Jólin eru auðvitað fyrir löngu orðin hátíð prangarans. Auglýsingamennska, gerviþarfir, neysluæði, eyðsla og sólund um efni fram – yfirdráttur og okurvextir í byrjun árs. Gróðafíknin er löngu búin að yfirtaka fagnaðarerindið og snúa því upp á Mammon. Eftir allt sukkið er fjölskyldan á hausnum, þegar reikningarnir innheimtast eftir áramót. Hjá flestum er þetta upp á krít – ekki satt? (eins og styrjaldir hjá Ameríkönum nú til dags). En samt. Við þurfum þessa daga og nætur til að lýsa upp vetrarmyrkrið í sálinni og finna ylinn hvert af öðru.
Árið 2013 var hins vegar „annus horribilis“ fyrir okkar litlu fjölskyldu. Við gátum ekki látið, eins og ekkert hefði í skorist og sest að krásum til að fagna samheldni og vináttu. Það hefði verið látalæti. Svo að við tókum þann kostinn að fara burt og vera ein með sjálfum okkur. Við eigum okkur athvarf í Andalúsíu. En sólarlandið Spánn er kaldlynt um hávetur. Við ákváðum því að leita sunnar, yfir sundið til Marokkó. Þar héldum við jólin þetta árið: Tangier – Fez – Marakesh – Casablanca – Rabat – Tangier. Á þessum slóðum skynjum við skurðpunktinn milli Evrópu og Arabaheimsins; milli vestrænnar menningar og Islam.
Við finnum þennan mun við hvert fótmál á göngu inni í medinunni (miðaldaborginni innan múra). Þar er urmull af fólki, öxl við öxl. Reyndar úir og grúir af burðardýrum, múlösnum, hundum og köttum og annarri fánu. Tjald við tjald, sjoppa við sjoppu. Prangararnir reyna að veiða varnarlitla túrista í net sín. Teppi, leirker, skartgripir, skrautklæði, sessur, púðar, látún og útskurður, glingur og gler, ilmsmyrsl og krydd. Og jarðargróður í öllum regnbogans litum. Ávextir, sem við kunnum varla að nefna, heilu kjötskrokkarnir eða girnilegir partar – kebab og kúskús.
Medinan er karlaveldi. Konur mega ekki stunda iðju prangarans, en vestrænar konur eru tilvalin fórnarlömb, hrekklausar og ginnkeyptar. Ekki síst þegar kemur að skottulækningum. Hvað amar að þér? Áhyggjur, kvíði, svefnleysi, bakverkir, stirðni, gigt, hægðatregða, þvagleki eða reinsarlinkind – nefndu það, og þeir bjóða fram áburð, smyrsl, ilmefni eða töfradropa. Og sjá, allt þetta mun hverfa eins og dögg fyrir sólu. Sér í lagi, ef þú lætur afvegaleiðast inn í hammam (almenningsbað), þar sem virkjamiklar skessur hnoðast á þér og skrúbba þig hátt og lágt, svo að þú missir ráð og rænu og gleymir basli og búksorgum þessa heims. Þetta er ekki verra jólahald en hvað annað.
Þetta markaðstorg hefur staðið í þúsund ár. Prangararnir eru útsmognir, ágengir og óútreiknanlegir. Þeir skirrast einskis. Hér er ekkert sem sýnist. Verðin eru í byrjun stjarnfræðileg – en í reynd merkingarlaus. Þú setur upp það verð, sem þú heldur að kúnninn láti ginnast af. Trúgirni og hrekkleysi bjóða hættunni heim. En ef þú ert sjálf(ur) ósvífin(n) og samviskulaus, þá prúttarðu verðið á leðurjakkanum langt undir kostnaðaverð. Allt er falt, en ekkert er fast í hendi. Ef þú kemst út úr öngstrætum medinunnar, út um hliðið á borgarmúrnum og fram á torgið, þá tekur við nýtt sjónarspil: apar (eða apakettir?) stökkva upp á herðar þér, slöngur dansa við fætur þér, blásarar og trommarar æra þig, og boldangsmiklar dansmeyjar reyna að tæla þig, með seiðandi magadansi. Svona voru jólin í ár.
En við fengum svo sem ekki umflúið umvandanir Spámannsins. Á fárra klukkutíma fresti kvað við áminningartónn ímansins (prestsins) í moskunni, sem kallaði hina bersyndugu til bænahalds. Þá fleygja allir frá sér því, sem þeir voru að höndla með, kasta sér á alla fjóra fætur, með höfuðið í átt til Mekka, rassinn upp í loftið og tuldra formúluna: Alla er einn og Múhameð er spámaður hans (= og þú skalt eigi aðra guði hafa). Hér dirfist enginn að standa uppréttur og frábiðja sér að taka þátt í þessari fyrirskipuðu tilbeiðslu.
Dóttir vor, Kolfinna, hin fjöltyngda farandkona, á vini í Marokkó. Við þá gátum við talað hispurslaust. Spurt spurninga og vænst ærlegra svara. Og spurningarnar hrönnuðust upp. Marokkó er stórt land, þjóðin er fjölmenn (30-40 milljónir), vel í sveit sett á mörkum Evrópu og Afríku, Miðjarðarhafsins og Atlantshafsins. Að stórum hluta er þetta frjósamt landbúnaðarland, en líka að hluta uppblásið og örfoka eftir ofbeit og áníðslu.
Á ferð okkar sáum við út um bílrúðuna kannski þriðja part af landinu. Það sem blasti við augum umfram allt annað, var þetta: misskipting auðs og tekna sker í augu. Sjálfskipaður alræðiskóngur af ætt Múhameðs og vildarvinir hans eiga landið með gögnum þess og gæðum. Samkvæmt Forbes er kóngurinn sjötti ríkasti maður heims. Hann á fimmtán víggirtar hallir í öllum helstu borgum, víðlenda listigarða og veiðilendur allt um kring. Hann á landið og ráðandi hlut í öllum helstu fyrirtækjasamsteypum, sem hafa landslýðinn að féþúfu (bankar, tryggingafélög, síma- og fjarskiptafélög, flutningafyrirtæki, hafnir – og meira að segja Bónus og Hagkaup í helstu borgum). Í stjórnsýsluborginni Rabat er Seðlabanki ríkisins hafður innan girðingar í 6000 hektara listigarði kóngsins, allt saman víggirt innan múra. (Innmúrað og innvígt, eins og Styrmir segir.)
Utan múranna lepur landslýðurinn dauðann úr skel, en fleygir sér á fjóra fætur í auðmýkt fimm sinnum á dag í tilbeiðslu til valdsins með bæn um, að molar af borði hinna ríku megi náðarsamlegast hrökkva til þeirra. Þegar við spurðum vini Kolfinnu, hvernig það mætti vera, að landslýðurinn – þjóðin – sætti sig við þetta kúgunarkerfi, hvers vegna blóðug bylting hefði ekki þegar brotist út og hvers vegna Marokkó væri nánast eina Múslimalandið, þar sem „arabíska vorið“ festi ekki rætur – voru svörin mörg, en niðurstaðan ein og sú sama: Hlekkir trúarinnar. Kóngurinn er allsráðandi, af því að hann er af ætt Múhameðs og umboðsmaður Alla. Ríki og kirkja eru eitt. Kúgunarkerfi ríkisins (her, lögregla, leyniþjónusta, fyrirgreiðsluvald) er réttlætt með trúnni. Kóngurinn (alvaldur yfir hinu veraldlega valdi) réttlætir það vald, af því að hann er æðsti trúarleiðtogi þjóðarinnar (emír). Vald hans er frá Guði.
Guð er alvaldur og umboðsmaður hans er óskeikull. Kóngurinn skipar prestana (ímanana) . Þeir skulda honum sína hollustu. Prestarnir kalla lýðinn til bæna fimm sinnum á sólarhring (og oftar en ég get talið í föstumánuðinum Ramada). Og um hvað snýst allt þetta bænahald? Að biðja til Alla fyrir kónginum og vildarvinum hans, sem beita valdi sínu til þess að arðræna lýðinn og halda honum í örbirgð og fáfræði (65% kvenna/mæðra eru ólæsar). Með öðrum orðum hlutverk kirkjunnar er að innræta lýðnum hollustu við kúgara sína og að sætta lýðinn við sitt ömurlega hlutskipti í þessu lífi í von um umbun í því næsta (ef þú ert trúr yfirvöldunum). Hafi nokkru sinni verið ástæða til að efast um, að Karl Marx hafði rétt fyrir, þegar hann sagði – trúin er ópíum handa fólkinu – þá sýnist það vera ástæðulaust eftir þessa reynslu.
Þetta er nú það sem við lærðum af jólahaldinu í Marokkó „anno horribilis 2013“. Vestræn menning – upprunnin í Evrópu og breidd út um heiminn í krafti tækni og hernaðarlegra yfirburða – byggir, þegar allt er skoðað, á einni forsendu: Aðskilnaði ríkis og kirkju. Þegar kirkjan missti einokunarvald sitt á menntun og uppeldi lýðsins, hófst blómaskeið vestrænnar menningar: renaissance og reformation – endurreisn og upplýsingaöld. Forsenda þess er andlegt frelsi. Andlegt frelsi er tilraunastofa vísindanna. Vísindin eru undirstaða framfaranna. Það heitir iðn- og tæknibylting. Þetta leysti úr læðingi krafta, sem hafa gerbreytt mannlegu samfélagi á tiltölulega skömmum tíma. Við höfum nú fjárhagslega og tæknilega burði til þess að útrýma örbirgð úr mannlegu samfélagi. Vilji er allt sem þarf. Það heitir pólitík. Skapandi pólitík þrífst ekki nema samkvæmt leikreglum lýðræðis, andlegs frelsis, tjáningarfrelsins; frelsis til orða og athafna.
Engu af þessu er til að dreifa í heimi Islams. Aðskilnaður ríkisins (stjórnmálanna) og kirkju (trúarbragðainnrætingar) hefur ekki farið þar fram. Þvert á móti. Trúarbragðainnrætingin er þar notuð til að réttlæta óbreytt ástand. Þess vegna kól arabíska vorið í rótina. 800 milljónir manna kasta sér flötum í auðmýkt og tilbeiðslu til að biðja fyrir kúgurum sínum. Hér gildir það, sem sr. Matthías sagði forðum: „Þrælahjörð þér veröldin verður, verk þín sjálfs nema geri þig frjálsan“. Amen.