Minningarorð um samstarfsmann og vin: Axel Carlquist, eðlisfræðing

Nafn Axels, eðlisfræðings, er og verður nátengt sköpunarsögu Menntaskólans á Ísafirði. Það þurfti löngum að beita brögðum til að galdra þangað rétta menn á réttum tíma til kennslustarfa. Það var kostur að geta boðið önnur störf með.

Ég fór fljótlega að skipta mér af bæjarmálum. Þóttist þurfa þess til að tryggja skólanum byggingarlóð og húsnæði. Það þurfti að ráða bæjarverkfræðing. Hann var Þorbergur Þorbergsson, og auðvitað settur til að kenna stærðfræði við skólann með verkfræðinni. Eiginkona hans, Hildur Bjarnadóttir – seinna landsfræg útvarpskona – fylgdi með í kaupbæti sem dönskukennari.

Þar kom, að okkur vantaði almennilegan eðlisfræðing, helst þýskmenntaðan. Þorbergur átti vin frá menntaskólaárum, sem Axel hét, Carlquist (sem reyndar átti ættir að rekja í móðurætt til traustra íhaldsmanna á Ísafirði). Honum var boðið í heimsókn vestur um páskana strax á fyrsta ári. Við lögðum okkur öll fram um að sannfæra Axel um, að það væri óþarfi að eyða peningum í farið aftur suður. Það má segja frá því núna, að ég lofaði Þorbergi vænum skammti af úrvalsvískíi, ef honum tækist að kyrrsetja eðlisfræðinginn.

Það tókst. Axel tók við kennslu í stærðfræði og efna-eðlisfræði um haustið 1971 og starfaði eftir það við skólann í sextán ár. Hann var lengst af deildarstjóri raungreina og sat í skólastjórn. Seinustu árin var hann bókavörður skólans.

Axel lauk stúdentsprófi úr stærðfræðideild Menntaskólans í Reykjavík 1959. Hann stundaði nám í stærðfræði og eðlisfræði við háskóla í Þýskalandi og lauk meistaraprófi í þessum greinum frá Háskólanum í Giessen árið 1966. Heim kominn var hann fyrst stundakennari við Tækniskóla Íslands en síðan fastráðinn kennari við Kennaraskólann 1968-71. Þá tókst okkur að galdra hann vestur með þeim afleiðingum, að hann ílentist á Ísafirði næstu 16 árin.
Axel var ekki einasta vel menntaður í stærðfræði og raunvísindum. Hann var maður víðlesinn, ekki síst í bókmenntum, skáldskap og heimspeki. Hann fékkst þó nokkuð við þýðingar, einkum af þýskri tungu. Ég vissi til þess, að hann þýddi verk eftir bæði Schopenhauer og Nietzsche. Meðfædd hlédrægni og fullkomnunarárátta mun hafa valdið því, að þessi verk komu fæst, ef nokkur(?) fyrir almenningssjónir.

Það var sagt um annað afsprengi þýskrar menningar, Immanuel Kant, þegar hann kenndi við Háskólann í Königsberg (nú Kaliningrad), að bæjarbúar hafi getað stillt klukkuna sína eftir því, hvenær prófessorinn tók sinn daglega göngutúr, þegar sól var í hádegisstað. Á Ísafirði sér að vísu ekki til sólar um háveturinn. Engu að síður hefðum við Ísfirðingar getað stillt klukkuna eftir Axel, sem lifði reglubundnu lífi hins innhverfa og íhugula vitsmunamanns og lét ekki ytra umhverfi raska ró sinni. Það þurfti að minnsta kosti að temja sér almenna mannasiði og að rækta með sér áhuga á fegurð stærðfræðinnar og víðsýni vísindanna til að fá notið kennslu Axels sem skyldi. En bestu nemendunum var hann mikill mentor.

Við Bryndís minnumst samstarfsins með Axel með ánægju og kveðjum hann með virðingu og eftirsjá.