Hin daglega krossfesting

Páskar, bíblían, Gamla testamentið – og svo það nýja: Fjallræðan – stefnuyfirlýsing byltingarmannsins: Það sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. – Þessi boðskapur var settur fram til höfuðs þeim öflum, sem beita rangsleitni, ofbeldi og kúgun til að verja forréttindi, sem fengin eru og varin með valdi. Þetta er stefnuskrá jafnaðarmannna gegn faríseum forréttindanna. Hún var það þá, hún er það enn, hún blífur – þrátt fyrir allt og allt.

Allt þetta kom upp í hugann, af því að það eru páskar. Við Bryndís erum í Andalúsíu. Við vorum á heimleið, þar sem við klífum meira en 200 þrep upp klettinn salta (Salobrena). Á þorpskránni blasti við risaskjár, sem var – aldrei þessu vant – ekki undirlagður af fótbolta, heldur sýndi helgihaldið í Malaga.

Aragrúi fólks. Á miðri mynd blasti við líkneski þjáningarinnar á logagylltum gullstól. Undir þessari þungu byrði roguðust menn, skrýddir pelli og purpura og minntu, við fyrstu sýn, á Ku-kux-klan á þrælaveiðum í Suðurríkjunum. Krossfestingin var ekta. Hinn dæmdi hugsjónamaður, telgdur af þjáningu, var listaverk í sjálfu sér. En hvað gerðist svo? Herinn, lögreglan (líka leynilögreglan), ríkisvaldið í einkennisklæðum ofbeldisins, marseraði á undan Kristi. Þarna voru þeir allir: Fasistarnir, ofbeldisseggirnir og níðingarnir, sem krossfestu Krist og myrtu Garcia Lorca.

Morðið er endurtekið árlega. Sjónarspilið er stórkostlegt. Máttarstólpar þjóðfélagsins bera byltingarmanninn og móður hans á herðum sér, spila undir á þjáninguna og byrla inn lýðnum, að þetta séu sameiginleg örlög. María guðsmóðir, María Magdalena (ástkonan) og Marta. Marta, sem mæðist í of mörgu. Hvílík sögufölsun. Manni verður óglatt.

Þegar spænski herinn, leynilögreglan (og það sem eftir er af ofbeldiskerfi fasistanna), marsérar með Jesús Krist og Maríu guðsmóður á herðum sér – með hinn teglda og blóðrisa líkama hugsjónamannsins ofar öllu – verður manni bumbult. Hvílík hræsni.

Hin heilaga þrenning fasismans, spænska landeigendavaldið, herinn og kirkjan, hafa valdið meiri neyð og vesöld í heimalandinu og í nýlendum trúarofstækisins en orð fá lýst. Kristur var byltingarmaður, sem velti um borðum víxlaranna og afhjúpaði hræsni faríseanna. Nú bera farísearnir hann á gullstóli hræsninnar sjálfum sér til upphafningar. Er hægt að ganga lengra í að snúa öllu á haus? Sannleikurinn verður lygi, og lygin verður að þjóðtrú.

Þetta gerist í Andalúsíu. Þar var kúgun landeigendavaldsins grimmilegust, örbirgð og hungur hinna berfættu sárust, uppreisnin gegn heilagri þrenningu auðvalds, hers og kirkju, hörðust, og hefndarverk fasistanna blóðugust. Samt gerist þetta hér. Meira að segja leiðtogar jafnaðarmanna, sem hafa haldið meirihluta í Andalúsíu allt frá falli fasismans, treysta sér ekki til að rísa gegn ofurvaldi kirkjunnar. Kirkjan hélt okkar fólki í bæklun ólæsis og fáfræði öll þessi ár. Víst höfum við svift hana valdi forheimskunarinnar. En samt. Samt tökum við þátt í sjónarspilinu – með hernum, lögreglunni og ættjarðarástinni.

Andalúsía hér. Katalónía þar. Úkraína og Krímskagi hinum megin. Hvað er verst: trúarofstækið, þjóðernisofbeldið eða hræsnin, sem snýr öllu á haus?