Ekki of seint að iðrast fyrir dauðann: Spænsk dæmisaga um búddista á kauphöllinni.

Hvernig litist ykkur á, ef helsti fjáröflunarmaður Flokksins til margra ára – tengiliður við fjárfesta og bisness – birtist allt í einu á skjánum, síðskeggjaður og í hvítum kufli? Fullur af iðrun bæði hann þjóð sína afsökunar á fyrrum syndugu líferni sínu.Og lofaði bót og betrun. Hann væri reyndar orðinn búddisti og stundaði hugleiðslu í sáttaleit við almættið – og jóga og tandra í tæri við alheimskærleikann.

Hann tilkynnti, að hann ætti í sínum fórum upptökur, sem spönnuðu sjö ára tímabil og afhjúpuðu þjónustu Flokksins við gróðafíklana. Hann boðaði í auðmýkt skilyrðislaust samstarf við sérstakan saksóknara um að afhjúpa glæpi fortíðar. Að vísu vonaðist hann til að fá vægari dóm en ella fyrir vikið. Og að fá – í nafni höfundarréttar – sanngjarna þóknun fyrir upptökurnar.

Þetta gerðist hér á Spáni fyrir augunum á okkur í gær. Gætuð þið ímyndað ykkur t.d. Kjartan Gunnarsson í gervi búddistans í Kastljósi hjá Þóru? Eða t.d. Guðlaug Þór í Íslandi í dag á Stöð 2 í svipuðu hlutverki – társtokkinn? Þið munduð auðvitað ekki trúa ykkar eigin augum.

Þeir sem fylgjast með fréttum vita, að það voru kosningar til sveitarstjórna og héraðsstjórna hér á Spáni um síðastu helgi. Flokkurinn galt afhroð. Hann er samt enn stærsti flokkurinn. Gallinn er hins vegar sá, að það vilja engir aðrir koma nálægt honum til að fá ekki á sig óorð af ódauni spillingarinnar. Það er að vísu ofurlítil huggun harmi gegn fyrir arftaka spænsku fasistanna, að afvegaleiddur og náttúrulaus krataflokkur fór jafnvel ennþá verr út úr því. Grasrótarhreyfing hinna vanræktu og vonsviknu (Podemos -Við getum það) ruddist inn í stássstofur valdsins og mun ráða meirihluta víðast hvar, í samstarfi við leifarnar af krataflokknum og nýja Viðreisnarflokkinn (Ciudadanos), sem hraktist út úr Sjálfstæðisflokknum út af valdhroka spillingarflokksins (með kveðju til Bensa Jóh.).

Hvað hefur gerst? Það eru ekki nema fjögur ár frá því að Flokkurinn (Sjálfstæðisframsóknarflokkurinn) henti krötunum út úr landstjórninni og öllum fylkisstjórnum, nema hjá okkur hér í Andalúsíu. Af hverju? Kratarnir klikkuðu á að sjá fyrir og fyrirbyggja fjármálakreppuna í tæka tíð og virtust engin ráð kunna til að bregðast við henni. Þeir gerðu rétt til fóstureyðinga, að uppfylltum skilyrðum, og sambúð samkynhneigðra, að forgangsmálum – hvort tveggja þörf umbótamál í landi þrúguðu af kaþólskri hræsni – en koma samt ekki í staðinn fyrir skyldu krataflokka að gæta almannahagsmuna gegn auðvaldinu.

Síðan eru fjögur ár. Á þessum fjórum árum hefur tvennt gerst. Landið er – í bókstaflegum skilningi – sokkið upp fyrir nasir í botnlausri spillingu. Tilraunir Flokksins til að fást við afleiðingar hrunsins, botnlausar skuldir sjúks fjármálakerfis, hafa snúist um að framvísa reikningunum til skattgreiðenda. Spænskir skattgreiðendur hafa verið að borga fyrir skuldir óreiðumanna. Ofsagróðinn í bóluhagkerfinu fyrir hrun var einkavæddur. Skuldirnar eftir hrun hafa verið þjóðnýttar.

Skattar á almenning hafa verið snarhækkaðir og gjaldtaka fyrir grunnþjónustu (vatn, rafmagn, sorphirðu) sömuleiðis. Velferðarþjónustan er við að bresta undan fjársvelti og álagi. Kannist þið við þetta? Annar hver ungur Spánverji telst vera atvinnulaus samkvæmt opinberum tölum – annars fjórði hver. Þjóðfélagið hefur umhverfst milli hinna ofurríku, sem græddu í bólunni og var bjargað frá hruninu, og allra hinna.

Við þetta bættist, að eftir hrun fjármálakerfisins er eins og graftarkýli spillingarinnar hafi sprungið hvert af öðru – eins og í raðsprengjum frá degi til dags. Það líður vart sá dagur, að fjölmiðlar flytji ekki fréttir af superbónusum og kaupaukum fjármálafurstanna, sem settu þjóðfélagið á hausinn, og af fjárdrætti eða mútuþægni valdhafa Flokksins um land allt – þeirra sömu og áttu að fyrirbyggja hrunið og gæta hagsmuna almennings.

Frægasta dæmið af þeim öllum er af fjármálastjóra Flokksins, Barcénas (sem hefur gegnt starfi nokkurn veginn jafnlengi og Kjartan Gunnarsson hjá íslenska Flokknum). Þetta byrjaði allt saman með því, að Evrópusambandið píndi svissnesk skattayfirvöld, í tengslum við dómsmál, til að gefa upp leynireikninga í svissneskum bönkum. Þá kom á daginn, að fjármálastjóri Flokksins átti tugi milljóna dollara í felum. Rannsókn leiddi í ljós, að þetta var skattsvikið fé.

Þegar þar var komið sögu, sneri Flokkurinn baki við fjárhirði sínum. En hann var ekki bara saklaust fórnarlamb, eins og þeir vonuðu. Hann hafði alla vega bókhaldið í lagi um ógrynni fjár, sem Flokkurinn hafði fengið frá erfðaauðkýfingum, stórverktökum og fjármálafurstum. Allt undir borðið. Allt ólöglegt. Og drjúgur hluti þessa pólitíska mútufjár hafði runnið inn á einkareikninga fomannsins (Rajoy) og helstu ráðherra, héraðs- og borgarstjóra. Þeir létu meira að segja borga fyrir sig veislufatnaðinn, hórurnar og lúxusbílana. Þetta hefur verið fréttunum dag frá degi og frá degi til dags s.l. fjögur ár.

Og eitt enn. Sérstakur saksóknari, frægasti lögfræðingur Spánar, sem náði því að kyrrsetja og ákæra fjöldamorðingjann Pinochet í London forðum daga – hann var um skeið sérstakur saksóknari yfir spillingargengi Flokksins í Valencia héraði. Allir efstu menn á lista Flokksins í Valencia héraði fyrir seinustu kosningar voru reyndar sakborningar í óútkljáðum spillingarmálum. Þá lá mikið við. Meirihluti Stjórnlagadómstóls Spánar komst að þeirri niðurstöðu, að Garzon, rannsóknardómari, hefði farið umfram lagaheimildir við að hlera síma sakborninga. Hann var rekinn og er nú landflótta í Evrópu. Meirihluti Félags Hæstaréttarlögmanna á Spáni hefur fordæmt þessa aðför meirihluta Sjórnlagadómstólsins sem pólitíska misbeitingu.

Og nú hafa sumsé spænskir kjósendur tekið sig til og byrjað að moka flórinn. Þeir hafa sópað hyskinu út úr byggða- og bæjarstjórnum og héraðsstjórnum. Á þessari stundu lítur út fyrir, að Flokkurinn haldi hvergi meirihluta nema í Galiciu (það er svona eins og Sjálfstæðisflokkurinn héldi meirihluta í Bolungarvík).

Meira að segja Madrid er fallin.

Íhaldsmeirihlutinn, sem þar hefur ráðið ríkjum í meira en aldarfjórðung, var alræmdur fyrir illkynjaða þröngsýni og valdhroka. Í gær var mynd á forsíðu í einu blaðanna af Manuelu Carmena, sem tekur nú við stjórnartaumunum í Madrid. Hún var að lesa ævisögu Jóns Gnarr til að búa sig undir nýja djobbið. Áhrif Besta flokksins teygja sig greinilega víða, þótt þau virðist ekki ná til Bjartrar framtíðar.

Til þess að bæta svo gráu ofan á svart geystist svo allt í einu fram á sjónarsviðið maður að nafni Marcos Benavent. Hann var einn helsti hirðmaður Flokksins í Valencia héraði. Nú biður hann þjóð sína einlæglega afsökunar á að hafa tilheyrt glæpagengi Flokksins. Myndin af honum á forsíðunni segir meira en mörg orð. Hann er síðskeggjaður á hvítum kufli og hendurnar í bænagjörð með hringa á hverjum fingri. Hann biðst fyrirgefningar. Hann boðar samstarf við dómsvaldið. Hann segir, að sannleikurinn verði að koma í ljós, þótt sár sé.

Við vorum glæpamenn, þjófar, mútuþegar, sukkarar, svindlarar og lygarar. Það eru engar málsbætur, segir hann, en við vorum gróðafíklar, rétt eins og sumir eru áfengis- eða eiturlyfjafíklar. Það fylgir sögunni, að hann sé nú orðinn breyttur maður: búddisti, sem stundar jóga og tandra. Blaðamenn höfðu á orði, að hann liti miklu betur út núna, en þegar hann birtist þeim í strípuðum jakkafötum sem fulltrúi valdsins með áhyggjusvip og bindi og ók um á opnum porsche – til að hreykja sér yfir lýðinn.

Hver er þessi Benavent (hinn velviljaði)? Hann var í sjö ár forstjóri þess, sem við mundum kalla Íslandsstofu fyrir Valencíafylki. Hann sá um samskipti við erlenda fjárfesta. Hann boðaði þeim fríar lóðir, afslátt af fasteignagjöldum, frestun á skattgreiðslum í fimm ár og lága skatta á arðgreiðslur og tekjur fyrirtækja – bara ef þeir vildu koma og fjárfesta í Valencia. Undirskilið var, ef þeir vildu borga í Flokkinn.

Nú segir Benavent – hinn velviljaði – að bókhaldið hjá honum hafi alltaf verið pottþétt. Allt er skráð upp á punkt og prik. Og það sem meira er: Allir rafpóstar, sem fóru milli hans og hinna gróðapunganna (svo ég noti orðfæri Matthíasar Bjarnasonar) eru í röð og reglu.

Og rúsínan í pylsuendanum er: Öll samtöl hins velviljaða við innlenda og erlenda gróðafíkla og forystu héraðsstjórna og Flokks, voru tekin upp band. Að hans sögn mun það taka mannár að hlusta á gróðahjalið.

Allt þetta í von um vægari dóm. Og reyndar fyrir sanngjarna umbun ( í nafni höfundarréttar) fyrir upptökurnar.

Þótt maður sé orðinn búddisti, lifir maður ekki á loftinu, ekki satt?