Í BÁL OG BRAND Á NORÐURLANDARÁÐSÞINGI

Um daginn fékk ég netpóst frá Íslendingi í Svíþjóð, sem rifjaði upp hálfgelymda sögu af því, hvernig allt fó í uppnám á Norðurlandaráðsþingi í Þjóðleikhúsinu í Reykjavík snemma árs 1985. Bréfritarinn segist hafa séð af mér mynd á netinu, og þá hafi rifjast upp fyrir honum, að ég sé trúlega sami maðurinn og olli samgönguráðherra Svíþjóðar hugarangri, þegar hann sneri heim frá Norðurlandaráðsþinginu þetta ár. Bréfritann var nefnilega einkabílstjóri ráðherrans. En hvers vegna var ráðherrann í vondu skapi? Það er saga að segja frá því. Hér kemur hún. Um daginn fékk ég netpóst frá Íslendingi í Svíþjóð, sem rifjaði upp hálfgelymda sögu af því, hvernig allt fó í uppnám á Norðurlandaráðsþingi í Þjóðleikhúsinu í Reykjavík snemma árs 1985. Bréfritarinn segist hafa séð af mér mynd á netinu, og þá hafi rifjast upp fyrir honum, að ég sé trúlega sami maðurinn og olli samgönguráðherra Svíþjóðar hugarangri, þegar hann sneri heim frá Norðurlandaráðsþinginu þetta ár. Bréfritann var nefnilega einkabílstjóri ráðherrans. En hvers vegna var ráðherrann í vondu skapi? Það er saga að segja frá því. Hér kemur hún.

Heill og sæll, einkabílstjóri.
Satt segirðu. Það var haldið Norðurlandaráðsþing í Þjóðleikhúsinu í Reykjavík í ársbyrjun 1985. Ég var nýorðinn formaður Alþýðuflokksins. Þingmaður, já, en vissulega ekki ráðherra (enn). Og ég átti ekkert sæti á Norðurlandaráðsþingi. En það hlýtur að hafa verið lítið um að vera á þinginu – kannski bara leiðinlegt – því að einu fréttirnar, sem birtust á Norðurlöndum frá þessu þingi snerust um litla kjallaragrein, sem ég skrifaði í þáverandi DV: “Norðurlanda hvað?”

Finnsk stjórnmál lúta hræðslugæðum gagnvart Sovétinu; finnskir fjölmiðlar lúta ritskoðun; orðið “Finnlandisering” er komið inn í alþjóðamálið og merkir þöggun eða sjálfsritskoðun frammi fyrir hótun um ofbeldi.

Næsta mál: Svíar líta á sjálfa sig sem boðbera friðar. Nú er upplýst, að vopnaiðnaðurinn sænski (Bofors o.fl.) er fjórði stærsti útflytjandi morðvopna í heiminum; þeir seldu á laun vopn til beggja stríðsaðila í Íran – Írak stríðinu, (þar sem USA studdi Hussein og milljón manns týndu lífi). Olof Palme var svo tilnefndur sáttasemjari.

Þriðja mál: Í skjóli kalda stríðsins hefur Norðmönnum tekist (með stuðningi Vesturlanda) að leggja undir sig Svalbarða og Jan Mayen. Þetta er partur af útþenslustefnu Noregs í Norðurhöfum. Þeir gerðu tilkall til yfirráða á Grænlandi gegn öðru nýlenduveldi (Dönum), en töpuðu því fyrir alþjóðadómsstólnum í Haag á millistríðsárunum. Noregur á hvorki Svalbarða né Jan Mayen. Noregi var í friðarsamningnum eftir fyrra stríð falið forsvar fyrir milliríkjasamningi um Svalbarða, sem var skilgreindur “no man´s land”. Tugir ríkja eiga aðild að samningnum. Norðmenn eru þegjandi og hljóðalaust búnir að gera Svalbarða að norsku landi og búa til “fiskverndunarsvæði” – 200 mílur umhverfis eyjarnar, sem Norðmenn stýra. Þarna er að finna ógrynni af olíu og gasi. Þetta ætla Norðmenn að sölsa undir í sig í blóra við lög og rétt.

Og svo er það lille Danmark. Ég sagði ekkert í greininni um nýlenduveldið danska. En ég lýsti furðu minni á, að danskur forsætisráðherra, Anker Jörgensen, flutti tillögu á þessu Norðurlandaþingi um að gera Norðurlönd að “kjarnavopnalausu” svæði. Nú vissu allir, að Norðurlönd voru kjarnavopnalaus svæði. Hins vegar var vitað, að nokkrum tugum S-20 sovéskra, meðaldrægra, kjarnaoddaskeyta, var beint að Norðurlöndum. Ég lagði til, að við krefðumst þess, að ´þau yrðu fjarlægð. Þá sakaði Anker mig um að vera stríðsæsingamann.

Svona var þetta. Þetta er pínulítil dæmisaga um nýju fötin keisarans – sígild saga eftir sígildan danskan höfund, sem gjarnan klæddi superbókmenntir í form barnabóka.

Hvers vegna var svona leiðinlegt á Norðurlandaþinginu? Það er af því, að þau sem þarna voru, höfðu um ekkert að tala, eða að ´þau höfðu lagt á sig sjálfsritskoðun, sem bannaði þeim að horfast í augu við sjálf sig og umheiminn.

Þetta var árið 1985. Ég átti eftir að vera formaður Alþýðuflokksins í tólf ár. Eftir þetta skorti ekkert á um, að ég væri ekki þekktur á Norðurlöndum. Þeir vissu hver ég var.En það vafðist fyrir þeim að skilja, hvað það var sem ég stóð fyrir. Það kom seinna á daginn í framhaldi af sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða.

Sænski forsætisráðherrann baðst í seinustu viku afsökunar á heigulshætti Svía gagnvart sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða. Hann baðst afsökunar á, að Svíþjóð samþykkti athugasemdalaust hernám og innlimun Eystrasaltsþjóða inn í þjóðafangelsi Stalíns 1945. Hann baðst afsökunar á, að sænsk stjórnvöld sendu flóttafólkið – bátafólkið – frá Eystrasaltslöndum beint aftur í hendurnar á böðlum KGB. Þeir sem ekki voru drepnir á staðnum, fóru í gúlagið. Skammt frá Jurmala – fyrir utan Riga – er minnismerki um þá lettnesku föðurlandsvini, sem Svíar sendu ýmist í dauðann eða þrælabúðirnar.

Minnismerkið um Ísland er öðru vísi. Íslandstorg í Tallinn og Riga og Íslandsgata í nánd við þinghúsið í Vilníus, þar sem skrifað stendur á skilti: Til Íslands, sem þorði þegar aðrir þögðu.

Ég á enn í fórum mínum bréf, sem mér bárust frá Svíþjóð eftir þetta Norðurlandaþing. Það merkilega var, að þau voru öll frá útlögum frá Eystrasaltsþjóðum, sem Svíum hafði láðst að endursenda. Þar segir t.d.: “Orð þín á Norðurlandaráðsþinginu eru eins og ferskur gustur frá Norður-Atlantshafinu inn í lognmollu þöggunarinnar hér við Eystrasalt. Loksins heyrum við norrænan stjórnmálamann, sem segir sannleikann umbúðalaust”.

Þetta varð mér vegarnesti, þegar kom að endatafli kalda stríðsins 1987-91: þegar stuðningur okkar við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða hratt af stað keðjuverkun, sem leiddi til upplausnar Sovétríkjanna. Svona leynast þræðir í samhengi sögunnar.

Ef þú heyrir frá samskiptaráðherranum þínum forðum daga, skilaðu þá kveðju frá dyggum aðdáanda sænska velferðarríkisins – mér.
Með bestu kveðjum,
Jón Baldvin