Á SPÆNSKU KOSNINGAKVÖLDI

Það er kosningakvöld á Spáni.Við sitjum fyrir framan stóran skjá á notalegri krá hérna uppi á klettinum og fylgjumst með kosningatölum. Það var að vísu ekki við góðu að búast. Zapatero klikkaði á kreppunni og var lengi vel í afneitun um alvöru málsins. Hann brást við of seint. Þegar hann loksins tók á málinu, voru aðgerðirnar óumflýjanlega harkalegri en ella hefði verið. Ég var þess vegna viðbúinn vondum fréttum. Samt þyngdist á mér brúnin, eftir því sem leið á kvöldið. Íhaldið – arftakar Francos í spænskri pólitík – virtust vaða uppi víðast hvar. Um mitt kvöldið var Barcelona – höfuðvígi lýðveldissinna – fallin í hendur óvinanna. Síðla kvölds var Castilla-La Mancha farin sömu leið. Og rétt fyrir miðnættið var sjálf Sevilla, höfuðborg Andalúsíu, gengin okkur úr greipum.

Tölurnar komu svo ótt og títt yfir borgir og bæi þessa víðlenda lands og vondu fréttirnar hrönnuðust upp svo ört, að það var erfitt að halda yfirsýn. En áður en upp var staðið, var þó ljóst, að við höfðum haldið Katalóníu (með heimastjórnarmönnum). Og höfuðvígi okkar jafnaðarmanna á Spáni, eftir fall Francos, Andalúsía, stóð að lokum af sér áhlaupið, en með naumindum þó.Og allar helstu borgirnar, Sevilla, Córdoba og Granada, voru fallnar í hendur íhaldsins. Þegar búið var að telja meira en 95% atkvæða, stóð íhaldið uppi sem sigurvegari með 37%, en við kratarnir sátum upp með 27.8% .Það var verið að refsa Zapatero fyrir að hafa brugðist í brúnni í kreppunni.

En fór þá okkar fólk yfir til íhaldsins? Nei, það sat heima, kaus vinstri græn eða settist niður með unga fólkinu á torginu í Madrid, Puerta del Sol, þar sem glaðbeittir stjórnleysingjar veifuðu íslenska fánanum og heimtuðu, að fjárglæframenn yrðu sóttir til saka (eins og einhverjir höfðu skrökvað að þeim, að væri gert á Íslandi). Og var þetta, eftir á að hyggja, sá stórsigur íhaldsins, sem fjölmiðlarnir gáfu til kynna? Hvað fékk íhaldið í sveitarstjórnarkosningum á Spáni, árið 2007? Það fékk 35.6% – og hefur því bætt við sig rúmlega 1.4 prósentustigum. Varla þætti íhaldinu heima það flokkast undir stórsigur. Niðurstaðan er því þessi: Íhaldið vann engan stórsigur í heild, en jafnaðarmenn töpuðu verulega.

Svo kom El Pais inn um lúguna í morgunsárið, og við fórum að rýna í smáa letrið, sérstaklega í bæjum og borgum hér í kringum okkur í Andalus. Og svei mér þá, ef við tókum ekki aftur gleði okkar. Það kom á daginn, að hér í Salobrena, þorpinu okkar – höfðum við jafnaðarmenn unnið stórsigur (44.12%) og hreinan meirihluta með vinstri-grænum. Hér hrundi íhaldið úr 41.3% niður í 21.3 og tapaði þreumr bæjarfulltrúum og þar með meirihlutanum. Þetta var eina bæjarfélagið á gervöllum Spáni, þar sem kjósendur syntu svo kröftuglega á móti straumnum.

Er einhver skýring á þessu? Ég þori varla að orða það upphátt. Við Bryndís höfðum náttúrlega áhyggjur af stöðu mála í kosningabaráttunni og gengum því í krataflokkinn og sóttum kosningafundi af stakri samviskusemi. Skv. EES eigum við rétt á að kjósa í sveitarstjórnarkosningum, þar sem við höfum tímabundna búsetu. Að vísu þurftum við að hafa fyrir því að skrá okkur á kjörskrá í tæka tíð, sem við gerðum með kurt og pí. Það var eftirminnilega stund að koma inn í kjörbúðina, sem var í Radio Salobrena, handan götunnar séð frá Casa Bryndís. Og duttu mér nú ekki allar dauðar lýs úr höfði, þegar ég kom þarna inn. Þetta var allt upp á gamla mátann. Fulltrúar flokkanna sátu og merktu í kjörskrá, hverjir höfðu kosið. Það var auðfundið af viðmótinu, að þeir vissu upp á hár, hvaða söfnuði við tilheyrðum, enda höfðum við hengt upp áróðursspjald á Casa Bryndís, sem blasti við á kjörstað, án þess að Guardia Civil gerði athugasemdir við það. Ætli þetta hafi ekki bara ráðið úrslitum? Kunnið þið aðra skýringu betri?

En hvers vegna töpuðum við? Það var vegna þess, að hinn dagfarsprúði Zapatero er enginn Felipe Gonzalez. Karlinn í brúnni brást, og þá verður auðvitað að skipta um skipstjóra. Zapatero tilkynnti fyrir kosningar, að hann gæfi ekki kost á sér framar. Þetta þýddi , að flokkurinn gekk til kosninga eins og höfuðlaus her. Hin ástæðan fyrir tapinu var sú, að það vantaði kraftbirtingarhljóm jafnaðarstefnunnar í kosningabaráttunni. Gamli foringinn, Felipe Gonzales, sem gerði spænska jafnaðarmannaflokkinn (PSOE) aftur að pólitísku stórveldi eftir fall Francos – kunni á því skil öðrum mönnum fremur. Hann var einn hinna fáu útvöldu, tímamótamaður í sögu þjóðar sinnar. Hann leiddi Spánverja út úr fordæðuskap fasismans inn í nýtt þjóðarvor, byggt á lýðræði og mannréttindum. Hann leiddi þjóð sína út úr einangrun og útúrboruhætti inn í allsherjarsamtök lýðræðisþjóða í Evrópu – Evrópusambandið. Á stjórnartíma hans urðu alger umskipti varðandi efnahag og lífskjör, frá örbirgð til bjargálna og frá úreltum búskaparháttum til nútímatækni í framleiðslu og þjónustu. Þeir sem komu til Spánar í tíð Francos og svo aftur um miðjan tíunda áratug seinustu aldar, eftir tólf ára valdatíma jafnaðarmanna undir forystu Felipes Gonzalez geta borið vitni um árangurinn. Felipe var tímamótamaður. Hann var einn hinna stóru í röðum okkar jafnaðarmanna á öldinni sem leið, í hópi manna eins og Gerhartsen og Erlander, Willy Brandt og Helmut Schmidt, Mitterand, Palme og Kreisky. Hann gaf Spánverjum bjartsýni í vegarnesti eftir langa eyðimerkurgöngu.

Fólkið sem lyfti Felipe til valda, sat nú heima. Eða það flykktist út á Puerta del Sol með unga fólkinu, sem hefur verið skilið eftir í fjöldaatvinnuleysi og án framtíðarvona. Það fór ekki yfir til íhaldsins, enda ekkert þangað að sækja, á Spáni fremur en á Íslandi, nema sérhagsmunavörslu og spillingu. En þetta fólk lýsir frati á flokkana. Því finnst þeir hafi brugðist, allir. Þetta fólk situr á torginu til að mótmæla því, að fjármálaelítan í heiminum hefur kastað eign sinni á gögn og gæði þjóðanna og er orðin svo voldug, að ríkisstjórnir einstakra ríkja fá ekki við ráðið. Þetta fólk vill, að alþjóðasamfélagið setji skorður við ofurvaldi auðmagnsins. Að fjármagnseigendur verði settir undir lög og reglur. Að skattaskjólum verði lokað,og að hinir ofurríku borgi sinn hlut til samfélagsins. Það vill réttlátara samfélag. Og merkilegt nokk: Á torginu var ekki verið að hallmæla snauðum innflytjendum. Þvert á móti var þess krafist, að innflytjendur nytu mannréttinda eins og aðrir þegnar samfélagsins. Hverjum öðrum en jafnaðarmönnum er treystandi til að láta þessa drauma rætast?