Inngangan í NATO (1949), varnarsamningurinn við Bandaríkin (1951), inngangan í EFTA (1970), EES-samningurinn (1994), Icesave – samningarnir (2010-11), hjálparbeiðnin til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (2008) og umsóknin um aðild að Evrópusambandinu (ESB) 2009 – allt hefur þetta verið rætt á Alþingi Íslendinga undir þeim formerkjum, að um sé að ræða samsæri gegn þjóðinni, endalok sjálfstæðis, landsölu og landráð; ráðamenn þjóðarinnar eru í alvöru sakaðir um að sitja á svikráðum við þjóðin og að ganga erinda erlendra þjóða, sem ásælist auðlindir Íslendinga.
ÞRÁTT FYRIR NIÐURSTÖÐUR Rannsóknarnefndar Alþingis um, að orsakir efnahagshrunsins 2008 sé að rekja til fjárglæfra eigenda og stjórnenda bankanna og mistaka og embættisvanrækslu nafngreindra stjórnmálamanna og embættismanna, virðist sú niðurstaða nú vera týnd og tröllum gefin. Að undirlagi þeirra stjórnmálaafla, sem báru höfuðábyrgð á Hruninu, er nú hamrað á því, að það hafi verið öllum öðrum að kenna. Ísland hafi lent í “umsátri óvinaþjóða”, sem hafi (af einhverjum óskiljanlegum ástæðum) viljað koma þjóðinni á kaldan klaka.
Enn og aftur er íslenska þjóðin sögð vera saklaust fórnarlamb erlends kúgunarvalds (áður voru það Danir, nú gegna Bretar, Hollendingar, Evrópusambandið og jafnvel Norðurlandaþjóðirnar, að Færeyingum undanskildum – sama hlutverki. Á tímabili var gefið í skyn, að Rússar, undir forystu Pútíns, fv. liðsforingja KGB, væru manna líklegastir til að reynast okkur vinir í raun. Sú vinátta reyndist þó skammæ, entist í nokkra daga.
ENN SEM FYRR eru nefndir til sögunnar Íslendingar, sem sagðir eru ganga erinda hins erlenda kúgunarvalds. Þessi misserin eru það einkum Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og flokkar þeirra. Það er mörgum gleymt og grafið, að þjóðin kvaddi þau til í raunum sínum, í kosningum eftir Hrun til að reyna að hreinsa upp skuldasúpuna eftir óreiðumennina, sem sannanlega komu landinu í þrot og ollu fjölda heimila atvinnu- og eignamissi.
NIÐURSTAÐAN? Brennuvargarnir, sem að sögn Rannsóknarnefndar Alþingis skildu við þjóðarheimilið alelda, gera nú allir í kór hróp að slökkviliðinu, sem kallað var á vettvang til að slökkva eldinn og skipuleggja endurreisnarstarfið. Og skv. skoðanakönnunum tekur meirihluti þjóðarinnar undir með brennuvörgunum.
Öfugmælavísa af þessu tagi er að vísu ein af þjóðaríþróttum Íslendinga, en þarfnast samt smá söguskýringar: Í sex hundruð ár var Ísland eitthvert aumasta örbirgðargreni Evrópu, ef ekki heimsins. Það var allt Dönum að kenna. Í sex ár vorum við í hópi ríkustu þjóða heims. Það var, að sögn, allt Davíð&co að þakka – að ógleymdum útrásarvíkingunum hans Ólafs Ragnars. Fyrir tæpum þremur árum hrundi sú spilaborg. Eins og venjulega eftir nætursvall í spilavíti skildu fíklarnir eftir mikið af ógreiddum reikningum. Við yfirheyrslur – og áminntir um sannsögli – sögðu fíklarnir, að skuldirnar væru runnar undan rifjum útlendra mafíósa. Sjálfir væru þeir alsaklausir. Þeir hefðu bara litið inn stutta stund, en lent óvart “í umsátri handrukkara”.Að því er varðar innheimtu á ógreiddum reikningum, bæri að vísa þeim til Steingríms og Jóhönnu; þau ættu að borga, af því að þau gengju erinda erlendra kúgunarafla (les handrukkara). Og nú bíða fíklarnir eftir þvi, að spilavítið verði aftur “open for business”, svo að þeir geti endurtekið leikinn.
HIN ÍSLENSKA umræðuhefð lætur ekki að sér hæða. Þeim sem vilja kynna sér nánar, til hvers hún getur leitt, er eindregið ráðlagt að lesa bók dr. Eiríks um hina sjálfstæðu þjóð, sem landsfeðurnir hafa á víxl kennt við trylltan skríl eða landráðalýð.