VIÐ KRÝNDUM TRÚÐINN SEM KÓNG EN AFKRÝNDUM KÓNGINN SEM TRÚÐ

segir Jón Baldvin Hannibalsson í ítarlegu viðtalivið eistneska blaðamanninn ASK ALAS, í KESKUS, eistnesku mánaðarriti um menningu og stjórnmál.segir Jón Baldvin Hannibalsson í ítarlegu viðtalivið eistneska blaðamanninn ASK ALAS, í KESKUS, eistnesku mánaðarriti um menningu og stjórnmál.

Í viðtalinu er stiklað á stóru um:

 • stöðu smáþjóða í heiminum
 • uppgang Kínverja og áhuga á Norðurslóðum
 • blekkingar um “íslensku leiðina” út úr kreppunni
 • skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, sem fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir í
 • banka- og fjármálakreppu
 • efnahagslegar hamfaravarnir
 • stjórnarskrána sem þjóðin ekki fékk
 • Jón Gnarr og pólitíska sjúkraþjálfun
 • hvað getum við lært af Eistum (og öfugt)
 • ástand heims eftir áratug
 • áhrifavalda í lífinu
 • eftirlætis Íslendingasöguna og
 • áhrif álfa í mannheimum

Inngangur

JÓN BALDVIN hefur undanfarna máuði starfað sem gistiprófessor við Háskólann í TARTU í Eistlandi. Jafnframt hefur hann flutt fyrirlestra og tekið þátt í málþingum um fjármálakreppuna, orsakir hennar, afleiðingar og ólík viðbrögð stjórnvalda, einkum á Íslandi, annars staðar á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndum. Þann 11. apríl, s.l. flutti hann stefnuræðu á fjölþjóðlegri ráðstefnu um framtíð háskólamenntunar, séð af sjónarhóli smáþjóða. Ráðstefnan var endapunktur á stefnumótun Háskólans í TARTU til ársins 2032, þegar skólinn verður 400 ára.

ASKUR ALAS er eistnenskur blaðamaður, málvísindamaður og þýðandi íslenskra bókmennta á eistnesku. Á sumrum er hann leiðsögumaður eistneskra ferðamanna til Íslands. Hann tók eftirfarandi viðtal við Jón Baldvin, sem birtist í aprílhefti mánaðarritsins KESKUS í TALLINN, en tímaritið helgar sig listum, menningu og stjórnmálum, gjarnan út frá óhefðbundnum sjónarmiðum.

Sp: Þú sagðir nemendum þínum við Háskólann í Tartu dæmisögur úr alþjóðapólitík um það, að smáþjóðir geti haft áhrif, ef þær standa saman. Geta þær það?

Sv: Já – ef mikið liggur við. Þorskastríð Breta og Íslendinga á öldinni sem leið (1954, 1958,1972 og 1975) eru gott dæmi um það. Þau snerust um það, hvaða lög ættu að gilda á höfunum. Hvort „frelsi á úthöfunum“, sem stýrðist af hernaðarhagsmunum flotavelda, ætti að ráða; eða hvort gera ætti strandríki ábyrg fyrir verndun og nýtingu auðlinda hafsins, sem voru þá (og eru reyndar enn) í hættu, m.a. vegna ofveiði og mengunar. Þetta er ekkert smámál. Höfin þekja ca. tvo þriðju af yfirborði jarðar. Meira en tveir þriðju hlutar mannskyns búa á strandlengjunni við hafið, eða við ár og vötn, sem tengjast hafinu. Hafið er matarforðabúr mannkynsins. Og hafinu hefur verið lýst sem lungum lífríkis jarðarinnar. Með því að eitra hafið erum við að eitra fyrir sjálfum okkur.

Bretar, forðum hnattrænt nýlendurveldi, „þar sem sólin settist aldrei“, vou í forsvari fyrir hernaðarhagsmunum stórveldanna. Þriggja sjómílna lögsaga strandríkja markaðist af langdrægni breskra fallbyssna („gun-boat diplomacy“). Breta létu eins og þetta væru alþjóðalög, og dómstólar virtust ganga út frá því líka. „Might is right“ kallast þetta á ensku. Sjónarmið og hagsmunir annarra strandríkja voru af allt öðrum toga. Meðan á seinni heimstyrjöldinni stóð, fengu mörg auðugustu fiskimið heims stundargrið til þess að jafna sig á ofveiði undanfarinna ára. Eftir að stríðinu lauk, sótti allt í sama farið. Á höfunum var að gerast fyrir framan augun á okkur það sem kallað hefur verið „harmleikur almenninganna“ (e. „tragedy of the commons“). Það þýðir, að auðlindir, sem enginn á eða ber ábyrgð á, og allir mega nýta takmarkalaust, verða fyrr en varir uppurnar. Skammtímagróðasjónarmið hvers og eins verður yfirsterkara langtímahagsmunum heildarinnar. Þess vegna settu strandríkin fram kröfuna um 200 sjómílna auðlindalögsögu. Um leið voru stjórnvöld strandríkjanna, ein og sér og í svæðisbundinni samvinnu, gerð ábyrg fyrir „sjálfbærri nýtingu“ auðlinda hafs og hafsbotns.

Þorskastríð Breta og Íslendinga snerust um það, hvort ætti að ráða: Hernaðarhagsmunir stórvelda eða framtíðarhagsmunir meirihluta mannkyns. Þær þjóðir sem voru í fararbroddi fyrir síðarnefnda sjónarmiðinu, voru strandríki í Evrópu, S-Ameríku og Asíu, allt saman smáþjóðir, sem hver og ein mátti sín lítils. Þeir sem leiddu baráttuna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, komu frá þjóðum eins og Möltu, Sri Lanka, Chile – og Íslandi. Átökin stóðu í meira en þrjá áratugi á alþjóðavettvangi. Þessu lauk með fullnaðarsigri okkar – smáþjóðanna – þegar hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur á allsherjarþinginu 1982. Þegar tilskilinn fjöldi ríkja hafði staðfest samninginn 1995, gekk hann í gildi sem alþjóðalög.

Stórveldin, sem voka yfir auðlindum Norðurslóða, sem verða aðgengilegar á næstu áratugum vegna hlýnunar og þiðnunar íshellunnar, verða að fara eftir þessum lögum, hvort heldur um er að ræða nýtingu fiskimiða, auðlindanýtingu á hafsbotni eða nýjar siglingaleiðir. Í fáum orðum sagt: sigur smáþjóðanna í baráttunni fyrir björgun heimshafanna er stórfenglegt dæmi um, að samstaða smáþjóða getur skilað árangri – ef rétt er á málum haldið.

Sp: En eru ekki höfin ennþá í hættu?

Sv: Jú, vissulega. En munurinn er sá, að UNLOSC (United Nations´Law of the Sea Convention) hefur bjargað því, sem bjargað varð – afstýrt neyðarástandi, sem hefði orðið óviðráðanlegt án þessara alþjóðalaga. Það þarf hins vegar að fylgja þeim betur eftir. T.d. með löggjöf um úthafsveiðar og styrkingu svæðisbundinna stofnana, sem hafa með höndum rannsóknir á stöðu auðlinda og reglusetningu um sjálfbæra nýtingu. Þetta er viðráðanlegt. En það er sama gamla sagan, að stjórnmálaleiðtogar tregðast við að taka á sérhagsmunavaldi heima fyrir – og bregðast ekki við fyrr en í nauðir rekur.

Sp: Það vakti heimsathygli, þegar kínverskur auðkýfingur vildi kaupa hluta af Íslandi; hvað er að frétta af því máli?

Sv: Ekki gleyma því, að Kínverjinn var ekki bara auðkýfingur, heldur líka skáld. Hann hafði verið herbergisfélagi íslensks námsmanns í Beiing. Þá mun hafa vaknað áhugi Kínverjans á Íslandi og íslenskri skáldskaparhefð. Námsmaðurinn íslenski varð síðar eiginmaður konu, sem varð utanríkisráðherra Íslands skamma hríð. Kínverjinn mun því hafa vænst þess að koma að opnum dyrum, þegar hann vildi fá að kaupa 3% af Íslandi. Þeir sem hafa sótt Ísland heim vita, að stór hluti landsins er örfoka eyðimörk. Þar hugðist Kínverjinn rækta upp golfvelli, væntanlega með tilheyrandi spilavítum og lúxusvillum.

Viðbrögð íslenskra stjórnvalda báru keim af fáti og fumi. Ísland er aukaaðili að Evrópusambandinu í gegnum EES . Á innri markaði ESB gildir gagnkvæmur réttur um frjálsa för fólks og fjármagns, þ.á.m. fjárfestingar, landakaup o.s.frv. En einstaklingar utan EES þurfa sérstök leyfi stjórnvalda. Viðkomandi sveitarfélag virtist vera hliðhollt hinum skáldlegu áformum Kínverjans, en innanríkisráðherranum leist ekki á blikuna og óttaðist fordæmið. Niðurstaðan varð sú, að Kínverjanum var boðið miklu minna land til leigu. Hann firrtist hins vegar við þessar viðtökur. Síðan hefur ekkert til hans spurst. Áhugi Kínverja á Íslandi hefur hins vegar ekki gufað upp. Kínverjar skyggnast nú vítt um veröld alla í leit að auðlindum, olíu, gasi og eðalmálmum, til þess að mata á hina miklu hagvaxtarmaskínu Miðríkisins. Þeir hafa sérstakan áhuga á auðlindum Norðurslóða, sem senn verða aðgengilegar vegna bráðnunar íshellunnar á Norðpólnum, Grænlandi og víðar. Íslendingum ætti ekki að koma neitt á óvart, næst þegar Kínverjar knýja dyra með stórkostleg fjárfestingaráform.

Sp: Hversu grátt hefur fjármálakreppan leikið Íslendinga?

Sv: Þið Eistar voruð svo heppnir, að bankakerfið var í eigu útlendinga (Svía). Og að hætti reyndra sjómanna bunduð þið ykkur við mastrið – meðan brotið reið yfir – og hélduð ykkur fast við evruna. Þar með forðuðust þið a rústa efnahag skuldugra heimila og fyrirtækja. Getið þið ímyndað ykkur, hvernig ástandið væri, ef þið hefðuð bæði fellt gengi gjaldmiðilsins (kroon) og orðið að endurfjármagna gjaldþrota banka í ykkar eigu? Ef þíð getið ímyndað ykkur það, þá byrjið þið að skilja, hversu grátt hrunið hefur leikið Íslendinga.

Íslenska bankakerfið, nýeinkavætt í eigu fáeinna fjölskyldna var skuldugt upp fyrir haus í erlendum gjaldmiðli. Það hrundi eins og það lagði sig. M.a.s. Seðlabankinn varð gjaldþrota. Þar við bættist, að gjaldmiðillinn – íslenska krónan – hrundi eins og spilaborg. Þetta þýddi, að fyrirtæki og heimili voru unnvörpum tæknilega gjaldþrota. Gengisfallið þýddi tvöföldun á höfuðstól skulda, snarhækkun á verði innflutnings (verðbólgu) og okurvexti. Við þetta bætist, að Ísland, næstum eitt ríkja, hefur um áratuga skeið bundið langtímalán við svokallaða neysluverðsvísitölu. Þetta var á sínum tíma gert til að reyna að hafa hemil á verðbólgu. En ófyrirséðar hliðarverkanir eru margar og meinlegar. Ef kaffið hækkar í Brasilíu, hækkar höfuðstóll skuldugra Íslendinga. Öll áhætta í samskiptum lánþega og lántaka, hvílir á herðum hins síðarnefnda. Sambýli þessa verðtryggingarkerfis við ónýtan gjaldmiðil er beinlínis banvænn kokkteill. Við hrun gjaldmiðilsins bitnuðu afleiðingar þessa kefis með ofurþunga á herðum almennings.

Á árunum fyrir hrun höfðu útlendir spekúlantar hirt skjótfenginn gróða með verðbréfabraski á Íslandi í skjóli hárra vaxta og veiks gjaldmiðils. Þegar Ísland lenti í gjörgæslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) , greip hann til þess ráðs að koma á fjármagnshöftum og lokaði þar með þetta kvika spekúlantafjármagn inni. Ella taldi sjóðurinn, að fjármagnsflótti mundi valda nýju gjaldmiðilshruni, með óbærilegum afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki. Þessi gjaldeyrishöft áttu að standa í nokkra mánuði. Þau eru enn við lýði sex árum síðar. Afleiðingar hrunsins eru því enn óleystar. Íslendingar eru ennþá – sex árum eftir hrun – staddir á hættusvæðinu miðju. Það er fullreynt, að gjaldmiðillinn er ónýtur. Það er engin lausn til frambúðar í boði önnur en sú að koma sér í skjól af traustum alþjóðlegum gjaldmiðli. Fyrir því er hins vegar ekki nægilega öflugur pólitískur vilji, enn sem komið er. Sérhagsmunaöfl ráða ferðinni, og lýðskrumarar vaða uppi í pólitíkinni. Þetta er það verð, sem Íslendingar verða að borga fyrir að hafna aðild að Evrópusambandinu.

Sp: Er það satt, að Íslendingar neiti að borga skuldir sínar?

Sv: Útlendir fjölmiðlar, margir hverjir, hafa það fyrir satt. Þeim er vorkunn, því að þeir hafa þetta aðallega eftir forseta Íslands. Ríkisstjórn Íslands gerði þrjár atlögur að samningum við Breta og Hollendinga um að ábyrgjast greiðslu á innistæðum sparifjáreigenda í þessum löndum í íslenskum bankaútibúum, sem áttu að njóta innistæðutryggingar samkvæmt ESB/EES reglum. Forsetinn tók upp á því að slá sig til riddara í augum almennings með því að vísa þessum samningum í þjóðaratkvæðagreiðslur. Auðvitað voru þeir felldir. Ef þú ert spurður, hvort þú viljir greiða skuldir annarra, þá svarar þú auðvitað: Nei takk. Við þetta breyttist forsetinn úr skúrki í þjóðhetju (hann hafði fyrir hrun verið helsta klappstýra og loftunga útrásarvíkinganna í skrumræðum sínum). Til þess var leikurinn líka gerður. Þetta breytti hins vegar engu efnislega, því að þrotabú bankanna reyndust eiga fyrir lágmarkstryggingunni, og munu standa skil á henni. Gjaldþrot Seðlabankans og endurfjármögnun bankakerfisins hefur hins vegar hækkað skuldabyrði ríkisins (skattgreiðenda) úr u.þ.b. 25% af landsframleiðslu fyrir hrun í u.þ.b. 90% eftir hrun. Við þetta bætist, að heimili, sveitarfélög og fyrirtæki eru skuldug upp fyrir haus.

Það er rétt, að erlendir lánadrottnar íslensku bankanna – evrópskir, (aðallega þýskir) bankar – töpuðu stórfé á glæfralegum lánveitingum til íslensku banksteranna. Þeir afskrifuðu fljótlega þessar kröfur og seldu fyrir spottprís á eftirmörkuðum. Vogunarsjóðir (aðallega amerískir) hafa hirt þetta upp fyrir skid og ingenting og sitja nú um þrotabú föllnu bankanna með atbeina Wall Street lögfræðinga og krefjast endurgreiðslu miðað við verðmæti upphaflegra krafna. Þetta mál er óleyst, rétt eins og gjaldeyrishöftin, sex árum eftir hrun. Ísland er því enn í dag í umsátri handrukkara amerískra vogunarsjóða. Frá þessu segir fátt í erlendum fjölmiðlum.

Sp: Hverjum er allt þetta að kenna?

Sv: Svarið við því er að finna í 9 binda skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, sem skilaði niðustöðum sínum nokkrum árum eftir hrun. Þessi rannsókn er það besta, sem Íslendingar hafa gert í því skyni að læra af óförum sínum. Skýrslan er vönduð, rækilega studd gögnum og afdráttarlaus í niðurstöðum. Mér er ekki kunnugt um sambærilega úttekt hjá nokkurri annarri þjóð, sem varð fórnarlamb hrunsins. Ég er sannfærður um, að aðrar þjóðir gætu lært mikið af þessu verki.

Skýrsluhöfundar höfðu aðgang að öllum gögnum, sem varða stefnu stjórnvalda, ríkisstjórnar, Seðlabanka og Fjármálaeftirlits, og ákvarðanir og stjórnunarhætti eigenda og stjórnenda bankanna í aðdraganda hrunsins. Höfundar lýsa því, hvernig nýeinkavæddum viðskiptabönkum var breytt í ofurskuldsetta alþjóðlega vogunarsjóði á sex árum. Þessar alþjóðavæddu fjármálastofnanir uxu íslenska hagkerfinu gersamlega yfir höfuð. Hagstjórn ríkisstjórna og peningastefna Seðlabankans var hvort tveggja í skötulíki. Seðlabanki og fjármálaeftirlit brugðust algerlega eftirlitshlutverki sínu.

Eigendur og stjórnendur bankanna brutu sannanlega allar meginreglur, sem eiga að gilda um áhættustýringu og trúnað við hlutafjáreigendur. Þegar þeim varð ljóst, að allt væri að fara til helvítis, ryksuguðu þeir bankana innan frá í eigin þágu og tengdra fyrirtækja. Þeir virðast hafa gengið fram í sama anda og bandaríski hagfræðingurinn, W. Black, lýsti í bók sinni: „Besta leiðin til að ræna banka, er að eiga banka“. Til þess a ð dylja raunverulega eignaraðild og til þess að komast hjá skattgreiðslum, aðstoðuðu bankarnir við stofnun þúsunda skúffufyrirtækja í skattaskjólum. Köngulóarvefurinn, sem lýsir innbyrðis tengslum félaga í þessum sýndarveruleika, minnir einna helst á framúrstefnulistaverk eftir dópaðan súrrealista. Ég hef enga ástæðu til að ætla, að stjórnendur banka, sem nú er haldið í öndunarvélum á kostnað skattgreiðenda vítt og breitt um Evrópu, hafi verið nokkru skárri en íslenska afbrigðið. Það hefur bara enginn dirfst að efna til jafn rækilegrar rannsóknar og við höfum gert.

Íslenska réttarkerfið hafði auðvitað enga reynslu af því að afhjúpa svo þéttriðið net fjárglæfra og skattsvika, sem teygir anga sína um allan heim. Samt höfum við reynt að gera okkar besta. Það var stofnað embætti sérstaks saksóknara. Skýrsluhöfundar Rannsóknarnefndar Alþingis hafa vísað til hans fjölda mála. Sérstakur saksóknari hefur ákært fjölda einstaklinga og unnið flest sín mál fyrir undirrétti. En réttarkerfið er seinvirkt. Hinir ákærðu hafa innlenda og erlenda lögfræðinga á sínum snærum og beita ítrustu tafatækni. Það munu því líða mörg ár, áður en endanlegar niðurstöður liggja fyrir.

Rannsóknarnefnd Alþingis nefndi í sínum endanlegum niðurstöðum þá einstaklinga í stjórnkerfinu, sem nefndin taldi, að hefðu brugðist skyldum sínum og gerst brotlegir við lög. Þeirra á meðal voru formenn stjórnmálaflokka, ráðherrar, seðlabankastjórar og topp embættismenn. Þessar niðurstöður voru lagðar fyrri Alþingi, sem klúðraði málinu endanlega. Aðeins einn þessara nafngreindu einstaklinga var að lokum ákærður og dæmdur. Almenningi fannst það eðlilega ósanngjarnt, úr því að þeir sem sannanlega báru höfuðábyrgðina, sluppu. Pólitísk hrossakaup bak við tjöldin afhjúpuðu getuleysi stjórnmálamanna til að axla ábyrgð. Í ljósi þessa er skiljanlegt, að einungis um 10% þjóðarinnar ber traust til Alþingis, s.k.v. skoðanakönnunum.

Sp: Til hvaða ráða hefðir þú gripið, hefðirðu verið við völd, fyrir og eftir hrunið?

Sv: Ég lýsti því allrækilega í tímaritsviðtali (Mannlíf, mars, 2008), sjö mánuðum fyrir hrun. Ég hefði þvingað útibú íslensku bankanna erlendis til að flytja starfsemi sína í dótturfyrirtæki og til að flytja höfuðstöðvarnar til London, þar sem meginið af starfsemi þeirra fór fram hvort eð var. Öfugt við útibú lúta dótturfyrritæki reglum, eftirliti og lágmarksinnistæðutryggingum gistiríkisins. Þetta hefði ekki eitt og sér forðað Íslandi frá hruni. En þetta hefði verið árangursríkar hamfaravarnir. Þetta hefði bjargað Seðlabanka Íslands frá greiðsluþroti og sparað skattgreiðendum mikið fé.

Hæstiréttur Íslands dæmdi gengisbundin lán í erlendum gjaldeyri fyrir milligöngu bankanna ólögleg. Ég hefði séð til þess, að bankarnir bæru sjálfir skaðann af lögbrotum sínum, en ekki hinir blekktu viðskiptavinir. Ég hefði meðhöndlað ósvífnar kröfur hinna amerísku vogunarsjóða á hendur þrotabúa gömlu bankanna á sama hátt og Malaysia gerði, í kjölfar Asíukreppunnar 1997-98. Þeir lögðu okurgróðaskatt („windfall-gains-tax“) á gróðann. Hefurðu séð myndina “Úlfur á Wall Street”? Forstjórar vogunarsjóða eru af því taginu. Þeir hegða sér eins og úlfar í sauðahjörð. Úlfarnir teljast réttdræpir að mannalögum, en þessir mannhundar ekki. Þeir eru eins og rándýr, sem sitja um veikburða fórnarlömb. Þeir eiga ekki að njóta verndar veiðivarðanna. Þótt þjóðríkin hafi verið að veikjast að undanförnu gagnvart mörkuðum fjármagnseigenda, heldur þjóðríkið þó enn skattlagningarvaldi sínu. Það er nóg komið af því, að þjóðríki skuli vera meðhöndluð af alþjóðasamfélaginu eins og hjálparvana fórnarlömb frammi fyrir ofurvaldi fjármálamarkaða, sem hafa vaxið þjóðríkjunum yfir höfuð, eftirlits- og stjórnlaust.

Sp: Það vakti heimsathygli, þegar leitað var til íslensku þjóðarinnar um milliliðalausa þátttöku við að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá. Hvernig fór það?

Sv: Tilraunin var kæfð í fæðingunni. Sagan segir okkur, að þjóðir setja sér nýjar stjórnarskrár eftir ósigur í stríði eða önnur meiriháttar áföll. Hrun Íslands var stórslys af mannavöldum. Nýju stjórnarskránni var ætlað að leggja grunn að virkara lýðræði og öflugri stofnunum nýs lýðveldis. Hún átti að vera til vitnis um, að þjóðin hefði lært af mistökum sínum. En í seinustu þingkosningum kaus meirihluti þjóðarinnar aftur yfir sig þá stjórnmálaflokka, sem sannanlega báru höfuðábyrgð á hruninu. Þessir flokkar hafa skipt út andlitum í forystu, en eru að öðru leyti samir við sig. Þeir viðurkenna engin mistök, enga ábyrgð og sýna enga iðrun. Þess vegna sjá þeir enga þörf fyrir nýja stjórnarskrá – nýja byrjun.

Sp: Hvernig útskýrir þú fyrirbærið Jón Gnarr fyrir útlendingum?

Sv: Þú meinar þennan grínara, sem Reykvíkingar kusu sem borgarstjóra fyrir fjórum árum? Jú, sjáðu til: Hann er trúðurinn í hinni klassísku tragi-komediu. Trúðurinn naut þeirra forréttinda að mega segja sannleikann, ekki satt? Meðan kóngurinn óð fram í vitstola sjálfsblekkingu og hirðin söng honum lof og prís í undirdánugum blindingsleik, var trúðurinn sá eini, sem gat sagt sannleikann – án viðurlaga. Trúðurinn er því eins og barnið í dæmisögu H.C. Andersens, sem sagði sem satt var, að keisarinn væri nakinn. Eftir hrun fannst Reykvíkingum við hæfi að hafa endaskipti á hlutverkum í pólitíkinni: Við krýndum trúðinn sem kóng, en steyptum kónginum af stalli sem trúð. Þetta hefur komið út eins og terapía – pólitísk sjúkraþjálfun. Á íslensku er málsháttur sem segir: „Hláturinn lengi lífið“. Hvenær þarftu að geta gert grín að tilverunni, ef ekki þegar gæfan hefur snúið við þér baki?

Og vel á minnst: Hirðin sem stjórnar borginni með honum, samanstendur aðallega af listamönnum; þetta eru tónlistarmenn, jass-spilarar, kvikmyndagerðarmenn, rithöfundar, háðfuglar og aðrir frjálsir andar. Það hefur komið á daginn, að þeim lætur alla vega betur að stjórna framkvæmdum og fjármálum en fyrirrennurum þeirra, sem þóttust vera bornir til valda. Styrkur þeirra felst í einlægninni. Ef þeir eru spurðir spurninga og þeir vita ekki svarið, þá viðurkenna þeir það en segjast ætla að finna út úr málinu. Það eru engin pólitísk látalæti, enginn valdhroki, ekkert bullshit, eins og við erum vön að fá frá venjulegum annars- og þriðjaflokks pólitíkusum.

Sp: Hvað getum við Eistlendingar lært af Íslendingum og öfugt?

Sv: Báðar þessar þjóðir hafa lifað af þrátt fyrir hörmungar í fortíðinni. Þið þurftuð að fást við – og sjá við – ofbeldisfullum nágrönnum. Við höfum staðið í ójöfnum leik við kyngimögnuð náttúruöfl, ógnir hafsins, jarðskjálfta og eldgos. Heilu sjávarplássin hafa á stundum mátt sjá á eftir fyrirvinnunum í hafið. Hvað eftir annað hefur þjóðin verið við dauðans dyr í kjölfar hrikalegra náttúruhamfara. Munurinn er sá, að við virðumst hafa gleymt þessari lífsreynslu í okkar nýríku sjálfumgleði seinustu árin. Mér finnst hins vegar einhvern veginn eins og að þið hafið varðveitt þjóðarminnið, a.m.k. enn sem komið er. Ætli við getum ekki lært af ykkur að rifja upp, hvernig við lifðum af, og að hætta svo að kvarta undan smámunum. Getið þið lært eitthvað af okkur? Ef eitthvað, þá væri það þessi óforbetranlega bjartsýni: „Þetta reddast“. Ætli skilaboð beggja til annarra sé ekki þessi: Við munum aldrei, aldrei, gefast upp…

Sp: Hvernig mun veröldin líta út, að þínu mati, eftir áratug?

Sv: Það er að hlýna, ísinn er að bráðna, yfirborð sjávar er að hækka, fjöldi dýrategunda eru að hverfa af yfirborði jarðar, skógarnir eru víða að deyja, vatnið að ganga til þurrðar, og við höldum áfram að dæla eitri í hafið – lungu lífríkisins. Og þetta alþjóðlega fjármálakerfi, sem öllu virðist ráða, er orðið gersamlega stjórnlaust. Ef við ekki komum lögum yfir það, munum við lenda í hverri fjármálakreppunni af annarri á næstu árum, með ólýsanlegum þjóðfélagslegum kostnaði. Í okkar nánasta nágrenni – á heimskautssvæði norðursins – er nýtt meginland að verða aðgengilegt undan íshellunni. Þar er að finna eftirsóknarverðar náttúruauðlindir, sem bíða þess að herskarar hátækninnar fari að bora, brjóta og bræða. Verður það gert undir merkjum „sjálfbærrar þróunar“ og samkvæmt alþjóðalögum – hafréttarsáttmálanum? Eða er framundan kapphlaup um að komast yfir sem mest af þessum auðlindum, hvað sem það kostar? Á 19du öldinni skiptu stórveldin Afríku milli sín í slíku kapphlaupi eftir auðlindum, með hörmulegum afleiðingum fyrir Afríku, sem ekki er séð fyrir endann á. Mun sagan endurtaka sig? Við vitum það ekki.

En við vitum, að heimsverslunin með massívum vöruflutningum milli Kyrrahafs- og Atlantshafssvæðanna mun að stórum hluta færast á Norðurslóðir. Þetta gæti t.d. gert mitt land að eftirsóknarverðri umskipunarhöfn fyirr flutningaflota heimsins. Eins og þið vitið manna best, Eistlendingar, er varasamt að eiga volduga nágranna. Þessu mun því fylgja bæði áhætta – en jafnframt ný tækifæri. Og ekki síður fyrir granna okkar, Grænlendinga (60 þúsund manns), í landflæmi á stærð við Vestur-Evrópu. Náttúra Norðursins er ofurviðkvæm fyrir hvers kyns raski. Verður slysum forðað? Ég verð ekki hér lengur, þegar á það mun reyna. En þið verðið hér. Og ef draumur minn um svæðissamstarf Noðurlanda og Eystrasaltsþjóða innan Evrópusambandsins eða í nánu samstarfi við það, verður að veruleika, þá munuð þið hafa tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á þróunina. Vegni ykkur vel.

Sp: Hvaða einstaklingar hafa haft mest áhrif á þig á lífsleiðinni?

Sv: Móðuramma mín, með hennar jarðbundnu visku og kaldranalega húmor; einn af kennurum mínum í barnaskóla með hans ástríðufullu hugsjón um frelsandi áhrif menntunar; faðir minn, vegna óbilandi réttlætiskenndar hans; Willy Brandt – góði Þjóðverjinn – vegna hans mannlegu hlýju og djúpa skilnings á mannlegum breiskleika; Olof Palme, vegna óbifanlegrar sannfæringar um, að með útrýmingu örbirgðar í veröldinni værum við að færa út landamæri frelsisins; og Lennart Meri fyrir hans djúpa skilning á sköpunarmætti þjóðmenningar – og fyrir hans frumlega skopskyn. Ég gæti nefnt marga fleiri: konuna mína, Bryndísi, fyrir smitandi vegsömun hennar á fegurðinni í lífi og listum.

Sp: Hver er eftirlætis Íslendingasaga þín og hvers vegna?

Sv: Fóstbræðrasaga. Hvers vegna? Vegna þess að sagan gerist í heimahögum mínum, þar sem ég ólst upp, við Djúp og Strandir. Bara þúsund árum fyrr. Engu að síður lít ég á söguhetjurnar – skáldið og stríðsmanninn – sem samtímamenn mína. Í sögunni eru hinar karlmannlegu dyggðir hugrekkis og líkamsstyrks vegsamaðar af veiklunduðum bon-vivant kvennabósa og lífsþyrstu skáldi.

Halldór Kiljan Laxness, okkar eina Nóbelsskáld, gæddi Fóstbræðrasögu nýju lífi í skáldsögu sinni frá sjötta áratugnum – Gerplu (e. Happy Warriors) – um fánýti stríðs og þeirra karlmannlegu gilda, sem leiða til þess. Vladimir Putin mundi ekki veita af að lesa þessa sögu – hafi hann eitthvert auga fyrir hinu tvíræða og skoplega í tilverunni.

Þegar ég var átta ára, kom Halldór Laxness í heimsókn í Ögur, þar sem ég ólst upp á sumrum undir handarjaðri móðurbróður míns. Halldór var í vettvangskönnun á slóðum Fóstbræðrasögu til að leggja drög að Gerplu. Fósturmóðir mín, Ragnhildur í Ögri, var ein af þessum íslensku kellingum, sem kunnu utanbókar allt það fínasta í íslenskum skáldskap og bókmenntum., og leiddi gestinn til stofu. Hversdagslega var það til siðs, að ég malaði kaffið fyrir kellinguna á morgnana, meðan hún fór með skáldskap. Þetta eru bestu bókmenntaseminör, sem ég hef sótt. Nóbelsverðlaunahöfundurinn in spe og þessi gamla kona ræddu bókmenntaleg álitamál klukkustundum saman, meðan ég malaði handa þeim kaffið.

Fyrir tveimur árum bað ítalskur fræðimaður mig að skrifa formála að ítalskri útgáfu Fóstbræðrasögu. Þegar ég spurði hann, hvers vegna hann leitaði til mín, sagði hann mér, að konan hans væri ættingi gömlu bókmenntakellingarinnar í Ögri, og hefði mælt með mér. Það læðist að mér sá grunur, að gamla konan hafi lagt sitt af mörkum til heimsbókmenntanna, án þess að vita af því.

Sp: Trúir þú á álfa?

Sv: Já, auðvitað. En þú? Landareign okkar Bryndísar í nágrenni Reykjavíkur er kölluð Álfhóll – „Elf Hill“ á ensku. Húsið er byggt í grennd við háan hól, sem er dæmigerð álfabyggð. Álfarnir eru okkar næstu nágrannar. Einu sinni, þegar mágur minn var að slá grasið, gekk hann of nærri friðhelgi álfanna. Sá fékk að finna fyrir því. Fyrst týndi hann giftingarhringnum. Svo týndi hann eiginkonunni. Hann fann hana að vísu aftur tíu árum síðar. Þetta þótti álfunum hæfileg refsing fyrir að virða ekki hefðbundnar samskiptareglur við þá. Mágur minn lét sér þetta að kenningu verða og hefur hegðað sér skikkanlega eftir þetta.

Þegar þú ekur frá Álfhóli til höfuðborgarinnar, tekur vegurinn á einum stað stóran sveig fram hjá annarri álfabyggð. Verkfræðingar Vegagerðarinnar hafa lært það af dýrkeyptri reynslu, að þeir verða að virða sambúðina við okkar ósýnilegu granna. Það er nefnilega ekki allt sem sýnist í þessum heimi, minn kæri.

Askur Alas (apríl, 2014)

HVUR ER ÞESSI MAÐUR?

Flestir Eistlendingar þekkja nafnið, alla vega þeir sem muna örlagaárin 1988-91. Hannibalsson var jú þessi íslenski utanríkisráðherra, sem rétti okkur hjálparhönd, þegar mest reið á og við vorum vinafáir í veröldinni. En hver er maðurinn sjálfur? Hann ólst upp í litlu sjávarplássi norður við heimsskautsbaug. Synirnir fóru allir til mennta í útlöndum: í Moskvu, Prag og, í tilviki Jóns Baldvins, í Edinborg, Stokkhólmi og að lokum við Harvard. “Á sumrum var ég í sveit undir handarjaðri móðurbróður míns fram á unglingsár. Búskaparhættir minntu að sumu leyti meira á 13du öldina en þá 20ustu. Enginn traktor, engir bílar, engir vegir og hvorki brýr né hafnir. Það var ferðast á hestum eða sjóleiðina á trillu. Ég hef stundum sagt, að þetta hafi verið sjö sælustu sumur lífsins. Ég kostaði háskólanám erlendis með því að vera háseti á togurum á sumrin. Við veiddum á Íslandsmiðum, við Grænland og í kanadískri lögsögu við Nýfundnaland. Þetta var vel launað, svo að ég kom skuldlaus frá náminu” –

Starfsferillinn er fjölbreytilegur. Hann hefur verið kennari og skólameistari, blaðamaður og ritstjóri, þingmaður og ráðherra, flokksleiðtogi, og að lokum sendiherra í Bandaríkjunum og Kanada og Finnlandi og í Eystrasaltslöndum. Eftir að hann hætti stjórnmálaafskiptum hefur hann sinnt ritstörfum og háskólakennslu, m.a. við háskólann í Vilnius, 2013 og nú síðast við Háskólann í Tartu á vormisseri 2014. — En ef þú spyrð Íslending á götu um Jón Baldvin, þá má búast við þessu svari: Já, hann er maðurinn hennar Bryndísar. Þau hafa verið gift frá unglingsárum. Hún er ekki síður þekkt en hann. Hún hefur verið ballerína, leikkona, kennari og skólameistari, blaðamaður og ritstjóri, sjónvarpsstjarna, dálkahöfundur, leiklistargagnrýnandi og höfundur nokkkurra bóka, þýddra og frumsaminna. Þau eru bæði dáð og gagnrýnd – alla vega umtöluð.
— AA

LENNART MERI OG JÓN BALDVIN

LENNART MERI var fyrsti utanríkisráðherra Eistlands að endurreistu sjálfstæði. Hann og Jón Baldvin urðu nánir vinir. Árið 1992 var Meri talinn af í pólitík og sendur til Helsinki sem sendiherra Eista. Það sama ár var ráðstefna Öryggis-og samvinnustofnunar Evrópu (OSCE) haldin í Helsinki. Jón Baldvin var þar sem utanríkisráðherra Íslands. Það urðu fagnaðarfundir með gömlum vinum. Lennart bauð Jóni Baldvini og Bryndísi í sendiherrabústaðinn. Eistneska ríkið var þá svo fjárvana, að það hafði ekki getað greitt rafmagnsreikninginn. Þegar rökkvaði bankaði Jón Baldvin upp á í húsi nágrannans (sem reyndist vera sendifulltrúi Dana) og bað um kerti að gjöf. Eitthvað matarkyns var til í sendiráðsbústaðnum, sem Bryndis hitaði upp í fondue yfir kertaljósum. Það var talað um pólitík fram yfir miðnættið. Forsetakosningar voru framundan í Eistlandi. Meri var á báðum áttum um, hvort hann ætti að gefa kost á sér. Hann taldi framboð sitt vonlítið. Arnold Rütel þætti sigurstranglegastur og hefði mest ítök á landsbyggðinni. Sjálfur sagðist Meri ekkert kunna fyrir sér í pólitík og fannst tilhugsunin um að standa uppi á stól eins og ágengur prangari vera afar fráhrindandi.
Jón Baldvin stappaði í hann stálinu og hvatti hann til að láta slag standa. Hann vakti upp spurninguna, hvort ekki væri vegur að sundra fylgi Rütels með þriðja framboðinu. Það mundi auka sigurlíkur Meris í seinni lotunni. Ýmis nöfn voru nefnd, en mest staldrað við nafn Rein Taagepera, sem var útlaga-Eisti í Ameríku. Að öðru leyti lagði Jón Baldvin það til, að Meri fengi lánaða rútu og nothæft hátalarakerfi og legði svo bara í´ann. Eistland væri lítið land eins og Ísland, svo að það væri hægt að ná til fólks milliliðalaust. Jón Baldvin hafði það stundum í flimtingum síðar, þegar Meri hafði verið kosinn forseti, að hann hefði verið kosningastjóri hans í upphafi.

Löngu síðar, þegar Jón Baldvin hafði gerst gestafyrirlesari við Háskólann í Tartu, var honum úthlutuð vinnuaðstaða í skrifstofu Rein Taagepera, prófessors sem var erlendis. Þar kom, að Jón Baldvin skrifaði Taagepera og spurðist fyrir um sannleiksgildi þess, hvort þeir Meri hefðu haft samráð við forsetaframboðið árið 1992. Svarið var, já – heldur betur. Taagepera sagði, að hann hefði aldrei farið í þetta framboð nema í samráði við Meri um að dreifa fylgi Rütels. Hins vegar kvaðst Rein hafa sagt við Lennart, að hann færi í þetta til að vinna, ef hann gerði það á annað borð. Þegar Jón Baldvin spurðist fyrir um framboð Taagepera á kennarastofunni, var honum sagt, að Taagepera hefði reynst öflugur frambjóðandi. Ef hann hefði haft tvær vikur til viðbótar, hefði hann líklega unnið. En fór sem fór. Rütel fékk 41.8%, Meri 29.5% og Taagepera 23.4% í fyrri lotu. Meri vann svo í seinni lotunni, af því að fleiri kjósendur Taagepera studdu hann þá. Gamansagan reyndist því hafa við meiri rök að styðjast en sögumaðurinn sjálfur hugði í upphafi. – AA

Stiklur:

“Afleiðingar hrunsins eru því enn óleystar. Íslendingar eru enn – sex árum eftir hrun – staddir á hættusvæðinu miðju. Það er fullreynt, að gjaldmiðillinn er ónýtur”.

“Forstjórar vogunarsjóðanna hegða sér eins og úlfar í sauðahjörð. Úlfarnir teljast réttdræpir af mannalögum, en þessir mannhundar ekki. Þeir eru eins og rándýr, sem leggjast á veikburða fórnarlömb. Þeir eiga ekki að njóta verndar veiðivarðanna”.

“Við krýndum trúðinn sem kóng, en steyptum kónginum af stalli sem trúð. Þetta hefur komið út sem eins konar terapía – pólitísk sjúkraþjálfun”.

“Þetta alþjóðlega fjarmálakerfi, sem öllu virðist ráða, er orðið gersamlega stjórnlaust. Ef við ekki komum lögum yfir það, munum við lenda í hverri fjármálakreppunni af annarri á næstu árum með óheyrilegum þjóðfélagslegum kostnaði”.

“Vladimir Putin mundi ekki veita af að lesa þessa sögu, hafi hann eitthvert auga fyrir hinu tvíræða og skoplega í tilverunni”.