UTAN(OG OFAN) VIÐ LÖG OG RÉTT

Ha, – ég? Nei, Landsbankinn bauð bara upp á þessa þjónustu. Ég hélt, satt að segja, að þetta hefði verið vistað í Lúxemburg – það er jú í Evrópusambandinu, ekki satt? Súsí og Samba í stjórninni? – Nei, ég hef aldrei hitt þær. Hélt, satt að segja, að það væri löngu búið að loka þessu. Man varla lengur, hvað félagið hét. En hitt man ég upp á hár, að þetta var alltaf á framtalinu mínu. Svo að ég hef borgað alla skatta og skyldur. Ég get fengið Deloitte til að skrifa upp á það, ef þú vilt.

Þetta er stuttur útdráttur úr svörum máttarstólpa Framsóknar-Sjálfstæðisflokks við spurningum fréttamanna um, hvers vegna nöfn þeirra sé að finna í Panamaskjölunum um gervifyrirtæki á “aflandseyjum”. (Má til með að skjóta því inn í, að hvorki Sviss né Lúxemburg, sem eru einhver stórtækustu skattaskjól heimsins, geta flokkast undir eyjar í landfræðilegum skilningi. Við ættum að halda okkur við hugtakið skattaskjól og láta vera að klæmast á landafræðinni).

Það er sama við hvern er talað. Svörin eru stöðluð eins og út úr páfagauki. Svo er gjaldkeri Samfylkingarinnar nefndur til sögunnar í einu orðinu (vissi reyndar ekki, að SF þyrfti á gjaldkera að halda!). Hann hefur alla vega haft rænu á að segja af sér- tvisvar. Í hinu orðinu er brosað í kampinn og sagt sem svo: Þetta er alveg löglegt – er það ekki? Eins og eigin yfirlýsing dugi sem sönnun um skattskil, þótt fyrir liggi, að skattayfirvöld hafa engan aðgang að gögnum í skattaskjólum til að sannreyna eitt eða neitt. Tekur einhver mark á þessu tuði?

Eins og að sú grundavallarregla réttarríkisins – að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum – skipti ekki lengur máli? Eða að hin meinta grundvallarregla um samkeppni á markaði – nefnilega að allir búi við sömu leikreglur – skipti ekki lengur máli? Að það sé allt í lagi, að auðmenn og auðfélög skipi sjálf sig utan og ofan við lög og rétt? Að auðmenn hafi geðþóttavald um það, hvort þeir greiði skatta yfirleitt og þá hve mikla? Að það sé allt í lagi, að venjulegt fólk – þeir sem tilheyra ekki forréttindastéttinni – borgi brúsann?

Það er þá með öðrum orðum allt í lagi, þótt sjálfur samfélagssáttmálinn sé rofinn, í krafti auðsins. Hvað er þá orðið af réttarríkinu? – jafnræði fyrir lögunum? Sjálfu lýðræðinu – sem fær ekki staðist án lágmarkssamstöðu þegnanna? Hugsið ykkur það, að sjálfur forsætisráðherra ríkisins – sem virðist vera vænsti maður að sjá – virðist hvorki skilja upp né niður í, um hvað málið snýst, ef marka má orð hans. Hann reyndi að bera blak af forvera sínum, sem reyndi að leyna tilvist fjölskylduauðsins í skattaskjólum. Næst er það sjálfur framkvæmdastjóri flokksins. Sá hafði samt rænu á að segja af sér, en starfandi formaður og forsætisráðherra taldi það hreinan óþarfa. Og þingflokkur og framkvæmdastjórn taka undir. Smám saman hlaðast sönnunargögnin upp. Flokkur, sem var einu sinni samvinnuhreyfing fátækra bænda, er fyrir löngu orðinn að pólitískum umskiptingi: Eignarhaldsfélagi fámennrar klíku, sem misnotar völd sín kerfisbundið til að komast yfir erfðagóss hreyfingarinnar (SÍS) og verðmæt fyrirtæki í almannaeigu – frá SÍS til VÍS – og allt þar á milli. Kann enginn þarna innan dyra lengur að moka flór?

Helsta helgirit kapítalismans heitir „Auðlegð þjóðanna“ eftir Skotann Adam Smith. Nú hefur ungur og efnilegur lærisveinn í fræðum Smiths, Gabriel Zucman að nafni, skrifað grundvallarrit undir heitinu: „Hin hulda auðlegð þjóðanna“. Zucman er lærisveinn Pikettys, sem skrifaði öndvegisritið: „Kapítalið á 21. öldinni“. Piketty sýndi fram á innbyggða tilhneigingu óbeislaðs kapítalisma til þess að auðurinn safnist á æ færri hendur. Zucman sýnir fram á, að fjárflóttinn í skattaskjólin er ein helsta undirrót sívaxandi ójafnaðar eigna og tekna á okkar samtíð, auk þess sem auðsöfnuninni fylgir auðræði, sem er á góðum vegi með að ganga að lýðræðinu dauðu. Zucman dregur saman ógrynni heimilda um umfang og stærð hins falda fjarmagns í skattaskjólum. Hann færir sönnur á, að tilraunir alþjóðasamfélagsins hingað til, til að ná tökum á vandamálinu, hafi reynst vera fálmkennt fúsk.

Hann stingur upp á nýrri aðferðarfræði og nýjum lausnum: (1) Að fela Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF) að halda skrá yfir alþjóðlega fjármunaeign (þ.m.t. hluta- og skuldabréf). Þessi skrá er þegar til að hluta en þarf að fá lögmæti og að verða opinber og aðgengileg. (2) Setja viðskiptaþvinganir á ósamvinnuþýð skattaskjól, sem samsvari þeim kostnaði, sem skattaskjólin valda þjóðríkjunum í formi glataðra skatttekna. Þetta er nauðsynlegt til að stöðva innbyrðis samkeppni þjóðríkja um lækkun skatta á auðmenn, sem reynslan sýnir, að hefur ekki dugað til að stöðva fjárflótta í skattaskjól. (3) Að innsigla með alþjóðasamningi tillögur OECD um grundavallarbreytingar á skattlagningu fjölþjóðafyrirtækja. Skv. þessum tillögum verður heildarhagnaður fyrirtækjasamstæðunnar skattskyldur, og kemur síðan til skipta til þjóðríkjanna, í hlutfalli við tekjumyndun í hverju landi fyrir sig. Þetta mundi binda endi á massívan skattstuld fjölþjóðahringa eins og t.d. Apple, Google, Facebook, Amazon o.s.frv. til að nefna nokkur dæmi um stórtæka skattasvindlara. Svo að ekki sé minnst á álhringana, svo að tekið sé nærtækt dæmi.

Miðað við umfang áætlaðs fjárflótta frá Íslandi í skattaskjól, sem hófst á bóluárunum, og stendur enn eftir Hrun, má ætla, að á Íslandi sé að finna dágóðan markað fyrir íslenska þýðingu á “Hinni huldu auðlegð þjóðanna“ eftir Zucman. Bókin ætti að vera skyldulesning fyrir kjósendur í aðdraganda kosninga, sem eiga að snúast um það, hvort Íslendingar vilji heldur búa í réttarríki fremur en í bananalýðveldi. Var það ekki sjálfur Þorgeir Ljósvetningagoði, sem sagði forðum, að hann ætlaði, að „ef vér slítum í sundur lögin, þá slítum ver einnig í sundur friðinn“?