SÓMI ÍSLANDS, SVERÐ OG SKJÖLDUR?

Grundar dóma, hvergi hann
hallar réttu máli.
Stundar sóma, aldrei ann
örgu pretta táli.
(Sr. Jón Þorgeirsson, Hjaltabakka)

„Hefur þú enga sómatilfinningu, Davíð Oddsson?“ Það mætti segja mér, að þessi orð verði eitt af því fáa, sem eftir situr í minningunni, löngu eftir að kosningabaráttan fyrir forsetakosningarnar anno domini 2016 verður gleymd og grafin.

Guðni Th. Jóhannesson lét þessi orð falla í sjónvarpsþætti á Eyjunni, eftir að Davíð hafði lengi látið móðan mása um, að Guðni hefði staðið gegn þjóðinni og með óvinum hennar í Icesave-deilunni forðum. Guðni hefði m.ö.o. verið landráðamaður. Lesendum skal á það bent að fara með sléttubandavísuna hér að ofan öfugt frá orði til orðs. Þá skilja þeir, hverjum klukkan glymur, vænti ég?

Þetta má heita hraustlega mælt af manni, sem ekki er ofmælt, að hafi verið bæði útgefandi og ábekingur Icesave-víxilsins. Hvað á ég við? Ég á við það, að Davíð Oddsson forsætisráðherra og samstarfsmenn hans höfðu það í hendi sér, þegar lögin um lágmarkstryggingu innistæðueigenda voru sett 1999, að fara að dæmi Norðmanna og setja fyrirvara, sem hefðu þýtt, að enginn Icesave-víxill hefði fallið á þjóðina. Og sem Seðlabankastjóra á árunum 2006-08 bar Davíð Oddssyni skylda til að grípa til ráðstafana, sem hefðu komið í veg fyrir, að Icesave-víxillinn félli á þjóðina. Hann brást þeirri skyldu, eins og nánar er skýrt í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um Hrunið. Nánar um það síðar.

Svikabrigsl Davíðs í garð Guðna af þessu tilefni koma úr hörðustu átt. Á hinni þýsk-skotnu mállýsku Gyðinga í Austur-Evrópu heitir þetta „chutzpah“. Samkvæmt orðabókinni er þetta sú tegund af ófyrirleitni, sem lýsir sér þannig, að sjálfur sökudólgurinn skellir skuldinni af eigin afglöpum á saklausan. Sem dæmi er nefnt, að maður, sem staðinn er að innbroti með fingraförin út um allt, sakar vegfaranda, sem átti leið hjá, um innbrotið. Og þráast við að játa á sig sök í blóra við öll sönnunargögn.

Fyrirhyggja

Noregur er, eins og allir vita, með okkur í EES. Þar í landi gilda því væntanlega sömu Evrópureglur og hjá okkur um lágmarkstryggingu innistæðueigenda (sparifjáreigenda ) og fjárfesta – og tryggingasjóð því til fullnustu. Olíuríkið Noregur með sinn stóra kaupskipaflota þarf auðvitað á bankaþjónustu að halda vítt um veröld. Samt fengu þeir enga Icesave (Norsave) reikninga í hausinn. Hvers vegna ekki?

Ég fékk á sínum tíma tækifæri til að spyrja norska þingmenn, sem áttu sæti í fjárlaganefnd norska Stórþingsins, þessarar spurningar. Þeir sögðu það vera vinnureglu, að ESB-lög og reglur, sem innleidd væru í norskan rétt, færu til umsagnar norska Seðlabankans. Þótt tryggingasjóðurinn norski (öfugt við þann íslenska ) þætti nokkuð stöndugur, komst norski Seðlabankinn að þeirri niðurstöðu, að ekki væri á það hættandi, að hann stæði undir tryggingu innistæðna í erlendum gjaldmiðlum í útlöndum. Seðlabankinn setti það skilyrði, að norski sjóðurinn tryggði einungis innistæður í norskum krónum. Þetta þýddi, að norskir bankar og fjármálastofnanir urðu að reka starfsemi sína erlendis í formi dótturfyrirtækja með bankaleyfi og ábyrgð gistilandsins. Norski tryggingasjóðurinn tók enga ábyrgð á því.

Þar af leiðandi var ekkert til, sem hét Norsave. Ef Davíð og Halldór og co hefðu sýnt sömu aðgæslu og fagmennsku og norskir kollegar þeirra, væri ekkert til, sem heitir Icesave. Reyndar varð ekkert Hrun heldur í Noregi, sem reynt væri að kenna EES um. Það hvarflaði nefnilega ekki að neinum stjórnmálamönnum í Noregi að úthluta pólitískum vildarvinum ókeypis nýtingarrétti á olíuauðlindum landsins; eða að leyfa ný-einkavæddum bönkum að hlaða upp skuldum í erlendum gjaldeyri að jafnvirði tífaldrar þjóðarframleiðslu eða svo. Þar skilur á milli feigs og ófeigs.

Hver færði Björgólfum Landsbanka Íslands fyrir slikk? Davíð Oddsson. Hver tilnefndi framkvæmdastjóra og fjárhaldsmann Sjálfstæðisflokksins sem varaformann bankaráðs Landsbankans? Sá hinn sami. Það var gert „til þess að tryggja talsambandið við Flokkinn“ – eins og sagt var á sínum tíma. Var það tilviljun, að listinn yfir því sem næst alla stjórnendur Landsbankans í lykilstöðum var eins og „hver er maðurinn“ um útungunarstöð Sjálfstæðisflokksins í lagadeild, Orator, Heimdalli og SUS? Nei, það var engin tilviljun. Þegar Landsbankinn var orðinn svo skuldsettur árið 2006, að erlendir lánamarkaðir lokuðust, gripu þessir menn til þess örþrifaráðs að hafa fé af sparifjáreigendum og fjárfestum í Bretlandi og Hollandi með yfirboðum. Með fullu samþykki íslenskra stjórnvalda – enda talsambandið við Flokkinn opið.

„Ekki gera ekki neitt“

Þegar kom fram á árið 2007, þótti eigendum og stjórnendum Landsbankans ástæða til að leita til eins helsta sérfræðings í heimi í fjármálakreppum, Dr. Willems Bauter. Hann var beðinn um úttekt á svokölluðu viðskiptamódeli Landsbankans. Buiter skilaði stjórnendum Landsbankans kolsvartri skýrslu í ársbyrjun 2008. Fyrir því eru traustar heimildir, að þessi svarta skýrsla barst ekki bara stjórnendum Landsbankans, heldur líka oddvitum stjórnarflokkanna, fjármálaráðherra, Seðlabankastjóra og fleirum.

Við lesturinn hefði átt að klingja öllum viðvörunarbjöllum. Niðurstaða Bauters var sú, að íslenska bankakerfið væri fjárhagsleg spilaborg. Það væri ekki spurning um hvort, heldur aðeins hvenær, spilaborgin hryndi. En Bauter lét ekki þar við sitja. Hann lagði fram tillögur um aðgerðir, sem grípa yrði til tafarlaust, til að draga úr fyrirsjáanlegum skaða. Ein tillagan var sú að koma Icesave-útibúum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi á ábyrgð Íslands í dótturfyrirtæki á ábyrgð gistilanda. Önnur var að flytja höfuðstöðvar stóru bankanna, a.m.k. KB, til útlanda, þar sem meginið af starfsemi þeirra fór fram, hvort eða var.

Seðlabankinn, undir forystu Davíðs Oddssonar, aðhafðist ekkert. Eftir á ber Davíð því við, að skort hafi lagaheimildir. Það er hæpin lögskýring. Höfuðskylda Seðlabankans er að lögum að tryggja fárhagslegan stöðugleika. Icesave-reikningurinn var langt umfram getu gjaldeyrisforða Seðlabankans, hvað þá heldur tryggingasjóðsins íslenska til að standa við skuldbindingar. Icesave var því fyrirsjáanleg ógnun við þann fjármálastöðugleika, sem Seðlabankanum ber að tryggja. Hafi skort á lagaheimildir, voru hæg heimantökin að afla þeirra. „Ekki gera ekki neitt“ – var það eina sem var og er óafsakanlegt. Afleiðingarnar eru öllum kunnar. Um þær má lesa á tvö þúsund blaðsíðum í níu bindum skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Þar segir m.a.:

„Nefndin telur einnig, að annars vegar þáverandi forstjóri Fjármálaeftirlitisins, og hins vegar Davíð Oddsson……, þáverandi bankastjóri Seðlabanka Íslands, hafi sýnt af sér vanrækslu í skilningi 1.mgr. 1 gr.laga nr. 142/2008 í tilteknum störfum í framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi og eftirlit með henni“.

Rannsóknarnefndin skilaði skýrslu sinni með skýrum og afdráttarlausum niðurstöðum, sem og tillögum til úrbóta, til Alþingis. Alþingi klúðraði niðurstöðunni með þeim endemum, að það hefur ekki borið sitt barr í vitund þjóðarinnar síðan.

Fingraförin

Fingraför Davíðs Oddssonar og nánustu samstarfsmanna hans eru út um allt í rústum Hrunsins. Þar nægir að nefna arðinn af sjávarauðlindinni, sem afhentur hefur verið nokkrum tugum fjölskyldna útgerðarmanna, í blóra við 1.gr. fiskveiðistjórnarlaganna og streymt hefur úr landi að stórum hluta í huldufélög á aflandseyjum og til ávöxtunar í traustum gjaldmiðlum í lágskattalöndum; einkavæðingu bankanna að hætti Rússa til fáeinna ólígarka, sem mergsugu þá og skildu þjóðarbúið eftir með skuldirnar; Hrun gjaldmiðilsins og greiðsluþrot Seðlabankans undir stjórn Davíðs – og allt þar á milli.

Samt telur Davíð Oddsson við hæfi að bjóða sig fram til forseta lýðveldisins – að vísu kauplaust – og vísar þar fyrst og fremst til reynslu sinnar. Reynsla þjóðarinnar af störfum hans undir lok stjórnmálaferilsins og af störfum hans sem Seðlabankastjóra segir hins vegar þá sögu, að til þess eru vítin að varast þau. Dramb er falli næst.

En er einhver skýring á þeirri sérstöku tegund af ósvífni – chutzpah – sem ég vék að áðan, og lýsir sér í því, að höfuðpaur Hrunsins hælir sér af reynslu sinni; og telur við hæfi að varpa sök af eigin afglöpum á saklausa vegfarendur? Jú, við eigum skýringuna að þakka Ásdísi Höllu Bragadóttur, brautryðjanda í einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og samstarfskonu Davíðs í útgáfustjórn Morgunblaðsins, málgagns LÍÚ. Í frægu viðtali hennar við leiðtogann lýsir hann hugmyndum sínum um blinda valdagræðgi með eftirfarandi orðum:

„Ég þótti jafnvel ósvífinn og kosningabaráttan, sem stóð frá 1980 til 1982 var mjög hörð. Ég gerði öll mál totryggileg og fylgdi þeirri reglu veiðimannsins að maður má ekki einungis kasta flugu sem manni finnst falleg því maður veit aldrei hvaða flugu laxinn tekur. Ég tók því upp öll mál, jafnvel þó að ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim, og hjólaði í þau því að ég leit á stjórnarandstöðu sem stjórnarandstöðu“.

Þurfum við frekar vitnanna við?