Svipmynd: RAUÐI ÞRÁÐURINN……

Arnór elsti bróðir minn var, eftir því sem ég best veit, fyrsti maðurinn af Vesturlöndum eftir stríð til að útskrifast úr háskólanum í Moskvu. Hann stundaði þar nám á árunum 1953 (árið sem fjöldamorðinginn Stalín hrökk upp af) til 1959. Næstu tvö árin stundaði hann framhaldsnám í heimspeki (m.a. hjá Kolakowski) í Kraká og Varsjá. Báðir voru þeir Árni Bergmann og hann, en þeir voru samtímis í Moskvu, vistaðir þar fyrir milligöngu Einars Olgeirssonar gegnum flokkstengsl.

Það tók Arnór ekki langan tíma að komast að raun um, að Sovéttrúboðið íslenska fór villur vega í sínum boðskap; draumurinn hafði fyrir löngu snúist upp í martröð. Sovétríkin voru fólskulegt lögregluríki – fangelsi þjóðanna – haldið saman með ofbeldi. Arnór lá ekki á skoðunum sínum. Við það komst hann upp á kant við hina heilögu þrenningu (Einar, Brynjólf og Kristinn E.), item ritstjóra Þjóðviljans og Tímarit máls og menningar, sem ritskoðuðu greinar hans eða synjuðu birtingar. Heimkominn birti Arnór greinasafn um þessa lífreynslu sína undir heitinu Valdið og þjóðin. Hann fylgdi því síðan eftir með bókinn Kommúnismi og vinstri hreyfing. Ragnar í Smára gaf út þetta bannfærða efni. Eftir þetta varð Arnór persona non grata meðal menningarelítunnar, sem alist hafði upp í lífslygi Sovéttrúboðsins. Hann var kerfisbundið rægður. Það var sagt, að hann hefði ekki þolað álagið í Moskvu og “bilast”.

Árið 1964 rak hið gamla málgagn Þjóðvarnarflokksins, vikublaðið Frjálsa þjóð, á fjörur okkar bræðra, sem þá vorum allir komnir heim frá námi erlendis. Þar birtum við á næstu árum hverja ádrepuna á fætur annarri, þar sem við kröfðumst miskunnarlauss uppgjörs við andlegt þrotabú Sósíalistaflokksins/Alþýðubandalags; og settum fram kröfuna um endurreisn íslenskrar vinstrihreyfingar á hugmyndalegum grundvelli lýðræðislegrar jafnaðarstefnu. Frjáls þjóð gekk eftir það undir nafninu “Fjölskyldumálgagnið” í Þjóðviljanum.

Eftir andlát Arnórs í janúar s.l. falaðist ritstjóri tímaritsins Herðubreiðar, Karl Th. Birgisson, eftir því við mig, að ég rifjaði upp, hvers vegna lærdómsmanninum frá Moskvu hefði verið svona illa tekið eftir heimkomuna. Ég varð við beiðni hans og skrifaði eftirfarandi grein í febrúar s.l.. Síðan hefur ekkert til Herðubreiðar spurst. Þess vegna birtist greinin hér og nú seint og um síðar.

ÍSAFJÖRÐUR var fyrsta sveitarfélagið, þar sem jafnaðarmenn náðu hreinum meirihluta (1919) og héldu honum í rúman aldarfjórðung. Fyrsti forseti Alþýðusambands/Alþýðuflokks, sem fyrsta aldarfjórðunginn (1919-40) var ein og sama hreyfingin, var að vestan – Jón Baldvinsson, ættaður frá Strandseljum í Ögurhreppi við Djúp. Ekki færri en sex formenn Alþýðuflokksins, á öldinni sem leið, voru Vestfirðingar.

Það var þess vegna ekki út í hött, þegar Indriði G. Þorsteinsson, rithöfundur, lýsti Alþýðuflokknum í ræðu sem samblandi af “vestfirskri verklýðshreyfingu og skandínavískum seminarisma”. Það síðastnefnda vegna þess, að verkafólk leitaði í upphafi oft til kennara um að taka að sér forystu verklýðsfélaga, af því að þrátt fyrir lág laun, nutu þeir atvinnuöryggis. Atvinnurekendur gátu ekki rekið þá úr vinnu og þar með kúgað þá til hlýðni.

HANNIBAL (1903-91) var danskskólaður kennari – (og sósíaldemókrat). Hann byrjaði feril sinn sem verklýðsleiðtogi í Súðavík, þar sem hann starfaði sem skólastjóri og formaður verklýðsfélagsins. Hannibal varð þjóðfrægur á unga aldri, þegar atvinnurekendur í Bolungarvík lögðu hann í bönd og fluttu með valdi á báti burt úr plássinu til að koma í veg fyrir endurreisn verklýðsfélagsins, sem þá hafði farið halloka í hörðum deilum við atvinnurekendur. Ísafjarðarkratar brugðust við hart. Þeir mönnuðu bát og handsömuðu mannránsmenn frammi á Djúpi og færðu í tukthús. Síðan héldu þeir fylktu liði til Bolungarvíkur, brutu á bak aftur mótspyrnu atvinnurekenda, og hleyptu nýju lífi í verklýðsfélagið á róstursömum fundi, þar sem allt var troðfullt út úr dyrum. Sagan flaug á vængjum vindsins um öll sjávarpláss á Íslandi. Eftir það var Hannibal þjóðsagnapersóna í lifanda lífi.

Bræðravíg

HVERS VEGNA varð hreyfing jafnaðarmanna (Alþýðuflokkur, Alþýðusamband) ekki ráðandi stjórnmálaafl á Íslandi eins og í Svíþjóð, Noregi og Danmörku? Af hverju varð pópúlískur/þjóðernissinnaður hægri flokkur, kenndur við sjálfstæði og undir forystu atvinnurekenda, ráðandi stjórnmálaafl á Íslandi, en ekki smáflokkur – lengst af dæmdur til stjórnarandstöðu – eins og í Skandinavíu? Af hverju naut Moskvuhollur kommúnistaflokkur – að vísu með breytilegum kennitölum – meira fylgis en flokkur íslenskra jafnaðarmanna, lengst af á lýðveldistímanum? Af hverju? Hverju breytti þetta? Varð velferðarríkið íslenska vanburðugra fyrir vikið? Sýna ekki verkin merkin?

Á þessu er engin einhlít skýring. Kjördæmaskipun (einmennings- og tvímenningskjördæmi, þar sem sigurvegarinn hirðir þingsætið, en hinir fá ekkert) og kosningalög (allt að fimmfalt vægi atkvæða í sveitum á við kaupstaðina) er ein skýring. Í bók sinni, Viðreisnarárin (AB 1993) , telur Dr. Gylfi Þ. Gíslason, f.v. formaður Alþýðuflokksins, það vera ein herfilegustu mistök forystu Alþýðuflokksins, að hafa selt frumburðarrétt fátæks fólks við sjávarsíðuna – sjálfan kosningaréttinn – með því að veita hriflungum Framsóknar hlutleysi við minnihlutastjórn þeirra (1927-32), í staðinn fyrir tæp stundaráhrif á framgang umbótamála. Það var m.ö.o. haft rangt við. Fátækt fólk, sem flykktist úr sveitunum til höfuðborgarinnar og í sjávarplássin, naut ekki þeirra mannréttinda, sem felast í jöfnum atkvæðisrétti. Það bitnaði á Alþýðuflokknum.

EN ÞAÐ ÞARF að skyggnast dýpra til að leita haldbærra skýringa. Ein skýringin sem blasir við, er klofningur hreyfingarinnar í tvær fjandsamlegar fylkingar, strax í frumbernsku. Alþýðuflokkurinn/Alþýðusambandið er stofnað 1916, (aldarafmæli í mars eftir þrjú ár). Valdarán kommúnista í Rússlandi (ranglega kallað rússneska byltingin) gerðist ári seinna. Næstu áratugina varð verklýðshreyfingin vettvangur linnulausra átaka (“borgarastríð”) milli hefðbundinna sósíaldemókrata annars vegar og Moskvuhollra kommúnista hins vegar. Íhaldið (atvinnurekendavaldið) naut þeirrar sérstöðu að geta deilt og drottnað innan verklýðshreyfingarinnar. Íhaldið gerði bandalag við kommúnista um að rjúfa skipulagseiningu Alþýðuflokks og Alþýðusambands (1940), en sú skipan var sjálfur tilverugrundvöllur norrænna jafnaðarmannaflokka.

Í varnarskyni tóku kratar upp samstarf við íhaldið (útsendara atvinnurekenda) til að halda kommúnistum frá meirihluta í mörgum verklýðsfélögum. Orka forystumanna beggja fylkinga fór í vaxandi mæli í innbyrðis hjaðningavíg. Það heitir að skemmta skrattanum. Niðurstaðan er m.a. sú, að fjölmennasta launþegafélag landsins (VR) hefur áratugum saman verið burðarás valdakerfis Sjálfstæðisflokksins til fyrirgreiðslu – og atkvæðakaupa. Annar burðarásinn var valdakerfi ört vaxandi höfuðborgar á þjóðflutningatímum (sjá ævisögu Guðna Th. um Gunnar Thoroddsen). Trojuhestar af þessu tagi hefðu verið óhugsandi innan vébanda verklýðshreyfingarinnar annars staðar á Norðurlöndum.

EN FLEIRA HANGIR á þessari spýtu. Í Tilhugalífi (bls. 156-157) er þessar skýringar að finna á því, hvers vegna Moskvutrúboðinu var jafnvel ágengt og raun bar vitni í stríðinu um hug og hjörtu Íslendinga:

Þjóðernissósíalismi?

“Hvernig stóð á því, að Sovéttrúboðið var svo öflugt á Íslandi og hvernig stóð á því, að það var svona lífseigt? Hvernig stóð á því, að margir af helstu menntamönnum Íslendinga gengu á mála hjá harðstjórum og … létu nota sig í áróðursstríði þeirra á Vesturlöndum? Hvernig stóð því, að það var ekki bara ein kynslóð heldur líka önnur seinni, sem tók þetta andlega þrotabú í arf og hafði ekki manndóm til að gera það upp? Hvernig má það vera, að unglingur eins og ég, sem er að taka út þroska á árunum eftir seinna stríð og fram yfir dauða Stalíns, hafi verið að basla við það að losa sig við þessi hjáfræði fram yfir tvítugt og lagt í það mikla andlega orku og fyrirhöfn?

Við lásum skáldin og rithöfundana, sem héldu fagnaðarerindinu til streitu á síðum Þjóðviljans. Hér var mótuð heimsmynd í svarthvítu, sem byggðist á andúð á vestrænum lýðræðisríkjum, en þau voru skilgreind sem nýlenduveldi. Upp reis hópur manna, sem hafnaði með öllu efnahagsskipun, sem var byggð á frjálsu markaðsstarfi og frjálsu framtaki. Þessi hópur, sem gekk í þjónustu Sovéttrúboðsins, án þess að hafa nokkra þekkingu á Rússlandi eða aðstæðum þar, forhertist að lokum, eftir að sönnunargögnin hrúguðust upp, neitaði staðreyndum og festist í lífslyginni. Það er um leið umsögn um hin borgaralegu öfl á Íslandi, að þau höfðu ekki roð við þessum mönnum. Þau höfðu fátt eitt að bjóða ungu fólki á mótunarskeiði, sem var að leita að lykli til skilnings á umhverfi sínu, annað en kreppuráðstafanir og rifrildi um rekstargrundvöll atvinnuveganna”.

En fleira kemur til. Þjóðernishyggja (þar sem einatt er stutt í þjóðrembuna) hefur löngum verið “skálkaskjól skúrksins” í pólitík. Í Tilhugalífi (bls. 162) er þessu lýst svo:

“Við erum á bandarísku áhrifasvæði og Bandaríkin leita eftir herstöðvum á Íslandi til 99 ára. Við göngum inn í Atlantshafsbandalagið, sem í hugum þessa fólks var bandalag með gömlu nýlenduveldunum. Við gerum varnarsamning við Bandaríkin 1951. Kommúnistar á Íslandi urðu að miklu sterkara pólitísku afli en ella, vegna þess að þeir yfirtóku íslenska þjóðernishreyfingu. Þeir sneru þessu upp í það, að þeir væru í sjálfstæðisbaráttu gegn risaveldi, sem seildist til forræðis í krafti nýlendustefnu. Og á móti kom, að framan af var jákvæð mótvæg hugmyndafræði, byggð á hugmyndum um lýðræði og réttarríki og þjóðfélagsumbætur eftir lýðræðislegum leiðum, afskaplega veik. Þetta var sá hugmyndafræðilegi veruleiki, sem fólk bjó við á þessum tíma. Í stórum dráttum má segja, að þetta sé það hugmyndagóss, sem ég og mín kynslóð tókum í arf og þurftum að gera upp hug okkar til. Sumir gerðu það aldrei”.

Sósíal-demókratíið á Íslandi skorti hugmyndalega kjölfestu og tapaði því stríðinu um “hug og hjörtu” eftirstríðskynslóðarinnar. Og Alþýðuflokkinn hafði kalið í verklýðsrótina eftir endurtekinn klofning, sem kenndur er við Héðin og Hannibal.

ARNÓR, elsti bróðir minn og frumburður foreldra sinna (f. 1934) var hinn dæmigerði menntamaður sinnar kynslóðar, sem var að taka út þroska á árunum eftir stríð og á fyrstu árum kalda stríðsins. Ætli hann hafi ekki drukkið í sig Ísafjarðarkratismann með móðurmjólkinni eins og við hin? En kannski honum hafi þótt þetta “sauðmeinlausa sósíaldemókratí” – eins og Kiljan kallaði það – fullbragðdauft og borin von, að það gæti breytt heiminum? Hann þótti snemma bráðger, mikill námsmaður og þurfti lítt á leiðbeinendum að halda. Fyrir fermingu kenndi hann sjálfum sér esperanto, af því að hann varð hugfanginn af hugmyndinni um sameiginlegt tungumál jarðarbúa sem beittu vopni í baráttunni við fáfræði og fordóma. Og var snemma farinn að skrifast á við lærða menn á þessu tungumáli um stríð og frið.

Bráðþroska hugsjónamaður af þessu tagi þarf auðvitað “Stóra sannleik” að styðjast við. Draumurinn um “framtíðarþjóðfélag sósíalismans”, þar sem örbirgð væri útrýmt og “arðrán manns á manni” afnumið, höfðaði því til hans eins og fleiri. Og ekki vantaði spámennina, sem boðuðu fagnaðarerindið auðtrúa sálum af trúarhita hins frelsaða. Á menntaskólaárum lét Arnór sig ekki muna um að kenna sjálfum sér rússnesku. Í fimmta bekk (sem hann las utanskóla) var hann orðinn fastur áskrifandi að Prövdu. Pravda, það var víst sannleikurinn, ekki satt?

Bjarmalandsför

Eftir stofnun Kommúnstaflokksins á kreppuárunum var vel valinn hópur ungra flokksmanna sendur til náms og þjálfunar í Sovétríkjunum. Kommúnistaflokkur Íslands var útibú frá Komintern (Alþjóðasambandi kommúnista), sem var undir beinni stjórn Sovétflokksins. Kommúnistaflokkar utan Sovétríkjanna voru reknir sem útibú móðurflokksins með fjárhagslegum stuðningi og námsstyrkjum til verðandi foringja af þessu tagi. Sú saga er vel kunn. Í seinni heimstyrjöldinni og fyrstu árin á eftir munu þessi tengsl hafa lagst af. Við upphaf kalda stríðsins þótti leiðtogum Sósíalistaflokksins, Einar Olgeirssyni, Kristni E. Andréssyni o.fl., tími til kominn að taka upp (rauða) þráðinn á ný. Arnór og Árni Bergmann voru þeir fyrstu, sem sendir voru á vegum Flokksins til háskólanáms í Moskvu. Á næstu árum var fjöldi námsmanna sendur gegnum flokkstengsl til Sovétríkjanna, Austur-Þýskalands, Tékkóslóvakíu, Póllands og jafnvel Kína, eins og segir frá t.d. í nýlegri ævisögu Svavars Gestssonar (Hreint út sagt).

ARNÓR stundaði nám við Moskvuháskóla á árunum 1954-59. Þeir félagar komu þangað árið eftir að Stalín dó. Þeir voru orðnir sæmilega hagvanir í framtíðarlandinu, þegar Nikita Khrustsjov afhjúpaði (lítið brot) af glæpum Stalíns í leyniræðu til flokksfélaganna. SÍA (Samband íslenskra austantjaldsstúdenta) fékk því einstakt tækifæri til að kynnast því af eigin reynd, hvernig lífið var í þessum “framtíðarríkjum” sósíalismans. Það hefði þótt tíðindum sæta, ef þessir sérlegu útsendarar flokksins hefðu gerst fréttaritarar Þjóðviljans í Moskvu, Austur-Berlín, Prag, Búdapest, Varsjá, etc. og deilt lífsreynslu sinni með félögunum heima. Hefði flokkurinn lifað það af?

Við Arnór skrifuðumst mikið á á þessum árum. Ég sé það af þessum bréfum, að það hefur ekki tekið hann mikið meira en árið að sjá í gegnum svínaríið. Hann gat ekki lokað augunum fyrir því, að draumurinn hafði snúist upp í martröð. Afnám einkaeignarréttar og allsherjar þjóðnýting hafði ekki bundið endi á “arðrán manns á manni”; það hafði endað í gerspilltu alræðisríki, þar sem “hin nýja stétt” – nomenclaturan – lifði í vellystingum við forréttindi, en almenningur lapti dauðann úr skel. Ginnungagapið milli fyrirheita og veruleika var óbrúanlegt. Öll gagnrýni var bönnuð, að viðlagðri fangavist eða lífláti. Þetta var lögregluríki, þar sem mannréttindi voru fótum troðin.

Sovétríkin voru í reynd þjóðafangelsi – endurreist rússneskt nýlenduveldi – þar sem kerfisbundið var unnið að útrýmingu þjóða og þjóðarbrota. Á þessum árum kynntist Arnór persónulega nokkrum einstaklingum frá Eistlandi og Litháen, sem síðar áttu eftir að koma við sögu sumir hverjir, þegar þessar þjóðir risu upp gegn kúgunarvaldinu og kröfðust þess að endurheimta sjálfstæði sitt og að forða tungu sinni og þjóðmenningu frá útrýmingu. Þessi tengsl áttu eftir að koma sér vel síðar, þegar við Íslendingar höfðum aðstöðu til að leggja sjálfstæðisbaráttu þessara þjóða lið á alþjóðavettvangi.

Auk þess kom sér vel að geta stuðst við raunsætt mat á ástandi og horfum innan Sovétríkjanna og atburðarásinni þar, þegar ákvarðanir voru teknar, sem Sovétmenn töldu vera sér fjandsamlegar. Öfugt við CIA (Leyniþjónustu Bandaríkjanna) var það okkar mat, að umbótatilraunir Gorbachevs væru dæmdar til að mistakast, og að Sovétríkin mundu liðast í sundur. Það þyrfti aðeins að veita þeim náðarhöggið. Framhaldsnám Arnórs að lokinni Moskvudvöl í Varsjá og Kraká í Póllandi (1959-61) var lærdómsrík viðbót við þessa lífsreynslu. Þrátt fyrir ritskoðun og refsivald lágu Pólverjar ekki á skoðunum sínum á því stjórnarfari, sem nýlendustjórnin í Moskvu stóð fyrir í hjálendunum. Kerfið var hugmyndalega og efnahagslega gjaldþrota.

Uppgjörið sem aldrei varð

VIÐ BRÆÐUR, Arnór, Ólafur og ég, vorum að tínast heim eftir framhaldsnám í útlöndum (Moskvu, Varsjá, Kraká, New York, Prag, Edinborg og Stokkhólmi) á fyrri hluta sjöunda áratugarins, snemma á Viðreisnarárunum. Arnór hafði á Moskvuárunum gert ítrekaðar tilraunir til að fá birtar eftir sig greinar í Þjóðviljanum og Tímariti Máls og menningar, þar sem hann sagði sannleikann umbúðalaust um stöðu mála í Sovétríkjunum. Honum var að sjálfsögðu úthýst. Ritskoðunin var pottþétt. Það var ekki fyrr en hann leitaði á náðir Ragnars í Smára, að hann fékk gefið út greinasafn sitt um Sovét. “Valdið og þjóðin” 1963 og “Kommúnismi og vinstri hreyfing” 1964.

Fyrir einskæra tilviljun var ég, eftir heimkomu frá Stokkhólmi 1964, beðinn fyrir vikublaðið “Frjálsa þjóð“, sem þá var munaðarlaust, en hafði áður verið flokksmálgagn Þjóðvarnarflokksins. Brátt tók Ólafur bróðir minn við ritstjórn blaðisins, en við bræður skrifuðum allir í það næstu árin. Megintilgangurinn með þessum skrifum og rauði þráðurinn í þessum greinum var krafan um skilyrðislaust uppgjör við fortíð Kommúnistaflokksins og Sósíalistaflokksins. Við kröfðumst þess, að öllum tengslum við Kommúnistaflokk Ráðstjórnarríkjanna og flokkana í leppríkjunum væri tafarlaust slitið. Við kröfðumst þess, að Alþýðubandalagið (stofnað 1956), sem þá var kosningabandalag gamla Sósíalistaflokksins og vinstrikrata í kringum Hannibal, sem hrakist höfðu úr Alþýðuflokknum (og voru andvígir samstarfi við íhaldið innan verklýðshreyfingarinnar), yrði stofnað sem sameiginlegur stjórnmálavettvangur jafnaðarmanna, á hugmyndafræðilegum grundvelli sígildrar jafnaðarstefnu.

Þetta þótti ekki góð latína í þá daga. Með vísan til þess, að synir Hannibals höfðu yfirtekið Frjálsa þjóð og voru þar áberandi greinahöfundar, gekk blaðið á síðum Þjóðviljans undir nafninu fjölskyldumálgagnið. Austri kallinn, alias Magnús Kjartansson Þjóðviljaritstjóri, sagði eftir Tónabíósfund 1967, þar sem gömlu kommarnir unnu sinn Phyrrosar-sigur eftir allar þessar deilur, að Hannibal væri hættur að leggja stund á stjórnmál, í eiginlegum skilningi þess orðs, enda upptekinn af “fjölskyldu(vanda)málum”. Ég lýsi andrúmslofti þessara ára á þessa leið í Tilhugalífi. (sjá bls. 152):

“Það er talandi tákn um það andrúmsloft þagnarsamsæris og andlegrar bæklunar, sem ríkti í hugarheimi forystumanna gamla Sósíalistaflokksins og þessarar nýju kynslóðar (þ.e. SÍA hópsins), að flokkurinn taldi líf sitt liggja við, að sannleikurinn um ástandið í Austur-Evrópu bærist ekki almenningi til eyrna og að (SÍA)- skýrslurnar yrðu brenndar. Skúli Magnússon (Kínafari) og Arnór, bróðir minn, skáru sig úr, vegna þess að þeir neituðu að ljúga, samkvæmt því boðorði flokksins, að búið væri að ljúga svo miklu og svo lengi, að almennir flokksmenn og almenningur á Íslandi mætti ekki við því kúltúrsjokki, að hin andlega svikamylla yrði afhjúpuð í eitt skipti fyrir öll”.

Kynslóðin sem brást

FYRIR JÓLIN birti Svavar Gestsson, fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins, líbblega sjálfsævisögu undir sama heiti og Truman Bandaríkjaforseti valdi sinni: Plain Speaking – Hreint út sagt. Svavar byrjar á því að bera af sér sögusagnir um að hann hafi verið STASI njósnari, þegar Einar Olgeirsson vistaði hann á flokksskóla austur-þýska Kommúnistaflokksins árin 1967-68. Þetta var nokkrum mánuðum áður en Sovétríkin réðust ásamt leppríkjum sínum (þar með töldu Austur-Þýskalandi) inn í Tékkóslóvakíu til að uppræta vorið í Prag með vopnavaldi. Austur-þýska alþýðulýðveldið byggði, sem kunnugt er á því, að þar njósnuðu allir um alla. Það væri því ekkert sérstakt tiltökumál, þótt satt væri, því að það var bara a way of lifeí lögregluríkinu. En, eins og Svavar segir sjálfur, þá hefur skýrslunum verið fundinn felustaður í Moskvu. Meðan svo er, verða sögusagnir hvorki sannaðar né bornar til baka.

Þetta er þó í reynd nánast aukaatriði. Svavar segir sjálfur frá því, að það hafi ekki tekið hann langan tíma að komast að hinu sanna um stöðu mála í lögregluríkinu. Og að hann hafi rekist illa undir ráðstjórn. Hann segist hafa sannfærst um það, að framtíðarríki sósíalismans var þar ekki að finna. Ég hef enga ástæðu til að rengja Svavar um þetta. Það eina sem vantar upp á farsæl sögulok er það, að heimkominn settist Svavar inn á ritstjórn Þjóðviljans og lét þá alveg undir höfuð leggjast að trúa lesendum sínum fyrir þessari bitru lífsreynslu. Hvað þá heldur að draga af þessari reynslu bitastæðar ályktanir um breytta stefnu.

Seinna, þá nýkjörinn formaður Alþýðubandalagsins, lét hann kalla gömlu mennina, Einar Olgerisson og Brynjólf Bjarnason, upp á svið á landsfundi, til að hylla þá með þeim orðum, að rauði “þráðurinn við fortíðina væri enn óslitinn”. Uppgjörið við fortíðina fór því aldrei fram. Það varð því ekki fyrr en eftir að Berlínarmúrinn var fallinn, Þýskaland var endursameinað, Austur-Evrópa varð frjáls og Eystraltsþjóðirnar höfðu endurheimt sjálfstæði sitt – að vandamálið leystist af sjálfu sér. Sovétríkin voru ekki lengur til – þau leystust upp í frumparta sína. Leiðtogar Eystrasaltsþjóða trúa því, að endurheimt sjálfstæði þeirra hafi verið upphafið að endalokum Sovétríkjanna. Það er nokkuð til í því. Segja má, að frumkvæði Íslands að viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á endurreistu sjálfstæði þessara smáþjóða við Eystrasalt hafi verið endapunkturinn á þessum harðvítugu deilum, sem hér hafa verið gerðar að söguefni, um afstöðuna til Sovétríkjanna. Það var ekkert lengur til að deila um. Þessi fortíð tilheyrir nú “öskuhaugi sögunnar”, sem Trotsky var svo tíðrætt um hér á árum áður.

Í þessu sambandi er fróðlegt að lesa eftirfarandi játningu Kjartans Ólafssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sósíalistaflokksins, í afmælisgrein um Inga R. Helgason, forvera hans og fjárvörslumann flokksins:

Fall þeirrar kynslóðar, sem þú tilheyrðir, var slíkt sem við þekkjum, vegna þess að menn létu hollustu of lengi standa í vegi fyrir því hugmyndalega uppgjöri sem kall tímans krafðist. Þegar brýn þörf kallaði á djúptæka, vægðarlausa endurskoðun og nýtt brautryðjendastarf, þá dvöldum við of lengi sem sporgöngumenn, og urðum kynslóð án skýrrar pólitískrar sjálfsmyndar, sögulega séð“.

Þetta er hverju orði sannara. Gallinn er bara sá, að þetta er skrifað nokkrum áratugum of seint, til þess að það skipti nokkru máli, “sögulega séð”. Hreint út sagt – JBH