Um pólitíska áhættustýringu

Það vill vefjast fyrir mörgum að eygja eitthvert „system“ í galskap íslenskra stjórnmála fyrir komandi kosningar. Kannski hæfileg fjarlægð frá vettvangi hjálpi til við rólega yfirvegun.

Mönnum má ekki yfirsjást, að það grillir í bjartar hliðar mitt í formyrkvun upplausnarinnar. Það er tvímælalaust jákvætt til lengri tíma litið, ef Sjálfstæðisflokkurinn fær nú makleg málagjöld fyrir að hafa brugðist hrapallega trausti kjósenda sinna í heil þrjú kjörtímabil fyrir hrun. Og fyrir að hafa skort manndóm til að gera upp við þessa snautlegu fortíð. Það er líkt á komið með flokknum og Morgunblaðinu, sem löngum var lífakkeri flokksins, að hvort tveggja, blað og flokkur, eru nú orðið gerð út af LÍÚ til að verja sérhagsmuni kvótaeigenda fyrir réttlætiskröfum kjósenda.

Í aðdraganda hrunsins sýndi forysta Sjálfstæðisflokksins, að henni var ekki treystandi fyrir fjármunum; hún kunni ekki til verka við hagstjórn; hún setti Íslandsmet í útþenslu ríkisbáknsins; hún kunni ekkert á stjórn peningamála, en lét gíruga og fákunnandi fjárglæframenn taka öll völd í efnahagsmálum – eins og Styrmir Gunnarsson hefur verið óþreytandi að benda á.

Hvað hefur Sjálfstæðisflokkurinn fram að færa til að leysa aðsteðjandi vandamál á næsta kjörtímabili? Við þurfum traustan gjaldmiðil og lægri vexti fyrir bæði fyrirtæki og heimili.

Sjálfstæðisflokkurinn skilar auðu þar.

Við þurfum að festa í sessi auðlindagjöld fyrir nýtingu auðlinda.

Sjálftæðisflokkurinn er á móti því og segir það verða sitt fyrsta verk að afnema auðlindagjöld. Það er ávísun á hærri skatta, þvert á allt þeirra skattaskrum.
Við þurfum að virkja markaðsöflin til að taka ákvarðanir um auðlindagjöld úr höndum stjórnmálamanna.

Sjálfstæðisflokkurinn er á móti því.

Við þurfum að lögfesta róttækar stjórnarskrárbreytingar til að ráða bót á veikleikum í stofnunum og stjórnarfari lýðveldisins, sem hrunið afhjúpaði.

Lögfræðiklíkan í Sjálfstæðisflokknum er á móti því.

Í millibilsástandinu, áður en við tökum upp nýjan gjaldmiðil, þurfum við að sníða augljósa vankanta af framkvæmd verðtryggingar, áður en hún verður afnumin með nýjum gjaldmiðli. Við þurfum að skakka leikinn í viðskiptum fjármagnseigenda (lánveitenda) og lántaka (fyrirtækja og heimila) og fyrirbyggja, að öll áhætta af ytri áföllum lendi bara á lántökum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert fram að færa í þessu máli. Þarna ætti Samfylkingin að fara að ráðum Stefáns Ólafssonar og bjóða Framsókn upp á samninga um praktískar lausnir.

Ég gæti talið upp fleiri stór umbótamál, sem hrinda þarf í framkvæmd á næsta kjörtímabili. Eitt af því er endurreisn hins félagslega húsnæðiskerfis (sem Framsókn afnam) og nýskipan á húsnæðismarkaðnum í anda tillagna ASÍ. Annað er afnám gjaldeyrishafta og úthýsing amerískra spilavítsfíkla úr okkar efnahagslífi. Það yrði landhreinsun. Hverjum treystum við best til þess?

Þegar á heildina er litið, hlýtur það að teljast jákvætt fyrir stjórnarfar og lýðræði í landinu, að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram hafður í stjórnarandstöðu.
Það er eðlilegt, að fólk undrist yfir ofvextinum, sem hlaupinn er í Framsókn. Ofvöxtur er venjulega til marks um, að ekki sé allt með felldu – ytra tákn um innri veilur. Eru Íslendingar búnir að gleyma ofvextinum, sem hljóp í bankakerfið eftir einkavæðingu? Á sex árum tókst bíræfnum fjárglæframönnum að þenja bankakerfið út, úr einni upp í tífalda þjóðarframleiðslu okkar. Það reyndist vera bóla, sem sprakk framan í okkur.

Margt bendir til, að sagan endurtaki sig. Samt mun það ráðast að einhverju leyti af því, hvernig formaður Framsóknar heldur á málum. Fari hann í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum, mun fylgið, sem er að verulegu leyti þaðan komið, fljótlega hrynja af honum. Hann verður að átta sig á því, að svo lengi sem Sjálfstæðisflokkurinn ekki losar sig undan ógnarstjórn Morgunblaðsritstjórans, er Sjálfstæðisflokkurinn óstjórnhæfur.

Á stórveldistímabili sínu hafði Framsóknarflokkurinn þá sjálfsímynd, að hann væri valkostur frjálslyndra kjósenda og félagshyggjufólks við Sjálfstæðiflokkinn. Hann ætti að starfa til vinstri með félagshyggjuöflum, en hafa hemil á öfgaöflum. Halldór Ásgrímsson skildi þetta ekki (þrátt fyrir að hafa verið í átján í læri hjá Steingrími Hermannssyni). Halldór læsti Framsóknarflokkinn í þrjú kjörtímabil inni í banvænu faðmlagi Sjálfstæðisflokksins og innsiglaði þar með dauðadóm flokksins sem sjálfstæðs stjórnmálaafls. Og ekki bara það. Hann skildi við flokkinn sem eins konar pólitískt eignarhaldsfélag fámennrar klíku fjárglæframanna, sem með vafasömum aðferðum sölsaði undir sig þrotabú gamla SÍS.

Sumir helstu forsytumenn Framsóknar njóta þess vafasama heiðurs að hafa verið brautryðjendur í því að stunda pólitík í sjálfsauðgunarskyni. Því liði er ekki treystandi til að gæta almannahagsmuna, eins og reynslan sýnir. Ef til væru sjálfstæðir fjölmiðlar á Íslandi með einhvern metnað, myndu þeir telja það skyldu sína við kjósendur að upplýsa þá um það fyrir kosningar, hvernig tengslum Sigmundar Davíðs við þessa klíku er háttað. Það skiptir höfuðmáli. Er hann sjálfs sín, eða á þessi litla ljóta klíka hönk upp í bakið á honum? Svarið við þeirri spurningu mun ráða miklu um, hvernig til tekst.

Það er góðs viti, að frjálslyndir og öfgalausir fyrrum kjósendur Sjálfstæðisflokksins, ætla nú að yfirgefa flokkinn í hrönnum. Þessi kjósendahópur tekur hins vegar óhóflega áhættu með því að setja öll sín egg í hina gömlu körfu Framsóknar. Það væri skynsamlegra fyrir þá (og fyrir þjóðina) að dreifa áhættunni. Sem betur fer eiga þeir annarra kosta völ til þess að stuðla að bjartari framtíð.

(Höfundur heldur nú námskeið við Háskólann í Vilnius um viðbrögð þjóðríkja við fjármálakreppu)