti pólitísks valds, grafa smám saman undan trausti almennings á sjálfum undirstöðum réttarríkisins. Þegar traustið er glatað og trú almennings á, að hann búi í siðuðu samfélagi, þá er fátt eftir, sem til bjargar má verða.
Sjálfstæðismenn geta ekki öllu lengur lokað augunum fyrir því, að þetta er sú hryggðarmynd af þjóðfélagi, sem þeir, öðrum fremur, hafa haft forystu um að móta. Er ekki kominn tími til að fara að dæmi Yeltsíns og skipa rannsóknarrétt eða a.m.k. sannleiksnefnd til að rannsaka, hvernig arfleifð Flokksins hefur leitt til þessarar niðurstöðu?