Sp. Þegar leið á níunda áratug seinustu aldar – og boðaðar umbætur Gorbachevs létu á sér standa – fóru Eystrasaltsþjóðirnar í vaxandi mæli að hrista hlekkina. Við vildum endurheimta fyrra sjálfstæði. Þú varst utanríkisráðherra Íslands á þessum tíma (1988-95) og sem slíkur meðlimur í ráðherraráði NATO. Hvernig var sjálfstæðisbaráttu okkar tekið á Vesturlöndum á þessum tíma?
Sv: Fálega – svo ekki sé meira sagt. Talsmönnum ykkar var úthýst af ráðstefnum um endalok Kalda stríðsins. Í einkasamtölum voru þeir snupraðir – varaðir við að spilla sambúðinni við Sovétríkin og hvattir til að semja við þau um aukna heimastjórn. Þetta var þvert á væntingar leiðtoga sjálfstæðishreyfinganna í þessum löndum. Eðlilega. Þeir bjuggust við því, að þeim yrði tekið opnum örmum. En það var nú öðru nær. Hvers vegna? Það var vegna þess að endurheimt sjálfstæði ykkar þýddi, að þið segðuð skilið við Sovétríkin. Engu breytti, þótt þið segðuð sem satt var, að þjóðir ykkar hefðu aldrei gengið sjálfviljugar í Sovétríkin. Þið hefðuð verið þvinguð inn og innlimuð með hernámi og hervaldi. Hvað sem því líður, hefði endurreist sjálfstæði ykkar árið 1990 þýtt útgöngu úr Sovétríkjunum.
Leiðtogar Vesturlanda – Bush eldri, Kohl kanslari, járnlafðin Thatcher og m.a.s. gáfnaljósið Mitterand voru öll sammála um, að það mætti ekki gerast. Hvers vegna ekki? Vegna þess að þá yrði Gorbachev sennilega steypt af stóli; harðlínumennirnir (lærisveinar Stalíns) mundu þá aftur ná völdum til að hindra, að Sovétríkin liðuðust í sundur. Kalda stríðið hæfist á ný og – í versta tilviki – myndu vopnuð átök brjótast út, til að hindra, að þjóðir Mið- og Austur-Evrópu gætu losnað undan oki Sovétríkjanna. Þetta var orðið spurning um stríð eða frið.
Leiðtogar sjálfstæðishreyfinga ykkar voru spurðir, hvort þeir ætluðu að bera ábyrgð á því, að allt færi aftur í bál og brand? Ætluðu þeir að gerast friðarspillar? Þeim var tekið eins og óvelkomnum boðflennum í bræðralagi stórveldanna, þar sem verið var að semja um endalok kalda stríðsins. Og reyndar um lyktir seinni heimstyrjaldar í þessum heimshluta.
Leiðtogar Vesturvaldanna höfðu reyndar rétt fyrir sér í einu. Það var mikið í húfi: Afvopnunarsamningar – bæði um kjarnavopn og venjuleg vopn; frelsun Austur-Evrópu; friðsamleg sameining Þýskalands – og samþykki Gorbachevs við því, að sameinað Þýskaland yrði áfram í NATO; niðurskurður herja og heimkvaðning hernámsliða í Austur-Evrópu; endalok kalda stríðsins; bætt sambúð stórvelda. Ný heimsmynd. Hvorki meira né minna.
Sp. Voru leiðtogar lýðræðisríkjanna virkilega svo kaldrifjaðir, að þeir vildu fórna draumum okkar um sjálfstæði fyrir friðarsamninga við Sovétríkin?
Sv.: Ég er ekki viss um, að í huga margra þeirra hafi þetta verið talin vera mikil fórn. Eftir hálfa öld í þjóðafangelsi Sovétsins voru Eystrasaltsþjóðirnar „gleymdar“ þjóðir. Þið voruð horfin af radarskjá samtíma stjórnmála. Kohl og Mitterand skrifuðu Landsbergis, leiðtoga sjálfstæðishreyfingar Litáa, og skoruðu á hann að fresta framkvæmd sjálfstæðisyfirlýsingarinnar (frá 11. mars, 1990). Í staðinn ætti hann að semja um áframhaldandi sambúð við Sovétríkin, án fyrirfram skilyrða.
Og Bush, Bandaríkjaforseti, heimsótti Kyiv, höfuðborg Úkraínu í febrúar 1990. Þar flutti hann ræðu – reyndar á sjálfu frelsistorginu, Maidan – ræðu, sem síðan hefur orðið fræg að endemum. Hún er kölluð „the chicken speech“. Þar skoraði hann á Úkraínumenn að hafna „öfgafullri þjóðernishyggju“. Hann hvatti þá til að halda Sovétríkjunum saman – allt í nafni friðar og stöðugleika. Þessi ræða hefði hljómað eins og tónlist í eyrum manns, sem heitir Vladimir Putin, hefði hún verið flutt í dag. Það er skiljanlegt út frá bæjardyrum liðsforingja í sovésku leyniþjónustunni. En sem stefnuyfirlýsing af vörum leiðtoga lýðræðisríkja Vesturlanda voru þetta pólitísk öfugmæli.
Leiðtogar Vesturlanda höfðu bundið vonir sínar um endalok kalda stríðsins við pólitísk örlög eins manns. Sá hét Mikhail Sergeyvich Gorbachev. Ekkert mætti segja eða gera, sem gæti stofnað völdum hans í Kreml í hættu. Þetta er skýringin á því, hvers vegna leiðtogum sjálfstæðishreyfinga Eystrasaltsþjóða var fálega tekið, þegar þeir leituðu eftir stuðningi í vestri, hjá NATO og víðar.
Sp. Voru þetta ríkjandi viðhorf hjá leiðtogum Vesturveldanna?
Sv: Tvímælalaust. Sérstaklega var það svo í Þýskalandi. Þar ríkti sannkölluð „Gorbamanía“. Þjóðverjar litu svo á, að friðsamleg sameining Þýskalands og áframhaldandi vera sameinaðs Þýskalands í NATO, væri hvort tveggja undir Gorbachev komið. Þeir greiddu fúlgur fjár í tóman ríkissjóð Rússa til að greiða fyrir sameiningu Þýskalands og heimkvaðningu hernámsliðs Rússa. Vinsældir Gorbachevs í Þýskalandi voru slíkar, að skv. skoðanakönnunum hefði hann hlotið meirihlutafylgi sem kanslari Þýskalands, hefði hann boðið sig fram. Ætluðu svo einhverjir nafnlausir uppreisnarmenn á jaðri Sovétríkjanna að spilla þessum stórkostlega árangri? Og hugsanlega hleypa öllu í bál og brand? Hvílík ósvífni!
Þetta gefur tilefni til að segja fáein orð um arfleifð Gorbachevs og sess hans í sögunni. Hann á að njóta sannmælis. Það verður aldrei frá honum tekið, að ákvörðun hans um að beita ekki hervaldi til að viðhalda sovéskum yfirráðum í leppríkjunum í Mið- og Austur-Evrópu (eins og bæði Nikita Kruschev og Leonid Brésnev höfðu gert í Búdapest 1956 og Prag 1968) gerði friðsamleg endalok kalda stríðsins möguleg. Gorbachev er því friðarhöfðingi. Fyrir vikið var hann því vel kominn að friðarverðlaunum Nóbels. En í janúar 1991 var hann kominn á fremsta hlunn með að drekkja sjálfstæðishreyfingu Eystrasaltsþjóða í blóðbaði. Á seinustu stundu sá hann að sér, lét undan síga – í nafni friðarins. Fyrir það ber að þakka og meta að verðleikum.
Þetta er hins vegar ástæðan fyrir því, að friðarins maður, Mikhail Gorbachev – vegsamaður sem hann var og er á Vesturlöndum – er hataður og fyrirlitinn í heimalandi sínu, Rússlandi. Í augum Rússa, sem margir deila stórveldisdraumum Putins, er Gorbachev nánast landráðamaður. Hann er maðurinn, sem glutraði niður stórfenglegum landvinningum Rússa í föðurlandsstríðinu mikla – eins og þeir nefna seinni heimstyrjöldina. Hann er maðurinn sem hreyfði hvorki legg né lið til að hindra upplausn og fall Sovétríkjanna. Stalín var að vísu harðstjóri, en hann gerði Sovétríkin að heimsveldi. Gorbachev kann að vera mætur maður, en mikilmenni – það er hann ekki.
Sp. Hver verður að þínu mati dómur Gorbachevs í sögunni?
Sv. Þessi spurning gefur tilefni til að bera saman hlut tveggja einstaklinga í sögu þessara tíma – einstaklinga, sem stóðu, þrátt fyrir allt, í svipuðum sporum. Þeir tóku við völdum í kommúniskum alræðisríkjum, sem áttu að baki blóðuga harðstjórn, en voru efnahagslega nánast í rúst. Þetta voru arftaki Maós í Kína, Deng Xiao Peng, og Gorbachev, arftaki harðstjórans, Stalíns.
Gorbachev boðaði opnun (glasnost) og kerfisbreytingu (perestroika). Hann stefndi að lýðræðislegum umbótum og auknu tjáningarfrelsi. Það átti að koma fyrst og leiða til kerfisbreytingar. Honum láðist hins vegar að setja fram vandlega hugsaða og undirbúna umbótaáætlun. Er hægt að „reformera“ kommúnískt alræðiskerfi og miðstýrt efnahagsbákn? Það kom á daginn, að Gorbachev hafði ekki grænan grun um, hvernig ætti að fara að því. Í staðinn fyrir umbætur upplifðu Rússar pólitíska upplausn, efnahagslegt hrun, skort, fátækt og niðurlægingu. Þetta er arfleifð friðarhöfðingjans heima fyrir.
Deng Xiao Peng var orðinn vitrari af langri lífsreynslu. Hann byrjaði á umbótum heima fyrir, fyrst í landbúnaði, svo með opnun landsins fyrir erlendar fjárfestingar og innflutta tækni. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Stórkostlegasta efnahagsbylting allra tíma, sem hefur lyft lífskjörum hundruða milljóna Kínverja frá örbirgð til bjargálna á undraskömmum tíma. Stjórnarfarsbreytingar í lýðræðisátt munu koma í fyllingu tímans. Reynslan sýnir, að Deng hafði rétt fyrir sér. Gorbachev brast hins vegar djúpan skilning á gangvirki efnahagslífsins. Hann skildi þjóð sína eftir með tóman disk.
Sp. En aftur að afstöðu leiðtoga Vesturveldanna til sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða. Hvers vegna þetta ginnungagap milli hátíðarræðunnar um lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt þjóða og raunveruleikans, ef veruleikinn er allur annar í bakherbergjum valdsins?
Sv: Ég tel mig hafa gefið fullnægjandi skýringar á því. Útganga Eystrasaltsþjóða úr sovéska nýlenduveldinu var talin geta valdið því, að Gorbachev yrði steypt af stóli og í staðinn kæmust harðlínumenn til valda. Þar með væri allt tapað, sem lok kalda stríðsins gæti fært viðkomandi þjóðum í hreinan ávinning: frelsun Austur-Evrópu, sameining Þýskalands, afvopnunarsamningar o.s. frv.
Höfum hugfast, að sagan kennir okkur, að stórveldum – gömlum nýlenduveldum – er flest annað hugstæðara en sjálfstæði smáþjóða. Hugsið augnablik um bresku, frönsku og spænsku nýlenduveldin. Hugsið um samskipti Englendinga við Íra, Skota og Walesbúa. Hvað er að gerast í dag? Örvæntingarfull tilraun til þess að halda sambandsríkinu – the United Kingdom – saman.
Stórveldi, sem eiga við að stríða innri veikleika af þessu tagi, verða seint í framvarðarsveitinni, þar sem barist er fyrir sjálfstæði smáþjóða. Þegar ég var að tala máli ykkar við starfsbræður mína, utanríkisráðherra annarra smáþjóða í Evrópu, voru undirtektir daufari en ætla mætti, vegna þess að þekkingin á sögu ykkar var týnd. Mér er minnisstætt, að einn starfsbróðir minn svaraði málaleitunum mínum um stuðning með því að segja: Hvers vegna ert þú alltaf að tala um sjálfstæðisrétt þessara þjóða? Hafa þær ekki tilheyrt Rússlandi í reynd um aldir? Hafi þetta verið ríkjandi viðhorf víðar í kanselíum Evrópu, er ekki víst, að menn þar hafi litið svo á, að verið væri að fórna sjálfstæði smáþjóða fyrir ávinning friðarferlisins.
Þegar svo var komið, að yfirlýst stefna forystumanna lýðræðisríkja á Vesturlöndum við lok kalda stríðsins var orðin sú, í orði og á borði, að það yrði að halda Sovétríkjunum saman, hvað sem það kostaði – í nafni friðar og stöðugleika – þá mátti hugsandi mönnum ljóst vera, að eitthvað hafði farið úrskeiðis. Það var eitthvað mikið að. Það sem var að, var kolröng greining á pólitískum og efnahagslegum lífslíkum Sovétríkjanna við óbreytt ástand. Þrátt fyrir háfleygar yfirlýsingar bólaði hvergi á efndum um umbætur innanlands. Efnahgskerfið var í lamasessi. Það skilaði ekki vörunum.
Ginnungagapið milli sjálfsupphafningaráróðurs sovéska valdakerfisins og veruleikans, eins og hann blasti við venjulegum borgurum, var orðið of breytt til að það yrði brúað. Sovétríkin voru í tilvistarkreppu. Það var út í hött af leiðtogum Vesturlanda að binda öll sín trúss við pólitísk örlög eins manns. Það var ekkert sjálfgefið, að harðlínumenn kæmu til baka, þótt Gorbachev missti völdin. Þetta var allt vanhugsað . Forsendurnar voru rangar og kúrsinn vitlaus.
Sp. Hvaðan kom þér, utanríkisráðherra smáþjóðar, sjálfstraust til að þykjast vera þess umkominn að vita meira um sundurvirkni og innri erfiðleika Sovétríkjanna en leiðtogar stórveldanna með alla sína sérfræðinga sér að baki?
Sv: Það er kannski ekki eins fjarstæðukennt og það kann að þykja við fyrstu sýn. Þetta er nokkuð, sem þið rekið ykkur á hvað eftir annað, þegar að því kemur að bregðast við áreiti Rússa eða móta stefnu um, hvernig eigi að haga samskiptum við þá. Það eruð þið, sem eruð sérfræðingarnir á þessu sviði – en hvorki Bandaríkjamenn, Bretar eða Frakkar. Þið búið að reynslunni. Þið talið tungumál Rússa. Þið hafið þurft að fást við þá í blíðu og stríðu. Þið skiljið þá. Venjulegir pólitíkusar á Vesturlöndum skilja hins vegar venjulega hvorki upp né niður í Rússum. Hvað sagði ekki Churchill: „Russia is an enigma shrouded in mystery“ – Rússland er ráðgáta, umvafin dulúð.
Það vill svo til, að ég er af þriðju kynslóð sósíaldemokratískra stjórnmálamanna á Íslandi. Í æsku minni var ég um skeið hallur undir marxisma. Tveir bræðra minna stunduðu nám í Austur-Evrópu. Elsti bróðir minn var sennilega fyrsti maður af Vesturlöndum eftir stríð til að útskrifast frá Moskvuháskóla. Hann stundaði framhaldsnám í Varsjá og Kraká. Á námsárunum eignuðust þeir vini meðal andófsmanna í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu og héldu tengslum við þá.
Þótt ég stundaði ekki nám í Austur-Evrópu, er stór hluti af bókasafninu mínu um rannsóknir á Sovétinu. Allir urðum við svarnir andstæðingar kommúnista og Sovétkerfisins. Sjálfur var ég Fulbright-styrkþegi við Harvard um skeið, þar sem rannsóknarverkefni mitt var samanburður hagkerfa. Ég bar saman gangvirki og árangur bandaríska módelsins, Sovétkerfisins og norræna módelsins, sem smám saman er að verða Evrópumódelið. Ég komst að þeirri niðurstöðu, að sovéska hagkerfið væri í lamasessi. Það skilaði ekki vörunum. Það gæti ekki að óbreyttu fullnægt þörfum almennings. Drifkrafturinn væri brostinn. Það vantaði alla dínamík tækniframfaranna. Í staðinn kæmi eftiröpun eftir dúk og disk. Sovétríkin væru að dragast aftur úr. Stjórnmálakerfið væri rotið af spillingu. Valdaklíkan sjálf – nomenklatúran – hefði ekki lengur trú á samkeppnishæfni og framtíð kerfisins.
Sovétkerfið væru í djúpri tilvistarkreppu, sem valhafarnir sjálfir kynnu engin ráð til að leysa. Nýlenduveldi þeirra væri í þann veginn að gliðna í sundur, eins og hefði verið hlutskipti nýlenduvelda Breta og Frakka upp úr seinni heimstyrjöld. Öfugt við Putin taldi ég, að hrun Sovétríkjanna, sem væri framundan, teldist vera með því jákvæðasta, sem gæti gerst á 20stu öldinni. Mér fannst það því beinlínis sárgrætilegt að horfa upp á leiðtoga lýðræðisríkja Vesturlanda boða það sem stefnu sína að halda bæri hinu rússneska nýlenduveldi saman, hvað sem það kostaði – í nafni friðar og stöðugleika. Þetta hljómaði í mínum eyrum sem hrein öfugmæli. Ég heyrði aldrei sannfærandi rök fyrir því, hvernig þessi stefna gæti verið í þágu lýðræðis og mannréttinda.
Sp. Í janúar 1991 kom til blóðugra átaka við Eystrasalt. Gorbachev taldi sig tilneyddan að beita hervaldi til að koma í veg fyrir að Eystrasaltsþjóðir segðu skilið við Sovétríkin. Þú varst eini utanríkisráðherrann frá Vesturlöndum, sem mættir á staðinn: Kom til greina, að Vesturlönd skærust í leikinn með hervaldi?
Sv: Það er rétt. Ég var eini utanríkisráðherrann frá NATO-ríki, sem hlýddi kalli Landsbergis um að mæta á staðinn og sýna samstöðu í verki. Ég heimsótti í þessari ferð höfuðborgirnar þrjár, Vilnius, Riga og Tallinn. Gleymum ekki því, að það var sovéskt setulið í öllum löndunum þremur. Aðferðarfræðin að baki valdbeitingunni var áþekk því, sem við upplifum nú í austurhéruðum Úkraínu. Það átti að efna til árekstra milli þjóðernisminnihluta til að réttlæta sovéska íhlutun. Síðan átti að lýsa yfir neyðarástandi, reka ríkisstjórnir og þjóðþing heim og gera það sem þyrfti til að koma aftur á lögum og reglu. Þetta hljómar allt saman kunnuglega.
Af hverju gugnuðu þeir á seinustu stundu? Skriðdrekarnir voru farnir af stað. Sérsveitir höfðu tekið hernaðarlega mikilvæga staði, eins og ráðuneytisbyggingar og sjónvarpsstöðvar. Ég var ekki í nokkrum vafa um, hvers vegna þeir gáfust upp á seinustu stundu. Viðbrögð almennings, órifa samstaða óvopnaðs fólks frammi fyrir byssukjöftum skriðdrekanna var slík, að ef þeir hefðu látið til skarar skríða, hefði þarna orðið ólýsanlegt blóðbað. Það var meira en friðarverðlaunahafi Nóbels í Kreml, Mikhail Gorbachev, gat fengið sig til að bera ábyrgð á. Þar með hefði allt, sem hann hafði fram að þeirri stundu boðað í breytingaátt, verið fyrir bý. Þar með bjargaði Mikhail Gorbachev ærunni og orðstír sínum sem friðarhöfðingja. En á sömu stundu voru dagar Sovétríkjanna taldir. Ef viljinn til valdbeitingar er þrotinn, þá er komið að endalokum lögregluríkisins. Eins og kom á daginn. Það var ekki hægt að halda Sovétríkjunum saman nema með valdbeitingu.
Sp. En hefðu Vesturveldin skorist í leikinn, ef Sovétríkin hefðu beitt hervaldi af fullum þunga?
Sv: Þau gerðu það ekki í Búdapest 1956. Þau gerðu það ekki í Prag 1968. Enginn af leiðtogum ykkar, sem þá stóðu í eldlínunni, gældi við þá sjálfsblekkingu, að Vesturveldin myndu senda her á vettvang til Eystrasalts 1991. Og nú vill svo vel til, að við höfum svarið frá fyrstu hendi. Í heimildamyndinni „Þeir sem þora…“ ,sem verið er að sýna í Eystrasaltsríkjunum á þessu ári, er viðtal við James Baker, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og helsta ráðgjafa Bush á þeim tíma. Þar segir Baker, í svari við gagnrýnum spurningum um afstöðu Bandaríkjastjórnar, að bandarísk stjórnvöld hafi aldrei viðurkennt innlimun Eystrasaltsþjóða í Sovétríkin. Þau hafi því alla tíð stutt áframhaldandi sjálfstæði þessara þjóða. En hafi menn staðið í þeirri trú, að sá stuðningur gæti birst í hernaðaríhlutun, þá væri það með öllu fráleitt. Stuðningur Bandaríkjanna væri á bak við tjöldin með því að beita áhrifum sínum til að afstýra blóðugum átökum.
Mörgum árum síðar, eftir að Sovétríkin voru liðin undir lok (að mig minnir árið 2005) var efnt til fjölþjóðlegrar ráðstefnu í Riga um efnið: „Hin friðsamlega leið Eystrasaltsþjóða til endurreists sjálfstæðis – viðbrögð Vesturlanda“. Ég var þar á meðal ræðumanna. Á þessari ráðstefnu heyrði ég það í fyrsta sinn, m.a. af vörum Landsbergis, að háttsettir bandarískir stjórnarerindrekar fullyrtu, að þótt Bandaríkin hafi ekki getað beitt sér opinberlega til stuðnings við jálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða, vegna annarra hagsmuna, þá hefðu þau gert það í reynd með því að láta skjólstæðingsríki sitt, Ísland, beita sér þar í fremstu víglínu. M.ö.o., Ísland á að hafa verið eins og hvert annað peð í tafli stórveldanna. Mér er sagt, að þetta sé enn viðkvæðið hjá bandarískum stjórnarerindrekum, þegar þessi saga er rifjuð upp. Verst, að þessi fjarstýring bandarískra stjórnvalda á handbendi sínu skuli alveg hafa farið fram hjá mér.
Sp. Eftir stendur spurningin um það, hvers vegna utanríkisráðherra Íslands, sem átti engra hagsmuna að gæta á svæðinu, en var hins vegar háð Sovétríkjunum í utanríkisverslun sinni, beitti sér með svo afdráttarlausum hætti gegn stefnu stórveldanna til stuðnings sjálfstæðisbaráttu smáþjóðanna við Eystrasalt? Og gekk þar með fram fyrir skjöldu grannþjóða, sem hefði e.t.v. staðið nær að taka frumkvæðið.
Sv: Ég hef þegar sagt þér, hversu fráleitt mér þótti, að Vesturveldin gerðu það að stefnu sinni að halda bæri Sovétríkjunum saman, hvað sem það kostaði – í nafni friðar og stöðugleika. Ég kallaði það öfugmæli. Greining mín á stöðu mála innan Sovétríkjanna leiddi til annarrar niðurstöðu en þeirrar, að selja ætti Gorbachev sjálfdæmi um örlög Eystrasaltsþjóða. Mér fannst einfaldlega, að leiðtogar Vesturveldanna færu villur vegar í þessu máli. Ef þú ert sannfærður um, að þú hafir rétt fyrir þér – og það er mikið í húfi – hvers vegna þá ekki að fylgja eftir sannfæringu sinni?
Ég hef aldrei þjáðst alvarlega af minnimáttarkennd fyrir þær sakir einar að vera fulltrúi smáþjóðar. Ég hef á mínum pólitíska ferli verið í návígi við ýmsa leiðtoga svokallaðra stórþjóða, sem bættu ekki alin við hæð sína fyrir þær sakir einar. Það eru líka ýmis dæmi um, að smáþjóðir geti hugsað stórt. Ég ætla að nefna þér eitt dæmi um það.
Á seinni hluta 20stu aldar stóðu strandríki heimsins – yfirleitt smáþjóðir úr alfararleið – frammi fyrir því, að ríkjandi frelsi á úthöfunum ógnaði framtíð fiskveiða og varðveislu sjávarauðlinda. Kjörorðið um frelsi úthafanna var venjuhelgað af hagsmunum nýlendu- og flotavelda. Það var grundvallarregla til að tryggja för herskipa um úthöfin og auðvelda þeim íhlutun í öðrum heimshlutum. Þriggja mílna lögsaga strandríkja helgaðist af langdrægni breskra fallbyssubáta. Þetta varð smám saman að viðtekinni reglu í alþjóðasamskiptum, helgað af „gun-boat-diplomacy“. Bretar kölluðu þetta alþjóðalög.
Með iðn- og tæknibyltingu seinni tíma hafa úthafsveiðiflotar stækkað og veiðigetan margfaldast. Margir fiskistofnar eru í útrýmingarhættu. Höfin eru í vaxandi mæli að verða sorphaugar ofneysluþjóðfélaga með ófyrirsjáanlegum skaða fyrir lífríki jarðarinnar. Vaxandi vitund um nauðsyn verndunar náttúruauðlinda studdi mjög kröfur strandríkja um úfærslu auðlindalögsögunnar.
Um leið og strandríkin fá aukinn rétt til að nýta auðlindir í lögsögu sinni, hafa þau beinna hagsmuna að gæta að vernda auðlindina sjálfa. Þau hafa t.d. hvata til að stunda vistvænar veiðar. Þetta styðst líka við það, sem kennt hefur verið við „harmleik almenninganna“ (the tragedy of the Commons). Sú reynsla kennir okkur, að ef aðgangur að auðlind er öllum opinn, og enginn er í krafti eignarréttar ábyrgur fyrir verndun og viðhaldi, þá muni sókn halda áfram, þar til auðlindin er á þrotum. Þannig bera allir skaða af. Þetta er það sem er að gerist á úthöfunum, og þau eru hvorki meira né minna en þrír fjórðu hlutar af yfirborði jarðar.
Ísland var eitt af fáum strandríkjum, sem átti lífshagsmuni sína undir vistvænum veiðum. Nokkur slík ríki tóku höndum saman upp úr seinna stríði í óformlegu bandalagi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þau börðust fyrir útfærslu efnahagslögsögu strandríkja í áföngum. Ísland byrjaði 1954 með útfærslu úr þremur sjómílum í fjórar. Næst, 1958, úr fjórum í tólf. Því næst 1972 úr tólf í fimmtíu. Og loks, lokaáfanginn, úr fimmtíu í tvö hundruð árið 1975. Í öll skiptin beittu Bretar valdi til að stöðva þessa þróun.
Árið 1954 settu þeir viðskiptabann á Ísland. Það leiddi til þess, að Sovétríkin urðu veigamikill markaður fyrir íslenskar sjávarafurðir og að Íslendingar urðu háðir innflutningi á eldsneyti frá Sovétríkjunum.Í öll skiptin, 1958, 1972 og 1975 sendu Bretar herskip inn fyrir íslenska landhelgi til að vernda veiðiþjófa. Þessi átök gengu undir nafninu „Þorskastríðin“. Vera okkar í NATO og hernaðarhagsmunir Bandaríkjanna á N-Atlantshafi í kalda stríðinu varð til þess, að aftra Bretum frá því að beita fullu valdi.
Lokaniðurstaðan varð þessi: Óformlegt bandalag smáþjóða í fjórum heimsálfum gegn rótgrónum hagsmunum nýlendu- og flotavelda vann það afrek að breyta þjóðarrétti með samþykkt hafréttarsáttmálans á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1982. Frá því að meirihluti aðildarríkja SÞ staðfestu sáttmálann, hefur hann verið ríkjandi alþjóðalög. Það var stór stund, þegar utanríkisráðherrar meirihluta þjóða heims komu saman í Kingston, Jamaica til að staðfesta sáttmálann sem alþjóðalög. Þetta er einhver þýðingarmesta löggjöf, sem sett hefur verið á alþjóðavísu út frá vísindalegum forsendum um verndun lífríkis jarðar.
Ég nefni þetta dæmi til skýringar á því, hvers vegna við, Íslendingar, risum gegn ráðandi viðhorfum stórvelda varðandi sjálfstæðisbaráttu ykkar. Í báðum tilvikum snerist málið um samstöðu smáþjóða, þegar forysta stórvelda hefur brugðist. Það er óþarfi að ala með sér einhverja vanmetakennd fyrir hönd smáþjóða. Þær smáþjóðir, sem best hefur tekist upp varðandi stjórnarfar og efnahagsþróun, eru í fremstu röð varðandi lífsgæði í veröldinni. Og smáþjóðir geta stundum, eins og dæmin sýna, hugsað stórt.
Stundum koma þeir tímar, að smáþjóðir þurfa að efla samstöðu sína, til þess að hafa vit fyrir stórþjóðum, þegar þær fara fram af valdhroka og skammsýni. Nú þurfið þið, Eystrasaltsþjóðir, t.d. að beita áhrifum ykkar innan Evrópusambandsins og NATO til stuðnings Úkraínumönnum, sem nú engjast í rússneskri herkví. Þið hafið þekkinguna og reynsluna. Þið þurfið að hafa vit fyrir forystumönnum Evrópu og Ameríku í samskiptum við Rússa og til stuðnings Úkraínu. Og meira en það. Þið þurfið að miðla Úkraínumönnum af reynslu ykkar að fengnu sjálfstæði s.l. aldarfjórung um það, hvernig best er að framkvæma umþóftun frá alræðisstjórnarfari til lýðræðis og frá miðstýrðu fyrirskipanahagkerfi til markaðsbúskapar undir lýðræðislegri stjórn. Þið kunnið þetta. Þið getið þetta.