Hörður Zóphaníasson

Í marsmánuði á næsta ári munu íslenskir jafnaðarmenn minnast þess, að heil öld er þá liðin frá stofnun Alþýðuflokksins og Alþýðusambands Íslands, baráttusamtaka fátæks fólks, sem hafði að leiðarljósi að breyta þjóðfélaginu. Þeir sem þekkja þessa sögu, vita, að höfuðvígi jafnaðarmanna á Íslandi, var að finna á Ísafirði og í Hafnarfirði.

Ég held það sé á engan hallað, þegar ég segi, að Hörður Zóphaníasson þekkti sögu þeirra Hafnarfjarðarkrata manna best. Hörður var vel menntaður kennari og uppeldisfrömuður og hafði stundað framhaldsnám við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn. Uppeldi æskulýðsins var í hans huga hluti af mannrækt jafnaðarmannsins. Þeir sem nutu handleiðslu hans á æskuárum, bera því vitni, að öllum kom hann til nokkurs þroska.

Hörður var jafnaðarmaður og verkalýðssinni eins og þeir gerðust bestir á hans tíð. Nú, þegar þjóðfélagið er að leysast upp í verkfallsátökum, er hollt að rifja upp, hvernig verkaskiptingu var háttað milli stéttarfélaga, og fulltrúa okkar í sveitarstjórnum og á Alþingi. Stéttarfélögin sömdu við atvinnurekendur um kaup og kjör. Vissulega þurfti oft að beita verkfallsvopninu til að sækja réttmætan hlut vinnandi fólks af þeim arði, sem vinnan skapar. Ef einkaframtakið brást, sýndu bæði Hafnarfjarðar- og Ísafjarðarkratar, að þeir voru fullfærir um að stýra öflugum fyrirtækjum á vegum sveitarfélaganna til að halda uppi atvinnu og tryggja afkomu aþýðuheimilanna.

Á Alþingi unnust svo stóru málin: almannatryggingar, sjúkratryggingar, atvinnuleysistryggingar, skylduaðild að lífeyrissjóðum, jafnrétti til náms, jafnrétti kynjanna til náms og starfa o.s.frv. Og stundum, þegar atvinnurekendum og verkalýðshreyfingu var um megn að ná sameiginlegri niðurstöðu við samningaborðið, kom til atbeini ríkisvaldsins, löggjafans og sveitarstjórna, til að jafna kjör eða finna praktískar lausnir á félagslegum vandamálum. Það er þetta sem nú hefur brugðist.

Mörg undanfarin ár hefur hallað á vinnandi fólk, þegar kemur að skiptingu þjóðarteknanna. Auðurinn hefur verið að safnast á æ færri hendur. Ríkisvaldinu hefur verið misbeitt í þágu hinna ríku. Nú finnum við sárlega fyrir því, að samstarf verkalýðshreyfingar og hins pólitíska arms hennar, flokks jafnaðarmanna, er ekki lengur til staðar í okkar þjóðfélagi. Þess gjöldum við nú öll.

Þetta er eitt af því, sem læra má af hundrað ára sögu hreyfingar jafnaðarmanna á Íslandi. Hörður þekkti þessa sögu í þaula. Hann hafði bæði lifað hana og skrifað hana. Hann skrifaði hundrað ára sögu Verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði, ásamt með tengdaföður sínum, Ólafi Þ. Kristjánssyni. Hörður skrifaði líka sögu Hafnarfjarðar í þremur bindum og útbjó kennsluefni úr þeirri sögu. Sjálfur þekkti hann þessa sögu af eigin reynslu sem bæjarfulltrúi okkar í fjögur kjörtímabil og stjórnarmaður í félögum samvinnumanna, eins og Kaupfélagi Hafnfirðinga.

En Hörður var ekki bara allt þetta. Hann var bæði snjall hagyrðingur og skáld gott, eins og ljóðabækur hans: „Vísnagaman og vinamál“ og „Hugsað í hendingum“ bera vott um. Sem slíkur naut hann sín manna best sem hrókur alls fagnaðar á mannfundum og gleðistundum okkar jafnaðarmanna. Við minnumst þeirra gleðistunda með eftirsjá og þakklæti.

Við Bryndís sendum Ásthildi, börnum þeirra og afkomendum öllum, sem og vinum og félögum meðal Hafnafjarðarkrata, einlægar samúðarkveðjur.