Sjö ára gömul ræða: í HITA LEIKSINS

Inngangur: Ræðan sem hér fer á eftir var flutt á fundi í Alþýðuflokksfélagi Reykjavíkur 14.feb.2009. Búsáhaldabyltingin hafði sópað burt ónýtri ríkisstjórn Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar. Við erum stödd á strandstaðnum eftir hrun, og kosningar í vændum. Ræðan ber þess merki, að hún er skrifuð niður eftir á – eftir upptöku. Gamall vinur var að taka til hjá sér, fann þetta í fórum sínum og sendi mér. Ræðan rifjar vel upp andrúmsloft þessara daga. Hún er flutt af miklum tilfinningahita. En ég fæ ekki betur séð en, að rökhugsunin standist vel í ljósi síðari tíma.

Það er þá helst spurningin um, hvort Evrópusambandsaðild og upptaka evru hefði reynst okkur jafn vel og ræðumaður vænti þá. Ef við hefðum fengið sömu meðferð og Írar, Grikkir og Kýpurbúar, þ.e.a.s. verið krafðir um „að borga skuldir óreiðumanna“, hefðum við farið úr öskunni í eldinn. En aðstæður voru aðrar hér en þar. Hér hrundu ekki bara einstakir bankar, sem þurfti að bjarga til að forða kerfishruni. Hér varð kerfishrun – fjármálakerfið og gjaldmiðillinn, hvort tveggja fór sömu leið. Hvernig hefði Evrópusambandið brugðist við? Því getur enginn svarað með vissu.

Evrópusambandsaðild reyndist Eystrasaltsþjóðum vel. Þar var munurinn sá, að bankakerfið var í eigu útlendinga (sem urðu að bera skaðann), og gjaldmiðlarnir stóðust, enda bundnir við evruna. Kannski er helsti munurinn sá, að Eystrasaltsþjóðir komust út úr kreppunni á tveimur árum. Við virðumst hins vegar vera að safna í nýja, með því endurtaka sömu mistökin og fyrir hrun. Frambúðarlausnir bíða nýrra valdhafa.
JBH

Alþýðuflokksræða Jóns Baldvins Hannibalssonar flutt á fundi í Alþýðuflokksfélagi Reykjavíkur 14. febrúar 2009

Það er ósegjanleg ánægja að vera aftur í góðum félagsskap.

Það er ekki bjart umhorfs í okkar ranni þessi misserin. Þúsundir einstaklinga og fjölskyldna eiga um sárt að binda í okkar þjóðfélagi. Þetta voru ekki náttúruhamfarir. Þetta var af mannavöldum. Og það er það sárasta.

Forsvarssmenn fyrrverandi ríksistjórnar létu löngum eins og Ísland hefði orðið fórnarlamb utanaðkomandi atburða heimskreppunnar. Og þetta hefði bara verið slys. Það lá við að þau gæfu í skyn að við ættum að hafa samúð með þeim fyrir að hafa lent í slysi. Ég er þannig innréttaður að ég hef meiri samúð með fórnarlömbum slysa en þeim sem ollu þeim.

Það er búið að tala mikið og skrifa um það hvað gerðist. Af öllum þeim litteratúr sem ég hef lesið er einn áberandi bestur.Það er skýrsla, sem Landsbankinn pantaði í byrjun árs 2008 eftir hollenskan hagfræðing og bandarískan stærðfræðing, Bouter og Sibert, um úttekt á íslenska efnahagsundrinu. Þau luku skýrslunni og sendu hana til Landsbankans í apríl 2008, hálfu ári fyrir hrun og það er vitað að fulltrúar fjármálaráðuneytis, Seðlabankans og ríkisstjórnar fengu þessa skýrslu í hendurnar. Hún er dauðadómur yfir íslenska efnahagsundrinu. Þau sögðu: Viðskiptamódelið íslenska var byggt á sandi. Það byggðist á því að standa fyrir örvexti nýeinkavæddra banka, sem urðu að minnsta kosti tífaldir á við stærð hagkerfisins á fimm árum. Þetta var gert með botnlausri skuldsetningu í erlendum gjaldeyri en á grundvelli örgjaldeyris í minnsta myntsvæði heims sem jafnast á við stærð borgarinnar Coventry. Og án þess að hafa bakhjarl af nothæfum Seðlabanka né heldur að hafa bakhjarl af skattabasis þjóðfélags sem fekk undir risið. Dauðadæmt frá upphafi. Þegar þau skiluðu skýrslunni sögðu þau: Það er stutt í hrunið. Grípið til neyðarráðstafana strax. Bouter er einn af þremur bestu sérfræðngum í heimi í að fást við fjármálakreppur og afleiðingar þeirra. Skýrslunni var stungið undir stól.

Afleiðingin er sú að Ísland er eina landið í heiminum sem orðið hefur fyrir kerfishruni. Gjaldmiðilinn er hruninn. Fjármálakerfið er hrunið. Atvinnulífið er að hrynja og stjórnkerfið er hrunið. Ég hef bara nefnt eina skýrslu. En þær voru miklu fleiri. Viðbörunarbjöllurnar byrjuðu að hljóma í ársbyrjun 2006. Þegar kom fram yfir mitt ár 2007 voru þær orðnar ærandi. Eftir fall breska húsnæðislánabankans Northern Rock var augljóst af allri umfjöllun hvert stefndi. Innlendir sérfræðingar, fremstur í flokki Þorvaldur Gylfason, bankamenn, Ragnar Önundarson og fjöldinn allur af öðrum könnum voru staðfastlega árum saman að vara við. Ekkert hlustað. Botlaus hroki. Dramb sem er falli næst. Og hvað fáum við svo að heyra. Það er allt öllum öðrum að kenna en þeim sem ábyrgðina báru. Nýjasta kenningin er sú að þetta sé allt mér að kenna. EES samningnum. Þið eigið eftir að heyra það í kosningabaráttunni sem framundan er að Sjálfstæðisflokkurinn mun reyna að bjarga sér á flóttanum fyrst og fremst með því – jafn hægilegt og það er, fáránlegt. Þetta er sami flokkurinn og segir að EES samningurinn sé svo góður að hans vegna þurfum við ekki að stíga skrefið til fulls og ganga inn í Evrópusambandið. Það voru meginrök Sjálfstæðisflokksins.

Og annað. Hin rökin voru þau að Íslandi farnaðist svo vel, árangur okkar væri svo stórkostlegur, ég tala nú ekki um lofræður forseta Íslands um það efni sem sagði að íslenskir viðskiptajöfrar hefðu þvílíka yfirburði yfir fólk af óæðri kynþáttum að það þyrfti að taka tillit til þess í viðskiptaháskólum austan hafs og vestan og breyta námsefninu í stíl við það sem reynslan sýndi að þessir yfirburðarmenn kenndu. Við skulum taka fyrir eitt mál af því þeir segja og munu segja: Rótina má rekja til ófullkominna reglna í Evrópu. Hlustuðu þið á Haarde í Hardtalk. Mér varð á að segja. Það er illt að heita Haarde og vera það ekki.

Tökum Icesave málið. Hver er skúrkurinn og hver er fórnarlambið í því máli. Við skulum tala hreint út því það á að nota það sem dæmi um það Ísland er ofsótt af vondum útlendingum, sérstaklega Evrópusambandinu. Hver er skúrkurinn og hver er fórnarlambið? Ég ætla að tala um hollenska Icesave. Hvenær opnuðu þeir reikningana? Það var í apríl 2008. Það var með öðrum orðum skömmu eftir að þeir höfðu fengið skýrsluna frá Siebert og Bouter um að þeir væru dauðadæmdir. Það var í framhaldi af því að það varð ljóst að þeir gátu ekki fjármagnað píramíðann sinn, það er að segja meiri erlend lán til þess að endurfjármagna lánin. Gátu það ekki á heildsölumörkuðum. Og fundu þá upp það ráð að þeir yrðu að fá þetta í retail, smásöluverslun á netbönkum þar sem þeir yfirbuðu heimaþjóðir með sparifjárávöxtun. Hverir tóku þessa ákvörðun? Forstöðumenn Landsbankans. Björgólfar og snillingurinn Sigurjón Árnason sem sagði um þetta: “Tær snilld”. Tær snilld! Þeir lokuðu búðinni í lok október skýringalaust. Og nú spyr ég ykkur sem eruð hér inni. Hvað hefðum við Íslendingar sagt ef Hollendingar hefðu opnað hér yfirboðsbanka og hirt hér upp á hálfu ári 125 milljarða, svona fjórðunginn af fjárlögunum og horfið síðan skýringalaust um haustið. Hvað hefðum við sagt um hegðun þeirra gagnvar okkur, sparifjáreigendum á Íslandi? Hvaða kröfur hefðum við gert til íslenskra stjórnvalda um það að reyna að koma lögum yfir þetta hyski – crooks! Var eitthvað óljóst um það hverjir bæru ábyrgðina í reglugerðum? Nei.

Reglurnar eru svona: Útibú á EES svæðinu, útibú frá banka á Íslandi er á ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Bankaleyfið kemur þaðan. Það má afturkalla bankaleyfi þar. Eftirlitið er í höndum íslenskra aðila. Og ábyrgðin gagnvart sparifjáreigendum er í höndum íslenkra aðila, íslenska tryggingasjóðsins. Haldið þið að við hefðum tekið það gott og gild ef Hollendingar hefðu komið og sagt þegar þeir væru búnir að stela af okkur 125 milljörðum: Sorry, það er ekkert í hollenska tryggingasjóðnum. Sorry. Láðist. Við hefðum sagt: Glæpamenn! Og við hefðum heimtað og krafist þess að þeir stæðu við skuldbindingar sínar. Ella væri ekkert mark takandi á þessum lánaskuldbindingum – tryggingum fyrir almenning um allt evrópska efnahagssvæðið. Vegna þess að við skulum ekki gleyma því sem er aðalatriðið í málinu: Hver er skúrkurinn? Sigurjón Þ. Árnason var aðalskúrkurinn. Íslensk stjórnvöld voru aðalskúrkarnir. Fórnarlömbin voru þeir sem voru féflettir. Og fórnarlömbin eru síðan skattgreiðendurnir íslensku sem eiga að borga reikninginn. Fórnarlömbin í þessu máli eru sparifjáreigendur í Bretlandi, Hollandi og víðar og skattgreiðendur á íslandi sem eiga síðan að borga reikninginn. Skúrkarnir eru þeir sem létu þetta gerast. Sem tóku ákvarðanirnar vitandi vits um að þeir væru að fara á hausinn. Vitandi vits. Höfðu skýrslu í höndunum um það frá fremstu sérfræðingum í heimi. Gerðu það samt. Og þeir sem áttu að standa vaktina stóðu hana ekki.

Tóku þið eftir því í viðtalinu við Haarde í Hardtalk, þegar hann var spurður og hafði þá sagt að framkoma Breta gagnvart okkur með því að beita hryðjuverkalögum, væri óafsakanleg. Og þá spurði spyrilinn: Og hefur þú þá ekki tekið málið upp við breska forsætisráðherrann með þessum rökum? Og tóku þið eftir svarinu? “Nei – ég hefði kannski átt að gera það.”

Já hefði kannski átt að gera það en kom því ekki í verk. Þeir tala digurbarkalega hér heima um það að þetta séu ofsóknir á litla Ísland. En þeir þora ekki að tala við manninn. Þeir þora ekki að tala við aðal skúrkinn, Skotann Brown, sem var fimm ár í Edinborg þegar ég var að ljúka þar námi. Þora ekki að tala við hann. Þorðu ekki að fara í mál. Hvað segir þetta um karakter og kjark landsstjórnarmanna íslenkra. Að tala digurbarkalega hér heima en þora ekki að standa fyrir máli sínu gagnvart þeim sem sem á að tala við. Var þetta neyðarástand sem við búum nú við fyrirbyggjanlegt? Ella var það bara slys? Já það var fyrirbyggjanlegt. Og nú skal ég sanna ykkur það svo það er óyggjandi og þarf ekkert um að ræða frekar.

Þessi félagsskapur hérna, Alþýðuflokksfélag Reykjavíkur, sem aðili að Alþýðuflokknum, tók þá stefnumarkandi ákvörðun fyrst stjórnmálahreyfinga á Íslandi fyrir kosningarnar 1995, að Ísland ætti að taka skrefið til fulls og sækja um aðild að Evrópusambandinu og stefna að því að taka upp evruna. Þetta var okkar pólitík fyrir kosningarnar 1995. Fyrir 14-15 árum síðan.

Er það raunsætt að við hefðum getað gert þetta á árabilinu, segjum 1995 til 2002 þegar bankarnir voru einkavæddir? Svarið við því er já. Það var ekki bara að við hefðum getað fylgt eftir Finnum, Svíum og Austurríkismönnum og samið tiltölulega greiðlega sem EFTA-land og EES land þá um inngöngu. Við fullnægðum á þessu tímabili öllum Maastricht skilyrðunum um þátttöku í peningamálasamstarfinu og hefðum getað verið komnir með evrurnar í hendurnar um það leyti sem bankarnir voru einkavæddir. Þetta eru staðreyndir. Og þetta var þannig. Ríkisfjármálin voru í lagi.Skuldsetning ríkisins var í lagi – innan marka. Verðbólgan var við ystu mörk en var viðráðanleg á tímabili. Vextir voru í lagi. Það eina sem var vafasamt var sveifla í gengi en það hefði dugað til þess að komast inn í “exchange rate mechanism” það er að segja í anddyrið að peningamálasamstarfinu. Við fullnægðum öllum skilmálunum. Við hefðum getað verið orðin Evrópusambandsríki með evruna í höndunum sem gjaldmiðil.

Ertu ekki bara að tala um patentlausn? Er Evrópusambandið ekki bara patentlausn? Ég er ekki að tala um neina andskotans patentlausn. Ég er að tala um þær lausnir sem best hafa dugað smáþjóðum Evrópu og reynslan kennir okkur núna að þegar reynir á fjármálakerfi heimsins þá er þolraunin sú hvort að peningamálasamstarfið stendur og hvort evrusvæðið stendur. Og vinir mínir í Eystrasaltslöndum hafa eina lexíu. Hún er sú að þeir harma það alla daga að hafa ekki haldið betur á hagstjórninni þannig að þeir væru komnir innfyrir dyrnar. Það er að segja náð verðbólgu niður og öðru og fullnægt þessum skilyrðum þannig að þeir væru komnir með evruna. Er ég að halda því fram að ef þessi leið hefði verið farin að þá væru engin vandamál á Íslandi? Nei ég er ekkert að halda því fram. Af því að ég er enginn patentlausanmaður. Auðvitað hefði heimskreppan haft sitt að segja á Íslandi. Auðvitað er allt eins líklegt að þessir bjánar sem skuldsettu íslenska bankakerfið tífalt hefðu reynt að gera það hefðu þeir komist upp með það. Og að við hefðum haft einhver vandamál með einhver af þessum fjármálastofnunum. En ég fullyrði einn hlut. Við hefðum haft vandamál alveg eins og önnur lönd í Evrópu og á evrusvæðinu hafa en það hefði ekki orðið kerfishrun!

Af hverju hefði ekki orðið kerfishrun? Af því að við hefðum verið með evru sem að er einn af tveimur eða þremur sterkustu gjaldmiðlum í heimi. Hvað þýðir það? Það þýðir að hér hefði ekki orðið nein gengisfelling upp á hundrað prósent. Hvað þýðir það? Það þýðir að hér hefði ekki verið stjórnlaus óviðráðanleg verðbólga til þess að keyra niður lífskjör Íslendinga. Og meira en það. Ef hér hefði ekki orðið þessi gengisfelling upp á hundrað prósent þá hefðu skuldir fyrirtækja og heimila ekki tvöfaldast eins og þær hafa gert á örskömmum tíma. Þá væru ekki 60 itl 70 prósent fyrirtækja tæknilega gjaldþrota. Þá væri atvinnuleysi ekki að breiðast út eins og sinueldur. Þá væri fólk ekki að missa þakið ofan af höfðum sínum. Það væri ekki eignamissir, ekki síst hjá yngstu og skuldugustu kynslóðinni. Og þá væri svo komið að Íslendingar hefðu ekki verðtryggingu vegna þess að með gjaldmiðil eins og evru þurfum við enga andskotans verðtryggingu. Vegna þess að hún var neyðarráðstöfun sem við urðum að grípa til af því að við vorum með ónýtan gjaldmiðil sem heitir króna og heitir víst enn. Ég fullyrði að ef að þessi leið, sem Alþýðuflokkurinn lagði til, og Samfylkingin fékk þá pólitík í arf, ef henni hefði verið fylgt eftir og þjóðin verið sannfærð um nauðsyn þess arna, ef þjóðin hefði notið pólitískrar forystu og hún hefði gert það sem gera þurfti í tæka tíð. Pólitík er um það. Pólitík er um það að reyna að sjá fyrir óorðna hluti. Og koma í veg fyrir stórslys í tæka tíð. Ef þetta hefði verið gert þá værum við ekki í því neyðarástandi sem við erum í í dag. Og það þýðir ekkert að segja við okkur jafnaðarmenn á Íslandi: Eru þið nú að reyna að vera vitrir eftirá? Nei við vorum vitrir fyrirfram! Við sögðum þetta fyrir 14 árum. Bera virkilega engir ábyrgð á því hvernig komið er? Engir? Bankastjórarnir og eigendur bankanna. Bera þeir enga ábyrgð? Eða kannski líka: Þeir sem einkavæddu bankana eins og þeir gerðu það, bera þeir enga ábyrgð?

Því einkavæðing bankanna
– var framhald á helmingaskiptareglu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks
– en ekki afnám ríkisafskipta eins og látið var í veðri vaka.

Bankastjórar og eigendur þeirra – það minnir mig á að það er mottó í frægri bók um fjármálafræði sem hljóðar svo: Besta ráðið til þess að ræna banka er að eiga banka. Og nú hrannast upp fréttirnar um það hvernig hin krossvensluðu ólígarkasamstæður á Íslandi, sem áttu bankana, hafa gert út á þá, ekki síst eftir að þeim var auðvitað ljóst – því þessir menn eru ekki fífl – eftir að þeim var auðvitað orðið ljóst hvert stefndi eftir 2006 og 2007.

Stórlánin sem fóru inn í eignarhaldsfélögin, sem nú kemur á daginn að eru hundruðum saman vistuð á eykrílum í Karabíska hafinu, Jómfrúareyjum og nálægum eyjum. Það er ástæða til að spyrja: Ná engin lög yfir þetta? Er það virkilega svo að þegar almenningur spyr: Hvers vegna eigum við að borga skuldir sem við ekki stofnuðum til – það hefur aldrei staðið á íslenskum almenningi að borga skuldir sínar og jafnvel barna sinna – en hann spyr í forundran:

Hvernig stendur á því að við eigum núna að borga skuldir þeirra Íslendinga sem vegsamaðir hafa verið í íslensku samfélagi á undanförnum árum fyrir að hafa verið ofurríkir og hafa grætt á tá og fingri. Við fengum yfirleitt engar aðrar fréttir í fimm til sex ár en fréttir af arðsemi þeirra og snilld þeirra við að græða peninga. Hvar eru þessir peningar? Hvar eru þeir? Ekki trúum við því að þeir séu allir á eignarhaldsfélögum í Karabíska hafinu þar sem þeir voru vistaðir af íslensku bönkunum nota bene og þar sem boðið var upp á sérstök partý til þess að kenna íslenskum auðkýfingum hvernig þeir ættu að fara að því að koma sér í skattaskjól.

Mikið rosalega er ég glaður að heyra að hann Indriði Þorláksson er kominn aftur í fjármálaráðuneytið í staðinn fyrir þessa liðleskju sem þar var. Það er maður sem kann til verka. (klapp) – Og ég spyr: Haldið þið að ég trúi því að það séu ekki til lög sem ná yfir þetta? Það eru lagaákvæði í hegningarlögum sem kveða á um það að það er refsivert athæfi, grafalvarlegt, að efna til skulda sem aðrir eru látnir greiða. Það er refsivert athæfi.

Auðvitað eru ótal fordæmi fyrir því að grípa til aðgerða þegar ríkisstjórn stendur frammi fyrir því að heil þjóð er höfð að féþúfu. Hvernig bregst hún við? Hún hefur lagasetningarvald. Hún hefur dómsvald. Hún hefur framkvæmdavald. Hún höfðar mál. Hún krefst réttlætis. Og hún höfðar mál þegar í stað til þess að opna reikningana í Lúxemborg sem var miðstöðin þaðan sem þessu var dreift út í skattaparadísir veraldarinnar. Upp komst að þýskir auðkyfingar höfðu leikið þennan leik þótt í litlu væri samanborið við þessi ósköp og falið skattsvikið fé í Lishtenstein, litlu dalverpi við Sviss. Hvað gerðist? Forsætisráðherra Þýskalands, þeirra heilög Jóhanna, Angela Merkel, kom í sófann og talaði í þrjár mínútur. Hún sagði. Ef þið verðið ekki búnir að skila þessu aftur á morgun þá munum við því miður neyðast til þess að beita valdi. Þeir skiluðu.

Svona á að stjórna. Svona á að stjórna en ekki með linkind sem er kölluð harka.

Hverjir bera ábyrgð? Ríkisstjórnir? Ríkisstjórnir sem voru við stjórnvölinn í aðdraganda hrunsins frá einkavæðingu og fram yfir hrun. Það voru ríkistjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Og ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins í 18 ár. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í – hvað – 18 mánuði. Ætli það séu ekki hlutföllin á ábyrgðinni. 18 ár, 18 mánuðir. Ég sat eitt sinn 8 ár í ríkisstjórn. Ég veit hverjir bera ábyrgð í ríkisstjórnum. Það eru formenn flokka. Það eru formenn flokka sem bera höfuðábyrgð á því hvað er gert og hvað er látið ógert. Þeir geta ekki skorast undan ábyrgð. Við höfum sérfræðistofnanir, eftirlitsstofnanir á háum launum og með miklum forréttindum, privilegium. Þar er fremst stofnun sem heitir Seðlabanki Íslands. Skyldur Seðlabanka Íslands eru einfaldar; að tryggja þjóðinni stöðugan gjaldmiðil og stöðugleika fjármálastofnana.

Þar inni situr núna í byrgi sínu maður sem er farinn að minna mig á seinustu daga Hitlers. Í staðinn fyrir að koma út sjálfviljugur – sjálfviljugur – í ljósi þess að hann hafi setið yfir hruni gjaldmiðilsins og hruni fjármálakerfisins þá átti hann auðvitað að koma út sjálfviljugur, bljúgur og auðmjúkur, og biðjast afsökunar. Lágmark: So sorry! Allra minnst. Nei. En hann er að grafa sig niður í bunkerinn eins og Hitler í Berlín. Það er að vísu enginn rauður her sem sækir að Seðlabankanum. En það er búsáhaldabylting sem heimtar réttlæti. Megi það ná fram að ganga. (klapp)

Við verðum að segja meira um ábyrgð, örfá orð. Tölum um Sjálfstæðisflokkinn. Hann hlýtur að þola það, forystuflokkur þjóðarinnar allan lýðveldistímann. Flokkurin sem hefur allan lýðveldistímann byggt upp valdakerfið íslenska umfram aðra. Aðrir hafa verið unionpartnerar, stundum komist að til þess að rétta kúrsinn og koma einhverju til leiðar, vegna þess að þessi forystuflokkur, hefur satt að segja ekki verið til stórræðnanna. Hann hefur verið stór og feitur en hann hefur yfirleitt verið heldur blauður og lítt til átaka. Ég meina það sem ég er að segja.

Það eru undantekningar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt sínar stóru stundir. Hann átti það þegar hann hafði forystumann sem hét Bjarni Benediktsson sem var í forystu fyrir því að bjarga eða vernda nýfengið íslenskt sjálfstæði með inngöngunni í NATO. Það var maður sem þorði. Það er maður sem tók af skarið. Það var maður sem kenndi ekki öðrum um. Hann þorði að leiða flokk sinn í gegn um einhver óvinsælustu átök sem um getur af því að hann hafði sannfæringu fyrir því að hann væri að gera rétt og hann sæi fyrir að þetta væri nauðsynlegt. Ég er sammála honum. Sagan hefur samsinnt því að hann hafði rétt fyrir sér. Þannig að Sjálfstæðisflokkurinn má eiga það sem hann á. En hann hefur á löngum tíma byggt upp valdakerfi sem er rotið spillt og ónýtt. Hann er ábyrgur fyrir fyrir svo löngum lista af hagstjórnarmistökum – töku bara tímabilið þessi 18 ár – svo langur listi af hagstjórnarmistökum í ríkisfjármálum, í peningamálum að ég nenni ekki að þreyta ykkur með því að fara með listann. En ég vísa ykkur á til dæmis nýlega skýrslu Gylfa Zoega og Jóns Daníelssonar sem var birt fyrir tveimur þremur dögum. Þar er það tíundað á hógværan og hlutlægan máta að Ísland stefndi í hrun vegna þess að hin pólitíska og faglega forysta þjóðarinnar brást á örlagatímum.

Sjálfstæðisflokkurinn ber auðvitað mesta ábyrgð á þessu. Hann getur ekkert vikist undan því. Hverjir fara með efnahagsstjórn í ríkisstjórn? Það eru forsætisráðherrann og nánasti samstarfsmaður hans fjármálaráðherrann.

Hverjir fara með og bera ábyrgð á peningamálastefnunni? Það eru þeir sem eru í forsvari fyrir Seðlabankann, seðlabankastjórinn númer eitt. Forsætisráðherrar, fjármálaráðherrar og seðlabankastjórar hafa allan þann tíma sem við erum að tala um mínus einhver tvö ár, sem skaust inn einhver maður að austan sem flestir eru búnir að gleyma, Halldór Ásgrímsson, allan þennan tíma, formaður, forsætisráðherra, fjármálaráðherra, seðlabankastjórar – forystumenn Sjálfstæðisflokksins.

Þeir komast ekki frá þeirri sögulegu staðreynd að þegar þeir gengu út úr stjórnarráðinu núna um daginn þá skildu þeir eftir íslenskt þjóðfélag eftir eins og brunarústir. Það liggur við að eina raunsæja líkingin væri sú að Íslendingar hefðu lent í stríði og að landið hafi orðið fyrir árás óvinaherja. Þetta er viðskilnaður Sjálfstæðisflokksins. Og svo halda þeir að þeir geti komið í kosningabaráttuna eða hegðað sér á þingi núna eins og ómerkilegir skólastrákar í málfundaæfingaleik. Um það er bara eitt að segja: Kunna þessir menn virkilega ekki að skammast sín. Það er líka kominn tími til þess, fyrst við gerum strangar kröfur til annarra í nafni lýðræðis og ábyrgðar að við lítum í eigin barm sem hér erum saman komin. Ef að við segjum að viðvörunarbjöllurnar voru farnar að klingja 2006 og orðnar ærandi árið 2007, þá er þess að geta að okkar flokkur, Samfylkingin, var þá komin í ríkisstjórn. Hún sat þar í 18 mánuði að minnsta kosti. Heyrði okkar forystufólk ekki í viðvörunarbjöllunum? Tók það ekkert mark á rökstuddri gagnrýni innanlands og erlendis um það hvers konar hættuástand var orðið og hvílíkar ógnir voru framundan ef ekkert yrði að gert. Þurfum við ekki að skýra það af hverju formaður okkar flokks eyddi mestum tíma sínum á þessu hættuástandstímabili í etthvert ómerkilegasta flopp íslenskrar utanríkispólitíkur sem hét tilraun til þess að komast inn í öryggisráðið? Það var ekki verkefni númer eitt. Er það eitthvað sem við komumst hjá að horfa upp á og viðurkenna sem staðreyndir að forystumenn stjórnarflokkanna, bæði Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, fóru á síðastliðnu hausti, skiptu með sér verkum, hann til New York, hún til Kaupmannahafnar til að tala máli bankaútrásarinnar og fullyrða þar gegn öllum staðreyndum að íslenska ríkið mundi standa að baki þessum stofnunum? Þess vegna væri hægt að treysta þeim erlendis?

Ef við krefjumst þess að maðurinn í Seðlabankanum axli ábyrgð með því að víkja verðum við þá ekki að gera þá kröfu til formanns okkar að hún víki? Er það boðlegt að ganga til kosninga og leggja mál í dóm kjósenda undir óbreyttri forystu? Ég spyr ykkur: Hvað var það sem felldi fráfarandi ríkisstjórn? Það var grasrótin. Henni var ofboðið vegna þess að Samfylkingunni var haldið allt of lengi í ríkisstjórn til þess að framlengja valdatímabil Sjálfstæðisflokksins eftir að fyrir því fundust engin frambærileg rök lengur. Og frá og með þeim tímapunkt að minnsta kosti sem Samfylkingin sagði – við berum ekki ábyrgð á orðum og gjörðum Davíðs Oddssonar – og það var ekki tekið mark á þeim, að þá, daginn eftir átti hún (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) að segja sig frá þessu stjórnarsamstarfi. Við látum ekki bjóða okkur svona trakteringar í nafni íslenskrar alþýðu. Það er óboðlegt. Maður hótar ekki í pólitík nema maður standi við það. (klapp) Við skulum bara viðurkenna það eins og það er. Það varð rof, brestur milli grasrótar, almennings og forystu sem einangraði sig, var gripin í bælinu, stóð ekki vaktina og Samfylkingin geldur þess enn. En á sjens. En hún verður að gera sömu kröfu til sjálfrar sín eins og við gerum til annarra. Það er bara kristilegt. Er það ekki.

Sem betur fer er komin ný ríkisstjórn. Vegna þess að búsáhaldabyltingin hafði rétt fyrir sér í því grundvallaratriði að þegar svo var komið að heil þjóð hafði orðið fórnarlamb sinna eigin stjórnvalda þá var það lágmarkskrafa að krefjast þess að málin yrðu lögð í dóm kjósenda og þeir sem sæktust eftir umboði til þess að vinna að lausnunum fengju nýtt beint umboð frá þjóðinni. Fyrrverandi ríkisstjórn var lömuð. Hún var lifandi dauð. Hún var hræ. Hún var ónýt. Eins og mun koma æ betur á daginn þegar farið verðuð ofan í saumana á allri hennar ákvarðanafælni.

Það er komin ný stjórn og ég segi fyrir mitt leyti: Það er léttir. Það hefur ekki mikið breyst út af fyrir sig, en það er léttir. Það er merkilegt hvað það stoðar lítið að hafa tvær gráður í hagfræði ef að kona sem hefur verslunarskólapróf og fyrrverandi flugfreyja er klárari í að greina ástandið, karlmannlegri í að taka ákvarðanir og skýrmæltari í að tala til þjóðarinnar sannleikann. Til hvers eru þá tvær gráður í hagfræði? (klapp)

Og ég hef nú alltaf verið svolítið skotinn pólitískt í honum Skallagrími, ekki síst eftir að hann fór fótgangandi frá Reykjanestá austur á Langanes. Hann er karlmenni. Hann talar íslensku. Hann er ekki daufdumbur. Það er allavega hægt að hlusta á þetta fólk. Og við vitum að það er ærlegt. Gríðarleg breyting. Hughreystandi.

En þessi 80 daga stjórn tekur við versta þrotabúi sem nokkur stjórn hefur tekið við í sögu Íslands, sögu Norðurlanda, ég veit ekki í sögu hverra. Kannski að finnist eitthvað svona í Tyrklandi, ég er ekki viss um það. (Egyptalandi). Allright – 80 dagar. Við skulum ekki byggja upp of miklar væntingar um það. Við sjáum hvernig Alþingi fungerar. Það er til skammar.
Þessir stuttbuxnadrengir íhaldsins leyfa sér það að móðga þjóðina á degi hverjum með skrípaleik, málflutningsæfingum sem þeir hættu að halda niðri í kjallara í Valhöll, frammi fyrir alþjóð og sýna hversu ómerkilegir þeir eru. Ég verð að segja það eins og það er. Þessi ríkisstjórn verður að gera ákveðna hluti, lágmarkshluti. Því hún verður að ælta sér framhaldslíf. Það sem ég er að tala um; er hún fyrirburður í tímanum eða er hún á vetur setjandi og getur hún breytt pólitíkinni í landinu.

Auðvitað þarf að breyta stjórnarskránni og það á að taka af öll tvímæli í aðdraganda samninga við Evrópusambandið um að auðlindir til lands og sjávar eru ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. Þetta verður að gera.

Númer tvö: Það átti að sjálfsögðu að setja inn í stjórnarskrána núna ákvæði sem kvæði á um það að Ísland sem fullvalda ríki gæti gert samninga, fjölþjóða samninga, við stofnanir eins og Evrópusambandið. Það voru mestu mistökin í aðdragandanum að hafa ekki gert þetta. Vegna þess að það eitt að framvegis munum við breyta stjórnarskrá með þjóðaratkvæðagreiðslu, það er klúður. Þetta þurfti að vera hreint borð. Og vinstrigræn – ef þau voru á móti því – þá er það á röngum forsendum vegna þess að þú getur verið á móti því að ganga til samninga við Evrópusambandið og gert þar strangar kröfur. En þú átt ekki að ganga gegn lýðræðinu. Það eina sem ég fer fram á við félaga okkar í vinstrigrænum er bara það að lýðræðið verði látið ráða. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að þau geti ekki orðið sammála um það. Það væri mjög æskilegt auðvitað að koma með breytingar á kosningalögum á la Finnland um það að kjósendur megi hafa rétt til persónukjörs. Það er að segja að ef þú gengur að kjörborðinu getir þú valið af listanum þá einstaklinga sem þú vilt kjósa. Vegna þess og ég segi það vegna þess að ég tel að reynsla okkar Íslendinga og flokkanna af prófkjörum sé slæm. Og hún varð æ verri vegna þess að hún opnaði dyrnar fyrir auðkýfinga sem enginn sá til bakdyra að kaupa sér stjórnmálamenn eins og mörg dæmi eru um.

Lítið á þennan mann sem var einhvern tíma bæjarfulltrúi Framsóknarflokksin, keyptur í bak og fyrir. Og þeir eru fleiri. En svo er það alvara lífsins. Við erum þjóð í gjörgæslu, núna á slysadeild. Hún heitir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er stofnun með mjög vafasama fortíð. Og ég hef skrifað talsvert um það. Þorvaldur Gylfason þekkir það innanfrá. En allir sem kynnt hafa sér þróunarhagfræði og örlög snauðra þjóða vita að það þarf að tala við þann sjóð með hrútshornum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kemur hér og gerir áætlun vegna þess að ríkisstjórnin hafði enga áætlun. Það var þrennt. Treysta gjaldmiðilinn. Það átti að gera með axlaböndum og belti það er að segja stýrivöxtum upp á átján prósent og gjaldeyrishömlum. Síðan var sagt um skuldirnar. Ja, þið þurfið að fara að skera niður ríkisútgjöld til þess að búa ykkur undir skuldirnar og hlífa ykkur við því núna því aðalbyrðarnar verða á ykkur lagðar 2010, 2011 og 2012.

Við þetta er tvennt að athuga. Ákvörðunin um 18 prósenta vexti er galin.

Hún er tilræði við það sem eftir lifir af íslensku atvinnulífi. Vita þessir menn ekki? Hverjir sömdu við þá? Ég er alveg viss um að ef Indriði hefði samið við þá eða hann Þorvaldur, þá hefðu menn ekki verið látnir komast upp með þessa vitleysu byggða á röngum forsendum. Það er byggt á röngum forsendum um skuldastöðu þjóðarinnar í fyrsta lagi . Og í öðru lagi efast ég um það að þeir hafi verið upplýstir um það að sjávarútvegurinn skuldar tvöfalda ársframleiðslu sína, að öll fyrirtæki á Íslandi eru meira og minna sokkin upp fyrir haus í erlendum skuldum. Halda menn það á sama tíma og allur heimurinn er að lækka vexti til þess að halda hjólum atvinnulífsins gangandi að þá sé leiðin hér sú að spenna stýrivexti upp í 18 prósent, láta fyrirtækin standa frammi fyrir því að taka vexti upp á 25 próent á sama tíma og þjóðfélagið er að fara í niðursveiflu. Það er engin verðbólga á Íslandi, nema þetta verðbólguskot sem leiddi af gjaldmiðilshruninu. Að öðru leyti erum við að fara í deflation, verðhjöðnun. Hvaða maður með viti , jafnvel þótt hann sé hagfræðingur, boðar svona vitleysu.

Um skuldirnar ætla ég ekki að segja annað en þetta. Þær eru miklu meiri en þjóðinni hefur verið sagt enn sem komið er. Og greiðslubyrðin af því verður óbærileg. Óbærileg. Hún verður meiri en við fáum við ráðið. Sem þýðir að við verðum að semja við aðra. Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Evrópusambandið um þetta tvennt: Skuldirnar og afborganirnar af þeim, hvernig við losnum út úr skuldafangelsinu á næstu árum; gjaldmiðilinn vegna þess að við getum ekki endurreist íslenskt efnahagslíf ef við erum með ónýtan gjaldmiðil. Þetta er bara svona. Vandi heimilanna. Af því að ræðan er orðin lögn ætla ég bara að trúa því að Jóhanna leysi hann. Til þess er hún. Það er tvennt sem verður að gera. Við verðum að taka á verðtryggingarvandanum.

Það hryggir mig ef það er rétt að ASÍ í nafni lífeyrissjóða standi í vegi fyrir því að taka það mál upp. Það eru bara æði góð rök fyrir því að þjóð í neyðarástandi og þá holskeflu sem yfir okkur hefur riðið, þá þýðir ekki að líta á hlutina eins og um sé að ræða óbreytt ástand. Það er ekkert eins og það var á Íslandi. Og við eigum að taka á verðtrygingarmálunum af því að allir verða nú að leggja sitt af mörkum. Fjármagnseigendur geta ekki verið stikk frí í því að endureisa Ísland. Þetta leiðir til þeirrar niðurstöðu að því er varðar þann hóp, aðallega ungt fólk sem er með myntkörfulán á sínum íbúðum og er búið að missa þær af því að lánið hefur tvöfaldast og verðið hefur fallið, hvort við höfum efni á að gera eitthvað fyrir þetta fólk. Það er engin önnur leið önnur en sú að færa þetta yfir í íslenskar krónur og lengja lánin. En það þýðir að einhver verður að taka á sig muninn. Höfum við efni á því.

Hugsið til Obama. Lifandis ósköp öfunda ég Ameríkana af Obama. Að þessi tágranni, svarti maður með múslimanafnið skuli í gegn um amerískt lýðræði vera kominn því til bjargar eftir að þeir drullusokkar með silfurskeið í munninum af Bushkyni höfðu komið Ameríku og heiminum til helvítis. Að þá skuli vera kominn maður með eitthvert vit og einhverja sýn og einhverja réttlætiskennd. Og hann er að taka til hendinni. Hann er að moka peningum út í bandarískt atvinnulíf. Moka þeim. Samt sem áður var Bush eiginlega búinn að gera ríkið greiðsluþrota með skattalækkun á auðkýfingana og með því að koma upp slíkum ríkishalla fyrir utan viðskiptahalla – Bandaríkjamenn höfðu lifað í heimi voodoohagfræði Bushistanna, frjálshyggjupostulanna – þannig að við vestu aðstæður er maðurinn að berjast eins og Roosevelt í því að bjarga því sem bjargað verður af þessum ameríska skrípakapítalisma til þess að allur heimurinn stöðvist ekki.

Hvað getum við gert til þess að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Við höfum enga peninga til þess. Það fyrsta sem við verðum að gera er að lækka vextina. Skilyrðislaust. Engin rök fyrir öðru.

Annað er að við verðum að fara í selektívar aðgerðir til þess að bjarga því sem bjargað verður. Það er ekkert smáverk. Meira um það síðar. Ekki í minni ræðu heldur í umræðunni. Undir lokin ætla ég að skilja við ykkur með eina spurningu. Við erum í djúpum skít. Það þarf ekki að hafa fleiri orð um það. Spurningin er hins vegar: Mun þetta leiða til þess að nú verði gagngerar breytingar á stjórnmálum og stjórnarháttum lýðveldisins þannig að við látum það sem gerst hefur okkur að kenningu verða? Eða mun allt saman sökkva aftur í sama gamla drullufarið í valdakerfi Sjálfstæðisflokksins endurreistu.´

Ég verð að segja: Sjálfstæðisflokkurinn hefur í ljósi reynslunnar dæmt sig sjálfur úr leik. Flokkur sem er þverklofinn í öllum helstu málum með gjörsamlega ónýta forystu á að láta okkur hin í friði. Hann á núna að fara í innhverfa íhugun og andlega uppbyggingu. Gott ef hann ætti ekki bara að fara með Jónínu í Toxic eitthvað til Póllands. (hlátur)

Við, íslenskir jafnaðarmenn undir þessu norska heimatrúboðsnafni Samfylking – við íslenskir jafnaðarmenn verðum að horfast í augu við sjálf okkur og gera að minnsta kosti jafn miklar ef ekki meiri kröfur til sjálfra okkar og annarra. Við getum ekki verið eini flokkurinn sem sem kom að þessu og bar ábyrgð sem fer fram með óbreyttri forystu. Það er ekki boðlegt fyrir fórnarlömbin. Vinstrigræn verða að læra eina lexíu. Hún er þessi: Evrópusambandið er ekki óvinurinn. Evrópusambandið er ekki valdastofnun frjálshyggjukapítalisma. Evrópusambandið er alternatív, val gagnvart amerískum kapítalisma. Ég veit hvað amerískir hægrimenn kalla Evrópusambandið. Þeir kalla það kommúnistasamsæri. Það getur ekki hvort tveggja verið rétt. Vinstrigræn verða bara að átta sig á því að umsókn um aðild að Evrópusambandinu er partur af lausninni í okkar tilfelli. Ekki einhver lúxus sem við látum bíða fram í tímann. Það er einfaldlega sú ástæða fyrir því að við ráðum ekki við þetta mál ein. Það er engin smáþjóð í veröldinni sem ræður við vandamál, sem heimurinn stendur frammi fyrir núna, ein. Það er bara ekki til. Og einangrunarhyggja af því tagi er bara blinda á lykilatriðin í samtíð okkar. Það er ekket til að stæra sig af í miðju þjóðargjaldþroti með allt niður um sig, að við erum þó allavega ein.

Matthías Johennessen, ritstjóri Morgunblaðsins fyrrverandi og fóstbróðir Styrmis vinar míns, skrifaði eina af sínum heitu hugvekjum í Lesbókina fyrir – hvað – tveimur vikur. Og hann notar þessa líkingu. Hjartað í mér – hann hefur heitt hjarta – hjartað í mér segir að við eigum ekki að fara í Evrópusambandið. Af því að ég var alinn upp í sjálfstæðisbaráttunni og svona. Og ég er enn í sjálfstæðisbaráttunni gegn Dönum. Hjartað í mér segir að við eigum ekki að ganga í Evrópusambandið en heilinn í mér segir að víst eigum við að fara í Evrópusambandið. Að minnsta kosti hefur hann voðalega miklar efasemdir um hjartað. Nú getum við eftir smag haft efasemdir um heilabúið í Sjálfstæðisflokknum überhaupt. En kjarni málsins er sá að hvort tveggja á rétt á sér, tilfinningagreind og rökgreind. Og þetta tvennt þarf að fara saman.

Það hefur brugðist í Sjálfstæðisflokknum að undanförnu. Og ef menn eru að tala við mig um sjálfstæði og við verðum að standa utan við allt af því að við viljum vera menn í sjálfstæðisbaráttunni gegn Dönum þá segi ég: Ég hef persónulega reynslu af því að vera innan um þjóðir sem að háðu raunverulega sjálfstæðisbaráttu í okkar samtíð. Ég er að tala um vini mína í Eystrasaltslöndum sem að risu upp þegar kúgunarveldið linaði þrælatökin og endurheimtu sjálfstæði sitt í nafni sögu sinnar, menningar, tungumáls. Heimtuðu endurreisn þjóðernis síns, menninar í formi sjálfstæðis. Já. Það er göfugt. Það var syngjandi bylting sem byggði á því að fólk, eins og búsáhaldabyltingin hér, hélst í hendur og það söng ættjarðarsöngva af hjartans einlægni. Hjartað sagði þeim að þeir yrðu – til þess að deyja ekki út – að endurheimta sjálfstæði sitt.

Hvað gerðu þeir daginn eftir? Daginn eftir, þegar þeir sáu rústirnar sem kommúnisminn hafði skilið eftir sem eru mjög sambærilegar við rústirnar sem Sjáflstæðisflokkurinn hefur skilið eftir, – en í báðum tilvikum er um að ræða Flokkinn með stórum staf, þegar þeir sáu rústirnar, þá sendu þeir bréf með hraðboði til Evrópusambandsins. Allir fyrrverandi kommúnistar, guðhræddir kaþólikkar og allt þar á milli, voru á einu máli um það að ef þeir vildu varðveita sjálfstæðið, ef þeir vildu festa það í sessi, ef þeir vildu styrkja það í hættulegum heimi allt í kring, þá yrðu þeir að sameinast aftur þjóðarfjölskyldu evrópskra lýðræðisríkja. Vegna þess að þau gætu ekki staðið ein í þessum hættulega heimi.

Er til of mikils mælst að Matthías, sem hefur gott hjartalag, komist út úr sjálfstæðisbaráttunni við Dani og leyfi heilanum líka að gagnrýna hjartað en helst að þau nái saman um heilsteypta pólitík byggða á tilfinningagreind og kaldri rökhyggju. Sagði ekki íhaldið að afstaðan til Evrópusambandsin væri byggð á köldu hagsmunamati. Ja þvílíkt.

Þakka ykkur fyrir.