Af gefnu tilefni: UM HENTISTEFNU OG HEIGULSHÁTT

Þegar ég sneri heim eftir að hafa orðið við kalli Landsbergis um að koma til Vilníus til að sýna samstöðu með Sajudis gegn sovéska hernámsliðinu, spurði Bryndís mig, hvernig Vilníus væri. Ég svaraði, að Vilníus væri eins og fegurðardrottning í tötrum. Þetta var í janúar 1991. Rakur vetrarkuldi nísti í merg og bein, borgin var grámygluleg og í niðurníðslu. Samt duldist mér ekki, að hún mátti muna sinn fífil fegri.

Síðan þá hef ég komið til Vilníus oftar en ég fæ tölu á komið. Ég hef m.a. s. búið þar um skeið sem gistiprófessor, nógu lengi til að kynnast blómlegu tónlistar- og listalífi borgarbúa. Borgin hefur tekið algerum stakkaskiptum frá því ég leit hana fyrst augum og fríkkar með ári hverju. Dagana 9.-13. mars vorum við Bryndís enn á ný í Vilníus, og í þetta skipti með Kolfinnu dóttur okkar. Við vorum gestir litháiska þingsins, Seimas, af því tilefni að aldarfjórðungur er liðinn frá því að Litháar lýstu yfir endurheimtu sjálfstæði, eftir að hafa mátt þola hernám og innlimun í Sovétríkin í næstum hálfa öld. Kolfinnu var boðið af því tilefni, að heimildarmynd hennar og Ólafs Rögnvaldssonar, „Þeir sem þora…“, um stuðning Íslands við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða, var forsýnd fyrir valinn hóp gesta í forsetahöllinni og síðan sýnd í ríkissjónvarpi Litháa í tilefni af aldarfjórðungsafmælinu.

Dagskrá þessara daga var þéttskipuð frá morgni til kvölds. Viðtöl í sjónvarpi, útvarpi og dagblöðum til þess að rifja upp háskaleg átök og tvísýnar stundir í sjálfstæðisbaráttunni og til þess að kynna heimildamyndina um hlut Íslands við að afla stuðnings á Vesturlöndum, þegar sá stuðningur lét á sér standa vegna annarlegra hagsmuna stórveldanna.

Maður heitir Emanuel Zingeris. Hann var frá upphafi í framvarðarsveit Sajudis, sjálfstæðishreyfingar Litháa, þingmaður, og þar til fyrir skemmstu, formaður utanríkismálanefndar Seimas. Hann og vinur okkar Ramunas Bogdanas voru þeir fyrstu, sem gerðir voru út af örkinni til að leita eftir stuðningi Íslands, þegar undirtektir hinna stærri ríkja reyndust torsóttar og tvílráðar, svo ekki sé meira sagt. Zingeris er nú í forsæti fyrir fjölþjóðlegri stofnun með höfuðstöðvar í Varsjá, sem nefnist Democratic Forum. Eitt helsta viðfangsefni hennar er að virkja þingmenn til stuðnings við lýðræðissinna í löndum, þar sem lýðræðið á í vök að verjast.

Þann 10. mars stóð Democratic Forum fyrir málþingi í Vilníus, þar sem helsta umræðuefnið var, hvað væri til ráða til stuðnings veikburða lýðræði og réttarríki í Úkraínu. Aðalræðumaður á þessari ráðstefnu átti að vera leiðtogi andófsaflanna gegn sívaxandi valdbeitingarstjórn Pútins í Rússlandi, Boris Nemtsov. Samkvæmt dagskránni áttum við að vera í panel á ráðstefnunni ásamt þremur öðrum gestum, þar á meðal frá Úkraínu. Af því varð ekki, af því að Nemtsov var myrtur á götu í Moskvu nokkrum dögum áður. Sæti hans stóð því autt við háborðið.

Til að minnast hins fallna baráttumanns fyrir frelsi og mannréttindum var sýnt myndband með ræðu hans um samskipti Rússlands og Úkraínu frá ráðstefnu , sem haldin var í Vilníus fyrir meira en ári. Það fór ekki milli mála, að þar talaði öflugur leiðtogi af miklu mannviti og þekkingu – og af aðdáunarverðu hugrekki. Það fór heldur ekki milli mála, eftir að hafa hlýtt á ræðu hans, að valdaklíkunni í Kreml gat stafað ógn af tilveru hans einni saman. Fréttir herma, að Pútin hafi þótt svo mikið við liggja að hylma yfir, hverjir morðingjarnir væru og hverjir stæðu að baki þeim, að hann skipaði sjálfan sig sem rannsóknardómara. Sá sem helst er grunaður um ódæðið, er þekktur verktaki Innanríkisráðuneytisins í Tsétsníu. Bandittinn sem þar ræður ríkjum var tilnefndur sem landstjóri af Pútin sjálfum og ber ábyrgð á blóðugri ógnarstjórn þar í samvinnu við rússnesku leyniþjónustuna. Hvarflar það að nokkrum manni – spurðu samstarfsmenn Nemtsovs, sem þátt tóku í ráðstefnunni – að leigumorðingjar af þessu tagi standi einir að verki? Trúi því hver sem vill.

Þann 11. mars var haldinn sérstakur hátíðarfundur í Seimas – þjóðþinginu – til að minnast þess, að þann dag var aldarfjórðungur liðinn frá því að Litháar lýstu yfir endurheimtu sjálfstæði. Fundurinn var ekki síst haldinn til að heiðra minningu þeirra, sem fórnað höfðu lífi sínu fyrir frelsi þjóðar sinnar; og til að þakka þeim, sem lagt höfðu þjóðinni lið, þegar mest á reið í tvísýnni baráttu. Eins og oft áður, af svipuðu tilefni, lögðu gestgjafarnir sig í framkróka við að sýna Íslandi sérstakan sóma – af sögulegum ástæðum. Þess vegna voru þarna saman komnir í heiðursstúku forseti Íslands, forseti Alþingis og utanríkisráðherra Íslands, ásamt fylgdarliði.

Forseti Íslands var einn fárra erlendra gesta, sem ávarpaði þingið. Í ljósi umræðunnar á Íslandi þessa dagana um meint viðræðuslit ríkisstjórnarinnar við Evrópusambandið, væri það ómaksins vert, ef íslenskir fjölmiðlar nenntu að gefa löndum vorum kost á að heyra, hvernig forsetinn talar í útlöndum – þegar landar hans heyra ekki til. Ekki síst með hliðsjón af margyfirlýstri andúð núverandi ríkisstjórnar og forsetans sjálfs á aðild Íslands að Evrópusambandinu. Skemmst er frá því að segja, að inntakið í ræðu forsetans var að bera lof á leiðtoga Litháa fyrir þá framsýni þeirra og raunsæi að hafa fest nýfengið sjálfstæði í sessi með inngöngu í Evrópusambandið og NATO. Við hliðina á forsetanum sat utanríkisráðherra Íslands, hljóðlátur, þá nýbúinn að senda Evrópusambandinu uppsagnarbréfið, þótt það hefði ekki enn ratað í fréttirnar.

Þetta vekur ekki bara upp spurningu um, hver sé talsmaður ríkisstjórnar Íslands í utanríkismálum – utanríkisráðherrann eða forsetinn? Sem kunnugt er, hefur forsetinn á stjórnmálaferli sínum, ekki síst sem formaður Alþýðubandalagsins sáluga, verið eindreginn andstæðingur varnarsamstarfs vestrænna lýðræðisríkja í NATO og , ef eitthvað er, ennþá harvítugri andstæðingur aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Í staðinn hefur forsetinn boðað af forsetastóli nánari samstöðu með Rússlandi og Kína (þetta hét útflutningsleiðin í gamla daga), enda, að sögn, góðvinur Pútins, Kremlarharðstjóra.

Þetta hefur hingað til verið utanríkisstefna forsetans, hvað sem líður utanríkisstefnu ríkisstjórna. Reyndar er sá misskilningur útbreiddur í útlöndum, að forseti Íslands sé ekki bara upp á punt, heldur sé hann í forsvari fyrir og helsti talsmaður stjórnvalda – enda hefur ekkert verið gert til að leiðrétta þennan misskilning. Svo versnar enn í því, þegar forsetinn talar þvert um hug sér á erlendum vettvangi, til að þóknast áheyrendum sínum, í trausti þess að þeir viti ekki betur. Og er þá orðinn bæði upptendraður Evrópusinni og NATO-áhangandi. Fremur ruglingslegt, ekki satt?

Þessu til viðbótar hafa ýmsir haft á orði, að í ávarpi sínu til Litháa forðaðist forsetinn eins og heitan eldinn að nefna nafn þess Íslendings, sem Litháar telja sig standa í mestri þakkarskuld við, fyrir að hafa rétt þeim hjálparhönd á neyðarstundu. Svo mjög, að forseti Litháen sá ástæðu til að forsýna heimildamynd um það efni í sjálfri forsetahöllinni fyrir forystulið í litháisku þjóðlífi. Þetta bendir til þess, að Ólafur Ragnar Grímsson sé maður lítt örlátur í garð pólitískra andstæðinga. Það segir kannski meira en mörg orð um manninn sjálfan.

Sýning heimildamyndarinnar „Þeir sem þora…“ í sjónvarpi í Litháen hefur vakið talsverðar umræður þar í landi og meðal annars rifjað upp, að á ögurstundu, þegar sovésk hernmámsyfirvöld höfðu ákveðið að brjóta sjálfstæðisbaráttu Litháa á bak aftur, stóð þjóðin ein og vinafá í baráttu upp á líf og dauða. Ástæðan var sú, að leiðtogar Vesturveldanna, Bush eldri, Bandaríkjaforseti, Kohl, Þýskalandskanslari o.fl. töldu, að ef Eystrasaltsþjóðirnar segðu sig úr lögum við Sovétríkin, mundi það verða Mikael Gorbasjev að pólitískum aldurtila. Þá myndu harðlínumennirnir í Kreml komast aftur til valda. Þar með gætu vonir manna um að binda endi á Kalda stríðið brostið. Það gæti jafnvel leitt til þess, að kalda stríðið breyttist í heitt stríð, ef Sovétríkin beittu valdi í Austur-Evrópu eins og í Búdapest 1956 og Prag 1968.

Þess vegna flutti Bush Bandaríkjaforseti ræðu í Kiev í febrúar 1990, þar sem hann skoraði á Úkraínumenn að halda Sovétríkjunum saman – í nafni stöðugleikans. Þessi ræða hefði hljómað sem höfug tónlist í eyrum Pútins í dag, en hann hefur, sem kunnugt er, lýst því yfir, að hrun Sovétríkjanna hafi verið „mesta sögulega stórslys“ 20stu aldar. Og þess vegna skrifuðu Kohl og Mitterand, Frakklandsforseti, sameiginlega bréf til Landsbergis, þáverandi forseta Seimas, með áskorun um að fresta gildistöku sjálfstæðisyfirlýsingarinnar og að semja þess í stað, án fyrirframskilmála, við Sovétríkin um aukna sjálfstjórn. Allt í nafni stöðugleikans. Stefna leiðtoga Vesturveldanna hafði m.ö.o. snúist upp í þá öfugmælavísu að halda Sovétríkjunum saman, hvað sem það kostaði – og jafnvel að fórna frelsi og mannréttindum Eystrasaltsbúa á altari stórveldahagsmuna.

Það var þá, þegar lýðræðislega kjörnir leiðtogar Eystrasaltsþjóða höfðu verið gerðir afturreka af ráðstefnum á Vesturlöndum um að binda endi á Kalda stríðið, og raddir þeirra voru þaggaðar niður, að þáverandi utanríkisráðherra Íslands léði þeim sína rödd á alþjóðavettvangi. Það er fyrir það, sem Eystrasaltsþjóðir, þá einar og yfirgefnar í hráskinnaleik stórveldanna, eru þakklátar Íslandi. Það er þess vegna sem forseti Íslands, ásamt utanríkisráðherra sínum, sat í heiðursstúku í Seimas. Öll er þessi saga rifjuð upp í heimildamyndinni, sem sýnd var í litháiska sjónvarpinu – þótt fulltrúi Íslands á hátíðarsamkomunni í Seimas virðist sem minnst vilja af henni vita. Löndum okkar mun hins vegar standa til boða að sjá þessa heimildamynd í Bíó Paradís á páskum – og ef til vill síðar í íslenska sjónvarpinu. Milliliðalaust.