Viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við Jón Baldvin Hannibalsson í DV

Aldarfjórðungur er liðinn frá því að Eystrasaltsþjóðirnar þrjár, Eistland, Lettland og Litáen, endurheimtu sjálfstæði sitt. Ísland studdi sjálfstæðisbaráttu landanna með eftirminnilegum hætti, en Jón Baldvin Hannibalsson þáverandi utanríkisráðherra fór til landanna þriggja í janúar 199, þegar sovéskar sérsveitir voru að myrða almenna borgara. Seinna þetta sama ár tóku íslensk stjórnvöld upp stjórnmálasamband við ríkin þrjú, fyrst Vesturlanda.

Í ritgerð sem sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson skrifaði á síðasta ári um stuðning Íslands við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóðanna, segir hann á einum stað: „Fögnum því … að aldarfjórðungur er síðan þjóðirnar þrjár við Eystrasalt endurheimtu sjálfstæði sitt. Minnumst líka frumkvæðis Jóns Baldvins Hannibalssonar. Án hans hefði Ísland lítt átt hlut að máli. Það þurfti einhvern af hans tagi á stóli utanríkisráðherra, hrifnæman og óvenjulegan ástríðupólitíkus, með óþol gagnvart yfirlæti margra vestrænna valdhafa í garð Íslendinga og annarra smáþjóða – og óskipta samúð með íbúunum við Eystrasalt.“

Jón Baldvin er spurður, hvort hann verði var við, að íbúar Eystrasaltslandanna muni enn vel eftir þessu frumkvæði Íslendinga og þætti hans. „Gamla fólkið man,“ segir hann. „Þegar ég geng um götur eftirlætisborgar minnar, Vilníusar hinnar fögru, þá kemur það fyrir, að gamlar konur stöðva mig á götu, gera krossmark og kyssa mig á báða vanga. Þær muna.

Af því að Litáar eru kaþólikkar, þá eru þeir alltaf að halda minningarathafnir, þannig að þeir eru búnir að fagna tíu ára sjálfstæðisafmæli, tuttugu ára afmæli og nú aldarfjórðungsafmæli. Um leið eru þessir atburðir rifjaðir upp í fjölmiðlum og háskólum, þannig að háskólanemar vita vel af þeim líka.“

Fræg ferð Jóns Baldvins til Eystrasaltslandanna í janúar 1991 var ekki fyrstu afskipti hans af málefnum þessara landa. Hann hafði jafnan af mikilli festu talað máli þeirra. Á ráðstefnu í Kaupmannahöfn í júní 1990 dró til tíðinda. „Utanríkisráðherra Dana og vinur minn, Uffe Ellemann-Jensen , var gestgjafi mikillar ráðstefnu í Kaupmannahöfn um lok kalda stríðsins. Hann bauð nýskipuðum utanríkisráðherrum Eystrasaltsþjóða, sem enn tilheyrðu formlega Sovétríkjunum, að standa fyrir máli sínum á fundinum. Þá sögðu Sovétmenn: Ef þið hleypið þessum inn, erum við farnir. Uffe lúffaði. Hann vísaði utanríkisráðherrum Eystrasaltsþjóða á dyr.“ Þegar ég spurði þau tíðindi, flutti ég ræðu sem snerist eingöngu um þetta mál. Vinur minn einn, Litái, sagði mér seinna, að þetta væri enn greipt í minni margra. Þeim fannst þeir eiga bara einn vin í heiminum. Ef þú átt bara einn vin, þá gleymir þú honum seint.“

Sovétmenn ákváðu í janúar 1991 að brjóta frelsisbaráttu Litáa á bak aftur – með hervaldi, ef þyrfti. Skriðdrekar og hersveitir voru á götum úti, og byrjað var að myrða fólk. Þá sendu Litáar út neyðarkall til utanríkisráðherra NATO- ríkja og báðu þá um að stöðva blóðblaðið og sýna samstöðu með því að koma á vettvang. Jón Baldvin, einn utanríkisráðherranna, mætti.

„Blóðbaðið í Vilníus hófst sunnudaginn 13. janúar. Ég kom þar á vettvang fáeinum dögum seinna. Það var rakur nístingskuldi. Öll torg og gatnamót voru troðfull af fólki sem vakti dag og nótt, ornaði sér við opinn eld og söng þjóðsöngva. Mér er sagt að þarna hafi verið um 600.000 manns, sem þýðir, að það var ekki bara öll Vilníus heldur sveitirnar líka. Ef skriðdreki var á ferli, þá stóð fólk í vegi fyrir honum. Ef byssu var beint að manni, horfði hann í byssuhlaupið.

Ég var þarna í þrjá sólarhringa innan um þetta fólk og horfðist í augu við það. Það rétti mér stundum krumlurnar, kaldar og sigggrónar. Ég raulaði með þeim þótt ég kynni ekki málið, söng bara Jónas Hallgrímsson. Ég talaði á útifundi með Landsbergis yfir hausamótunum á 500.000 manns. Það er líklega fjölmennasti fundur sem ég hef talað á.

Seinna gerði ég mér grein fyrir því, að ef Sovétmenn hefðu fylgt ákvörðun sinni eftir og látið sverfa til stáls, hefði þarna orðið mesta blóðbað í eftirstríðssögu Evrópu. Fólkið hefði ekki látið kúga sig. Þá hefði Gorbatsjov trúlega orðið að skila friðarverðlaunum Nóbels, sem hann hafði fengið í Osló nokkrum vikum áður. En Gorbatsjov má eiga það, að hann kom í veg fyrir blóðbaðið, bjargaði sálu sinni og sessi í sögunni sem friðarhöfðingi, en uppskar hatur og forakt sinnar eigin þjóðar, því þar með hrundi heimsveldið úr höndum Rússa.

Þegar ég lít til baka og spyr sjálfan mig: Var þetta þess virði? Hafa þessar þjóðir sannað í verki, að þær verðskulduðu endurheimt sjálfstæðis? Þá er svarið þetta – sérstaklega ef maður ber ástandið saman við stöðu mála í nágrannalandinu Úkraínu – að baráttan var ekki til einskis. Þessar þjóðir hafa náð stórkostlegum árangri. Ein skýring er sú, að þær lærðu af sögunni. Við upphaf seinni heimsstyrjaldar voru þessar þjóðir skildar eftir einar, þær höfðu ekki séð fyrir hið óorðna og voru varnarlaus fórnarlömb, bæði nasista og sovétkommúnista. Þrátt fyrir mikla erfiðleika á umþóttunarskeiðinu að fengnu sjálfstæði – fátækt, örbirgð og pólitíska upplausn – þá mundu þessar þjóðir þetta. Hvar í flokki sem menn stóðu, voru þeir sammála um, að þeir yrðu að festa sitt nýja lýðræði í sessi og tryggja fullveldi sitt með því að ganga í Evrópusambandið og Nató. Það dugði. Þær eru hólpnar.“

Spurður að því, hvort ferðin til Eystrsaltslandanna og viðurkenning Íslands á sjálfstæði ríkjanna sé það sem hann sé stoltastur af á stjórnmálaferlinum, segir Jón Baldvin: „Þetta var alla vega mesta dramað – mun tilfinningaþrungnara en EES eða skattkerfisbyltingin.“

Jón Baldvin hefur búið í Eystrasaltsríkjunum, þar sem hann hefur kennt við háskóla í Litáen og Eistlandi. „Að beiðni þeirra tók ég saman námskeið fyrir meistaraprófsnema í hagfræði, stjórnmálafræði og alþjóðamálum, sem hét Staða smáþjóða í heimskerfinu. Þetta voru vel sótt námskeið, og þarna var fólk frá öllum Eystrasaltsþjóðunum og Rússlandi, Hvíta-Rússlandi,Úkraínu, Póllandi og öðrum Austur-Evrópuþjóðum, Balkanþjóðum og Skandinavíu. Áhugi á námsefninu var ósvikinn. Sjálfur lærði ég mikið af nemendum mínum“

Jón Baldvin er heiðursborgari í Vilníus. „Ég nýt þeirra hlunninda að fá ókeypis í strætó, þurfa ekki að borga útsvar – og mun, þegar þar að kemur, fá ókeypis grafreit.“

Ætlarðu að þiggja hann?

„Það er óneitanlega freistandi!“