Ísbrjóturinn? Um stuðning Íslands við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltslandanna

Svar Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings við þessari grein JBH: Kemur fiskur í staðinn fyrir „foreign policy“ á Íslandi? Makríll í staðinn fyrir mannréttindi? Hagsmunir í staðinn fyrir hugsjónir – prinsip, grundvallarsjónarmið?

Senn er aldarfjórðungur síðan Eystrasaltslöndin þrjú endurheimtu sjálfstæði sitt. Í hálfa öld höfðu Eistar, Lettar og Litháar mátt þola kúgun erlends valds en loks náði réttlætið fram að ganga. Þá létu íslensk stjórnvöld að sér kveða, með Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra í broddi fylkingar. Á alþjóðavettvangi hélt hann málstað þeirra á lofti. Jafnframt hélt hann til landanna þriggja við Eystrasalt í janúar 1991 þegar sovéskar sérsveitir myrtu þar saklausa borgara og harðlínukommúnistar ætluðu að ræna völdum. Aðrir ráðamenn á Vesturlöndum vildu ekki fara eða sáu meinbugi á því að sýna þannig í verki stuðning sinn við heimamenn og sjálfsagða baráttu þeirra.

Lofsverðs framtaks Jóns Baldvins Hannibalssonar verður ætíð minnst í Eystrasaltslöndunum. Sömuleiðis gleyma íbúar þar því seint að í ágúst þetta sama ár, 1991, tóku íslensk stjórnvöld á ný upp stjórnmálasamband við ríkin þrjú, fyrst allra á Vesturlöndum. Utanríkisráðherrar Eistlands, Lettlands og Litháens staðfestu þau tímamót við hátíðlega athöfn í Höfða hinn 26. ágúst 1991. „Ísland var fyrst“ og „Ísland var ísbrjótur,“ sögðu gestirnir góðu. Æ síðan hefur frumkvæði Íslendinga verið hampað með ýmsum hætti. Í Vilníus er Íslandsgata og Íslandstorg í Riga og Tallinn. Aðrar þjóðir hafa ekki notið viðlíka heiðurs.

Vel er við hæfi að minnast þessarar sögu, einkum þegar merkt afmæli viðburðanna er í vændum. Eins er sjálfsagt að nefna að margir vestrænir valdhafar sökuðu forystusveitina við Eystrasalt um ábyrgðarleysi og jafnvel kjánaskap. Skildi þetta fólk ekki að féllist Gorbatsjov, leiðtogi Sovétríkjanna, á kröfur þeirra yrði honum bolað í burtu? Harðlínumennirnir sem tækju við myndu kæfa vonir íbúanna við Eystrasalt í blóði ef með þyrfti. Og hvað með afvopnun, endalok kalda stríðsins og sameiningu Þýskalands? Hafa yrði í huga heildarmyndina.

Þjóðarleiðtogarnir Bush, Kohl, Thatcher og Mitterrand fá ekki götur í höfuðborgum Eystrasaltslandanna nefndar eftir ríkjum sínum. En það er nú samt þannig að við lifum og lifðum í hörðum heimi. Realpolitik ræður. Í draumaveröld hefðu leiðtogar Bandaríkjanna og Evrópuvelda orðið við óskum íbúa Eystrasaltslandanna í einu og öllu. En hvað hefði þá gerst í raun? Nú er það svo að því miður er fortíðin ekki eins og stærðfræðijafna eða efnafræðiformúla þar sem við getum breytt einum þætti og vitað fyrir víst hvernig lokaniðurstaðan verður fyrir vikið. Á hinn bóginn virðist ljóst að hefði Gorbatsjov til dæmis fallist á sjálfstæðisyfirlýsingu Litháens í mars 1990 hefði andstæðingum hans í Moskvu heldur betið vaxið ásmegin. Hefði honum verið steypt af stóli um það leyti hefðu eftirmennirnir reynst aðrir og verri en klaufarnir sem reyndu að ræna völdum ári síðar og flýttu þannig fyrir hruni Sovétríkjanna. Hér má einmitt minna á að vorið 1990 neituðu íslensk stjórnvöld að verða við óskum Litháa um viðurkenningu á sjálfstæði þeirra. Það þótti ekki tímabært, myndi engu skila.

Þannig verður sagan flóknari þegar vel er að gáð. Eftir Eystrasaltsför Jóns Baldvins í janúar 1991 væntu forystumenn Litháa þess líka að íslensk stjórnvöld myndu nær samstundis stofna til stjórnmálasambands. Þeim hafði svo sannarlega verið gefið undir fótinn með það. Vikur liðu, urðu að mánuðum, ekkert gerðist. Í Vilníus fékk leiðtoginn Vytautas Landsbergis vart leynt vonbrigðum sínum. Hvers vegna þetta hik? Utanríkisráðherra Íslands átti svör á reiðum höndum. Í fyrsta lagi gengi ekki að stíga skrefið fyrr en Litháar réðu í raun eigin landi og gætu tekið á móti fulltrúa erlends ríkis. Í annan stað: forysta Íslendinga væri til einskis nema ráðamenn annars staðar fylgdu á eftir. Ekkert benti til þess. Því yrði að bíða.

Skipti hér máli að sovéskum valdhöfum mislíkaði mjög Eystrasaltsstefna íslenskra stjórnvalda? Þeir létu í veðri vaka að héldi þessi ósvinna áfram væri austurviðskiptum Íslendinga stefnt í voða. Var stuðningur við sjálfstæðisbaráttu fjarlægra þjóða þess virði? Útflytjendur sem áttu beinna hagsmuna að gæta efuðust um það. Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra var á báðum áttum. Ekkert bendir þó til þess að þrýstingur Sovétmanna hafi ráðið því að ekki var stofnað til stjórnmálasambands fyrr en raun bar vitni. Ríkisstjórn Íslands virtist reiðubúin að taka á sig skellinn í nafni hugsjónanna. Viðskipti skyldu ekki vega þyngra en stuðningur við kúgaðar þjóðir.

Því verður samt að bæta við að Kremlverjar beittu viðskiptavopninu aldrei. Hvernig stóð á því? Í upplausnarástandinu sem ríkti í Moskvu þegar hér var komið sögu vissi ein stjórnardeildin kannski ekki hvað sú næsta var að gera. Kannski fannst valdhölfum eystra líka að afstaða Íslendinga breytti bara ekki nokkrum sköpuðum hlut. Í öllu falli fór svo að í janúar 1991, um leið og Jón Baldvin var við Eystrasalt að fordæma ódæðisverkin þar, undirrituðu sovéskir og íslenskir embættismenn samkomulag um frekari viðskipti, glaðir og reifir. Og þegar Sovétríkin hurfu úr heimi hér í árslok 1991 var Ísland líklega eina ríkið á Vesturlöndum sem átti enga fjármuni inni hjá hinum fallna risa.

Hrun Sovétríkjanna er auðvitað það sem öllu skiptir í þessari sögu. Stóru umskiptin urðu í ágúst 1991 þegar valdaræningjarnir í Moskvu flæktust fyrir sjálfum sér og leiddu óviljandi til valda Boris Jeltsín. Hann hafði áður lofað að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltslandanna og stóð við þau stóru orð. Nú er tækifærið! sagði Jón Baldvin Hannibalsson við kollega sína á NATO-fundi í Brussel. Framhaldið þekkjum við. Leiðin lá til Höfða og síðan fylgdu önnur ríki fordæmi litla Íslands. Smáþjóðin hafði sýnt hvað í henni bjó, hverju hægt væri að breyta ef hugsjónir fengju að ráða og hinni hörðu raunsæispólitík vikið til hliðar. Eða hvað?

Aftur þarf að staldra við. Þótt eitt fylgi öðru í tímaröð er ekki þar með sagt að eitt leiði af öðru. Atburðirnir og ákvarðanirnar sem skiptu sköpum áttu sér stað í Moskvu, ekki Reykjavík. Í Berlín, Washington og víðar biðu menn ekki eftir því hvað Íslendingar segðu eða gerðu. En skipti atbeini íslenskra stjórnvalda þá engu máli? Það væri ofsagt. Hinn móralski stuðningur var mikils metinn, fólkið við Eystrasalt fann að á Vesturlöndum voru þeir til sem skildu og studdu vonir þess. Meira að segja er freistandi að velta því fyrir sér hvort Jón Baldvin og Davíð Oddsson, sem þá var orðinn forsætisráðherra, hafi ýtt af stað snjóbolta þegar þeir ákváðu í ágúst 1991, um leið og sýnt var að valdaránstilraunin í Moskvu færi út um þúfur, að stofna til stjórnmálasambands við Eystrasaltsríkin. Hinn metnaðargjarni Uffe Ellemann-Jensen, utanríkisráðherra Dana, sá óðara að þeir yrðu að vera eins snöggir til. Stjórnin í Kaupmannahöfn steig því sama skref, hugsanlega fyrr en annars hefði orðið raunin, og þrýsti um leið á önnur ríki Evrópubandalagsins að fylgja í kjölfarið. Þetta er þó nær ómögulegt að staðfesta með óyggjandi hætti, nema kannski í skálaræðum þar sem önnur lögmál gilda en í fræðilegum rannsóknum (svo verður að hafa það ef þau orð þykja til merkis um akademískan hroka).

Alla þessa sögu þarf að segja. Sjónarhornin verða ólík að einhverju leyti eftir því hver á í hlut. Fulltrúi smáþjóðar sér atburðina öðrum augum en valdhafi stórveldis. Sagnfræðingarnir taka annan pól í hæðina en söguhetjurnar. Fræðafólkinu er kennt – eða á að vera kennt – að kynna sér liðna tíð frá öllum mögulegum hliðum, þefa uppi sem flestar heimildir, leggja mat á þær, reyna framar öllu að segja satt frá en leiða hugann ekki að því hvernig hvaða tilgangi sagan geti þjónað í pólitískum eða persónulegum tilgangi. Auk þess vilja fræðimennirnir ekki bara draga stóru drættina, hetjusöguna. Þeir vilja líka laða fram fínni blæbrigði, það sem hefði mátt betur fara, það sem er ósagt í frásögnum seinni tíma. Þetta er auðvitað ekki einskorðað við Ísland. Í Eistlandi, Lettlandi og Litháen eru ungir fræðimenn (ekki endilega bara í aldri heldur einnig í anda) farnir að horfa gagnrýnum augum á ár sjálfstæðisbaráttunnar fyrir hartnær 25 árum. Þeir rifja upp að í öllum löndunum greindi menn á um réttar leiðir að lokatakmarkinu. Þeir benda á að Eistar og Lettar voru mun varkárari en Litháar og töldu þá vilja of mikið of fljótt. Þeir sýna því skilning að leiðtogar á Vesturlöndum höfðu mörg járn í eldinum.

Fögnum því samt næsta ár að aldarfjórðungur er síðan þjóðirnar þrjár við Eystrasalt endurheimtu sjálfstæði sitt. Minnumst líka frumkvæðis Jóns Baldvins Hannibalssonar. Án hans hefði Ísland lítt átt hlut að máli. Það þurfti einhvern af hans tagi á stóli utanríkisráðherra, hrifnæman og óvenjulegan ástríðupólitíkus, með óþol gagnvart yfirlæti margra vestrænna valdhafa í garð Íslendinga og annarra smáþjóða – og óskipta samúð með íbúunum við Eystrasalt. En auðvitað gerði Jón ekki alltaf allt rétt þessi ár, skárra væri það nú.