Árni vinur minn Jóhannsson, hetjutenór og stórverktaki, sem við kveðjum hinstu kveðju í dag, var ekki einasta sonur Jóhanns fræðaþuls og bókarhöfundar, heldur líka skilgetið afsprengi þess mannlífs, sem þar er lýst. Fáa veit ég hans líka um tryggð og ræktarsemi við átthagana. Enn færri, sem risu jafnvel undir sæmdarheitinu Vestfirðingur með stórum staf.
Sá sem leiddi okkur saman á vori lífsins var enginn annar en Lýður Jónsson, yfirvegavinnuverkstjóri Vestfjarða – höfði hærri en annar lýður og vörpulegur og aðsópsmikill eftir því. Við Árni vorum fylgdarsveinar Lýðs við vegamælingar í óbyggðum og á háheiðum Vestfjarða parta úr sumrum. Vegurinn yfir Steingrímsfjarðarheiði var lagður eftir vegstæðisvali Lýðs og hæðarmælingum okkar Árna. Þetta var í voraldarveröld íslenskra öræfa, þar sem sólin sest aldrei og dirrindí heiðlóunnar er það eina sem rýfur þögn náttúrunnar. Nema þegar Árni tók undir og söng heiðlóunni til samlætis með sinni vorbjörtu tenórrödd.
Ég hirði ekki um að tíunda æviferil Árna í smáatriðum. Aðrir munu væntanelega gera því verðug skil. Þess í stað vil ég mæra manninn sjálfan, eins og hann kom mér fyrir sjónir alla tíð frá æskuárum. Það fyrsta sem kemur upp í hugann, þegar hans er minnst, er lífsþorsti hans, smitandi glaðværð og dillandi hlátur þess manns, sem kunni vel að meta lífsins lystisemdir.
Og svo söngurinn. Þessi himneska tenórrödd, sem að sögn Fóstbræðra náði þvílíkum hæðum, að hún splundraði kristalnum í ljósakrónum í Kreml, þegar Fóstbræður tóku þar lagið – Hamraborgina undir hvolfþaki Kremlar. Þetta getur enginn hafa leikið eftir Árna, fyrr né síðar.
Árni lét víða að sér kveða sem verktaki, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Vestfjörðum. Þar skiptust á skin og skúrir eins og lífsins lögmál leggur á og mælir fyrir um þá menn, sem þora að lifa því. En hvort heldur var í meðbyr eða mótbyr stóð Árni ávallt keikur og tók því sem að höndum bar af karlmennsku og æðruleysi – óbugandi bjartsýnismaður sem hann var og hinn söngglaði hetjutenór tilverunnar til hinstu stundar.
Á vináttu okkur bar aldrei skugga, þótt liðu ár og dagar milli endurfunda. En það voru ævinlega fagnaðarfundir, þar sem gleðin var við völd. Nú, þegar hann hefur sungið sína seinustu aríu og yfirgefið sviðið, kveð ég hann með þakklæti, virðingu og söknuði.