Þessi kvikmyndahátíð í Toronto, sem nú var haldin í 11. sinn, hefur verið að vinna sér nafn fyrir áhugaverðar heimildamyndir. Hátíðin er haldin á vegum samtaka fólks af eistneskum uppruna í Kanada. Forsvarsmenn hátíðarinnar sérhæfa sig í heimildamyndum frá Eystrasaltsríkjum – eða um efni, sem tengist þeim á einhvern hátt. Að þessu sinni voru sýndar níu myndir með fjölbreyttu efnisvali, allt frá goðsögnum frumbyggja Síberíu til tónlistar Arvos Pärt, þekktasta nútímatónskálds Eista.
Jón Baldvin Hannibalsson og Bryndís Schram voru sérstakir heiðursgestir sýningarinnar. Að sýningu lokinni svaraði Jón Baldvin fjölmörgum spurningum áhorfenda um efni myndarinnar og sögulegan bakgrunn.
Daginn eftir flutti Jón Baldvin erindi í Tartu Collegium, menningarmiðstöð samtaka fólks af eistneskum uppruna í Ontario. Í erindinu fjallaði hann um „Syngjandi byltinguna“ og skýrði, hvers vegna leiðtogum hinna nýfrjálsu þjóða var fálega tekið á Vesturlöndum. Einnig fjallaði hann um, hvað helst mætti læra af reynslu Eystrasaltsþjóða, að fengnu sjálfstæði á s.l. aldarfjórðungi og hvað mætti af henni læra, einkum varðandi samskipti Rússa og grannþjóðanna og í samanburði við stöðu mála í Úkraínu þessi misserin. Að loknu erindi Jóns Baldvins spunnust umræður um efnið, sem stóðu á aðra klukkustund. Það var auðfundið, að þarna var samankomið fólk, sem bjó yfir sögulegu innsæi og djúpri þekkingu á umræðuefninu.
Í framhaldi af sýningu á „Þeir sem þora…“ í Toronto var myndin valin sem fyrsta myndin til sýningar á „Baltic Film Series“, sem efnt var til á vegum Stanford háskóla að frumkvæði CREEES (Center for Russian, East-European and Eurasian Studies). Á undan sýningu myndarinnar flutti Jón Baldvin stutt erindi um hinn sögulega bakgrunn og svaraði spurningum áhorfenda að sýningu lokinni.
„Þeir sem þora…“ hefur nú þegar verið sýnd í aðalsjónvarpsstöðvum Eistlands, Lettlands og Litáen. Næst verður hún sýnd á kvikmyndahátíðinni í Lübeck – Norrænum kvikmyndadögum – dagana 4.- 8. nóvember.
Framleiðandi myndarinnar er Ólafur Rögnvaldsson í samstarfi við kvikmyndagerðarmenn í Tallinn, Riga og Vilnius.
Jón Baldvin Hannibalsson, Kristin S. Doughty og Bryndís Schram. Kristin S. Doughty er framkvæmdastjóri EstDocs kvikmyndahátíðarinnar.