Nýlega birti Stefán Ólafsson niðurstöður úr tveimur alþjóðlegum skýrslum um auðlegð þjóða (önnur frá Credit Suisse en hin frá Alþjóðabankanum). Niðurstaðan: Auðlegð Íslendinga per haus er með því mesta, sem þekkist í heiminum. Við og Norðmenn erum ríkastir norrænna þjóða. Lífeyriseignir Íslendinga (150% af árlegri landsframleiðslu) slaga hátt upp í norska olíusjóðinn. Eignir íslensku þjóðarinnar í fiskimiðum og orkulindum þýða, að Íslendingar eru í reynd ein af alríkustu þjóðum jarðar. Gallinn er bara sá, að eigandi þessara auðlinda er með stjórnvaldsákvörðunum sviptur arði af eignum sínum. Að hluta til rennur hann úr landi (arðurinn af orkulindunum). Að hluta rennur arðurinn til fámenns hóps fjármagnseigenda (kvótahafa), sem í krafti auðs er að sölsa undir sig sívaxandi hluta þjóðareigna.
Á sama tíma duga lágmarkslaun ekki til framfærslu og ungu kynslóðinni er úthýst – hún getur hvorki leigt né keypt. Þetta er vandinn í hnotskurn. Um þetta á pólitíkin að snúast. Erindisbréf jafnaðarmanna, eins og ég kalla það, er að leiðrétta þessa misskiptingu. „Leiðrétting Framsóknarmanna“, eitt stórfenglegasta kosningablöff allra tíma, var pólitísk sjónhverfing en efnislega ómarktækt fúsk. Aðalatriðin í lausnamiðaðri pólitík eiga meðal annars að snúast um eftirfarandi: Auðlindagjöld fyrir einkaleyfi til nýtingar á auðlindum; „windfall gain tax“ (stórgróðaskattur) á fjármálakerfi (banka og aðrar fjármálastofnanir), sem vegna verðtryggingar njóta áhættulausrar gróðamyndunar í skjóli ríkisins; umtalsverð hækkun lágmarkslauna; ný „Breiðholtsáætlun“ við að leysa húsnæðisvandann, þ.m.t. með massívu átaki til að koma upp leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum.
Hvar er nú að finna Alþýðuflokkinn og verkalýðshreyfinguna?