NORRÆNIR KVIKMYNDADAGAR Í LÜBECK

Hvað eiga þeir Thomas Mann, Günther Grass og Willy Brandt sameiginlegt með Bryndísi? Þau eiga öll ættir sínar að rekja til Lübeck, miðaldaborgarinnar fögru í Schleswig-Holstein. Ekki amalegur félagsskapur a´tarna.

Það var ekki á kot vísað að vera í félagsskap Bryndísar á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck dagana 4. til 8. nóvember. Þetta var, satt að segja, samfelld veisla fyrir skilningarvitin, sjón og heyrn – og bragðlaukana líka þar á milli. Ég var þarna til að fylgja úr hlaði heimildamyndinni „Þeir sem þora…“, sem var ein þrettán kvikmynda frá Íslandi á þessari rótgrónu kvikmyndahátíð að þessu sinni.

Reyndar varð þetta íslensk kvikmyndaveisla um það er lauk, því að íslenskar kvikmyndir sópuðu að sér verðlaunum dómnefnda og áhorfenda, svo að ýmsum þótti nóg um.

FÚSI hans Dags Kára fékk reyndar tvenn verðlaun, önnur að mati áhorfenda, en hin samkvæmt dómnefnd hinnar evangelísk-lúthersku kirkju Lübech-Lauenburg. Myndin fjallar sem kunnugt er um mann, sem er tröllvaxinn hið ytra en göfugmenni innst inni – og svo vel leikin, að leikarinn, Gunnar Jónsson, fékk sérstök verðlaun fyrir frammistöðu sína (þótt hann hafi, að sögn, aldrei komið í leiklistarskóla).

HRÚTARNIR hans Gríms Hákonarsonar með þá Sigga Sigurjóns og Theódor Júlíusson í lykilhlutverkum fengu sérstök verðlaun sem „framúrskarandi í hópi leikinna mynda“.

Og heimildamyndin hans Óla Rögg og Kolfinnu, „Þeir sem þora…“ – um endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltsþjóða og fall Sovétríkjanna – fékk „sérstaka viðurkenningu“ (honorable mention) í flokki heimildamynda.

Löndum vorum var því tíðförult upp á stóra sviðið á lokahátínni til þess að veita viðtöku verðlaunum og þakka fyrir sig.

Veislugestum varð reyndar tíðrætt um það að lokinni verðlaunaafhendingu, hvort þeir væru hér vitni að íslenskri kvikmyndabylgju og spurðu sjálfa sig og aðra, hvort þetta væri hápunkturinn – eða kannski bara byrjunin?

Von að spurt sé, því að, fyrir utan verðlaunamyndirnar tvær, voru ellefu aðrar myndir frá Íslandi, leiknar myndir, heimildamyndir og stuttmyndir. Allar eru þær í góðum gæðaflokki og sumar reyndar frábærar, þótt ekki ynnu þær til verðlauna að þessu sinni.

Þá vakti það ekki síður athygli, að samkvæmt kynningarbæklingum eru flestir íslensku leikstjórarnir ungir að árum, fæddir á áttunda og níunda áratug seinustu aldar. Þótt byrjunin lofi góðu, eiga þeir því væntanlega flestir sín bestu verk óunnin í framtíðinni.

Milli bíósýninga gladdi það gestsaugun að ganga um götur og torg hinnar fögru Hansaborgar. Miðaldaborgin innan virkismúra stendur á eyju, umlukinni ánni Trave, sem tengir borgina við Eystrasaltið. Hún er formfögur, svipsterk og vel varðveitt, enda á menningarmynjaskrá UNESCO.

Þessa hlýju haustdaga var allt umvafið gróðri. Trén stóðu í haustlitunum, veitingahús og vínstofur á hverju götuhorni, og ilminn af gómsætum réttum bar fyrir vitin. Þessi norræna kvikmyndahátíð (sem er reyndar orðin norræn/baltnesk) var nú haldin í 57. sinn.

Aðsóknin að kvikmyndasölum gamla ráðhússins þessa dagana sýndi, svo ekki varð um villst, að borgarbúar kunna vel að meta það sem þar er á boðstólum. Bíógestir teljast í tugum þúsunda þessa fjóra daga. Það þykir harla gott í borgarsamfélagi, sem er á stærð við stórhöfuðborgarsvæðið. Og þótt hátíðin sé kennd við Norðurlönd og Eystrasalt, laðar hún að sér gesti frá öllum heimshornum. Að loknum sýningum er þétt setinn bekkurinn á kránum, þar sem spinnast fjörugar umræður um efni myndanna á ótal tungumálum. Gamla Hansaborgin vaknar aftur til lífsins þessa dagana og er orðin að alþjóðlegri menningarborg.

Milli sýninga notuðum við Bryndís tækifærið og heimsóttum söfn, sem gegna því hlutverki að heiðra minningu tveggja eftirlætissona Lübeckborgar.Þeir eru Willy Brandt og Günter Grass. Söfnin snúa bökum saman – að sameiginlegum bakgarði – eins og þeir félagar gerðu í lífinu. Annar breytti veruleikanum með sinni pólitík; hinn hjálpaði okkur að skilja hann í sínum skáldskap. Báðir lögðu þeir fram ómældan skerf til að breyta Þýskalandi til hins betra.

Lübeck er með réttu stolt af þeirri arfleifð.