Framsalsréttur þýðir ekki, að handhafar veiðiheimildar (sem er lögum samkvæmt tímabundinn nýtingarréttur) geti selt það, sem þeir ekki eiga, eins og um einkaeign væri að ræða – nema stjórnvaldið leyfi það í framkvæmd eða láti það afskiptalaust. Það fer allt eftir framkvæmdinni.
Hverjir hafa ráðið framkvæmdinni nánast alla tíð frá því að framsalsrétturinn var virkur í reynd (1991)? Svar: Sjálfstæðisflokkurinn.
Hverjir hafa stýrt sjávarútvegsráðuneytinu allan þennan tíma? Svar: Sjálfstæðisflokkurinn.
Hvaða ráðherrar Sjáflstæðisflokksins bera stjórnskipulega ábyrgð á því, hvernig framsalsrétturinn hefur verið leyfður í framkvæmd, í trássi við lagaákvæði um þjóðareign? Svar: þeir heita Þorsteinn Pálsson, Árni Mathiesen og Einar K. Guðfinnsson (1991-2009). Mér ekki kunnugt um, að þessir menn hafi verið í Alþýðuflokknum.
Hvernig hefur framkvæmdin verið í höndum ráðherra Sjálfstæðisflokksins? Svar: Hún hefur verið þannig, að handhafar veiðiheimilda (hins tímabundna nýtingarréttar lögum samkvæmt) hafa óáreittir mátt selja, veðsetja, arfleiða o.s.frv. það, sem þeir ekki áttu lögum samkvæmt, eins og um einkaeign væri að ræða. Að mínu mati var það ekki einungis lagalegur réttur, heldur beinlínis skylda þessara ráðherra Sjálfstæðisflokksins að stöðva þessa löglausu framkvæmd. Þeir brugðust þessari skyldu sinni.
Sjávarútvegsráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa m.ö.o. látið líðast, eða öllu heldur haldið verndarhendi yfir því, að meginákvæði fiskveiðistjórnunarlaganna um þjóðareign á auðlindinni hafa verið brotin á degi hverjum í næstum 20 ár – og grundvallarreglur stjórnaskrár lýðveldisins um jafnrétti fyrir lögum og atvinnufrelsi í þokkabót.
Ég stend þess vegna við það, sem ég sagði í ræðu minni í Thüringen, nefnilega að “they privatized the fishquotas and handed them out for free to favoured companies”. Þetta er það sem þinn flokkur – Sjálfstæðisflokkurinn – ber ábyrgð á.
Það þýðir ekkert, Styrmir minn, að reyna með orðhengilshætti að kenna öðrum um. Það þarf meira en mælskubrögð til þess að telja almenningi trú um þetta. Þeir sem til þekkja, vita betur. Það vita allir, sem vilja vita, að LÍÚ hefur ráðið því, sem þeir vilja ráða um stefnu Sjálfstæðis-Framsóknarflokksins í sjávarútvegsmálum. LÍÚ styður þessa flokka með ráðum og dáð. LÍÚ fjármagnar þá. LÍÚ kostar áróðursherferðir í þeirra þágu. LÍÚ beitir atvinnurekendavaldi sínu í sjávarbyggðum á landsbyggðinni til þess að hræða fólk til að kjósa þessa flokka með þeirri hótun, að ef jafnaðarmenn nái völdum, muni þeir koma á auðlindagjaldi. LÍÚ endurtekur í síbylju, að auðlindagjald sé skattur á landsbyggðina, sem muni setja útgerðina á hausinn og svipta fólkið í sjávarplássunum atvinnunni. LÍÚ veit, hverjir eru vinir þeirra og hverja ber að óttast. Það segir allt sem segja þarf.
Þessi framkvæmd sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins á framsalsréttinum s.l. 18 ár er það sem þú kallar upphafið á “valdatöku peninganna á Íslandi”. Svo bætir þú við: “næsti kafli í valdatöku peninganna á Íslandi var svo einkavæðing bankanna, og þar með var hún alger”, segir þú. – Þá fer nú málið smám saman að skýrast, er það ekki? Það sem þú kallar “valdatöku peninganna á Íslandi”, en ég kallaði í ræðu minni auðstjórn (e. plutocracy), er afleiðing af stefnu Sjálfstæðis-Framsóknarflokksins og framkvæmd hennar á löngum valdatíma.
Þessir flokkar hafa allan tímann verið staðfastlega andvígir gjaldtöku fyrir einkarétt nokkurra stórútgerða á nýtingu auðlindarinnar þrátt fyrir skýr ákvæði um þjóðareign. Þessir flokkar hafa ráðið framkvæmdinni. Enda stuðst við mikinn meirihluta á Alþingi lengst af. Þeir hafa í framkvæmd einkavætt auðlindina. Við, jafnaðarmenn, höfum verið í minnihluta með þá grundvallarstefnu okkar, að þjóðin eigi heimtingu á auðlindagjaldi fyrir nýtingarréttinn. Við höfum unnið varnarsigra í þessari baráttu. Án þessara varnarsigra væri málið fyrir löngu tapað. Þú hefur sem ritstjóri Morgunblaðsins lýst þig sammála okkur. Þú reyndist því miður vera með öllu áhrifalaus í þínum flokki, enda er nú svo komið, að LÍÚ gerir nú út þitt gamla blað, Morgunblaðið, og borgar tapið á degi hverjum með gróðanum af einkavæðingu auðlindarinnar, sem flokkur ykkar kom á í reynd.
Það er oft verið að vitna í umræðunni í áhrifamann í Sjálfstæðisflokknum, sem sagði efnislega eftirfarandi (ég biðst velvirðingar á, ef ég fer ekki með þetta orðrétt, en ég hef ekki heimildir við höndina hér í Andalúsíu): “Þetta er ógeðslegt þjóðfélag. Það eru engar hugsjónir, bara græðgi, eigingirni og sérhagsmunapot”. Varst það ekki þú sem sagðir þetta? Þú ættir að vita það manna best eftir að hafa þjónað Sjálfstæðisflokknum í 60 ár. Fer það ekki bráðum að verða nóg?
Með vinarkveðju,
Jón Baldvin
P.S. (1) Ég tek samúðarkveðjum þínum vegna kosningaósigurs okkar jafnaðarmanna á Spáni með æðruleysi; við unnum hreinan meirihluta hér í sveitarfélaginu okkar Bryndísar, Salobrenu, og enn er ekki öll von úti um, að við höldum Andalúsíu. Þá má Madrid sigla sinn sjó fyrir mér.
(2) Meðan ég man: Þú spyrð, hver hafi leitt “neo-conservatives” til valda á Íslandi. Svarið er, að það gerðu kjósendur – og hafa nú heldur betur fengið að súpa seyðið af því. – Sami