DR. Arnór Hannibalsson

Fyrsta minning mín um elsta bróður minn er þar sem hann situr við eldhúsborðið, einbeittur á svip og reynir að fanga blæbrigði birtu og skugga á hvíta örk. Ég vissi ekki fyrr en seinna, að þessi bráðþroska drengur var þegar á tíunda árinu í fjarnámi við danskan myndlistarskóla. Ísafjörður var (og er) menningarbær.

Meðan aðrir strákar á hans reki eltust við tuðru út um víðan völl, kenndi hann sjálfum sér esperanto. Hugsjónin um sameiginlegt tungumál jarðarbúa, tæki til að eyða fáfræði og fordómum,hafði fangað hug hans. Um fermingaraldur var hann farinn að skrifast á við lærða menn í útlöndum á þessu tungumáli um stríð og frið.

Á menntaskólaárum mátti hann af ýmsum ástæðum vart vera að því að sitja á skólabekk. Hann varð hugfanginn af nýju alþjóðatungumáli – tónlistinni. Hann leigði herbergi í Vesturbænum með aðgangi að flygli. Þangað fór ég á hjólinu mínu með hans daglega skammt af hollustufæði frá móður okkar handa meinlætamanninum. Út um gluggann barst endurómur af hugarafli Beethovens og Chopins. Þar kviknaði ást hans á pólskri tungu.

Ég færði honum líka vikuskammtinn af Prövdu. Hann hafði það þá fyrir satt, eftir sjálfum Laxness og fleiri snillingum, að austur á Volgubökkum væri rísandi nýtt mannfélag, þar sem arðrán manns á manni væri afnumið. Hann ætlaði ekki að láta það ævintýri fram hjá sér fara. Og kenndi sjálfum sér rússnesku með því að lesa Prövdu.

Moskvudvölin 1954-59 mótaði Arnór fyrir lífstíð. Það tók hann ekki mikið meira en árið að sjá í gegnum lygina. Hann átti bágt með að fyrirgefa (sér?), að hann hefði látið blekkjast. En „vann það ei fyrir vinskap manns, að víkja af götu sannleikans“. Aldrei. Andlegur óheiðarleiki og heigulsháttur var alla tíð eitur í hans beinum. Þar með lenti hann upp á kant við fyrri lærimeistara og félaga. Lét þá hafa það óþvegið. Og fékk sinn skammt til baka, ómældan.

Heimkominn, eftir framhaldsnám í Varsjá, Kraká, Fribourg og Edinborg, minni gömlu alma mater, þar sem hann lauk doktorsprófi, gerðist hann ritstjóri, kennari, safnvörður og sálgæslumaður. En æskuástin, heimspekin, átti hug hans allan. Allt hitt flokkaðist bara undir brauðstritið. Seinustu áratugina naut hann þess að kenna heimspeki ungu fólki við háskóla heima og heiman. Hvað er þekking en ekki blekking? Eða eins og þar stendur:

Vond er bannsett blekkingin, blindar á lífsins kjalveg;
Þó er verst ef þekkingin þjónar henni alveg.

Bróðir minn leit fyrst ljós heimsins við Djúp vestur. Þar óx hann úr grasi undir verndarvæng Guðríðar ömmu okkar á Strandseljum, undir myndinni af Þóru langömmu. Þaðan er Þóru nafnið komið. Mynd hennar var líka á hans vegg. Innst inni var þessi víðförli heimsborgari bundinn átthögum sínum við Djúp órjúfandi tryggðarböndum. Þar sem hann fyrst leit ljós heimsins, með útsýn til Kaldalóns og Snæfjallastrandar, þar vill hann bera beinin. In situ cunarum, requiescere volo – þar sem vagga mín var, vil ég njóta hinstu hvíldar.

Hvíli hann í friði.