Jóhann Hauksson hefur á undanförnum árum reynt að halda uppi heiðri íslenskrar blaðamennsku með fréttaskýringum, þar sem leitast er við að kafa undir yfirborðið og afhjúpa leynda þræði valdsins, „kunningjaveldi og aðstöðubrask“, eins og það er látið heita í undirtitli bókarinnar. Fyrir viðleitni til rannsóknarblaðamennsku af þessu tagi hlaut Jóhann blaðamannaverðlaunin árið 2010. Eftir að Jóhann losnaði undan daglegum kvöðum á DV fékk hann ráðrúm til að rannsaka rætur hrunsins lengra aftur í tímann og af hærri sjónarhól en færi er á af jafnsléttu og við daglegt áreiti blaðamannsins. Þessi bók, „ÞRÆÐIR VALDSINS“, eru afrakstur þessarar iðju. Ef ég ætti að lýsa söguþræði bókarinnar í fáum orðum, hljóðar það svo: Ágrip af sögu spillingarinnar – bók handa byrjendum……
Þótt stjórnarskrárnefnan okkar sé dönsk (og skrifuð á dulmáli fyrir alþýðu manna) kveður hún engu að síður skýrt að orði um grundvallarreglur okkar stjórnskipunar: Jafnræði frammi fyrir lögunum og atvinnufrelsi. Frá þessum grundvallarreglum má því aðeins víkja (tímabundið), að brýnir almannahagsmunir krefjist. M.ö.o. neyðarástand. Svartar skýrslur á 8unda áratugnum um yfirvofandi hrun nytjastofna, var neyðarástandið sem réttlætti kvótakerfið í upphafi. Ríkið tók sér vald til að binda endi á frjálsa sókn á miðin, sem staðið hafði í þúsund ár, og ákvað þess í stað að úthluta veiðiheimildum til sumra – sem jafngilti að synja öðrum. Þetta þýddi, að framvegis gat enginn sótt á Íslandsmið nema með einkaleyfi ríkisins. Þar með var samkeppni aflétt. Einkaleyfið varð á svipstundu gríðarlegt fémæti – úthlutað ókeypis. Og það sem meira var: Grundvallarreglunum um jafnræði fyrir lögum og atvinnufrelsi var vikið frá – væntanlega í bili – vegna meints neyðarástands. Hæstiréttur, sem á að standa vörð um stjórnaskrána, hefur enn ekki rumskað.
20 ára neyðarástand
Þetta neyðarástand hefur nú staðið í 20 ár. Alþýðuflokkurinn knúði fram lagaákvæðið um sameign þjóðarinnar. Þegar framsalið var samþykkt 1990, bættu Alþýðuflokksmenn við varúðarákvæði um, að þiggjendur veiðiheimilda fengju aðeins tímabundinn nýtingarrétt, en aldrei lögvarinn eignarrétt; og að afturköllun veiðiheimilda síðar myndaði aldrei bótakröfu á ríkissjóð. Ef Alþýðuflokkurinn hefði ekki rekið niður þessa hæla í málsvörn sinni um gjaldtöku fyrir veiðiréttinn, væri andófið gegn einkavæðingu fiskimiðanna fyrir löngu tapað. En vegna þessara fyrirvara og varúðarákvæða, lifir vonin um að réttlætið muni ná fram að ganga – en á veiku skari. Þar með hófst baráttan fyrir auðlindagjaldi, nefnilega að þjóðin fengi greitt fyrir nýtingarréttinn af auðlind sinni, sem framvegis var bundinn einkaleyfi . Þar með fengu handhafar veiðiheimildanna í sinn hlut svonefnda „auðlindarentu“, sem Jón Steinsson hagfræðingur telur, að hafi numið fyrir árið 2010 um 45 milljörðum króna.
Það voru eiginlega bara tveir aðilar í þjóðfélaginu, sem börðust gegn gjafakvótakerfinu og kröfðust þess, að þjóðin fengi arð af úthlutun einkaleyfa til nýtingar á auðlindinni: þáverandi ritstjórar Morgunblaðsins og þingflokkur Alþýðuflokksins. Og fáeinir trillukallar. En allt kom fyrir ekki. Sjávarútvegsráðherrar Sjálfstæðisflokksins (1991-2009) hafa ráðið framkvæmd fiskveiðistjórnunarinnar í tæplega 20 ár. Allan þennan tíma hafa þeir úthlutað þessum miklu fémætum fyrir ekki neitt – nánar tiltekið fyrir skít á priki, sem nefnist auðlinda- eða veiðileyfagjald, og er bara til málamynda. Í trássi við lögin hafa þeir leyft veðsetningu á óveiddum fiski í sjó.
Þar með hófst kapphlaup um að veðsetja það, sem handhafar veiðiheimildanna sannarlega ekki áttu, fyrir lánum til að kaupa kvóta, sem síðan gengu kaupum og sölum. Þeir eru meira að segja farnir að ganga í erfðir og koma jafnvel til skipta við hjúskaparslit. Skv. stjórnarskránni er eignarrétturinn friðhelgur. Það er nýmæli í sögu réttarríkisins, að menn megi eignfæra og veðsetja annarra manna eigur, arfleiða þær og braska með þær við búskipti. Það er svo aukaafleiðing af þessu svínaríi, að sjávarútveginum var sökkt í skuldir, um leið og fjárflóttinn úr greininni varð óstöðvandi. Skuldirnar eru nægilega miklar til þess, að sægreifarnir – hin nýja forréttindastétt – greiða nánast enga skatta. Þeir eru í „vinnukonuútsvörunum“, eins og það hét í gamla daga. Þarna urðu til fyrstu milljarðarmæringar bóluhagkerfisins – ekki út á eigin verðleika – heldur í skjóli hins pólitíska úthlutunarvalds. Rétt eins og í Rússlandi Jeltsíns og Pútins.
Þetta er sjúskuð stjórnsýsla, sem látin er líðast, þrátt fyrir að vera gróft brot á grundvallarreglum stjórnskipunarinnar, lögum um stjórn fiskveiða, og mannréttindasáttmála Sameinuðu þóðanna, sem Ísland er skuldbundið að hlíta. Allt er þetta fótum troðið í auðsveipni við auðræðið. Það var þarna sem „valdataka peninganna“ byrjaði á Íslandi, að sögn Styrmis Gunnarssonar, fv. ritstjóra Morgunblaðsins. Þetta er botnlaus, pólitísk spilling í boði Sjálfstæðis-framsóknarflokksins.
Það verður hinn endanlegi prófsteinn á trúnað fyrstu vinstristjórnar lýðveldisins við hagsmuni almennings, hvort hún endurheimtir helstu auðlind þjóðarinnar úr höndum þeirra, sem rændu henni – eða hvort hún gefst endanlega upp fyrir ofurvaldi sérhagsmunanna. Það væri þá ekki í fyrsta sinn, sem frumburðarréttur fólksins er seldur fyrir baunadisk. Þrátt fyrir gefin loforð í stjórnarsáttmála fara væntingar almennings um efndir dvínandi. Sennilega er seinasta vonin um að hnekkja þessari valdníðslu í því fólgin, að almenningur geti með nýrri stjórnarskrá krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Það er reyndar annað mál, sem verður prófsteinn á heilindi og dug vinstristjórnarinnar, nefnilega hvort og hvernig hún afgreiðir tillögur stjórnlagaráðsins um lýðræðislegar umbætur handa Nýja Íslandi.
Peningaaðallinn
Næsti kafli þessarar dapurlegu sögu um „valdatöku peninganna“ á Íslandi, gerist á árunum 1999-2003, þegar auðklíkur, venslaðar forystu Sjálfstæðis-framsóknarflokksins fá ríkisbankana afhenta á silfurfati, í blóra við allar viðteknar stjórnsýslureglur. Sá kafli endar fimm árum síðar í allsherjar banka- og gjaldmiðilshruni. Eftir situr þjóðin með veðsettan ríkissjóð, sveitarfélög á vonarvöl, gjaldþrota heimili, fyrirtæki í gjörgæslu, fjölda manns atvinnulausan og viðvarandi landflótta. Eftir situr þjóð í sárum, niðurbrotin , ærumeidd og vonsvikin.
Þriðji kaflinn í þessari reyfarasögu er um tilraun peningaaðalsins til að ræna þjóðina líka orkuauðlindum sínum. Það byrjaði með ákvörðun þáverandi stjórnarflokka um að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja, rétt fyrir kosningar 2007. Áður hafði Sjálfstæðisflokkurinn beitt sér fyrir því að stofna útrásarfyrirtækið Hydro-Kraft Invest í samstarfi Landsvirkjunar og Landsbanka. Loks hafði stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur (Guðlaugur Þór Þórðarson, þm. Sjálfstæðisfokksins) forgöngu um stofnun útrásarfyrirtækisins REI (Reykjavík Energy Invest). Þannig sóttu þessir hugsjónamenn fram á tvennum vígstöðum. Geir Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, innsiglaði þessar fyrirætlanir í landsfundarræðu (apríl 2007), þar sem hann sagði, „að stefna bæri að einkavæðingu Landsvirkjunar og orkufyrirtækja“. Feluleiknum var lokið.
Þarna sameinuðust að lokum helstu frumkvöðlar hins Nýja Íslands nýfrjálshyggjunnar: Hannes Smárason, „asset-strippari“ (sérfræðingur í að ræna fyrirtæki innan frá); Bjarni Ármannsson, bankaræninginn með barnsandlitið; Jón Ásgeir, svartstakkur Rosabaugs; „gamli-góði Villi“, borgarstjóri Sjálfstæðisflokksins (sem sagðist að vísu eftir á ekki hafa vitað neitt í sinn haus um, hvað væri á seyði); Guðlaugur Þór, sem kallaður hefur verið hinn pólitíski handrukkari Sjálfstæðisflokksins, og loks vonarstjarnan í þrotabúi gamla SÍS, Björn Ingi Hrafnsson. Allir voru þeir með dollaramerkin í augunum og adrenalínið á fullu í hitasóttarkenndri gróðafíkn. Hvílíkt mannval í framvarðarsveit framsækinna stjórnmála- og athafnamanna!
Ekkert að fela?
Það er sérstakt rannsóknarefni, hvernig Framsóknarflokkurinn glataði sínu samfélagshlutverki eftir fall SÍS (upp úr 1990) og breyttist í eignarhaldsfélög flokksgæðinga, sem lögðust bókstaflega á náinn og sölsuðu það sem fémætt var eftir undir flokksbrodda, prívat og persónulega. Tugir milljarða í eigin fé Samvinnutrygginga varð að engu í höndum þessara manna. En nokkrir flokksbroddar með Finn Ingólfsson, fv. þm., ráðherra, Seðlabankastjóra og nánasta samstarfsmann Halldórs Ásgrímssonar, högnuðust drjúgum af því að braska með seinustu reitur Samvinnuhreyfingarinnar, sem skildar höfðu verið eftir „án hirðis“ á berangri (sjá bls. 58).
Spillingarfélag Sjálfstæðismanna á Suðurnesjum verðskuldar einnig sérstaka rannsókn. Undir forystu hins blíðmálga bæjarstjóra Reykjanesbæjar, Árna Sigfússonar, hafa þeir komið fjárhag Reykjanesbæjar á kaldan klaka. Innherjaviðskipti og hagsmunaárekstrar virðast vera óþekkt hugtök þarna suður frá, því að það telst til reglu fremur en undantekninga, að þeir sitji beggja megin borðs, þar sem miklir fjárhagslegir hagsmunir almennings eru í húfi. Ýmsir þessara manna gegndu lykilhlutverkum í tilrauninni, sem gerð var til að ræna Hitaveitu Suðurnesja innan frá, en aðrir létu greipar sópa um Sparisjóð Keflavíkur. Þeir eiga það almennt sameiginlegt að skilja eftir sig sviðna jörð, hvar sem þeir koma nærri. Þessari ribbaldasögu gerir Jóhann dágóð skil í bók sinni (sjá bls. 144-157).
Jóhann beinir kastljósi að þessu samkrulli braskara og pólitíkusa, sem runnu á peningalyktina við einkavæðingu orkulindanna, og spyr sjálfan sig og lesandann (bls. 16 – 30): Var það tilviljun, að FL-Group og Landsbankinn færðu Sjálfstæðisflokknum 60 milljónir til atkvæðakaupa skömmu áður en lög gengu í gildi, í ársbyrjun 2007, sem bönnuðu framlög umfram 300 þús.? Var það tilviljun, að 5.5 milljónir runnu í persónulega kosningasjóði Guðlaugs Þórs frá FL-Group, Baugi og Landsbankanum á árunum 2005 til 2007? Fannst hákörlunum Guðlaugur Þór bara svona sætur? Og nota bene: Það stóð aldrei á Baugsfeðgum að borga sinn ómælda skerf í Sjálfstæðisflokkinn – þrátt fyrir fýluköstin í Davíð og Birni í þeirra garð. Bónuspabbi, Jóhannes, birti m.a.s. heilsíðuauglýsingar í blöðum fyrir þingkosningarnar 2007, þar sem hann skoraði á kjósendur að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, en strika bara út Björn Bjarnason, af því að hann væri svo leiðinlegur.
Áður en nýju lögin um skorður við fjáraustri fjárplógsmanna til stjórnmálaflokka gengu í gildi 2007, notaði Geir Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, tækifærið á fréttamannafundi til að þakka Kjartani Gunnarssyni – sem þá hafði annast fjáröflun fyrir Flokkinn í aldarfjórðung – fyrir að hafa náð samstöðu innan fjórflokksins um að koma flokkunum á ríkisframfæri (og að sætta sig þar með við þak á framlög fyrirtækjanna). Og Geir bætti við hróðugur: „Við höfum ekki neitt að fela … og höfum aldrei haft“ (bls.15). – Hraustlega mælt af manni, sem þá þegar var með 60 milljónir í rassvasanum frá fyrirtækjum, sem vildu fá að framkvæma yfirlýsta stefnu Sjálfstæðisflokksins um að einkavæða orkuauðlindirnar líka.
Þræðir spillingarinnar óslitnir
Er þetta eitthvað nýtt? Eða hefur Ísland alltaf verið svona spillt? Spillingin, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, er svo sannarlega ekki einhver gorkúla, sem spratt allt í einu upp á haug nýfrjálshyggjunnar á fyrsta áratug þessarar aldar. Hins vegar má til sanns vegar færa, að birtingarform spillingarinnar hafi tekið stökkbreytingu – eins og skuldir landsmanna við gengishrunið – eftir að þjóðin var rænd sjávarauðlindinni og við einkavæðingu bankanna. Við það breyttust þeir í áhættusjúka vogunarsjóði – utan og ofan við lög og reglur eða eftirlit. Þar með keyrði um þverbak. Stjórnmálin voru einfaldlega tekin í gíslingu hins nýja peningaaðals. Hinir pólitísku valdhafar, sem áður nýttu almannafé til að kaupa sér pólítíska hollustu, urðu nú mútuþegar – málaliðar í þjónustu peningaaðalsins. Það er í þessu, sem stökkbreytingin er fólgin.
Hvar lágu þræðir spillingarinnar um pólískt æðakerfi lýðveldisins hér áður fyrr? Þrjú orð duga til að lýsa kjarna málsins: Ríkisforsjá – pólitískt fyrirgreiðslukerfi. Það sem máli skipti til að ná árangri var ekki góður rekstur – heldur góð sambönd. Verðmyndun var ekki frjáls, heldur undir verðlagseftirliti ríkisins. Fiskverð var ákveðið af pólitískt skipaðri nefnd og búvöruverð sömuleiðis. Inn- og útflutningur var háður leyfum stjórnvalda. Vöruflutningar til og frá landinu, tryggingar, vörudreifing innan lands, smásöluverslun, bensínsala, allt þetta og að ógleymdu „hermanginu“ – framkvæmdir og þjónusta við bandaríska herinn á Miðnesheiði – öllu var þessu samviskusamlega skipt til helminga milli fyrirtækja á áhrifasvæði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks (SÍS). Svona er hún ættuð þessi fræga helmingaskiptaregla. Það orð fór af Íslendingum meðal yfirstjórnar hersins í Norfolk, Virginíu, að þeir væru „ágengir í aðdráttum“ (les þjófóttir) og dýrir á fóðrum.
Fyrirtæki jafnt sem heimili á landinu áttu öll sín ráð undir náð þessa pólitíska fyrirgreiðslukerfis. Gjaldeyrishöft voru lengst af ríkjandi, skilaskylda á gjaldeyri til yfirvalda og skömmtun á gjaldeyri til neytenda, (við erum reyndar að endurnýja kynnin af skömmtunarkerfinu aftur eftir HRUN). Bankarnir voru í ríkiseign, og bankastjórarnir voru umboðsmenn flokkanna. Þeir veittu lán í staðinn fyrir pólitíska hollustu. Lánin voru reyndar að hluta til gjöf eða styrkur, því að verðbólgan sá um að eyða þeim með undraskjótum hætti.
En aðalatriðið var, að pólitíkusar á valdastóli höfðu ráð alls almennings í hendi sér: Ef þú þurftir út- eða innflutningsleyfi, lóð eða byggingarleyfi, lán í banka, starf hjá ríki, bæ eða fyrirtæki, pláss á elliheimili fyrir ömmu eða félagslega íbúð fyrir fatlaðan frænda – þá var eins gott að hafa allt sitt á hreinu gagnvart kerfinu: Flokksskírteinið var aðgöngumiðinn að gæðunum. Þetta var sovétkerfi Sjáflstæðisflokksins.
Þetta var hið gamla þjóðfélag kunningja- og klíkuveldisins, aðstöðubrasksins. Helmingaskiptareglan var hin óskráða grundvallarregla stjórnsýslunnar. Og kjósendur lærðu smám saman að laga sig að ríkjandi fyrirkomulagi. Á þessum 67 árum, sem lýðveldið hefur verið við lýði, hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið við völd í 53 ár, en Framsókn í 43 ár. Styrmir Gunnarsson upplýsti nýlega í Silfri Egils, að ca. 45 þúsund manns séu á skrá hjá Sjálfstæðisflokknum. Framsókn er auðvitað ekki svipur hjá sjón eftir fall SÍS, en meðan veldi SÍS stóð í blóma, reyndist atkvæðamagn Framsóknar löngum álíka mikið og fjöldinn á launaskrá hjá SÍS og kaupfélögunum, plús styrkþegar landbúnaðarkerfisins.
Hlutverkaskipti: Peningarnir taka völdi af pólitíkinni
Lengi vel gerði ég mér vonir um, að aðild Íslands að innri markaði Evrópusambandsins og samkeppnisreglur þess, myndu auðvelda Íslendingum að laga sig að siðaðra manna háttum í viðskiptum og stjórnsýslu, þannig að klíkuveldið kæmist síður upp með að mismuna borgurunum í krafti geðþótta og valdníðslu af því tagi, sem hér hefur verið lýst og var lenskan í íslensku stjórnarfari. En aðferðir gömlu helmingaskiptaflokkanna við einkavæðingu sjávarauðlindarinnar og bankanna þýddi, að sköpum var skipt varðandi valdahlutföll stjórnmála og peningaaðals. Með því að afhenda auðklíkunum yfirráð yfir auðlindum og almannagæðum, fengu auðklíkurnar svo mikil pólitísk völd og áhrif, að stjórnmálaflokkarnir urðu háðir þeim. Það er þetta sem auðræði (e. plutocracy) nýfrjálshyggjunnar snýst um. Það sem áður átti að heita norrænt velferðarríki var orðið að ójafnaðarþjóðfélagi – eins konar skrípamynd af spilavítis- kapítalisma í amrískum stíl. Stefán Jón Hafstein lýsir því vel í TMM-grein sinni (3, 2011), hvernig þetta gerðist:
„Enn eigum við Styrmi Gunnarssyni skuld að gjalda með kafla hans um sægreifaveldið í þeirri annars slæmu bók: Umsátrið. Sá kafli er afhjúpandi í stuttu máli og lýsir því vel, hvernig pólitíska valdið færir úthlutun auðæfa á fárra hendur og verður svo sjálft háð þeim, sem véla með þau. Með efnahagslegu valdi sægreifanna langt umfram annað fólk í landinu, í skjóli einkaréttar til að nýta auðlindina, öðlast þeir pólitísk völd og herða enn frekar þennan hnút sníkjulífs milli úthlutunar og hollustu. Skrattinn hittir að lokum ömmu sína: þiggjandinn verður veitandanum sterkari“.
Í upphafi þessarar samantektar í tilefni af bók Jóhanns Haukssonar um spillinguna, var vitnað í einkunnarorðum í fræg ummæli Styrmis Gunnarssonar, fv. ritstjóra Morgunblaðsins. Hann er ekkert að skafa utan af því. Hann lýsir því þjóðfélagi, sem hér hefur vaxið upp undir pólitísku forræði Sjálfstæðisflokksins, sem hreint og klárt ógeðslegu. Í meira en hálfa öld hefur Styrmir verið málsvari Sjálfstæðisflokksins og um langt skeið í innsta kjarna valdakerfisins sjálfs. Það er því ástæðulaust að rengja hann, þegar hann segist vita, um hvað hann er að tala. En ritstjórinn gamli skuldar okkur ennþá bókina, þar sem hann rekur þessa sögu. Saga lýðveldisins er nefnilega að stórum hluta saga Sjálfstæðisflokksins. Og sú saga er einmitt rauði þráðurinn í sögu spillingarinnar á lýðveldistímanum. Ef Styrmi kynni að vanta „research assistant“ til að létta undir með sér, leyfi ég mér að mæla með Jóhanni Haukssyni. Sem rannsóknarblaðamaður hefur hann þegar aflað sér þekkingar – og ekki skortir hann áhuga á – að afhjúpa það, hvernig kunningjaveldi og aðstöðubrask stjórnmálaforingja og peningaaðals varðaði veginn að hruni Íslands.
Framtíð Nýja Íslands ræðst af því, hvort nýjar kynslóðir Íslendinga geta lært eitthvað af óförum þeirrar, sem stýrði okkur í HRUNIÐ. Til þess eru vítin að varast þau.