Ég ræddi í alvöru við alþjóðlegan hóp stúdenta í Þýskalandi um það, hvernig “casínó” – kapítalisminn bandaríski hefði á skömmum tíma aukið ójöfnuð og misrétti í heiminum, og uppskar í framhaldinu málefnalega umræðu um, hvort unnt væri að beita lýðræðislegum aðferðum, í krafti ríkisvalds þjóðríkja, til þess að beisla skepnuna (kapítalismann) og stuðla að meiri jöfnuði að dæmi Norðurlandabúa. Þar kom engum til hugar að halda því fram, að Evrópusambandið væri höfuðvígi heimskapítalismans. Er það ekki bara uppfinning þín og skoðanabræðra þinna í þjóðernissinnaarmi Vintri-grænna?
Í athugasemdum þínum við ræðuna segir þú okkur jafnaðarmenn hafa “lagt grundvöll að valdatöku peninganna á Íslandi”. Þetta eigum við að hafa gert, vegna þess að við samþykktum framsal veiðiheimilda innan kvótakerfisins – með skilyrðum – árið 1990.
Þetta bráðum 30 ára stríð um kvótann hefur alla tíð snúist um eignarhald á auðlindinni. Staðreyndirnar um afstöðu okkar jafnaðarmanna til þess máls eru þessar: Það vorum við, sem knúðum það fram, að auðlindin var lýst þjóðareign að lögum. Þegar þáverandi sjávarútvegsráðherra, Halldór Ásgrímsson, að undirlagi LÍÚ, beitti sér fyrir því, að lögfesta framsal veiðiheimilda (í nafni hagkvæmni og arðsemi), settum við skilyrði fyrir stuðningi okkar við það. Skilyrðið var, að tímabundinn nýtingarréttur myndaði hvorki lögvarinn eignarrétt né bótaskyldu á ríkið – ef úthlutun veiðiheimilda yrði breytt síðar. Af hverju gerðum við þetta? Við vissum sem var, að við vorum þá í vonlausum minnihluta á Alþingi með þá stefnu okkar að heimta auðlindagjald fyrir nýtingarréttinn, hvort heldur væri með uppboði veiðiheimilda (myndun markaðsverðs), sem við töldum æskilegast, né heldur með stjórnvaldsákvörðun um auðlindagjald.
Ef við, jafnaðarmenn, hefðum ekki gert þetta hvort tveggja, lögfest þjóðareign á auðlindinni og lögfest það varúðarákvæði, að síðar mætti innkalla veiðiheimildir án bótaskyldu, væri þetta mál tapað fyrir löngu. Krafa okkar um auðlindagjald var sett í nefnd (“tvíhöfðanenfdin”). Út úr því kom, seint og um síðir, svokallað “þróunargjald”. Upphæðin var til málamynda, en staðfesti þó prinsipið. Þessi leikur var svo endurtekinn síðar í svokallaðri auðlindanefnd ykkar Nordals. Þú sast sjálfur í þeirri nefnd og hverju fékkstu áorkað í stríði við þinn eigin flokk? Auðlindagjald að nafninu til, sem er eins og krækiber í helvíti miðað við auðlindarentu upp á 45 milljarða, að mati Jóns Steinssonar, hagfræðings.
Þetta eru staðreyndir málsins. Við náðum að lögfesta þjóðareignina. Okkur hefur hins vegar ekki tekist að knýja fram gjaldtöku fyrir nýtingarréttinn, enn sem komið er (og spurning, hvort núverandi stjórnarflokkar ætli að standa við gefin fyrirheit í því efni eða ekki). Hverjir hafa staðið á móti gjaldtöku fyrir nýtingaréttinn? Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn. Auk þess sem Vinstri-græn, (eins og Aþýðubandalagið á undan þeim) löptu upp þann áróður útgerðarmanna, að auðlindagjald væri “skattur á landsbyggðina”. Framsal veiðiheimilda í einhverjum mæli og samkvæmt settum reglum er nauðsynlegt innan aflamarkskerfis, ef það á að skila lægri tilkostnaði og meiri arðsemi við veiðarnar. Kjarni málsins er sá, að þeir sem fá nýtingarréttinn, verði að borga fyrir hann sanngjarnt verð til eigandans – þjóðarinnar. Hagkvæmast og réttlátast væri að láta markaðinn mynda það verð, fremur en stjórnmálamenn, sem hafa margsýnt, að þeim er ekki treystandi til þess, vegna þess hve hallir þeir eru undir sérhagsmuni, flestir hverjir.
Þrátt fyrir þessar staðreyndir, leyfir þú þér að saka okkur jafnaðarmenn um að hafa lagt “grundvöll að valdatöku peninganna á Íslandi”. Hvílík ósvífni. Þú fullyrðir m.ö.o., að minnihlutinn, sem barðist fyrir auðlindagjaldi, beri ábyrgð á þeirri ákvörðun meirihlutans, að koma í veg fyrir það. Við, jafnaðarmenn eigum m.ö.o. að bera ábyrgð á stefnu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins í tólf ára ríkisstjórnarsamstarfi að koma í veg fyrir gjaldtöku af auðlindinni. Þar með erum við væntanlega líka gerðir ábyrgir fyrir þeirri framkvæmd kerfisins, undir stjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks að heimila de facto veðsetningu veiðiheimildanna og aðra meðhöndlun þeirra, eins og um hreina einkaeign væri að ræða.
Ég frábið mér að hlusta á svona áróðursbull. Síst af öllu er þér sæmandi að fara með svona fleipur. Þið Matthías eigið heiður skilinn sem ritstjórar Mbl. fyrir að hafa barist gegn gjafakvótakerfinu og fyrir gjaldtöku fyrir nýtingarréttinn. Í því máli áttum við samleið, jafnaðarmenn á þingi og ritstjórar Morgunblaðsins. Hver var okkar sameiginlegi andstæðingur? Fyrst og fremst Sjálfstæðisflokkurinn – og samstarfsflokkur hans, Framsóknarflokkurinn. Er það ykkar sök, að þið höfðuð lítil sem engin áhrif á forystu ykkar eigin flokks? Á að gera ykkur ábyrga fyrir þeirri stefnu Sjálfstæðisflokksins, sem þið sem ritstjórar, voruð andvígir? Það væri ekki einasta órökrétt, heldur í hæsta máta ósanngjarnt.
Það vita allir sem vilja vita, að LÍÚ, samtök útgerðarmanna, hafa ráðið því, sem þau hafa viljað ráða um stefnu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins í sjávarútvegsmálum, og framkvæmd hennar. Þeir stórútgerðarmenn, sem náð hafa að sölsa undir sig de facto eignarrétti á auðlindinni (í trássi við lög, að mínu mati) hafa gert það í skjóli þessara flokka. Þessir sömu útgerðarmenn hafa mokað peningum í þessa flokka fyrir kosningar. Þeir hafa beitt atvinnurekendavaldi sínu purkunarlaust í helstu byggðarlögum á landsbyggðinni – eins og t.d. í Vestmannaeyjum og á Akureyri – í þágu þessara flokka, og til að hræða starfsfólk sitt á sjó og landi frá því að styðja jafnaðarmenn. Það segir allt sem segja þarf um afstöðu þeirra. Þeir vita, hverja er helst að óttast, nefnilega þá, sem vilja fylgja fram þjóðareign á auðlindinni með gjaldtöku fyrir nýtingarréttinn.
Hverjum í hag? – spurðu Rómverjar forðum, þegar þeir vildu rekja slóð mála og komast til botns í því, hverjir hefðu hagsmuna að gæta af einhverju máli. Milljarðamæringarnir, sem hafa verið að braska með gjafakvótana sína á undanförnum árum, vita það sjálfir manna best, hverjum þeir eiga að þakka sinn skjótfengna auð. Þeir vita það manna best, hvaða stjórnmálamenn á að kaupa og hvaða stjórnmálaflokka á að styrkja til þess að tryggja, að forréttindin verði ekki af þeim tekin. Það segir allt, sem segja þarf um þetta mál. Er til of mikils mælst, í ljósi þessara staðreynda allra saman, að þú hættir þessum óhróðri um okkur jafnaðarmenn. Hann er þér ekki samboðinn.
Með bestu kveðjum,