HÁSKÓLAR: HANDA HVERJUM – TIL HVERS?

INNGANGUR: Gústaf Vasa Svíakonungur er guðfaðir Háskólans í Tartu í Eistlandi, enda var hann frumkvöðull að stofnun skólans árið 1632. Árið 2032 fagnar háskólinn því fjögurra alda afmæli sínu. Af því tilefni var efnt til málþings á vegum Tartu Háskóla þann 11. apríl, 2014 um framtíð háskólamenntunar. Undirbúningur ráðstefnunnar stóð í u.þ.b. tvö ár. Fulltrúar allra deilda háskólans komu að því verki, en sérstakur stýrihópur skipti með mönnum verkum. Málþingið sjálft var síðan haldið til þess að kynna niðurstöðurnar. – Sim Kallas, fv. forsætisráðherra Eista og fv. varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, útskrifaðist á sínum tíma frá Tartu Háskóla. Honum var ætlað að flytja inngangserindið á málþinginu en forfallaðist á seinustu stundu. Á þessum tíma var ég gestafyrirlesari við háskólann og rannsóknarfélagi við RUSUS (stofnun sem fæst við rannsóknir á sviði Evrópu- og Rússlandsmála). Rektor, Volli Kalm, bað mig að hlaupa í skarðið fyrir Kallas. Ég varð við þeirri bón. Hér fer á eftir inngangserindi mitt á málþinginu í Tartu.

1.

UTANRÍKISRÁÐHERRAR þurfa á stundum að fylgja þjóðhöfðingjum í opinberar heimsóknir til annarra ríkja. Ein slík heimsókn til Hertogadæmisins í Luxemborg snemma á tíunda áratug síðustu aldar er mér enn minnisstæð. Ástæðan er sú, að þá komst ég af hendingu í tæri við gamalreyndan stjórnmálamann til að leita skýringa á fágætum árangri þessarar smáþjóðar á sviði efnahagsmála.

Ég rifja þetta upp vegna þess að uppskriftin frá Luxemborg varðar beint umræðuefni okkar hér í dag: Hvernig geta smáþjóðir hannað menntastefnu sína fyrir óvissa framtíð í von um að ná tilætluðum árangri?

GASTON THORN var á þessum tíma „the grand old man“ í pólitík Luxemborgara. Hann var forsætisráðherra oftar en einu sinni og að lokum forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Ég var svo heppinn að hafa hann fyrir sessunaut í einhverri veislunni, sem efnt var til vegna heimsóknarinnar. Mér lék forvitni á að vita, hvernig þeir Luxemborgarar hefðu farið að því að verða ríkasta aðildarþjóð Evrópusambandsins á tiltölulega skömmum tíma, einkum í ljósi þess, að fyrir stríð hafði Luxemburg verið fátækt og vanþróað land. Uppskriftin af árangrinum, sem hr. Thorn deildi með mér yfir steik og rauðvínsglasi þessa kvöldstund fyrir meira en tuttugu árum, hljóðaði eitthvað á þessa leið:

Í FYRSTA LAGI tókst okkur, sagði hr. Thorn, að koma í veg fyrir, að innhverfir þjóðernissinnar gerðu mállýskuna, sem við höfum hér til daglegs brúks, að lögverndaðri þjóðtungu.

Í ÖÐRU LAGI – og nú talaði hr. Thorn í fyrstu persónu – tókst mér að koma í veg fyrir, að þessum sömu stjórnmálaöflum tækist að stofna þjóðarháskóla, þar sem kennsla færi eingöngu fram á hinni lögvernduðu þjóðtungu. Í staðinn beitti ég mér fyrir stofnun lána- og styrktarsjóðs námsmanna, sem gerði okkar bestu námsmönnum kleift að afla sér háskólamenntunar og sérfræðikunnáttu meðal grannþjóðanna: Í Þýskalandi, Frakklandi, Sviss, Ítalíu, Belgíu, Hollandi og síðar meir í Bandaríkjunum. Hr. Thorn gleymdi ekki að geta þess, að í flestum tilvikum hefðu þessar þjóðir í reynd niðurgreitt háskólamenntun fyrir Luxemborgara, að svo miklu leyti, sem þeir létu ógert að innheimta skólagjöld.

Í ÞRIÐJA LAGI tókst okkur, sagði hr. Thorn – og það vottaði fyrir glotti – að koma í veg fyrir, að þessi glæsilega bygging (þar sem hátíðarkvöldverðurinn fór fram) yrði rekin sem Þjóðleikhús, þ.e.a.s. stofnun með fastráðnum leikurum, sem léku einungis á þjóðtungunni. Í staðinn hefur þetta leiksvið staðið opið fyrir bestu leikhópa heimsins, sem og óperuflytjendur, sem hafa boðið okkur upp á heimsklassakúltúr.

Í stuttu máli sagt var boðskapur hr. Thorns svohljóðandi: Við Luxemborgarar stóðum frammi fyrir vali. Annað hvort mundum við byggja helstu stofnanir okkar fyrst og fremst á þjóðararfinum (þjóðtungu og menningu); eða við nýttum okkur landfræðilega staðsetningu mitt á meðal miklu öflugri þjóða sem þátttakendur í samrunaferlinu í Evrópu frá byrjun.

Að loknum tilfinningaþrungnum rökræðum og hörðum deilum varð niðurstaða okkar sú að velja seinni kostinn. Það gerði okkur kleift að breyta okkar frumstæða landbúnaðarlandi í fjölbreytt þjónustusamfélag á tiltölulega skömmum tíma. Við byggðum upp nútímalegar þjónustugreinar – einkum í banka- og fjármálaþjónustu. Samkeppnisyfirburðir okkar byggðu á því að þekkja tungumál, lagaumhverfi og hugsunarhátt grannþjóðanna eins vel og þær sjálfar. Unga fólkið okkar fékk menntun og starfsþjálfun við hina bestu háskóla erlendis. Þetta unga fólk talaði þýsku, frönsku, ítölsku – og síðar meir ensku, öll helstu tungumál hins evrópska samfélags. Og unga fólkið okkar þekkti, eins og áður sagði, lagaumhverfi og hugarfar grannþjóðanna og vissi því af reynslu, hvernig bæri að haga samskiptum við þær.

Þessi grundvallarstefnumörkun hefur skilað miklum árangri. Við höfum látið þau boð út ganga til grannþjóðanna, að „anything you can do, we can do better“ (þ.e.a.s. á þeim sviðum, þar sem við höfum sérhæft okkur). Þrátt fyrir utanaðkomandi gagnrýni um, að Luxemborg hýsi illa fengið fé frá öðrum þjóðum í skjóli bankaleyndar, hafa þeir komist upp með það hingað til, m. a. í skjóli smæðarinnar. En hversu lengi enn? Hrunið afhjúpaði þetta sjúka fjármálakerfi. Luxemborgarar sitja upp með það, að þeir byggja afkomu sína á að vera „free riders“, á kostnað annarra.

En hafa Luxemborgarar ekki orðið að færa einhverjar fórnir fyrir þennan árangur? Hvað með sjálfstæða þjóðarvitund þeirra og þjóðmenningu? Þetta er álitamál. Reynslan sýnir, að með vaxandi velmegun hefur staða þjóðarmállýskunnar styrkst, ef eitthvað er: innlendir leikhópar eru víst farnir að bjóða upp á sýningar í alþjóðaleikhúsinu á mállýsku heimamanna. Myndin er því ekki alveg svart/hvít. Fjölþjóðahyggjan, sem flestir viðurkenna, að er lykillinn að árangri þeirra, hefur m.ö.o. ekki með öllu útilokað sérstaka þjóðarvitund heimamanna.

Eftir stendur spurningin: Getur fordæmi Luxemborgar – árangursríkt, sem það ótvírætt er – verið öðrum smáþjóðum til eftirbreytni? Ég varpa þessari spurningu fram til umræðu hér á eftir.

2.

ÞEGAR ÍSLAND fékk heimastjórn frá Dönum árið 1904, var það ofarlega á dagskrá heimastjórnarinnar að stofna þjóðarháskóla. „Land, þjóð og tunga“ var hin heilaga þrenning, sem þjóðarháskólinn átti að þjóna. Í upphafi voru háskóladeildirnar þrjár. Ein átti að rækta menningararfinn, tungumálið og söguna. Önnur átti að þjóna guði – útskrifa preláta til að þjóna þjóðkirkjunni. Sú þriðja var helguð lögum landsins. Með öðrum orðum: Þjóðarháskólinn átti að þjóna bæði Guði og Mammon, en megináherslan var á að útskrifa embættismenn í þjónustu ríkisins.

Þegar Ísland varð fullvalda ríki árið 1918 (en í konungssambandi við Danmörku þar til 1944), má það teljast til fórnarkostnaðar, að íslenskir námsmenn glötuðu þar með forréttindum, sem þeir höfðu áður notið til að stunda nám við Kaupmannahafnarháskóla. Háskóli Íslands hafði ekki burði til að koma í stað Kaupmannahafnarháskóla. Hvaðan áttu þeir að koma, verkfræðingarnir, arkitektarnir, byggingameistararnir, fiskifræðingarnir og aðrir tæknimenn, sem áttu að byggja upp stofnanir hins nýja ríkis, sem fram að því hafði byggst á frumstæðum sjálfsþurftarbúskap liðinnar tíðar? Svarið er, að þeir hlutu að koma að utan, frá erlendum háskólum, tækniskólum, eða með starfsreynslu erlendis – rétt eins og í Luxemborg.

Uppskriftin að síðbúinni nútímavæðingu Íslands á tuttugustu öld gæti því hljóðað eitthvað á þessa leið:

  1. Tiltölulega hátt menntunarstig íslensku þjóðarinnar gerði henni kleift að hagnýta sér tiltölulega greiðlega innflutta tækni. Íslendingar voru aldrei svo örsnauðir, að þeir væru ólæsir og óskrifandi.
  2. Aðgangur að erlendu fjármagni fékkst með stofnun banka í eigu Dana.
  3. Fram að fyrri heimsstyrjöldinni nutum við að mestu tollfrjáls aðgangs að erlendum mörkuðum fyrir útflutningsafurðir okkar (aðallega sjávarafurðir). Þetta snerist mjög á verri veg á kreppuárunum. Seinni heimsstyrjöldin, sem lagði Evrópu að mestu í rúst, reyndist Íslendingum gósentíð. Hernaðarlegt mikilvægi landsins á tímabili kalda stríðsins þýddi, að Íslendingar nutu mikilvægrar efnahagsaðstoðar frá bandalagsþjóðum.

  4. Pólitískt sjálfsforræði fullvalda ríkis í stað erlendrar nýlendustjórnar reyndist vera drifkraftur nútímavæðingar og vaxandi velmegunar.
  5. Þrátt fyrir lofgjörðina um hina heilögu þrenningu (land, þjóð og tungu) fylgdu Íslendingar svipaðri stefnu og Luxemborgarar að því leyti, að bestu námsmenn hverrar kynslóðar fóru erlendis til náms. Það vottaði jafnvel fyrir landfræðilegri verkaskiptingu í því, hvernig þeir dreifðust: Raunvísindamennirnir leituðu einkum til Þýskalands eða Skandinavíu; læknar stunduðu sitt sérhæfða framhaldsnám í Norður-Ameríku eða Skandinavíu; félagsvísindamenn fóru framan af einkum til Bretlandseyja eða Skandinávíu, en síðar meir í vaxandi mæli til Bandaríkjanna. Hinir listhneigðu leituðu til Frakklands eða Skandinavíu.

Á því leikur naumast vafi, að þetta fólk flutti heim með sér bæði hagnýta sérþekkingu og fjölbreytta menningarstrauma, sem auðguðu íslenskt samfélag; forðuðu þessu eysamfélagi frá því að forpokast í einangrun og sjálfsánægju og jók aðlögunarhæfni þess á öru breytingarskeiði.

3.

Snemma á 7unda áratugnum stofnuðu Íslendingar sinn „lánasjóð íslenskra námsmanna“, um líkt leyti og Gaston Thorn beitti sér fyrir því í Luxembourg. Alla tíð síðan hefur LÍN gert íslenskum námsmönnum, sem uppfylla kröfur erlendra háskóla, kleift að stunda nám og sækja sér sérþekkingu og reynslu erlendis.

Okkar fámenna samfélag hefur ekki burði til að halda uppi rannsóknum og kennslu, sem standast alþjóðlega samkeppni í öllum þeim vísindagreinum, sem háþróuð þjóðfélög byggja tilveru sína á. Sú stefna, að styðja námsmenn fjárhagslega til að afla sér menntunar erlendis, hefur vafalítið gagnast okkar fámenna samfélagi, ekki síður en Luxemborg. En um leið tökum við vissa áhættu. Áhættan er í því fólgin, að námsmennirnir ílendist að námi loknu erlendis – skili sér ekki heim.

Á fyrsta áratug nýrrar aldar var Íslandi breytt í eins konar tilraunastofu fyrir vanhugsaðar og illkynja hugmyndir ný-frjálshyggjumanna með skelfilegum afleiðingum. Þangað til hafði hugur meirihluta Íslendinga staðið til þess að tilheyra félagsskap hinna norrænu velferðarríkja. Þessi ógæfusamlega tilraunastarfsemi endaði á örfáum árum í kerfislægu hruni, bæði fjármálakerfis og gjaldmiðils. Meira að segja Seðlabankinn varð greiðsluþrota.

Íslenskir skattgreiðendur munu á ókomnum árum þurfa að bera þungar skuldabyrðar, sem vanhæfir og gráðugir fjárglæframenn skildu eftir, í skjóli fákænna stjórnmálamanna. Þeir einu sem græddu á tilrauninni voru fámennur hópur fjármálafursta, sem tókst að koma illa fengnum auð í skattaskjól erlendis. Aðrir þurfa að bera þyngri skattbyrði en ella og taka afleiðingunum af harkalegum niðurskurði fjárveitinga til heilbrigðisstofnana og menntamála.

Á bóluárunum státuðu Íslendingar af meira en tylft svokallaðra háskóla – og gera reyndar enn. Rektor Háskóla Íslands lýsti við hátíðlega athöfn áformum sínum um að skipa þjóðarháskólanum á bekk með hundrað bestu háskólum í heimi. Eftir Hrun er þetta gjarnan nefnt sem dæmi um snert af brjálsemi („collective madness“), eins og einn helsti sérfræðingur heims í fjármálakreppum lýsti íslensku ný-frjálshyggjutilrauninni.

Það mun taka íslensku þjóðina drjúgan tíma að ná sér eftir áfallið. Eitt með öðru, sem við þurfum að horfast í aug við, eru vaxandi líkur á heilaflótta (e. brain-drain). Sú hætta blasir við, að hinir bestu meðal þeirra sem hafa sérhæft sig erlendis, finni ekki störf við hæfi á Íslandi eða að þau laun sem í boði eru, reynist ekki samkeppnishæf. Augljós merki um þetta blasa þegar við. Undantekningin er offramleiðsla á lögfræðingum, sem fitna eins og púkinn á fjósbitanum vegna endalausra málaferla í kjölfar fjármálahrunsins. Hingað til hefur mannauðsflóttinn líklega bitnað harðast á heilbrigðiskerfinu. E.t.v. verðum við síður vör við heilaflóttann í öðrum greinum með jafnáberandi hætti.

Menn laða ekki að beinar erlendar fjárfestingar (e. FDI), né heldur geta menn við látið að sér kveða á erlendum mörkuðum, afgirtir bak við múra fjármagnshafta. Fjármagnshöftin voru óhjákvæmileg eftir Hrun, en voru hugsuð til skamms tíma. Þau hafa nú varað í sjö ár. Vonir standa til, að það takist að aflétta þeim í upphafi næsta árs, án þess það valdi nýju gjaldmiðilshruni. Takist það áfallalaust, hlýtur það að teljast veigamikið skref í rétta átt til að endurreisa íslenskt efnahagslíf úr rústum Hrunsins.

En á þessari stundu hljótum við að velta því fyrir okkur, hversu lengi við getum staðið undir lána- og styrkjakerfi til náms erlendis, ef arðurinn af þeirri fjárfestingu skilar sér ekki heim með vöxtum og vaxtavöxtum.

4.

UNESCO (Mennta- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna) áætlar, að á næstu þremur áratugum muni fleira fólk stunda háskólanám en þekkst hefur í sögu mannkynsins hingað til. Það er mikill fjöldi fólks á skömmum tíma. Og ein staðreynd í viðbót til að skerpa á einbeitingunni: Sex ára barn, sem byrjar í skóla á þessu hausti, mun væntanlega setjast í helgan stein kringum árið 2075. Hvernig ætlum við að búa hann eða hana næstu árin undir langan starfsferil, á öru breytingaskeiði?

Erum við viss um, að við vitum svarið við þessari spurningu, byggt á reynslu okkar af kennslu og rannsóknum á háskólastigi hingað til? En á tíma örra tæknibreytinga – tímabili „skapandi eyðileggingar“ með orðum Josephs Schumpeter – má vera, að okkar fremstu vísindamenn og frumkvöðlar hafi þegar breytt svörunum við þessari spurningu, rétt eins og Einstein forðum.

Fremstu vísindamenn okkar áminna okkur æ oftar um það, að linnulaus eftirsókn eftir hagvexti og óþrotleg leit að nýjum náttúruauðlindum til að nýta vítt og breitt um hnöttinn, sé farið að ganga of nærri okkar náttúrulega umhverfi. Í grennd við okkur Íslendinga – á Norðurheimskautssvæðinu – er bráðnun íshellunnar að afhjúpa nýtt meginland, sem býr yfir ríkulegum náttúruauðlindum, en í umhverfi, sem er óvenju viðkvæmt fyrir ágengni mannsins. Þetta skapar hvort tveggja, ný tækifæri og býður heim nýjum hættum um leið.

Mun okkur takast að nýta þessar auðlindir á sjálfbæran hátt, mannkyni til góða? Eða munum við hefja blinda samkeppni um forræði og yfirráð, líkt og gerðist í Afríku á ofanverðri 19du öld með skelfilegum afleiðingum fyrir það meginland og heimsbyggðina alla – eins og við upplifum þessi misserin við Miðjarðarhafið? Sannleikurinn er sá, að við vitum ekki svarið.

Okkar bestu félagsvísindamenn eru nú smám saman að átta sig á því, að fjármálakerfi heimsins hefur vaxið raunhagkerfinu yfir höfuð og er orðið stjórnlaust. Meginið af auðsköpun heimsins á tímabili nýfrjálshyggjunnar hefur komið í hlut örfámenns forréttindahóps auðkýfinga, bæði í þróuðum ríkjum og þróunarríkjum. Frumskylda lýðræðislegra stjórnarhátta er að varðveita réttarríkið – tryggja, að allir sér jafnir fyrir lögunum.

Það hefur ekki tekist betur en svo, að þessi örfámenni forrétttindahópur auðkýfinga á alþjóðavísu hefur komið undan fjármunum í skattaskjólum, sem rannsóknarstofnun í Washington D.C. áætlar að samsvari þjóðarframleiðslu Bandaríkjanna og Japans – stærsta og þriðja stærsta hagkerfi heimsins til samans. Allt er þetta utan við lög og rétt. Engu að síður hafa skattaskjólin notið verndar ráðandi afla í voldugustu ríkjum heims. Á sama tíma hafa raunlaun vinnandi fólks staðnað eða jafnvel rýrnað að kaupmætti og atvinnuleysi ungs fólks mælist í himinháum tölum. Hvort tveggja er augljós einkenni sjúks þjóðfélags – og lamaðs lýðræðis.

Stjórnmálaforingjar, þjóðþing, ríkisstjórnir og fjölmiðlar eru víðast hvar á mála hjá þessari valdamiklu auðklíku. Hingað til hefur það hindrað, að umbætur á kerfinu í þágu almannahagsmuna hafi náð fram að ganga. Í ljósi þessa kemur ekki á óvart, að nýfasiskar stjórnmálahreyfingar, sem þrífast best í jarðvegi þjóðernisofstækis, láti æ meir á sér kræla í Evrópu og annars staðar.

5.

Hvað um mátt menntunar og upplýsingar til að vinna bug á fordómum og valdníðslu? Akademíunni er ætlað að standa fyrir utan áhrifasvæði sérhagsmuna og valdstreitu. Hafa okkar lærðu prófessorar gegnt þeirri borgaralegu skyldu sinni að varpa ljósi þekkingarinnar á raunverulegt ástandi þjóðfélags og umhverfis? Hvað er að segja um þá tegund af þjóðhagfræði, sem er kennd og numin við frægustu menntasetur Bandaríkjanna og heimsins og var til skamms tíma viðtekin sem hlutlæg vísindi? Hversu margir Nóbelsverðlaunahafar í hagfræði sáu fyrir eða vöruðu okkur við Hruni fjármálakerfisins? Þeir eru teljandi á fingrum annarrar handar.

Hefur hin akademíska úrvalssveit brugðist þeirri skyldu sinni að koma niðurstöðum rannsókna og þekkingarleitar á framfæri við almenning? Það fór ekki fram hjá okkur á Íslandi, að hinar sjálfskipuðu eftirlitsstofnanir með heilbrigði hins alþjóðlega fjármálakerfis gáfu íslensku bönkunum toppeinkunn þar til daginn eftir að þær hrundu til grunna. Þá var þeim skipað í ruslflokk, en ekki fyrr.

Hér kemur tilvitnun í grein í New York Times frá 16. Febrúar, árið 2014.

„Sumir frjóustu hugsuðir samtímans um vandamál manns og náttúru eru háskólaprófessorar. En hversu margir þeirra láta að sér kveða í rökræðum um samtíðina? Ef við viljum vísa áleitnum vandamálum á bug, þá segjum við gjarnan: Þetta er nú bara akademísk spurning. Með öðrum orðum, það sem fræðimennirnir eru að fást við, er ekki talið skipta máli“.

Tilvitnunin er í grein eftir Nicholas Kristof, dálkahöfund NYT og stjórnmálafræðing að mennt. Ég lét festa ljósrit af greininni á tilkynningatöflur í kennarastofum Tartu háskóla á sínum tíma. Greininni lýkur með áskorun á innbyggjara fílabeinsturna akademíunnar um að stíga niður úr turnunum og kasta sér út í rökræður samtímans um það, sem máli skiptir. Lokaorð greinarinnar eru: „Prófessorar, dragið ykkur ekki í hlé eins og miðaldamunkar – við þurfum á ykkur að halda“!

Ég hvet ykkur til þess að bregðast við þessari í áskorun í umræðum hér á eftir.

6.

Við þurfum að rökræða okkur til niðurstöðu um álitamál af þessu tagi: Ætlum við að undirbúa unga fólkið okkar fyrir virka þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi – sem þýðir að veita öllum jöfn tækifæri til náms, án tillits til efnahags eða þjóðfélagsstöðu? Eða ætlum við að samþykkja, að háskólamenntun verði forréttindi fyrir elítu – úrvalshóp þeirra, sem hafa efni á að borga fyrir menntun sína? Ætlum við að fylgja fram stefnu, sem kennd er við norræna módelið, sem leggur áherslu á félagslega samstöðu og þá samfélagslegu skyldu að tryggja öllum jöfn tækifæri til menntunar? Eða ætlum við að leita fyrirmyndar í Ameríku, þar sem allt er falt fyrir fé og tækifæri til menntunar ráðast af efnahag og þjóðfélagsstöðu. Sú stefna hefur nú breytt „landi tækifæranna“ í virki forréttindastéttar. Við komumst ekki hjá því að ræða þessar spurningar hér á eftir.

Smáþjóðir heimsins njóta vissrar sérstöðu. Smæðin auðveldar okkur að viðhalda virku lýðræði, auk þess sem okkur er lífsnauðsyn að hamla á móti tilhneigingum til vaxandi stéttaskiptingar, ef við viljum viðhalda félagslegri samstöðu. Í ljósi þessa legg ég til, að eftirfarandi grundvallarreglur verðir hafðar til hliðsjónar við mótun menntastefnu til framtíðar:

  • Tryggjum öllum jöfn tækifæri til menntunar, án tillits til efnahags- og þjóðfélagsstöðu, með það að leiðarljósi að gera sem flesta að virkum þátttakendum í lýðræðisþjóðfélagi.
  • Þekkjum og virðum takmörk okkar. Einbeitum okkur að rannsóknum á og kennslu í því sem við gerum best, en látum aðrar þjóðir um hitt. Forðumst að reyna að gína yfir öllu og þar með þynna út allt. Sækjum sérfræðimenntun erlendis og leitum samstarfs við bestu menntastofnanir annarra landa.
  • Háskólar okkar eiga að einbeita sér að traustri grunnmenntun. Að því er varðar rannsóknir og þróunarstarfsemi eigum við að einbeita kröftum okkar að sérsviðum okkar. Þannig eiga Íslendingar t.d. að einbeita sér að rannsóknum á líffræði hafsins, jarðfræði og umhverfisvernd á Norðurslóðum.
  • Stofnum og starfrækjum lána- og styrktarsjóði fyrir þá nemendur, sem uppfylla ströngustu skilyrði til að stunda nám og afla sér sérþekkingar við helstu lærdómssetur erlendis. Höfum hugfast, að starfsskilyrði (við rannsóknir og þróun) verða að vera alþjóðlega samkeppnishæf.
  • Að því er varðar hættuna á mannauðsflótta, þá verðum við einfaldlega að búa við hana. Með því að bjóða fram krafta okkar bestu vísindamanna til alþjóðasamfélagsins, leggjum við fram okkar skerf til að búa til betri heim og forðumst um leið að koma á okkur því óorði, að við viljum fá allt fyrir ekkert (e. to be „free-riders“).

Lífsgæðakönnun Sameinuðu þjóðanna leiðir í ljós, að lífsgæði eru óvíða betri en meðal smáþjóða, sem leggja áherslu á jöfnuð í lífskjörum og vinna gegn stéttaskiptingu í nafni félagslegrar samstöðu. Samfélag hinna norrænu þjóða er dæmi um þetta. Þessar þjóðir vísa veginn með góðu fordæmi. Vera má, að lífsgæði af þessu tagi – í samanburði við firringu megaborga stórþjóðanna – dugi sem aðdráttarafl til að beina hinum alþjóðlega menntuðu heimsborgurum aftur heim.

Sjá http://jbh.is/default.asp?ID=309