Rök Stefáns Jóns eru þau, að í stjórnartíð Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde hafi ríkisbáknið þanist út, ríkisstofnunum og ríkisstarfsmönnum hafi fjölgað, skattar sem hlutfall af VLF hafi hækkað (að vísu bara á hina efnaminni), og í stað aukinnar samkeppni hafi einokun eða fákeppni fest sig í sessi.
Allt sé þetta í blóra við kenningar nýfrjálshyggjunnar um að draga eigi úr ríkisumsvifum og að leita eigi markaðslausna á sem flestum sviðum. Skv. kenningunni eigi því að lækka skatta, einkavæða, aflétta reglugerðafári og draga úr eftirliti ríkisins með efnahagsstarfseminni. Þar að auki hafi Davíð, Geir & co. láðst að einkavæða skólana og heilbrigðiskerfið. Þar með rísi þeir varla undir nafni sem lærisveinar Hayeks, Freedmans eða annarra trúboða nýfrjálshyggjunnar.
Með þessum sömu rökum verður Stefán Jón að svifta æðstu presta nýfrjálshyggjunnar kjóli og kalli, þ.á.m. bæði Reagan og Bush jr., svo ekki sé minnst á minni spámenn, eins og fjöldamorðingjana í Chile, Argentínu og víðar, þar sem þjóðfélagstilraunir af þessu tagi hafa verið reyndar.
En nýfrjálshyggja er ekki um ráðdeild í ríkisrekstri. Hún er um að einkavæða auðlindir þjóða og almannagæði, lækka skatta á fyrirtæki ogauðkýfinga og að girða fyrir afskipti ríkisins af efnahagslífi og fjármálamörkuðum. Reagan boðaði endalok „big government“ og lækkun skatta. Hann lækkaði skatta á hina ríku en stórjók ríkisútgjöld og þrefaldaði skuldir ríkisins. Bush jr. bætti um betur: Hann lækkaði enn skatta á hina ofurríku (1% þjóðarinnar), afnam erfðafjárskatt, þandi út ríkisbáknið (Homeland Security), meira en nokkur forseti fyrr eða síðar í sögu Bandaríkjanna, háði tvær styrjaldir út á krít og sjöfaldaði skuldir ríkisins miðað við viðskilnað Reagans. Sameiginlega skildu þessir nýfrjálshyggjupostular eftir sig fjórtán trilljón dollara skuld handa Obama að kljást við.
Þannig endaði amríska frjálshyggjutilraunin, rétt eins og sú íslenska, með landsmetum í útþenslu ríkisbáknsins og skuldasöfnun – og heimshagkerfi sem er að hruni komið. Heita má, að allur fjármálageiri „ríku“ þjóðanna sé kominn upp á náð og miskunn ríkisins. Þetta er að vísu þjóðnýting inn um bakdyrnar. Það er verið að þjóðnýta skuldirnar, efir að búið er að stinga ofsagróða góðærisins að stórum hluta undan skatti. Allt hljómar þetta býsna kunnuglega fyrir Íslendinga.
Á þeim 30 árum sem nýfrjálshyggjan hefur tröllriðið heiminum, hefur fjármálageirinn vaxið í að vera a.m.k. 10 sinnum stærri en samanlögð raunframleiðsla heimsins. Þetta er svipaður vöxtur og á íslenska bankakerfinu á sex árum fram að hruni. Þessi ofvöxtur hefur ekki síst nærst á einkavæðingu auðlinda og almannagæða um allan heim. Skattfríðindi hinna ofurríku og skattsvik í stórum stíl skýra að hluta að hækkandi skattar á almenning fara í vaxandi mæli í að greiða afborganir og vexti af skuldum ríkja við fjármagnseigendur – hina ofurríku. Að lokum gera fjármagnseigendur aðallega út á ríkissjóði.
„Starve the beast“ – sveltum skrímslið – var vígorð hins illskeytta öfgahægrimanns, Cheneys varaforseta, sem var eins konar Rasputin í hinu hvíta húsi Bush áranna. Skrímslið í hans huga var ríkið. Herstjórnarlistin er í því fólgin, að með því að þenja út ríkisútgjöld en neita að hækka skatta í stjórnartíð sinni, muni repúblikanar neyða demókrata til að taka á sig óvinsældirnar af því að hækka skatta og skera niður þjónustu við unga, aldna og sjúka. Þar með verði þeir skammlífir á valdastóli. Ætli Steingrímur J. Sigfússon kannist ekki við þetta, að fenginni reynslu?
Hvernig kemur þá nýfrjálshyggjutilraunin með Ísland út í alþjóðlegum samanburði? Þeir einkavæddu sjávarauðlindina í trássi við lögin (það er ámóta afrek og, ef Norðmenn hefðu afhent fáeinum auðkýfingum olíu- og gasgróðann). Þeir höfðu á stefnuskránni að gera Ísland að „alþjóðlegri fjármálamiðstöð“ (les: skattsvikaútnára), settu heimsmet í ofvexti bankakerfisins (10-földun á sex árum, sem tók 30 ár á heimsvísu) og skildu eftir sig þvílíkar skuldaklifjar á almenning, að Bush jr. lítur út næstum því eins og ráðdeildarsamur forstandsmaður í samanburði. Þetta er ekki lítill árangur á skömmum tíma. Þeir reyndu að einkavæða orkuna og hugsa gott til glóðarinnar með vatnið. En þeir féllu á tíma. Þeir voru að vísu búnir að ræna Orkuveitu Reykjavíkur innan frá, eins og bankana, en voru of seinir með Landsvirkjun.
Hvað með það, þótt þeir hafi fjölgað „gæðingum á ríkisjötunni“? Eimreiðardrengirnir – sem yfirtóku Sjálfstæðisflokkinn í nafni nýfrjálshyggjunnar – eru jú allir með tölu ríkisstarfsmenn. Satt er það, að þeir náðu ekki að einkavæða skóla og sjúkrahús. Það var bara ekki efst á forgangslistanum, enda tæplega nógu mikið upp úr því að hafa, í samanburði við forgangsgóssið. Það bíður því bara betri tíma. Er þetta vinstralið ekki bráðum búið að vinna sér til óhelgi með öllum þessum niðurskurði og skattahækkunum? Bíðið þið bara.