Minning um Gunnar Dal

Athugasemd: Í gamla daga var Mogginn kallaður danski Mogginn. Á seinni árum hafa óvandaðair menn stundum uppnefnt hann “Dödens Avis”. Það er auðvitað út af minningargreinunum. Og nú verð ég að gera þá játningu, eis og margir aðrir, sem hafa sagt upp Mogganum, að við söknum auðvitað minningargreinanna með morgunkaffinu. En það er ekki nóg með það, að við fáum ekki að lesa minningargreinarnar. Nú er svo komið, að þær fást ekki lengur birtar. Alla vega þá ekki fyrr en eftir dúk og disk. Einn helsti vitmaður þessarar þjóðar kvaddi jarðlífið í fyrri viku: Gunnar Dal, skáld og heimspekingur. Um leið og ég spurði þau tíðindi, settist ég niður og skrifaði um hann minningargrein og sendi í Dödens Avis. Jarðarförin fór fram s.l. mánudag, en greinin er óbirt enn. Þess vegna birtist hún hér, vinum og aðdáendum Gunnars til hughreystingar.

Ætli Gunnar Dal hafi ekki verið hvort tveggja, einhver mest lesni höfundur þjóðarinnar um sína daga og vanmetnasta ljóðskáldið í senn? Af samneyti við unglinga í Menntaskólanum á Ísafirði forðum daga lærði ég, að þeir sóttu sér hjálpræði í ljóðræna lífsspeki Kahlils Gibran í þýðingu Gunnars, þótt mannvitið í ljóðum og sögum hans sjálfs væri þeim sem lokuð bók.

Um miðjan 9nda áratuginn fór ég í hundrað-funda-ferðalag um Íslands þorpagrundir til að boða vantrúuðum mörlandanum fagnaðarerindi jafnaðarstefnunnar (við misjafnar undirtektir). Á þessu flandri gisti ég á mörgum alþýðu(flokks)heimilum. Sem ég kíkti í bókaskápa, sá ég að Spámaðurinn var víðast hvar á sínum stað og heimspekirit Gunnars ótrúlega víða. Gunnar Dal var sumsé heimspekingur, sem náði tali af alþýðu manna, þótt hún skildi ekki skáldið – nema í þýðingu.

Einhvern tíma, þegar ég hitti Gunnar á förnum vegi, sagði ég honum af þessum athugunum mínum á andlegu samneyti hans við alþýðuna. Ég er ekki frá því, að það hafi snortið hann djúpt, þótt hann segði fátt. Upp frá því urðum við vinir, þótt í fjarsambandi væri, lengst af. En þá sjaldan fundum okkar bar saman, voru það ævinlega fagnaðarfundir.

Mikil lifandis ósköp sem þessi maður gat verið (h)rífandi skemmtilegur. Hafsjór af fróðleik, sagnabrunnur, skarpskyggn á menn og málefni, háðskur á heimsku og hégómadýrð þeirra, sem hæst hreykja sér – og hnyttinn í tilsvörum, svo af bar. Það var andleg upplifun að vera í návist mannsins. Hin sókratíska broddfluga flaug víða og ögraði mörgu andans tötrinu.

Svo sem við var að búast, var Gunnar veitandinn, en ég þiggjandinn í okkar samskiptum, hvort heldur þau snerust um sköpun heimsins, trúarbrögð Hindúa eða nýjustu tíðindi af rannsóknum vísindamanna á erfðamenginu. Aðeins einu sinni varð okkur heiftarlega sundurorða. Það tengdist ólíkri upplifun okkar af hinum spænska harmleik. Nánar tiltekið var það út af spænska borgarastríðinu.

Ég fyrirlít úrþvættið Franco af innsta hjarta og allt hans hyski. Gunnar leit hins vegar á böðulinn sem verndara trúarinnar gegn ógnarstjórn kommúnista – og að þar með fyrirgæfist honum margt ódæðið. Til að koma aftur á friði sættumst við á að taka báða af dagskrá – Guð og Franco. Allt annað milli himins og jarðar var hins vegar áfram til umræðu til hinsta dags.

Gunnar Dal sóaði ekki kröftum sínum á smámuni og fór ekki troðnar slóðir í lífshlaupi sínu. Hann kom miklu í verk og reyndist mörgum hrókur andlegs fagnaðar. Við Bryndís minnumst hans með virðingu og þakklæti og vottum aðstandendum hans samhygð okkar.