1.Endatafl Kalda stríðsins.
Hér koma fyrst tvær þekktar tilvitnanir, okkur til umhugsunar, áður en lengra er haldið: „Fall Sovétríkjanna er stærsta sögulega slysið, sem henti á 20stu öldinni“.
Séð af sjónarhóli liðsforingja í sovésku leyniþjónustunni (KGB) er eftirsjá Putins eftir gömlu Sovétríkjunum skiljanleg. Höfum í huga, að nýlenduherrar allra tíma, þeirra á meðal breskir, franskir og spænskir, svo að nefnd séu dæmi, hafa réttlætt nýlendustefnu þjóða sinna með því að verið væri að færa út landamæri siðmenningarinnar.
Hér kemur önnur tilvitnun, sem sætir ef til vill meiri furðu: „Ég skora á ykkur, Úkraínumenn, að hafna öfgakenndri þjóðernishyggju og varðveita þess í stað einingu Sovétríkjanna, í nafni friðar og stöðugleika“.
Hver er höfundurinn, sem virtist vera svona staðfastur í trú sinni á friðsamlegu eðli Sovétríkjanna? Hvort sem þið trúið því eða ekki, var hann enginn annar en forseti Bandaríkjanna, Bush eldri, í alræmdri ræðu, sem hann flutti í Verkovna Rada, þjóðþinginu í Kyiv, höfuðborg Úkraínu, árið 1991, fáeinum mánuðum áður en Sovétríkin lögðu endanlega upp laupana.
Ég þykist viss um, að þessi ræða Bush hefði hljómað eins og músík í eyrum Putins, Kremlarbónda, ef hún hefði verið flutt á Rauða torginu 9. maí s.l., þegar Rússar fögnuðu því, að 70 ár voru liðin frá sigri þeirra yfir innrásarher þýsku nazistanna í seinni heimsstyrjöldinni.
Þessar tilvitnanir vekja upp margar spurningar. Um hvað snerist Kalda stríðið? Frelsi gegn alræðisstjórn? Hvernig má það vera, að á seinustu metrunum í kapphlaupi stórveldanna, sem við kennum við Kalda stríðið, var viðteknum sannindum skyndilega snúið á haus? Hér heyrum við leiðtoga lýðræðisríkja Vesturlanda skora á undirokaðar þjóðir að sætta sig við örlög sín – til þess að við mættum áfram njóta friðar og stöðugleika. Úff!
2. Frelsisbarátta Eystrasaltsþjóða.
Frelsisbarátta Eystrasaltsþjóða kviknaði ekki einasta af þjóðlegri vakningu. Þessar þrjár smáþjóðir, sem höfðu mátt þola innrás, innlimun og hernám af hálfu Sovétríkjanna, vildu endurreisa sjálfstæði sitt. En þetta var lýðræðisbylting um leið. Leitogar sjálfstæðishreyfinga ykkar höfðu þess vegna ástæðu til að ætla, að þeim yrði tekið opnum örmum af leiðtogum lýðræðisríkja Vesturlanda.
En það var nú öðru nær. Móttökurnar voru vægast sagt kuldalegar.Þeir voru meðhöndlaðir eins og boðflennur í bræðralagi stórveldanna. Þeir voru áminntir um að sýna ábyrgðartilfinningu með því að spilla ekki friðnum, sem gæti verið í hættu. Þeim var ráðlagt að sætta sig við málamiðlun um aukna heimastjórn og að semja við húsbændur sína í Kreml, án fyrirfram skilyrða.
Hvers vegna? Vegna þess að útganga ykkar úr Sovétríkjunum gæti spillt friðnum. Ef ykkur væri leyft að yfirgefa Sovétríkin, gæti það haft í för með sér afleiðingar, sem oft var lýst á þessa leið: Gorbachev – samstarfsmanni okkar við að binda endi á Kalda stríðið – yrði steypt af stóli. Harðlínumennirnir – gömlu stalínistarnir í Kreml – kæmust þá aftur til valda. Þar með brytist Kalda stríðið aftur út. Í versta tilviki – ef Rauða hernum yrði beitt til að halda þjóðum Mið- og Austur-Evrópu áfram undir járnhæl Sovétríkjanna – gæti jafnvel brotist út stríð.
Leiðtogar Vesturveldanna höfðu rétt sér fyrir sér að einu leyti: Það var heilmikið í húfi. Frelsun þjóða Mið- og Austur-Evrópu undan sovéskum yfirráðum; friðsamleg endursameining Þýskalands og áframhaldandi vera sameinaðs Þýskalands í NATO; afvopnunarsamningar um hvort tveggja, kjarnavopn og venjuleg vopn; fækkun í herjum og heimkvaðning hernámsliða.
Í stuttu máli: Við stóðum frammi fyrir grundvallarspurningum um stríð eða frið. Og allt þetta var, að sögn, komið undir politískum örlögum eins einstaklings. Hann hét Mihail Sergeivich Gorbachev. Það yrði því að halda honum á valdastóli, hvað sem það kostaði. Ef það þýddi, að halda yrði Sovétríkjunum saman, þá yrði það svo að vera. Áttu leiðtogar Vesturveldanna að leyfa einhverjum nafnlausum uppreisnarmönnum á jaðri Sovétríkjanna að tefla sjálfum heimsfriðnum í tvísýnu? Spyrjirðu vitlausrar spurningar, færðu venjulega vitlaust svar.
Með því að segja skilið við Sovétríkin stilltu Eystrasaltsþjóðirnar leiðtogum Vesturveldanna upp frammi fyrir vanda, sem þeir höfðu sjálfir búið til. Með því að leggja allt undir í endatafli Kalda stríðsins, um að samningsaðilinn héldi völdum sem aðalritari Kommúnistaflokks Sovétríkjanna, höfðu þeir í reynd selt honum sjálfdæmi um niðurstöðuna. Hvílík mistök! Hvílík glópska!
Það var þess vegna sem Bush eldri flutti þessa alræmdu ræðu í Kyiv, sem seinna fékk smánarheitið „The Chicken Speech“.
Það var þess vegna sem Kohl, kanslari og Mitterand, forseti, skrifuðu Landsbergis, leiðtoga Sajudis, sjálfstæðishreyfingar Litáa, sameiginlegt bréf, þar sem þeir skoruðu á hann að fresta framkvæmd sjálfstæðisyfirlýsingarinnar frá 11. mars, 1990.
Það var þess vegna sem utanríkisráðherrar lýðræðislega kjörinna ríkisstjórna Eystrasaltsþjóða voru gerðir afturreka frá ráðstefnum, þar sem fjallað var um hina nýju heimsmynd, sem ætti að taka við að Kalda stríðinu loknu.
Það var þess vegna sem realpolitik leiðtoga vestrænna lýðræðisríkja var í reynd öll önnur en hátíðarræður þeirra um lýðræði, sjálfsákvörðunarrétt þjóða og mannréttindi, gáfu í skyn. Þeir töluðu tungum tveim og sitt með hvorri.
Og það var þess vegna sem Ísland – í nafni samstöðu smáþjóða – reyndi að afla stuðnings meðal annarra smáþjóða við sjálfstæðisbaráttu ykkar, þar sem leiðtogar stórþjóðanna tóku greinilega aðra hagsmuni fram yfir lífshagsmuni ykkar.
3. Janúar 1991.
Janúar 1991 skipti sköpum. Harðlínumennirnir í Kreml – sem Gorbachev þurfti æ oftar að reiða sig á – ákváðu að taka Bush forseta á orðinu og koma í veg fyrir, að Eystrasaltsþjóðirnar segðu sig úr lögum við Sovétríkin – með valdi, ef nauðsyn krefði.
Réttlætingin, sem borin var fram, hljómar kunnuglega í eyrum okkar nú, í ljósi þess sem er að gerast í Úkraínu. Áætlunin snerist um að efna til árekstra milli þjóðernishópa til þess að réttlæta íhlutun hersins í því skyni að vernda þjóðernisminnihluta. Herinn átti síðan að koma á lögum og reglu, í krafti neyðarlaga.
Skriðdrekarnir lögðu af stað. Sérsveitir hertóku hernaðarlega mikilvæga staði. Drápsmaskínan var í viðbragðstöðu. Það átti að setja af lýðræðislega kjörin þjóðþing og ríkisstjórnir og koma á neyðarstjórn frá Moskvu.
Við þessar kringumstæður var ég eini utanríkisráðherra NATO-ríkis, sem brást við neyðarkalli um að sýna samstöðu í verki með Eystrasaltsþjóðum á hættustundu. Í þessari ferð heimsótti ég höfuðborgirnar þrjár – Vilnius, Riga og Tallinn. Þar var ég persónulega vitni að því, að þessar þjóðir voru reiðubúnar, einar og yfirgefnar og vopnlausar, að leggja lífið að veði fyrir frelsi sitt og sjálfsvirðingu.
Hvers vegna gugnuðu ofbeldisseggirnir á seinustu stundu? Vegna þess að þeir horfðust í augu við þá staðreynd, að þessar þjóðir mundu ekki beygja sig fyrir ofbeldinu. Órofa samstaða þjóðanna og einbeittur pólitískur vilji á örlagastundu nægði til að sannfæra handhafa friðarverðlauna Nobels í Kreml um, að hann stóð nú frammi fyrir „sannleiksaugnabliki“ sínu. Með því að afstýra blóðbaðinu á seinustu stundu, bjargaði Gorbachev sálu sinni – og sess sínum í sögunni.
Þegar á reyndi, urðu menn að horfast í augu við þann veruleika, að Sovétríkjunum varð ekki haldið saman nema með valdbeitingu. Valdbeiting tryggir hvorki frið né stöðugleika – heldur þvert á móti. Frá og með atburðunum í janúar 1991 mátti öllum ljóst vera, að stefna leiðtoga Vesturveldanna gagnvart endurreistu sjálfstæði Eystrasaltsþjóða, hafði beðið skipbrot.
Sagan kennir okkur, að þegar valdastéttin í alræðisríki hefur ekki lengur kjark til að beita valdi – þá er það upphafið að endalokunum.
4. Endalok nýlenduveldisins.
Þann 19. ágúst 1991 hófst rás atburða, sem endaði með því, að endurreist sjálfstæði Eystrasaltsþjóða öðlaðist viðurkenningu alþjóðasamfélagsins. Og fáeinum mánuðum síðar voru Sovétríkin ekki lengur til.
Atburðarásin byrjaði í götuvígunum í Moskvu. Þaðan barst hún til Reykjavíkur viku síðar, þar sem fram fór látlaus athöfn í Höfða, sem áður hafði hýst leiðtogafund Reagans og Gorbachevs 1986. Sá fundur reyndist síðar hafa markað upphafið að endalokum Kalda stríðsins. Leyfið mér að stikla á stóru um atburðarásina þessa örlagaríku daga:
Valdaránstilraunin í Moskvu hófst 19. ágúst, 1991.
Tveimur dögum síðar héldu utanríkisráðherrar NATO fund sinn í Brüssel. Fundurinn var haldinn í skugga valdaránsins í Moskvu. Enginn vissi á þeirri stundu, hver fór mð húsbóndavaldið í Kreml. Aðalritari NATO, Manfred Woerner, var falið að freista þess að ná beinu sambandi við Boris Yeltsin í Moskvu.
Hálfri stundu síðar var fundi fram haldið og Woerner flutti okkur skilaboð frá Yeltsin. Valdaránstilraunin hefði misheppnast. Lýðræðisöflin, undir forystu hans, Yeltsins, hefðu náð undirtökunum. Yeltsin skoraði á utanríkisráðherra NATO-ríkja í Brüssel að gera þegar í stað allt sem í þeirra valdi stæði til að styðja lýðræðisöflin innan Sovétríkjanna.
Þegar röðin kom að mér að tala, lagði ég til hliðar undirbúna ræðu – eins og stundum áður. Ég bað samráðherra mína að ígrunda gaumgæfilega gerbreytta stöðu mála. Gamla viðlagið, að ekkert mætti segja eða gera, sem tefldi valdastöðu Gorbachevs í hættu og leitt gæti harðlínumennina aftur til valda, væri nú úrelt. Harðlínumennirnir hefðu látið til skarar skríða og mistekist.
Gorbachev, forseta, sem nú berðist vonlausri baráttu fyrir því að halda Sovétríkjunum saman undir nýrri stjórnaskrá, hefði líka mistekist. Hinn nýi leiðtogi Rússlands væri Boris Yeltsin. Hann hefði þegar, sem forseti rússnesku dúmunnar, skorað á rússneska hermenn að beita ekki valdi gegn friðsamlegum sjálfstæðishreyfingum Eystrasaltsþjóða.
Þjóðfulltrúaráð (Congress of Peoples´ Deputies) Sovétríkjanna hefði þegar lýst Molotov-Ribbentrop samninginn ógildan. Þar með hefði löggjafarsamkunda Sovétríkjanna viðurkennt, að hernám og innlimun Eystrasaltsþjóða í Sovétríkin hafi verið ólöglegt ofbeldisverk.
Eystrasaltsþjóðirnar hefðu mátt þola kúgun sovéska nýlenduveldisins, t.d. með ítrekuðum nauðungarflutningum í þrælabúðir gúlagsins, og rússneskun stjórnsýslu, menningar og mennta. Allt þetta bryti í bága við grundvallarreglur þjóðarréttar og samskiptareglur ríkja, sem nú væru boðaðar. Okkur bæri því siðferðileg skylda til að styðja endurreist sjálfstæði Eystrasaltsþjóða, ekki síður en frelsun þjóða Mið- og Austur-Evrópu undan oki sovéskrar nýlendustjórnar.
5. „Mission Accomplished“.
Viðbrögðin við ræðu minni voru kusteisleg þögn. Á heimleiðinni „hertók“ ég íslenska sendiráðið í Kaupmannahöfn. Ég sat við símann langt fram eftir nóttu til að ná sambandi við Tallinn, Riga og Vilníus. Boðskapur minn var einfaldur.
Tímasetningin getur skipt sköpum í pólitík. Tíminn til að aðhafast er núna.
Ég sendi boðsbréf til utanríkisráðherra Eystrasaltsríkjanna um að koma til Reykjavíkur, þar sem við mundum ganga frá formlegri viðurkenningu á endurreistu sjálfstæði og koma á diplómatískum samskiptum. Ég lýsti þeirri skoðun minni, að aðrir myndu fylgja í fótspor okkar. Við yrðum að nota tækifærið, sem nú gæfist, meðan pólitískt tómarúm ríkti í Moskvu, til að aðhafast, svo að ekki yrði aftur snúið.
Utanríkisráðherrarnir, Lennart Meri frá Eistlandi, Janis Jurkans frá Lettlandi og Algirdas Saudargas frá Litáen komu til Reykjavíkur 25. ágúst. Þann 26. ágúst fór fram látlaus athöfn í Höfða – fundarstað Reagans og Gorbachevs frá því fimm árum áður – þar sem við undirrituðum viðeigandi skjöl og sögðum fáein orð um sögulegt gildi þessarar athafnar.
Fréttirnar höfðu varla fyrr flogið um heimsbyggðina, áður en utanríkisráðherrarnir þrír – sem áður höfðu verið gerðir afturreka frá fundum alþjóðasamfélagsins sem varasamir friðarspillar – höfðu varla undan að þiggja boð um að koma við í höfuðborgum Evrópu til að endurtaka það, sem gerst hafði í Reykjavík.
Ferlið var orðið óafturkallanlegt. Fyrir mig var þetta „mission accomplished“ – ætlunarverki lokið. Bandaríkin komu þessu í verk einhverjum vikum síðar – degi á undan Sovétríkunum, ef ég man rétt. Fáeinum mánuðum síðar voru Sovétríkin ekki lengur til.
6. Óþægilegar spurningar.
Nú, þegar þessi saga er rifjuð upp, aldarfjórðungi síðar, er mörgum spurningum ósvarað. Ein spurningin er þessi: Voru leiðtogar vestrænna lýðræðisríkja virkilega svo kaldrifjaðir, að þeir væru reiðubúnir að fórna frelsi ykkar fyrir pólitískan ávinning í samningum við Sovétríkin? Þótt málið líti þannig út, er veruleikinn kannski ögn flóknari.
Höfum í huga, að Eystrasaltsþjóðirnar höfðu horfið af landakortinu og þar með af pólitískum ratskjám samtímans, í næstum hálfa öld. Þær voru orðnar „gleymdar þjóðir“. Til marks um þetta er samtal, sem ég átti á sínum tíma við samráðherra frá ónefndri Evrópuþjóð um rétt Eystrasaltsþjóða til endurreists sjálfstæðis. Svar hans er mér minnisstætt: „Hafa þessar þjóðir ekki alltaf tilheyrt Rússlandi í reynd“?
Hafi þetta verið viðtekin skoðun í kansellíum Evrópu á þessum tíma, má vera að leiðtogunum hafi ekki fundist þeir vera að fórna neinu, sem máli skipti.
Höfum hugfast, að forysturíki Vesturlanda – Stóra Bretland (Sameinaða konungsríkið), Frakkland, Spánn og jafnvel Bandaríkin – eru öll fyrrverandi nýlenduveldi. Bandaríkjamenn háðu grimmilega borgarastyrjöld til að koma í veg fyrir sundrungu alríkisins. Sameinaða konungsríkið, Stóra Bretland, er nú í tilvistarkreppu vegna ótta við upplausn sambandsríkisins. Þessi gömlu nýlenduveldi – tökum breska heimsveldið og það franska sem dæmi – hafa háð styrjaldir til þess að koma í veg fyrir upplausn nýlenduvelda þeirra.
Það er varla við því að búast, að leiðtoga gamalla nýlenduvelda sé að finna í fremstu röð við að verja rétt smáþjóða til sjálfstæðis. Þess eru ekki mörg dæmi, að smáþjóðir hafi öðlast sjálfstæði fyrri atbeina nýlenduherra sinna. Skrifað stendur: „Lýður bíð ei lausnarans, leys þig sjálfur“. Við þær kringumstæður getur kjörorðið um „samstöðu smáþjóða“ stundum reynst hafa praktíska þýðingu, þrátt fyrir allt.
7. Hvers vegna Ísland?
Ég er ósjaldan spurður: Hvers vegna þorði Ísland að rísa gegn ráðandi viðhorfum, sem nutu stuðnings helstu leiðtoga Vesturveldanna, í máli sem varðaði ekki íslenska þjóðarhagsmuni? Ýmsar skýringar hafa verið bornar fram á þessari hegðun.
Ein skýringin er sú, að Ísland hafi, vegna fjarlægðar frá vettvangi, og öfugt við grannþjóðir, sem deila landamærum með Sovétríkjunum, ekki þurft að óttast afleiðingar gerða sinna. Þessi tilgáta stenst ekki skoðun.
Allt frá því að Ísland háði Þorskastríðin við Breta, Þjóðverja og fleiri (1954-76), sem snerust um útfærslu auðlindalögsögu strandríkja í 200 sjómílur í áföngum, beittu Bretar ekki einasta flota hennar hátignar til að vernda veiðiþjófa innan íslenskrar lögsögu, heldur settu þeir viðskiptabann á Ísland (1954). Bretland var þá helsti markaður okkar fyrir sjávarafurðir. Þetta gerðist, þegar Kalda stríðið stóð í hápunkti.
Þá skárust Sovétríkin í leikinn og buðust til að kaupa allar okkar sjávarafurðir í skiptum fyrir olíu. Allt frá þeim tíma var Ísland háð Sovétríkjunum um eldsneyti fyrir fiskveiðiflotann – lífæð okkar hagkerfis. Ísland kom næst Finnlandi, að því er varðar hátt hlutfall utanríkisverslunar við Sovétríkin. Við urðum því að taka yfirvegaða áhættu. Að vísu ber að viðurkenna að vegna efnahagslegrar hnignunar Sovétríkjanna annars vegar og annarra markaða, sem stóðu okkur opnir hins vegar, var þessi áhætta ekki eins mikil í reynd og virtist við fyrstu sýn.
Önnur skýring, sem á uppruna sinn í bandaríska utanríkisráðuneytinu, hefur að vísu farið laumulega, en er engu að síður staðfastlega haldið fram. Þegar bandarískir stjórnarerindrekar telja sig þurfa að gefa skýringar á því, hvers vegna stuðningur bandarískra stjórnvalda við endurreist sjálfstæði Eystrasaltsþjóða lét á sér standa, vitna þeir að sjálfsögðu til þess, að sem heimsveldi með skuldbindingar vítt og breitt um heimsbyggðina, hafi Bandaríkin þurft að taka tillit til annarra hagsmuna; þar á meðal vegna samstarfsaðila í samningum um endalok Kalda stríðsins, þ.e. leiðtoga Sovétríkjanna. Hins vegar hafi Bandaríkin, þrátt fyrir allt, framfylgt stefnu sinni bak við tjöldin, með því að fjarstýra leppríki sínu – Íslandi. Ísland hafi að sjálfsögðu ekki þorað að gera það sem það gerði, nema að undirlagi bandarískra stjórnvalda.
Með öðrum orðum: Ísland er sagt hafa verið bandarískt peð í endatafli Kalda stríðsins. Eini gallinn við þessa skýringartilgátu er sá, að þótt ég hafi starfað sem utanríkisráðherra Íslands í sjö ár, á sama tíma og fjórir utanríkisráðherrar Bandaríkjanna (George Schultz, James Baker, Larry Eagleburger og Warren Christofer), reyndi enginn þeirra nokkru sinni að leiðbeina mér um afstöðu til sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða. Þetta er m.ö.o. eftiráskýring.
Þegar ég hugsa til baka, er mér ljóst, að hinar raunverulegu ástæður fyrir afstöðu minni og athöfnum voru af allt öðrum toga. Ég hafði fyrir því djúpa sannfæringu, að vísasti vegurinn til glötunar í samskiptum við Sovétríkin væri að binda allt sitt trúss við pólitísk örlög eins manns – nefnilega Gorbachevs. Það væri bæði vanhugsað og varasamt. Ég hafði litla trú á því, að Gorbachev gæti komið fram nauðsynlegum umbótum á lömuðu hagakerfi Sovétríkjanna, hvað þá, að hann gæti komið á lýðræðislegum umbótum á stjórnkerfi þess. Tilvistarkreppa Sovétríkjanna væri of djúp. Ráðandi öfl í Moskvu kynnu einfaldlega engin ráð til úrbóta.
Ég leit svo á, að nýlenduveldi Sovétríkjanna væri að liðast í sundur, líkt og bresku og frönsku nýlenduveldin hefðu hrunið eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar. Öfugt við Putin var ég sannfærður um, að fall Sovétríkjanna væri það jákvæðasta, sem unnt væri að stuðla að undir lok 20stu aldar. Ef Eystrasaltsþjóðunum tækist að brjótast út úr þjóðafangelsi Sovétríkjanna með friðsamlegum hætti, væri margt sem benti til þess, að það yrði upphafið að endalokum þeirra. Því fyrr, þeim mun betra.
Um hvað hafði Kalda stríðið snúist af hálfu vestrænna lýðræðisríkja í tæpa hálfa öld, ef ekki um freslun undirokaðra þjóða? Mér var stórlega misboðið að heyra leiðtoga vestrænna ríkja prédika það sem stefnu sína upp í opið geðið á undirokuðum þjóðum, að þær ættu að sætta sig við örlög sín, til þess að við á Vesturlöndum gætum búið við frið og stöðugleika. Þetta hljómaði í mínum eyrum sem argvítug pólitísk öfugmæli – og meiri háttar mistök í þokkabót.
8. Má eitthvað af þessu læra?
Þegar við lítum til baka og íhugum þróun mála síðastliðinn aldarfjórðung, hvaða lærdóma getum við helst dregið af reynslu Eystrasaltsþjóða að fengnu sjálfstæði?
Hin sára sögulega reynsla þessara smáþjóða í seinni heimstyrjöldinni og af völdum sovéskrar nýlendustefnu í næstum hálfa öld, er geymd en ekki gleymd í þjóðarvitundinni. Þegar seinni heimstyrjöldin braust út og herir Hitlers og Stalíns óðu á víxl um löndin við Eystrasalt, voru þessar þjóðir einar og yfirgefnar, ofurseldar örlögum sínum. Þess vegna var það efst í huga stjórnmálaleiðtoga þessara þjóða, að fengnu sjálfstæði, að gera allt sem unnt væri til að tryggja nýfengið sjálfstæði frammi fyrir ytri ógn og að byggja upp á ný stofnanir lýðræðis- og réttarríkis.
Þetta þýddi að uppfylla inntökuskilyrðin fyrir inngöngu í Evrópusambandið og NATO við fyrsta mögulegt tækifæri.
Á umþóttunarskeiðinu frá miðstýrðu og ríkisreknu fyrirskipanahagkerfi í átt til valddreifðs markaðshagkerfis; og frá alræðisríki í átt til lýðræðis-og réttarríkis – getur það ráðið úrslitum að njóta öflugs stuðnings utan að. Við erfiða stefnumótun og ákvarðanatöku beittu leiðtogar ykkar gjarnan óbrigðulli mælistiku á hvað horfði til réttrar áttar, og hvað ekki. Mundi þessi stefnumótun eða þessi ákvörðun uppfylla inntökuskilyrðin að Evrópusambandinu og NATO, eða ekki?
Enda þótt Evrópusambandið sé ekki hernaðarbandalag, veitir það aðildarríkjunum hlutdeild í „mjúku valdi“ stærstu viðskiptablokkar heimsins. Það munar um minna.
NATO er hins vegar hernaðarbandalag, sem stendur opið lýðræðisríkjum, sem vilja öðlast hlutdeild í sameiginlegu öryggiskerfi frammi fyrir utanaðkomandi ógn. Á tímum Kalda stríðsins í hálfa öld reyndist þetta hernaðarbandalag búa yfir nægilegum fælingarmætti til að halda hugsanlegum árásaröflum í skefjum. Ég trúi því, að það sé óbreytt.
Þetta er að mínu mati mikilvægasti lærdómurinn, sem draga má af reynslu Eystrasaltsþjóða, að fengnu sjálfstæði. Frá upphafi til þessa dags hefur hin pólitíska forysta sameinast um meginmarkmiðið – hvað sem liði öðrum ágreiningsefnum: Aðild að Evrópusambandinu og NATO.
Þessi markmið hafa notið óbrigðuls stuðnings meirihluta þjóðanna, sem hafa ekki gleymt, heldur lært af mistökum fortíðarinnar. Þessi sameiginlegu markmið – þvert á pólitískar víglínur – hafa framkallað þann innri aga, sem þarf til að standa að og fylgja fram erfiðum og oft óvinsælum ákvörðunum. Þetta hefur gengið þrátt fyrir félagslega áraun og ytri áföll, sem hafa reynt á pólitískt þol og félagslega samheldni þessara þjóðfélaga. Það er þessi langtíma sýn og pólitíska stefnufesta um að fylgja henni eftir, sem hefur umfram allt gert þjóðum Eystrasaltslanda kleift að ná óumdeildum árangri.
Þetta er lykillinn að þeim ótvíræða árangri, sem þið hafið náð, að fengnu sjálfstæði.
Sem fullgildir aðilar að Norður-Atlantshafsbandalaginu hafið þið fælingarmátt NATO að baki ykkur til að halda í skefjum hótunum um ytri ógn við fullveldi ykkar og öryggi.
Þetta er á alþjóðlegan mælikvarða „a success story“, sem aðrir geta lært mikið af.
Til allrar óhamingju hefur stjórnmálaforystu Úkraínu á sama tíma, að fengnu sjálfstæði, gersamlega mistekist að tryggja formlegt sjálfstæði sitt, sem og að byggja upp stofnanir lýðræðis- og réttarríkis, sem fullnægi lágmarksskilyrðum um aðild að Evrópusambandinu og varnarsamtökum lýðræðisríkja.
Þið hafið því miklu að miðla af reynslu ykkar. Það er tími til kominn, að þið beitið áhrifum ykkar innan Evrópusambandsins og NATO til stuðnings úkraínsku þjóðinni, sem nú hefur ratað í djúpa tilvistarkreppu. Þið hafið þekkinguna og reynsluna. Þið talið tungumál Rússa og deilið reynslunni með Úkraínumönnum af því að búa við ofríki þeirra. Þið eruð sérfræðingarnir. Nú er það ykkar að deila reynslu ykkar, að fengnu sjálfstæði, með Úkraínumönnum um það, hvernig á að brúa gjána milli alræðis og lýðræðis, milli valdbeitingar og frelsis.
Þið vitið, hvernig á að gera þetta. Þið hafið gert það með góðum árangri. Nú er það ykkar að deila þessari reynslu með nágrönnum ykkar, sem þurfa á því að halda.