Styrmir Gunnarsson: Ummæli 2 við greinina In Search of Freedom: IT´S ALL ABOUT EQUALITY, STUPID!

Á bls 7-8 í ræðu þinni segir þú:

“Before the turn of the century a new generation of neo-conservative leaders, many of them with their MBAs from esteemed American Universities (hverjir eru það? innskot SG)overtook the Conservative Party and assumed a leading role in the government og the country. They remained in power for three consecutive terms, until they were ultimately thrown our in a popular uprising, affectionately dubbed the “pots- and pans” revolution in early 2009.

Having reached power those young idealists immediately proceeded with implementing their programme according to the book. They privatized the fisk quotas and handed them out for free to favoured companies.”

Í bréfi mínu til ykkar hinn 15. maí sl. sagði ég um þessa ræðu:

“Þetta er mjög fín ræða en í henni eru þó veikleikar. Söguskýring höfundar á bls. 8 gengur ekki upp.”

Í bréfi þínu frá 24. maí sl. segir þú:

“Í athugasemdum þínum við ræðuna segir þú okkur jafnaðarmenn hafa “lagt grundvöll að valdatöku peninganna á Íslandi”. Þetta eigum við að hafa gert vegna þess að við samþykktum framsal veiðiheimilda innan kvótakerfisins-með skilyrðum – árið 1990. Þetta bráðum 30 ára stríð um kvótann hefur alla tíð snúizt um eignarhald á auðlindinni. Staðreyndirnar um afstöðu okkar jafnaðarmanna eru þessar: Það vorum við sem knúðum það fram að auðlindin var lýst þjóðareign að lögum.”

Ágreiningur minn við þig snýst um lýsingu þína í þeirri ræðu þinni, sem hér er til umræðu á því sem gerðist með kvótann. Hvað gerðist?

Hin upphaflegu kvótalög voru samþykkt á Alþingi fyrir lok árs 1983. Þú ættir að lesa þessar umræður yfir aftur nú bráðum þremur áratugum seinna. Það er mjög fróðlegt. Þær snúast minnst um það sem máli skiptir, ef frá er talinn Guðmundur Einarsson, sem sagði m.a.:

“Ég tel að það sé óhugsandi að Alþingi geti eða megi framselja umráðarétt þjóðarinnar yfir þessum auðlindum skilyrðislaust. Ég tel að það hafi raunar ekki til þess neitt umboð…Um seinna atriðið, þar á ég við reglur um meðhöndlun og framsal kvóta, vil ég segja það, að það eina, sem fram hefur komið í viðtölum sjávarútvegsnefndar við hæstvirtan sjávarútvegsráðherra í þessu efni er, að hann mun ekki leyfa beina sölu kvóta. Það er það eina, sem hefur komið fram. Þarna tel ég að Alþingi eigi aftur að marka grundvallarreglur. Þarna erum við að tala um meðferð og úthlutun á svo stórkostlegum auðæfum að það hlýtur að þurfa að setja þar stefnumarkandi reglur um.”

Guðmundur Einarsson talar þarna af ótrúlegri framsýni um það sem gæti gerzt og ætti að gera hann að heiðursborgara hins íslenzka samfélags fyrir þessa ræðu. En honum hefur enginn sómi verið sýndur eins og við mátti búast.

Í þessum sömu umræðum kom fram tillaga í fyrsta sinn um að lögfesta sameign þjóðarinnar á fiskimiðunum. Hún kom fram í neðri deild og það voru þeir Steingrímur J. Sigfússon, Geir Gunnarsson og Hjörleifur Guttormsson, sem hana fluttu. Þeir voru þá þingmenn Alþýðubandalagsins.

Í kjölfarið var sama tillaga flutt í Efri deild. Hana fluttu Skúli Alexandersson, Alþýðubandalagi, Karl Steinar Guðnason, Alþýðuflokki, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir frá Kvennalista og Kolbrún Jónsdóttir frá Bandalagi jafnaðarmanna.

Tillagan var ekki mikið rædd í umræðunum en Svavar Gestsson lagði þó til að efni hennar yrði tekið upp í stjórnarskrá.

Það voru svo þið Alþýðuflokksmenn sem höfðuð frumkvæðið að því að ná þessu ákvæði inn í lög í desember 1987 og hefur svo ég viti til enginn reynt að hafa þann heiður af ykkur.

Svo kemur að því lykilatriði, sem ég geri ágreining við þig um hvernig þú fjallaðir um í ræðu þinni. Það var ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, sem beitti sér fyrir því að gefa hið svonefnda framsal frjálst árið 1990. Í þeirri ríkisstjórn áttu fulltrúa fjórir flokkar, Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag og Borgaraflokkur. Í þeirri ríkisstjórn áttir þú sjálfur sæti.

Næstu árin á eftir fóru fram mikil viðskipti með kvótann, veiðiheimildir gengu manna á milli og þjöppuðust saman á stöðugt færri hendur en hópur einstaklinga fór út úr sjávarútveginum með gífurlegan hagnað á íslenzkan mælikvarða, alveg eins og Guðmundur Einarsson hafði sagt að mundi gerast.

Það sem ég hef hingað til rakið eru staðreyndir, sem ekki er hægt að deila um. Þær eru skjalfestar í umræðum og löggjafarsmíð Alþingis. Upplýsingum um kvótaviðskiptin hefur verið haldið til haga í viðeigandi stofnunum.

Svo kemur að því að draga ályktanir. Þær ályktanir sem ég hef dregið í tengslum við það sem gerðist á næstu tveimur áratugum fram að hruni er að valdataka peninganna á Íslandi hafi hafizt með hinu frjálsa framsali kvótans. Þá urðu til fyrstu milljarðamæringarnir á Íslandi. Þeim var gert lífið auðveldara með því að breyta skattalögum á þann veg, að þeir gætu fengið frestun á skattlagningu söluhagnaðar vegna kvótaviðskiptanna ef þeir endurfjárfestu. Það var gert með því að stofna eignarhaldsfélög í Lúxemborg og kvótagróðanum var “endurfjárfest” í þeim. Það verður aldrei borgaður skattur af þeim peningum.

Ég tek það fram, að ég hef ekki kannað hvernig þú greiddir atkvæði á Alþingi, þegar þessar skattabreytingar voru til meðferðar!
Næsti kapítuli í valdatöku peninganna á Íslandi var svo einkavæðing bankanna og þar með varð hún alger.

Þetta eru rök mín fyrir því að það hafi verið svonefndir vinstri flokkar á Íslandi sem hefðu “lagt grundvöll að valdatöku peninganna á Íslandi.”

Þegar þú segir að “those young idealists immediately proceeded with implementing their programme according to the book. They privatized the fish quotas and handed them out for free to favoured companies” tel ég að þetta sé einfaldlega ekki rétt.

Þeir gerðu það ekki. Þið, sem sátuð í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar gerðuð það. Það er hægt að halda því fram, að þessir “young idealists” hafi átt sæti í ríkisstjórn þegar mestu kvótaviðskiptin fóru fram í kjölfar löggjafar vinstri stjórnar um hið frjálsa framsal en það voru fleiri sem áttu sæti í þeirri ríkisstjórn. Alþýðuflokkurinn undir þinni forystu sat í þeirri ríkisstjórn með þessum “ungu hugsjónamönnum”

Mér þætti vissulega fróðlegt að sjá hvort þú getur sýnt fram á með einhverjum rökum að þessi söguskýring mín sé ekki rétt. Ég kalla það ekki rök þegar þú segist “frábiðja þér að hlusta á svona áróðursbull” og að þú mælist til þess að ég hætti þessum “óhróðri” um ykkur jafnaðarmenn!

Rök, dear boy, rök, svo vitnað sé til Harolds MacMillans (events, dear boy, events, aðspurður um hvað gæti breytt stöðu stjórnmálanna).

Það má segja að skoðanaskipti af þessu tagi um það sem liðið er skipti engu máli. Ég held hins vegar að þau skipti öllu máli. Mér sýnist ekkert vera að breytast á Íslandi þrátt fyrir hrunið og það er hörmulegt.

Með beztu kveðju til ykkar Bryndísar. Votta þér samúð mína með ósigur ykkar spænskra jafnaðarmanna á dögunum.

SG

PS: ég tók eftir því að þú upplýstir ekki í ræðu þinni hver leiddi “neo-conservatives” til valda á Íslandi! SG