Viðtal Björns Inga Hrafnssonar við Jón Baldvin Hannibalsson á eyjan.is

Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi utanríkisráðherra og fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins var gestur Björns Inga Hrafnssonar í sjónvarpsþættinum Eyjunni sem sýndur er á Stöð 2. Ýmislegt bar á góma og ræddi Jón Baldvin meðal annars um Heimildarmyndina Þeir sem þora sem fjallar um þá margfrægu ákvörðun Íslendinga að viðurkenna sjálfstæði eystrasaltsþjóðanna. Þá var einnig rætt um stöðu Árna Páls formanns Samfylkingarinnar og flokksins sjálfs sem Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, segir að muni þurrkast endanlega út á þessu ári.

Iðulega er talað um Jón Baldvin sem andlegan leiðtoga jafnaðarmanna á Íslandi. Hann viðurkenndi að jafnaðarmenn ættu afar erfitt um þessar mundir. Samfylkingin mælist með sögulega lágt fylgi og hefur verið gagnrýnt að formaðurinn sitji sem fastast. Jón Baldin segir að hann vilji horfa á hlutina í stærra samhengi og segir að jafnaðarmenn eigi víða í vandræðum og sé ekki aðeins bundið við Ísland.

Björn Ingi spurði þá hvernig stæði á því að Árni Páll ætti ekki hljómgrunn á meðal þjóðarinnar?

Það er svo stórt mál að það er áreiðanlega ekki spurning um persónu núverandi formanns út af fyrir sig. Það er eitthvað mikið meira að.

Hvernig finnst þér þetta sem fyrrverandi formaður?

„Ég er raunsær maður og horfi á staðreyndir og tek mark á staðreyndum. Samfylkingin er í djúpri tilvistarkreppu. Af hverju? Hún galt afhroð eftir að hafa verið í ríkisstjórn í fjögur ár. Sumt af því sem gerðist í þeirri ríkisstjórn var jákvætt. Þeir voru að hreinsa upp skítinn eftir aðra sem höfðu hrint lýðveldinu fyrir björg. Þeir voru að taka við hruni og hreinsa til.“

Jón Baldvin bætti við:

Kjarni málsins er sá að þeim mistókst hrapalega í stórum málum. Sjálfstæðisflokkurinn samkvæmt síðustu skoðanakönnun, sem var þjóðarflokkur og sameiningarflokkur til hægri með 35 til 40%, er kominn í fyrsta sinn í sögu sinni samkvæmt skoðanakönnun niður fyrir 20%. Það eru gríðarleg tíðindi. Síðan gerist það að hreyfing sem kennd er við Pírata hefur þurrkað þennan flokk út meðal yngra kjósenda og er í 40% fylgi.

Björn Ingi benti þá á að Píratar væru helst að taka fylgi af Samfylkingunni og Bjartri framtíð sem myndi ekki ná manni á þing ef gengið yrði til kosninga nú.

Nú er þetta fugl í skógi en ekki í hendi. Við höfum áður séð að það hafi myndast hreyfingar sem fá fljótt start en hrynja svo þegar nær dregur kosningum.

Aðspurður hvort Píratar gætu mögulega náð slíku fylgi í kosningum svaraði Jón Baldvin:

„Við erum ekki á venjulegum tímum. Við erum uppi á mjög óvenjulegum tímum. Ég held að lykillinn á skilningi á þessu sé þessi: Það eru fáein stór mál, mjög stór mál í íslensku samfélagi nú eftir hrun sem eru þess eðlis að meirihluti þjóðarinnar, meirihluti almennings, telur það mikið sanngirnismál að ná þeim fram en kerfið hefur þvælst á móti. Þetta eru aðallega fjögur mál. Það er ný stjórnarskrá um mannréttindi. Það er jafn atkvæðisréttur. Það er þjóðaratkvæði í höndum minnihluta þingmanna og tiltekins fjölda kjósenda. Og það er að koma ákvæðunum um þjóðareign á auðlindum inn í stjórnarskrá með varanlegum hætti og tryggja að arður af auðlindum renni til þjóðarinnar með réttmætum hætti.“

Jón Baldvin bætti við að Píratar væru smám saman að taka upp þessi mál. Þeirra stefna væri að einblína á stór sameinandi mál.

Einn kunningi minn sagði við mig í umræðu um þetta um daginn: „Ætli vinstrið geti nú loksins lært af hægrinu þennan hlut, að sameinast um fá óumdeilt stór mál með breitt fylgi en láta minniháttar ágreiningsmál liggja á milli hluta. Keyra á þessi fáu mál. Hver verður hluti Samfylkingarinnar í því er algjört aukaatriði.

Björn vitnaði þá í Styrmi Gunnarsson fyrrverandi ritstjóra sem sagði að Samfylkingin myndi deyja á því herrans ári 2016.

„Deyi hún þá drottni sínum ef hún hefur týnt erindinu. Ef hún á ekkert erindi, þá skiptir mig engu máli hvað verður um Samfylkinguna eða Vinstri græn sem slík. Það sem skiptir máli núna er að ná inn á miðjuna. Ná því að vinstrið sameinist um þessi stóru mál, grundvallarbreytingar á íslensku þjóðfélagi til hins betra. Ef það gerist undir stjórn einhverja sem kalla sig Pírata þá bara óska ég þeim velfarnaðar.“

Björn spurði þá hvort Píratar gætu verið arftaki breiðfylkingar vinstramegin

Ég held að það segi sig sjálft að þeir sem ætla að breyta þessu þjóðfélagi og vilja leggja eitthvað í sölurnar fyrir það þeir verða að taka höndum saman um það að ná fram breiðfylkingu um þessi stóru umbótarmál.

Loka spurning Björn til Jóns Baldvins var svo þessi: Myndir þú kjósa Pírata?

„Myndi ég? Ef það er skýrt að þeir ætla sér að gera það sem gera þarf til að ná fram þessari breiðfylkingu um þessi stóru mál.“

Viðtal Björns Inga Hrafnssonar við Jón Baldvin Hannibalsson á eyjan.is: http://eyjan.pressan.is/frettir/2016/01/24/jon-baldvin-skiptir-mig-engu-mali-hvad-verdur-um-samfylkinguna-ef-hun-hefur-tynt-erindinu/