HVAÐ ER EIGINLEGA AÐ?

Þór Saari: Hvað er eiginlega að þessu Alþingi? Skrudda, 2016.

ALMENNT:

Við lestur kversins kom mér í hug húsgangur eftir óþekktan höfund – en í anda Káins: (Þetta er ekki þjóðrækni – þaðan af síður guðrækni – heldur íslensk heiftrækni – og helvítis bölvuð langrækni). Pólitíska útgáfan í anda Káins er hins vegar svona (og gæti þess vegna verið mottó fyrir bókina): Þetta er ekki þingræði – þaðan af síður lýðræði – heldur bara bráðræði – og bölvað endemis fláræði.

Mér sýnist þungamiðjan í gagnrýni Þórs snúast um tvennt: Annars vegar er bæklað lýðræði (líkt og í þriðja lýðveldinu franska fyrir endurkomu De Gaulles). Veigamikil rök eru færð fyrir því, að lýðræði verði ekki vakið aftur til lífsins nema með róttækri uppstokkun á grundvelli nýrrar stjórnarskrár. Hin þungamiðjan er gagnrýni á stjórnmál undir hæl harðsvíraðra sérhagsmuna, sem ráða því, sem þeir vilja ráða. Þetta kallast á ensku „crony-capitalism“, sem bætist við frændhygli okkar hefðbundna ættasamfélags. Helmingaskiptareglan – sem síðar er vikið að – staðfestir þetta. Í skjóli hennar þrífst meiri spilling en séð verður með berum augum (vöntun á gagnsæi). Afhjúpun spillingarinnar samkvæmt Panamaskjölunum verður fastur liður eins og venjulega næstu vikur og mánuði.

BÆKLAÐ LÝÐRÆÐI: Grundvallarregla lýðræðis er „einn maður, eitt atkvæði“. Skv. þessari grunnreglu hafa Íslendingar alltaf búið við vanskapað lýðræði. Misvægi atkvæðisréttar var og er svo gróft, að það er í blóra við búsetuþróun í landinu. Kjördæmaskipunin, byggð á misvægi atkvæðisréttar, ein og sér ýtir undir fyrirgreiðslupólitík og hagsmunapot, þ.e. spillingu. Allar tilraunir til að draga úr misvægi atkvæðisréttar eftir búsetu hafa endað í hrossaskaupum um fjölgun þingmanna. Þingmenn eru núna allt of margir. Sjálfur atkvæðisrétturinn hefur verið gerður að verslunarvöru í pólitískum hrossakaupum.

  • Eina leiðin til að virða grunnregluna um jafnan atkvæðisrétt er sú að gera landið að einu kjördæmi. Þetta var alla tíð stefna Alþýðuflokksins. Með því að gera landið að einu kjördæmi væru skapaðar pólitískar forsendur fyrir skilvirkri byggðakjarnastefnu. í stað fyrirgreiðslu við sérhagsmuni í krafti meirihlutaofbeldis.
  • Með landið eitt kjördæmi plús persónukjör. næðist hvort tveggja, að draga úr flokksræði (formannavaldi) og hagsmunatogstreitu, sem endar í spillingu. .
  • Réttur minnihluta þingmanna og lágmarkshlutfalls kjósenda (10-12%) til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. um mikilvæg mál væri stórt skref fram á við til eflingar lýðræðis. Þetta mundi styrkja stöðu löggjafarsamkomunnar gagnvart framkvæmdavaldinu (ráðherraræðinu.), sem nú er allsráðandi. Þetta gæti tekið stórmál úr gíslingu sérhagsmunahópa. Þjóðarviljinn kæmi í stað núverandi geðþóttavals forseta. .
  • Dæmi: Í meira en tvo áratugi hefur mikill meirihluti þjóðarinnar lýst sig andvígan gjafakvótakerfinu. og með því að binda þjóðareign á auðlindum í stjórnaskrá.. Hvorugt hefur náð fram að ganga vegna ofurvalds sérhagsmuna. Þessu verður að breyta. Það ætti að vera efst á forgangslistanum, ásamt með nýrri stjórnarskrá. .
  • Ef meirihluti þjóðarinnar. getur náð fram vilja sínum í þessum málum í þeim kosningum, sem framundan eru (forsetakjör og þingkosningar), mundi það valda straumhvörfum. Þetta mundi bæta vinnubrögð á Alþingi og traust almennings á því með því að leysa minnihluta þings (stjórnarandstöðu) frá þeirri nauðung að beita málþófsvopninu. í tíma og ótíma. .
  • Rannsóknir hafa sýnt, að mannaráðningar. í opinberri stjórnsýslu byggja í meira mæli á flokkshollustu (flokksræði) en starfshæfni skv. hlutlægu mati. Þetta á við um ráðuneyti, ríkisstofnanir og réttarfarskerfi.
  • Undirritaður gerði á því könnun fyrir hálfri öld, að 25 sýslumenn höfðu verið skipaðir í embætti af flokksbróður á vegum dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, 22 flokksbræður á vegum dómsmálaráðherra Framsóknarflokksins. Einn var óflokksbundinn, og einn var grunaður um að vera krati. Enn í dag koma dómarar nær eingöngu úr þessum tveimur flokkum. .
  • Þess eru dæmi, að allir helstu embættismenn ráðuneyta séu svarnir andstæðingar ráðherra, sem koma úr öðrum en þessum tveimur flokkum. Þetta er m.ö.o. flokksræðiskerfi (e. political nepotism) . en ekki hæfnisstjórnun (e. meritocracy) .. Þetta er sama kerfi og viðgengst víða í einræðisríkjum og þriðjaheimsríkjum. Fyrirmyndir að mönnun stjórnsýslu á grundvelli hæfni má finna víða, ekki síst hjá Bretum. .
  • FJÓRÐA VALDIÐ: . Lýðræði getur ekki þrifist án vandaðra fjölmiðla, sem eru óháðir sérhagsmunum.. Flestir helstu fjölmiðlar á Íslandi (fyrir utan ríkisútvarpið) eru í eigu harðsvíraðra sérhagsmunahópa. Reynslan sýnir, að þeir hika ekki við að beita þessum fjölmiðlum í sína þágu. Nýleg dæmi, þar sem fjölmiðlum er beitt purkunarlaust í þágu dæmdra glæpamanna, eru hrollvekjandi viðvörun um mátt fjölmiðla til að grafa undan heilbrigðu lýðræði og réttarríki. . Því er haldaið fram af málsmetandi mönnum, sem þekkja málavexti, að það megi heita vonlaust mál að ná kjöri í helstu kjördæmum á landsbyggðinni í andstöðu við kvótaeigendur þar. Atvinnurekendavaldið er aftur orðið allsráðandi, eins og fyrir daga verkalýðshreyfingarinnar.

STJÓRNMÁL Á VALDI SÉRHAGSMUNA:

  • Tveir flokkar, Sjálfstæðis-Framsóknarflokkurinn, hafa verið ráðandi um stjórn landsins lengst af á lýðveldistímanum, með fáeinum undantekningum. Sagan sýnir, að þessir tveir flokkar hafa beitt pólitískum völdum til að skipta með sér og sínum forræði yfir helstu geirum atvinnulífsins. Þetta hefur lengst af átt við um inn- og útflutning, banka, fjármálafyrirtæki og tryggingar, smásölu, flutninga, olíu og bensín, hermangið o.s.frv. Helmingaskiptareglan (50/50% milli þessara flokka) var í reynd grundvallarregla í íslenskri stjórnsýslu – og er enn, ef að er gáð, þótt ekki sé hún eins sýnileg og á dögum SÍS.
  • Það var fyrst og fremst fyrir atbeina Alþýðuflokksins eftir miðja seinustu öld, sem reynt var að losa um tök þessa flokksræðiskerfis á efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar. Viðreisnin (samstjórn Sjálfstæðis- og Alþýðuflokks, 1959-71) losaði um haftakerfið, skráði gengið rétt, opnaði á frelsi í innflutningsverslun. En vegna rótgróinna hagsmuna Sjálfstæðisflokksins tókst ekki að hnekkja helmingaskiptareglunni í útflutningi, bönkum, fjármálastofnunum og smásöluverslun – hvað þá heldur landbúnaðarkerfinu, sem varð æ háðara ríkisframfærslu.
  • Inngangan í EFTA 1970, að frumkvæði Alþýðuflokksins, var önnur tilraun til að losa um flokksræðisfyrirgreiðslu í viðskiptum, skv. helmingaskiptareglunni. Þriðja og stærsta tilraunin til að losna við flokksræðiskerfið var inngangan í EES – enn og aftur að frumkvæði Alþýðuflokksins. Heimamarkaðurinn stækkaði úr 300 þúsund í 300 milljónir (og síðar meir í 500 milljónir) og laut eftir það samræmdum samkeppnisreglum. Vegna slælegrar framkvæmdar hefur fákeppni og einokun samt verið látin líðast í allt of miklum mæli. Þar er þó fyrst og fremst við sjálf okkur að sakast.
  • Árið 1995 náði Sjálfstæðis-Framsóknarflokkurinn aftur höndum saman um stjórn landsins í tólf ár. Innleiðing gjafakvótakerfisins og helmingaskiptin um einkavæðingu bankanna lagði grunninn að gerspilltu bóluhagkerfi, sem sprakk með skelfilegum afleiðingum fyrir þorra almennings í Hruninu 2008. .
  • V-stjórnin (2009-2013) fékk það verkefni að reisa þjóðfélagið úr rústum frjálshyggjunnar. Sumt gerði hún vel og lagði grunn að efnahagsbata, sem síðar kom í ljós. Hagstæð ytri skilyrði hafa hjálpað til. En vinstristjórninni, og flokkunum sem að henni stóðu, voru mislagðar hendur um stóru málin, sem skiptu sköpum fyrir framtíðina: Skuldavanda heimilanna, auðlindagjald fyrir einkarétt á nýtingu sjávarauðlindarinnar, endurreisn bankakerfis á sama grunni og áður og uppgjöf og klúður við að framfylgja þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá, sem legði grunn að nýju og heilbrigðara samfélagi. Afleiðingin var mestu kosningaósigur lýðveldissögunnar. Samfylkingin hefur ekki borið sitt barr síðan. Vinsældir Katrínar Jakobsdóttur hafa ekki dugað til að lífga Vinstri-Græn við.

HVAÐA FJÓRFLOKKUR? Það er, að mínu mati, galli á greiningu höfundar, að hann skellir skuldinni af óförum lýðveldisins á eitthvert fyrirbæri, sem hann kallar Fjórflokkinn. Skv. þessari kenningu eiga stjórnmálaflokkar eins og Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag eða Samfylking og Vinstri græn, að tilheyra einhverju pólitísku hlutafélagi, sem hann kennir við fjórflokk.

Ég var í tólf ár formaður í jafnaðarmannaflokki, sem kenndi sig við alþýðu. Ég kannast ekki við það, að sá flokkur hafi á minni tíð verið handbendi nokkurra sérhagsmuna. Sannanlega ekki sægreifanna í LÍÚ; sannanlega ekki landbúnaðarkerfisins; sannanlega ekki SÍF (sem ég svipti ríkisverndaðri einokun); og við gengum hvorki erinda hagsmuna Viðskiptaráðs né fyrirgreiðslupots í nafni byggðastefnu.

Við börðumst fyrir þjóðareign á auðlindum og auðlindagjaldi fyrir nýtingarrétt á sjávarauðlindinni, sem alþjóð má kunnugt vera. Ég veit fyrir víst, að minn flokkur var ekki partur af neinum fjórflokki; þvert á móti vorum við höfuðandstæðingar helmingaskiptareglunnar, eins og söguleg dæmi sanna. Skv. minni pólitísku reynslu er það líka ofmælt, að Alþýðubandalagið hafi verið partur af hagsmunagæslu hins meinta fjórflokksins.

SAMSTAÐA UM ALMANNAHAG GEGN SÉRHAGSMUNUM: GEGN AUÐRÆÐI – FYRIR LÝÐRÆÐI.

Ég tel, að þessi greining og hugtakanotkun sé ekki bara efnislega röng heldur einnig skaðleg, þegar við leitum að lausnum á sálarháska hins íslenska lýðveldis. Má ég vekja athygli á því, að öflugasta umbótahreyfing í þágu almannahagsmuna gegn sérhagsmunum, Alþýðuflokkurinn/Alþýðusambandið, fagnar hundrað ára afmæli á þessu ári.

Af þessu tilefni var efnt til afmælisfagnaðar í Iðnó í mars s.l. og í framhaldi af því efnt til fyrirlestrarhalds um söguleg afrek, mistök og ósigra, þessarar umbótahreyfingar. Í þessum fyrirlestrum var því til skila haldið að öll stærstu umbótamál í þágu almennings, sem náðu fram að ganga á öldinni sem leið, voru borin fram til sigurs gegn harðri andstöðu íhaldsafla, af stjórnmálaarmi þessarar hreyfingar – Alþýðuflokknum: Viðrukenning á samningsrétti stéttafélaga, takmarkanir á vinnutíma (t.d. vökulög), heildarlöggjöf um vinnumarkað, löggjöf um félagslegar lausnir í húsnæðismálum (verkamannabústaðir), almannatryggingar (sjúkra-, elli-, slysa- og örorkutryggingar), atvinnuleysistryggingar, lög um launajafnrétti karla og kvenna, skattkerfisbyltingin 1987 (sem endurreisti tekjustofna velferðakerfisins), og staðgreiðsla skatta, barna-og fjölskyldubætur, fyrir utan merkustu umbæturnar á menntakerfi þjóðarinnar, undir forystu Gylfa Þ. Gíslasonar formanns Alþýðuflokksins.

Þetta eru bara nokkur dæmi, sem segja mikla sögu. Allt hefur þetta áunnist vegna baráttu hreyfingar fyrir almannahagsmunum gegn sérhagsmunum. Það stenst ekki dóm sögunnar að kenna þessa hreyfingu við hagsmunabandalag helmingaskiptaflokkanna, þrátt fyrir að sundurlyndi vinstri hreyfingarinnar hafi neytt hana til málamiðlana við önnur stjórnmálaöfl, oft í veikri stöðu.

Það er líka hætt við, að þessi hugtakanotkun spilli fyrir samstöðu meirihluta þjóðarinnar um fáar en stórar og róttækar umbætur á grundvallaratriðum stjórnskipunar (ný stjórnarskrá, jafn atkvæðisréttur, þjóðaratkvæði um stórmál og þjóðareign á auðlindum), sem þarf að nást fyrir næstu kosningar. Vinstrið þarf að læra af hægrinu um að sameinast um fá stór mál, sem skipta sköpum – en láta minni háttar ágreiningsmál liggja milli hluta.

HVAÐ ER TIL RÁÐA?

„Ég er búinn að fylgjast með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag. Þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin princip, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta“. – (Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Mbl. í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis (RNA), apríl 2010, – sjá bls. 37).

Höfundur bókarinnar leggur fram fjölmargar tillögur til úrbóta (sjá viðauka, bls. 89-91). Þetta eru róttækar breytingar, sem kjósendur ættu að kynna sér fyrir næstu forseta- og alþingiskosningar. Ég læt þær fljóta hér með, að vísu eilítið í annarri röð en hjá höfundi.

Ég legg að lokum til, að tillögunum verði raðað upp eftir mikilvægi í annarri röð, eða sem hér segir:

  1. Ný stjórnarskrá. Förum að fordæmi Frakka. Endurreisum lýðveldið á traustum grundvelli lýðræðis með stjórnfestu. Einn maður eitt atkvæði. Landið eitt kjördæmi. Persónukjör gegn flokksræði.
  2. Þjóðaratkvæði. Tiltekinn minnihluti þingmanna og lágmarkshlutfall kjósenda fái stjórnarskrárvarinn rétt til að vísa málum í þjóðaratkvæði. Þar með nást stórmál, sem varða almannahagsmuni, úr gíslingu sérhagsmuna. Alþingi losnar undan málþófsáráttu í tíma og ótíma. Lýðræði með skilvirkni.
  3. Gegn ráðherraræði. Þingmenn sem verða ráðherrar víki af þingi, og varamenn taki sæti þeirra. Þetta styrkir löggjafarsamkomuna, þingræðið gegn ráðherraræðinu. Getur stuðlað að vali ráðherra utan þings á grundvelli sérfræðiþekkingar eða árangurs í forystuhlutverkum í atvinnulífi og stjórnun.
  4. Undirbúningur löggjafar – frumvarpssmíð – færist frá ráðuneytum til Aþingis. Fleiri sérfræðingar á ýmsum sviðum starfi þá hjá löggjafarsamkomunni. Frumkvæði að lagasmíð flyst frá ráðuneytum til þingsins (þingflokka).
  5. Þingmönnum verði fækkað (t.d. í 51) en þeir fái aðstoðarmenn til aðstoðar í löggjafarstarfi.
  6. Launakjör þingmanna verði bætt til samræmis við raunverulegan vinnutíma.
  7. Lýðræðisstofa taki við af pólitískt skipuðum kjörstjórnum. Hún beri ábyrgð á framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, upplýsingum um löggjöf til almennings og miðli fræðslu til skólakerfis um lýðræðislega stjórnarhætti.
  8. Samfelld seta þingmanna verði takmörkuð við 2-3 kjörtímabil. Tilgangurinn er að draga úr líkum á myndun pólitískrar yfirstéttar. Þingmennska á að vera borgaraleg skylda en tímabundin (eins og í Aþenu forðum).
  9. Lögaðilum (fyrirtækjum) verði með lögum bannað að fjármagna flokka og frambjóðendur, að viðlögðum þungum refsingum.
  10. Starfstími þingsins á ári hverju verði lengdur til að koma í veg fyrir fljótfærni og flumbrugang í tímaþröng. Næturfundir verði bannaðir. Reynt verði að gera þingmannsstarfið fjölskylduvænt.
  11. Byggt verði yfir Alþingi, þannig að starfsaðstaða og tæknibúnaður verði sambærilegur við það sem tíðkast hjá vel reknu fyrirtæki.
  12. Almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins verði tryggt í reynd með því að gera það fjárhagslega sjálfstætt til langs tíma. Settar verið skorður við pólitískri íhlutun um fréttaflutning og og almenningsfræðslu. Eignarhald auðhringa á fjölmiðlum verði bannað með lögum.