Ólafur Hannibalsson

Með hönd undir kinn, niðursokkinn í bók í eigin heimi. Þetta er fyrsta bernskuminning mín um þennan eldri bróður. Enn í dag finnst mér þessi minningarbrot segja meira en mörg orð um, hver hann var.

Hann varð fluglæs fjögurra vetra af lestri Íslendingasagna. Við hin urðum að láta okkur nægja leiðarana í Skutli. Bókhneigður er kurteislegt orð yfir bókaorminn. Fyrst las hann bókasafn Hannibals (Íslendingasögur, þjóðskáldin, sjálfstæðisbaráttuna). Svo Héraðsbókasafn Hagalíns um það sem upp á vantaði.

Við gátum flett upp í honum, þegar mikið lá við: um vanræktar persónur Íslendingasagna, höfunda stjórnarskrár Bandaríkjanna, rússnesku byltinguna, Bolivar eða fiskveiðar Baska við Íslandsstrendur. Og eiginlega flest þar á milli. Fyrir nú utan ættir Íslendinga og manníf við Djúp.

Svona maður var auðvitað hagorður og skáldmæltur. En hann blótaði skáldgyðjuna á laun, af því að hann mældi sig bara við hina bestu. Unglingsárin voru honum erfið. Lærði skólinn bauð upp á steina fyrir brauð. Var þetta allt og sumt? Hann lagðist í þunglyndi. Óbirtur skáldskapur frá þessum árum lýsir manni, sem bjó yfir kviku næmi og orðagaldri. Hvort tveggja samt innikróað af nagandi efahyggju.

Svona menn eiga ekki heima í háskólum – nema þá til að kenna þar. Hann fór á flakk. Norður-Ameríka, sem og Suður. „Happy-hippi“ dagar. Eftir ameríska drauminn settist hann um hríð í Karls-háskólann í Prag og upplifði vonina um „sósíalisma með mannlegri ásýnd“ verða undir skriðdrekum Rauða hersins.

Heimkominn ritstýrði hann Frjálsri þjóð – sem andstæðingarnir uppnefndu fjölskyldumálgagnið. Krafan var um ærlegt uppgjör við lífslygi Sovéttrúboðsins. Og um jafnaðarmannaflokk að norrænni fyrirmynd, sem risi undir nafni sem sverð og skjöldur vinnandi fólks. Vð vitum, hvernig það fór.

Sú var tíð, að við bræður sórumst í fóstbræðralag um að láta drauma rætast. Arnór og Ólafur höfðu flest það til brunns að bera, sem til þurfti. Arnór hafði þekkinguna, heiðarleikann og vinnusemina; Ólafur deildi þekkingunni, ásamt greiningarhæfni, umbótavilja og geðprýðinni, sem þarf til að laða fólk til samstarfs. Það var lítið eftir handa mér. Svo að ég neyddist til að gera sem mest úr því litla, sem eftir var. Og fór sem fór.

Á unglingsárunum var Ólafur í fóstri hjá frændfólki okkar í Unaðsdal á Snæfjallaströnd við Djúp. Þar kviknaði með honum löngunin að gerast bóndi, svo sem verið höfðu forfeður okkar mann fram af manni. Hann var um hríð bóndinn í Selárdal. Það tók hann nokkurn tíma að átta sig á því, að sá tími var liðinn. En „römm er sú taug, er rekka dregur föðurtúna til“.

Ég hamra þessi fátæklegu minningarorð um bróður minn, þar sem ég sit í skugga pálmatrésins undir virkisvegg Hannibals Púnverjakappa, í þorpinu okkar Bryndísar í Andalúsíu, þaðan sem herforinginn mikli lagði upp í stríð sitt gegn Róm. Þessi Hannibal er frægur í sögunni fyrir að vinna allar sínar orrustur, en tapa að lokum stríðinu. Nú er það afkomendanna að snúa taflinu við.