Það er ekki eins og Icesave hafi ekki kostað neitt. Lokauppgjörið liggur nú fyrir. Reikningurinn hljóðar upp á x milljarða króna. Það gerir y milljarða á hvert mannsbarn og z milljarða á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Þetta reyndist vera meira en Bucheit samningurinn kostaði, hefði hann komið til framkvæmda.
Hver borgaði? Þrotabú gamla Landsbankans og Tryggingasjóður innistæðueigenda og fjárfesta (TIF). En er þá ekkert hæft í því hjá þeim fóstbræðrum, að þeir hafi komið í veg fyrir, að Icesave reikningurinn félli á þjóðina? Svar: Ekki neitt. Pólitísk látalæti, heilaspuni, karlagrobb.
En í ljósi þess, að Davíð, forsetaframbjóðandi leyfir sér að brigsla öðrum um landráð fyrir að bera ábyrgð á þessum reikningi, er það einfaldlega hvimleitt skylduverk að skýra frá lykilstaðreyndum um það, hver ber höfuðábyrgð á umræddum reikningi. Hann heitir nefnilega Davíð Oddsson.
Lítum á staðreyndirnar:
- Hver einkavinavæddi gamla Landsbankann fyrir slikk í hendurnar á Björgólfum, að fyrirmynd rússneskra mafíósa? Það gerði Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Þótt eigendur og stjórnendur Landsbankans beri sína ábyrgð á þeirri ákvörðun að hafa stofnað til Icesave, ber Davíð Oddsson tvímælalaust hina pólitísku ábyrgð á að hafa gert þeim það kleift. Sá veldur miklu, sem upphafinu veldur.
- Ef Davíð Oddsson, forsætisráðherra og nánustu samstarfsmenn hans hefðu sýnt sömu fyrirhyggju, þegar ESB-reglur um lágmarkstryggingu sparifjáreigenda í bönkum og útibúum voru innleiddar í íslenskan (og norskan) rétt, hefði enginn Icesave- reikningur orðið til. Skv. áhættumati norska Seðlabankans þótti ekki á það hættandi, að norski tryggingasjóðurinn stæði undir tryggingu innistæðna í erlendum gjaldmiðlum í útlöndum. Norska þingið setti því það skilyrði, að norski sjóðurinn tryggði einungis innistæður í norskum krónum. Þetta þýddi, að norskir bankar og fjármálastofnanir urðu að reka starfsemi sína erlendis í formi dótturfyrirtækja með bankaleyfi og ábyrgð gistilandsins. Ef Davíð Oddsson sem oddviti stjórnarsamstarfs Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, hefði sýnt sömu fyrirhyggju og kollegar þeirra í Noregi, væri einfaldlega ekkert til, sem héti Icesave. Eigendur Landsbankans hefðu þá, lögum samkvæmt, orðið að opna sína Icesave reikninga í dótturfyrirtækjum (en ekki útibúum) í útlöndum, með bankaleyfi og á ábyrgð gistilanda. Eins og t.d. KB-banki reyndar gerði. Aftur hvílir hin pólitíska ábyrgð á Icesave reikningnum á herðum Davíðs Oddssonar.
- Þegar kom fram á árið 2007, þótti eigendum og stjórnendum Landsbankans ástæða til að leita til eins helsta sérfræðings í heimi í fjármálakreppum, Dr. Willems Buiter. Hann var beðinn um úttekt á svokölluðu viðskiptamódeli Landsbankans. Buiter skilaði stjórnendum Landsbankans kolsvartri skýrslu í árbyrjun 2008. Næstum því heilum meðgöngutíma fyrir Hrun. Niðurstaða Buiters var sú, að íslenska bankakerfið væri fjárhagsleg spilaborg. Það væri ekki spurning um hvort, heldur hvenær, spilaborgin hryndi.Buiter lét ekki þar við sitja. Hann lagði fram tillögur um aðgerðir, sem grípa yrði til tafarlaust, til að draga úr fyrir sjáanlegu tjóni. Fyrsta tillagan var sú að koma Iceasave-útibúum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi, sem þar störfuðu á a´byrgð Íslands, í dótturfyrirtæki á ábyrgð gistilanda. Önnur tillaga Buiters var sú að flytja höfuðstöðvar stóru bankanna, a.m.k. KB, til útlanda, þar sem meginið af starfsemi þeirra fór fram, hvort eð var.Fyrir því eru traustar heimildir, að oddvitar stjórnarflokkanna, fjármálaráðherra og Seðlabankastjóri og fl., höfðu þessa skýrslu undir höndum. Seðlabankinn, undir forystu Davíðs Oddssonar, aðhafðist ekkert. Eftir á ber Davíð því við, að skort hafi lagaheimildir. Það er hæpin lögskýring. Höfuðskylda Seðlabankans, lögum samkvæmt, er að tryggja fjárhagslegan stöðugleika. Icesave-reikningurinn var fyrirsjáanlega langt umfram getu gjaldeyrisforða Seðlabankans, hvað þá heldur tryggingasjóðsins íslenska, til að standa við skuldbindingar lögum samkvæmt um lágmarkstryggingu. Icesave var því bein ógnun við þann fjármálastöðugleika, sem Seðlabankanum ber að tryggja. Hafi skort á lagaheimildir, voru hæg heimantökin að afla þeirra. Ekki gera ekki neitt – var það eina, sem var og er óafsakanlegt. Undir forsæti Davíðs Oddssonar gerði Seðlabankinn ekki neitt. Því fór sem fór.
- Það er með vísan til þessara staðreynda, sem Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri afdráttarlausu niðurstöðu, að „Davíð Oddsson……, þáverandi bankastjóri Seðlabanka Íslands, hafi sýnt af sér vanrækslu í skilningi 1.mgr.1.gr. laga nr. 142/2008 í tilteknum störfum í framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi og eftirlit með henni“. Forsetaframbjóðandinn, Davíð Oddsson, hefur ítrekað að undanförnum reynt a skrökva því á fundum og í fjölmiðlum, að Rannsóknarnefndin hafi, að fengnum andmælum hans, dregið þessa niðurstöðu til baka. Af því tilefni hafa „vitringarnir þrír“ orðið að árétta, að þeir standi við niðurstöður skýrslunnar. Það segir allt sem segja þarf. Rannsóknarnefndin skilaði skýrslu sinni með skýrum og afdráttarlausum niðurstöðum, sem og tillögum til úrbóta, til Alþingis. Hitt er svo annað mál, að Alþingi klúðraði niðurstöðunni með þeim endemum, að það hefur ekki borið sitt barr í vitund þjóðarinnar síðan.
Hver er þá dómur staðreyndanna? Í fyrsta lagi, að Davíð Oddsson, forsætisráðherra, ber pólitíska ábyrgð á því, hvernig staðið var að einkavinavæðingu ríkisbankanna, sem leiddi til Hruns fjármálakerfisins fáum árum síðar. Í öðru lagi: Ef Davíð Oddsson forsætisráðherra og nánustu samstarfsmenn hans hefðu kunnað til verka og sýnt sömu fyrirhyggju og norsk stjórnvöld, þá hefði enginn Icesave reikningur orðið til. Í þriðja lagi: Davíð Oddsson sýndi vanrækslu í starfi sem Seðlabankastjóri – vanrækslu, sem að mati Rannsóknarnefndar Alþingi varðaði við lög – með því að láta undir höfuð leggjast að koma Icesave-útibúum Landsbankans í dótturfélög og þar með á ábyrgð gistilanda. Vinsamlegast takið eftir: Þetta er ekki niðurstaða pólitískra óvildarmanna, sem hægt er að hunsa sem pólitískan áróður. Þetta er rökstudd niðurstaða Rannsóknarnefndar
Að maður, með allt þetta á samviskunni, skuli dirfast að brigsla öðrum um landráð út af Icesave, er svo yfirgengilegt, að manni blöskrar. Þetta er satt að segja fyrir neðan allt velsæmi. Ég skora hér með á Davíð Oddsson að biðjast afsökunar á þessu níði; sem og að sjá til þess, að pólitískar leyniskyttur hans, sem hafa verið að lepja upp óhróðurinn eftir honum, verði settar í endurhæfingu. Ef þetta þykir til of mikis mælst, verður að treysta því, að kjósendur sýni þann manndóm við kjörborðið þann 25. júní, n.k., að kvitta fyrir þessar trakteringar með verðugum hætti.