Hinir ungu og hinir vonsviknu, sem refsuðu krötunum fyrir að hafa brugðist vonum sínum, kusu heldur ekki íhaldið, enda ekkert þangað að sækja nema sérhagsmunavörslu og purkunarlausa pólitíska spillingu. Hvað gat fólk þá kosið? Það er málið.
Hinir ungu, snauðu og vonsviknu fóru ekki einu sinni á kjörstað, heldur settust niður þúsundum saman á eitt helsta torgið í Madrid til þess að lýsa vonbrigðum sínum með kerfið. Okkur er misboðið, sögðu þau.
Forsíðumynd í El Pais, besta dagblaði Spánverja, sagði allt sem segja þurfti. Ungur maður stóð undir mótmælaskilti á la Puerta de Sol í Madrid klæddur hvítum bol með eftirfarandi áletrun: Juventud sin futuro: sin casa, sin curro, sin pension – pero sin miedo. Á okkar máli: æska án framtíðar: Án húsnæðis, án vinnu, án lífeyris – en óttalaus. Þetta voru skilaboðin.
Hvers vegna að kjósa, ef maður hefur enga trú á, að það skipti máli? Ef þú berð ekkert traust til neinna stjórnmálaflokka? Stjórnmálaflokkar eru þrátt fyrir allt óhjákvæmileg verkfæri fulltrúalýðræðisins. En ef maður trúir því, að „það sé sami rassinn undir þeim öllum,“ þrátt fyrir ólíka litgreiningu og slagorð, hvers vegna þá að fara á kjörstað? Hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur, að lýðræðið virkar ekki. Það eru skilaboðin, sem bárust frá Spáni: sjálft lýðræðið er í kreppu.
Hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar um alræði markaðslausna hefur ráðið lögum og lofum í veröldinni sl. þrjá áratugi. Ef markaðirnir eru allsráðandi, þá er lýðræðið úr leik. Til hvers er að kjósa, ef auðklíkurnar, sem eiga jörðina með gögnum hennar og gæðum, hafa vald til að mæla fyrir um við ríkisstjórnir og þjóðþing, hvað sé leyfilegt – og hvað ekki – fyrir ríkið að gera?
Sl. þrjátíu ár hefur nýfrjalshyggjan ráðið ríkjum í veröldinni. Boðorð nýfrjálshyggjunnar – alræði markaðarins og afskiptaleysi ríkisins – eru einfaldlega ósamrýmanleg lýðræðinu. Í reynd er þetta stjórnmálakenning í þjónustu auðræðisins (e. plutocracy) og boðar alræði hins alþjóðlega fjármagns.
Tímaritið Economist birti í janúar sl. sérhefti um hina ofurríku og restina af mannkyninu. Hver var niðurstaðan? Tíu prósent hinna ríkustu eiga 83% af gæðum jarðar (e. assets). Innan þessa úrvalshóps eru hinir ofurríku – um áttatíu þúsund einstaklingar allt í allt (af 7 milljörðum manna, sem jörðina byggja), sem ráða yfir miklum meirihluta af gæðum jarðarinnar. 90% fullorðinna jarðarbúa eiga sín í milli um 17% af jarðargæðum. Meira en helmingur jarðarbúa á nákvæmlega ekki neitt.
Á sl. þrjátíu árum hefur fjármagnið í eigu þessara örfáu einstaklinga vaxið svo ört, að það er orðið tíu sinnum meira en þjóðarframleiðsla raunhagkerfisins á ári. Þetta er reyndar sama hlutfall og nam vexti íslensku bankanna umfram þjóðarframleiðslu Íslendinga á ári. Þessi gríðarlegi auður er á forræði sárafámenns alþjóðlegs forréttindahóps, þótt stærsti hluti hennar (40%) tilheyri Bandaríkjamönnum.
Hugmyndafræði frjálshyggjunnar er um skilyrðislausan rétt fjármagnseigenda til að sækjast eftir hámarksgróða, en um leið blátt bann við íhlutun ríkisvaldsins í því skyni að draga úr ójöfnuði auðs og tekna. Þetta útilokar lýðræði og þetta misbýður okkur jafnaðarmönnum, því að stefna okkar er um jöfnuð og réttlæti. Ef kjósendur geta ekki kosið jafnaðarmenn gegn auðræðinu, þá þýðir það, að við höfum brugðist.
Hin alþjóðlega fjármalakreppa, sem átti upptök sín í Bandaríkjunum á rætur að rekja til hömlulausrar græðgi þessarar fjármálaelítu, sem sl. þrjátíu ár hefur leikið lausum hala um heiminn, án þess að lýðræðislegt ríkisvald þjóðríkja hafi sett við því skorður með löggjöf, reglusetningu og eftirliti. Þegar gróðafíkn hinna ofurríku hafði knúið hið alþjóðlega fjármálakerfi á barm gjaldþrots, kom ríkið því til bjargar á þeirri forsendu, að kerfið væri orðið „of stórt til að það mætti falla.“ Gróðinn hafði verið einkavæddur, en tapið var þjóðnýtt.
Þar með voru mörg þjóðríki orðin svo skuldug, að þau urðu háð fjármálamörkuðum (fjárfestum) um að endurfjármagna skuldir sínar. Vegna aukinnar áhættu við að veita of skuldugum ríkjum lán, hækkuðu vextir upp úr öllu valdi og þar með kostnaður þjóðríkjanna við endurfjármögnun lána. Skuldabyrðin er í mörgum tilvikum orðin óviðráðanleg. Enn á ný er reikningunum framvísað á skattgreiðendur. Kerfið, sem fyrirbauð afskipti ríkisins, er nú komið upp á náð og miskunn ríkisins. Sjálf hugmyndafræðin er þar með gjaldþrota. „Money talks,“ eins og Kaninn segir. Til hvers er að kjósa – ef markaðirnir ráða?
Velferðarríki Evrópu hafa á undanförnum þrjátíu árum legið undir linnulausum árásum þeirra afla, sem gæta alþjóðlegra hagsmuna fjármagnseigenda. Ríkissjóðir þjóðríkjanna, skattfé almennings, eru nú veðsettir upp í topp til að forða hinu aþjóðlega fjármálakerfi frá hruni. Það tók almenning – stjórnmálaflokka jafnaðarmanna með samstöðu skipulagðrar verkalýðshreyfingar að bakhjarli – næstum heila öld að temja skepnuna – hömlulausan kapítalisma – með tækjum lýðræðisins og aðgerðum ríkisins, til þess að byggja upp manneskjulegt þjóðfélag, sem byggist á hugmyndum fólks um jöfnuð og félagslegt réttlæti.
Það er sótt að velferðarríkinu úr öllum áttum. Hverjir eru til varnar? Er ný kynslóð reiðubúin til að færa fórnir og taka upp þennan stríðshanska hins alþjóðlega auðvalds?
Það er ekki nóg að lýsa vonbrigðum sínum, eins og unga fólkið á la Puerta del Sol er að gera. Kynslóðirnar sem á undan okkur komu, gerðu meira en það. Þær beittu samtakamætti sínum og tækjum lýðræðisins til þess að taka völdin af fjármagnseigendum og byggðu upp betra þjóðfélag í nafni mannréttinda. Ef unga fólkið á Puerta del Sol ætlar að gera sér einhverja von um árangur, verður það að gera meira en að lýsa óánægju sinni. Það verður að endurheimta lýðræðið úr gíslingu auðræðisins.
Og áður en það heldur út í baráttuna, verður þetta unga fólk að læra eina lexíu, sem lífsbarátta genginna kynslóða kenndi okkur: Að þekkja óvin sinn!