Norræna módelið gegn nýfrjálshyggjunni

Guðbjörn Guðbjörnsson, virkur þátttakandi í þjóðfélagsumræðunni (og óperusöngvari í kaupbæti) skrifar fróðlegan Eyju-pistil (19.03.17) um sögu þýska velferðarríkisins. Þetta er þarft innlegg í brýna umræðu um kreppu velferðarríkisins eftir Hrun. Guðbjörn vill halda því til haga, að Bismark gamli – sjálfur járnkanslarinn – hafi rutt brautina fyrir velferðarríki seinni tíma. Líka að mér hafi láðst að geta þessa í Eyju-pistli mínum um norræna módelið og tilvistarkreppu sósíal-demókrata í samtímanum. Það getur ekki talist vera höfuðsynd, af þeirri einföldu ástæðu, að norræna módelið nýtur mikillar sérstöðu í þessum samanburði. Það er super-módel samtímanseins og vikuritið Economist lýsti því fyrir tveimur árum. Ég nefni fjórar ástæður þessu til skýringar:

(1)„Þetta snýst allt um vald, kjáninn þinn“. Það fer ekki á milli mála, að vald eigenda fjármagns og fyrirtækja er gríðarlegt í kapítalísku hagkerfi. Ákvörðunarvaldið um fjárfestingar og framkvæmdir er að stærstum hluta í höndum fámenns hóps eigenda fjármagns og fyrirtækja. Valdið á vinnumarkaðnum til að ráða og reka er í höndum þeirra. Fjöldi fólks á allt sitt undir þessum ákvörðunum. Ef stéttarfélög eru veikburða eða jafnvel ekki til staðar, fær vinnandi fólk litlu sem engu ráðið um þessar ákvarðanir. Sívaxandi samþjöppun þessa valds í höndum stjórnenda risavaxinna fjölþjóða fyrirtækja (allt að helmingur allra alþjóðaviðskipta fer fram innan þeirra) og fjármálastofnana (5 risabankar ráða helmingi fjármálamarkaða heimsins) ræður miklu um þann veruleika, sem jarðarbúar búa við á okkar tímum. Það er því í hæsta máta villandi, þegar menn tala í síbylju um „frjálsa markaði“, en í reynd er iðulega um að ræða einokun, fákeppni eða markaðsráðandi stöðu.

Þetta ofurvald fjármagnseigenda hefur á seinustu áratugum nýfrjálshyggjunnar vaxið raunhagkerfinu – og þar með flestum þjóðríkjum – yfir höfuð. Fjármagnseigendur gera út stjórnmálaflokka til þess að gæta hagsmuna sinna innan þjóðríkja og í heimshagkerfinu. Í örríkinu íslenska sér Sjálfstæðisflokkurinn um þessa hagsmunagæslu. Eftir hrun SÍS hefur pólitískt eignarhaldsfélag um arfleifð SÍS beitt Framsóknarflokknum í sama skyni, í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Ef þetta samþjappaða fjárhagsvald nær pólitíska valdinu undir sig líka, er lýðræðið sjálft í hættu. Hættan er sú, að lýðræðið breytist í auðræði. Þetta er að gerast fyrir augunum á okkur, t.d. í Bandaríkjum Trumps og Rússlandi Pútíns. Sömu sólarmerkin sjást nú þegar á Íslandi Engeyjarættarinnar. Einu sinni skrifaði gamli kommúnistaforinginn, Einar Olgeirsson, bók sem hét: „Ættarsamfélag og ríkisvald í þjóðveldinu forna“. Kannski við ættum að fara að dusta af henni rykið?

(2) Enn um norræna módelið: Hvað er svona sérstakt við það í sögulegu samhengi? Það er þetta: Hægri flokkar (hagsmunagæsluaðilar sérhagsmuna) hafa lengst af verið þar í minnihluta; þeir hafa ekki náð að sölsa pólitíska valdið undir sig líka. Hinn pólitíski armur verkalýðshreyfingarinnar – jafnaðarmanna- flokkarnir – hefur verið í meirihluta áratugum saman á mótunarárum hins norræna velferðarríkis. Þótt hægri flokkar hafi stöku sinnum komist til valda skamma hríð, hafa þeir ekki haft bolmagn né stuðning almennings til að hrófla við grundvallarþáttum kerfisins. Þetta er einstakt í veröldinni. Þetta skýrir grundvallarmuninn, sem er á norræna módelinu og velferðarríkjum eins og t.d. hinu þýska, sem kenna má við kristilega-demókrata. Sú staðreynd, að jafnaðarmannaflokkurinn íslenski náði því aldrei að verða ráðandi fjöldaflokkur, í nánu samstarfi við launþegahreyfinguna, skýrir það líka, hvers vegna Ísland varð aldrei norrænt velferðarríki, þrátt fyrir viðleitni okkar til að stefna í þá átt.

(3) Mannréttindi – en ekki ölmusur:Það sem einkennir norræna velferðarríkið umfram önnur í þessum samanburði er, að réttur almennings er skilgreindur á grundvelli mannréttinda, fremur en sem ölmusur handa þurfalingum. Öllum er skylt að leggja sitt af mörkum til sameiginlegra þarfa eftir efnum og ástæðum; allir njóta sömu réttinda til sjúkratrygginga og heilbrigðisþjónustu, án tillits til efnahags. Allir njóta sömu réttinda til menntunar á sömu forsendum. Allir skulu njóta sömu réttinda til ellilífeyris eða afkomutryggingar að lokinni starfsævi. Þetta er ekki skilgreint sem ölmusur handaþurfalingum, heldur mannréttindi, sem allir skulu njóta. Þótt hagkvæmni markaðslausna á samkeppnismörkuðum samkvæmt almennum reglum og eftirliti sé vissulega viðurkennd, eru ákveðin svið skilgreind sem opinber samfélagsþjónusta, þar sem einkarekstur í gróðaskyni á ekki heima. Þetta gildir t.d. um heilbrigðisþjónustu, skólakerfi, orkuvinnslu, vatnsveitur, samgöngukerfi, auðlindarentu o.s.fr. Þetta eru grundvallarreglur. Frá þeim eru vissulega frávik, en þau eru undantekningar, sem sanna regluna. Gróðaöflin halda uppi æ stríðari þrýstingi í þá átt að mega hasla sér völl á þessum sviðum. Það hefur tekist í ýmsum tilvikum – en heyrir samt sem áður enn til undantekninga. Um þetta mun stríðið fyrst og fremst standa við Engeyjarstjórnina á þessu kjörtímabili.

Á því er reginmunur, hvort velferðarþjónusta er rekin á þeim grundvelli, að viðtakandi þjónustu þurfi að sanna fátækt sína til að þiggja ölmusu eða, hvort um er að ræða þjónustu, sem allir skuli njóta sem hluta af almennum mannréttindum. Þetta þekkja Íslendingar vel af eigin reynslu. Árið 1936 tókst jafnaðarmönnum, eftir langa baráttu, að leggja grunn að almannatryggingum. Með þessari löggjöf var lagður grundvöllur að velferðarríki á Íslandi. Upphaflega hugmyndin var, að allir Íslendingar, án tillits til efnahags og þjóðfélagsstöðu, skyldu njóta ellilífeyris að lokinni starfsævi. Það var hugsað sem almenn mannréttindi. Í framkvæmd hefur þetta aldrei tekist eins og upphaflega var til ætlast. Æ ofan í æ hefur ellilífeyririnn verið skertur með vísan til annarra tekna. Í stað mannréttinda erum við því að tala um ölmusur handa þurfalingum. Þegar skerðingar af þessu tagi eru látnar ná til greiðslna úr lífeyrissjóðum, sem öllum er skylt að eiga aðild að, og er eignaréttarvarinn skyldusparnaður viðkomandi, er kerfið farið að láta stjórnast af geðþóttaákvörðunum. Dæmin um ölmusur, sem eru skilyrtar því, að viðtakandi sanni fátækt sína, eru legíó í íslenska kerfinu. Þetta er ævinlega gert í sparnaðarskyni. Þar með hefur Tryggingarstofnun ríkisins verið breytt í rukkunarstofnun ríkisins. Ísland getur því með engu móti státað af því að vera norrænt velferðarríki. Eftir Hrun höfum við verið að fjarlægjast það æ meir.

(4) Ríki og markaður: blandað hagkerfi? Guðbjörn vísar til þess, að velferðarríki samtímans sé stundum lýst sem „blönduðu hagkerfi“. Annars vegar á atvinnulífið að lúta lögmálum gróðasjónarmiðs og arðsemi á samkeppnismörkuðum; hins vegar er opinber þjónusta, kostuð af almannafé (stundum með kostnaðarþátttöku þeirra sem njóta). En þar með er ekki öll sagan sögð. Sannleikurinn er sá, að markaðir lúta ekki náttúrulögmálum. Markaðir eru gerðir af mannavöldum. Þeir lúta lögum og reglum, sem ríkið setur hverju sinni. Útkoman ræðst af því, hverjir fara með ríkisvaldið. Ef ríkisvaldið er í höndum stjórnmálaflokka, sem gerðir eru út af eigendum fjármagns og fyrirtækja, þarf ekki að spyrja að leikslokum. Þá hefur stjórnmálavaldið færst á sömu hendur ogvald fjármagnseigenda í markaðskerfinu.

Slík samþjöppun valds býður heim hættunni á „crony-capitalisma“. Við getum kallað þetta ríkisforsjá eða fyrirgreiðslukerfi. Ríkisvaldinu er þá beitt til að setja lög og reglur í þágu fjármagnseigenda, sem gera út ráðandi stjórnmálaflokka. Dæmi um þetta eru, að ríkisvaldið úthlutar hliðhollum aðilum einkarétti til nýtingar á auðlindum í eigu þjóðarinnar. Ríkisvaldið tryggir forréttindaaðilum vernd frá samkeppni og lætur afskiptalaust, þótt fákeppni og jafnvel einokun sé ráðandi á lykilmörkuðum (dæmi: landbúnaður, mjólkuriðnaður, smásala, olíuverlsun, tryggingar, flutningar o.s.frv.) Enn annað dæmi er ríkisábyrgð á fjármálastofnunum. Þótt venjulegir viðskiptabankar breytist í áhættusækna ávöxtunarsjóði fjármagnseigenda, njóta þeir eftir sem áður ríkisábyrgðar (tryggingar skattgreiðenda), eins og er að gerast þessa dagana með Arion banka. Engu breytir þótt útlánastefnan sé fyrst og fremst í þjónustu fjármagnseigenda í fasteigna- og verðbréfabraski. Misbeiting ríkisvaldsins í þjónustu fjármagnseigenda náði hámarki í nýliðnu hruni, þegar skattgreiðendur (t.d. í jaðarríkjum ESB) voru látnir yfirtaka skuldir fjármagnseigenda. Þetta getur gerst hér í næsta hruni, ef ekki er strax gripið til fyrirbyggjandi ráðstafana. Það er svo séríslenskt fyrirbæri, að verðtrygging langtímaskulda firrir fjármagnseigendur (lánadrottna) mestallri áhættu, en leggur hana kyrfilega á herðar skuldurum, sem margir hverjir verða skuldaþrælar ævilangt. Þegar við þetta bætist skattkerfi, sem leggur meginþunga skattbyrðarinnar á millistéttina, en lætur afskiptalausan fjárflótta fjármagnseigenda og skattundanskot í skattaparadísum, þá sitjum við uppi með kerfi, sem er sérhannað til að stuðla að sívaxandi misskiptingu auðs og tekna.

Þetta er ekkert náttúrulögmál. Þetta er rökrétt niðurstaða af samþjöppun valds fjármagnseigenda og pólitísku forræði þeirra fyrir atbeina stjórnmálaflokka, sem eru þeim handgengnir. Hrikalegasta dæmið um þetta er, að arðurinn af sjávarauðlindinni – auðlindarentan, sem hlýst af ríkisverndaðri einokun – og nemur tugum milljarða á ári hverju, hefur ekki runnið til almannaþarfa, heldur í sjóði nýríkrar yfirstéttar. Þannig hefur orðið til nýr lénsaðall, sem safnar auði í skjóli pólitísks valds. Þessi nýríka yfirstétt er nú að kaupa upp fasteignir og fyrirtæki í stórum stíl, m.a. gegnum peningaþvætti í skjóli Seðlabanka Íslands. Kaupmáttaraukning vegna uppsveiflu er tekin til baka með leiguokri og skuldaþrældómi hluta þjóðarinnar. Gróðamyndunarkvörn sérhagsmuna af þessu tagi, sem þrífst í skjóli pólitísks valds, væri óhugsandi í norrænu velferðarríki. Til þess að sannfærast um það nægir að kynna sér auðlindapólitík Norðmanna, bæði að því er varðar ólíuauðlindina og sjávarútveginn. Þar er ólíku saman að jafna.

*Þetta snýst allt um pólitískt vald. Þegar fjármagnseigendur og forstjóraveldi fyrirtækjanna nær því að sölsa undir sig stjórnmálavaldið líka, stendur almenningur eftir berskjaldaður og varnarlaus á pólitískum berangri. Svona er Ísland í dag. Þetta er afleiðingin af því, að mótvægið við ofurvald fjármagnsins – öflug verkalýðshreyfing í nánu samstarfi við fjöldahreyfingu jafnaðarmanna – er nú týnt og tröllum gefið. Mér hrýs hugur við þeirri tilhugsun, að allt að 13 pólitískir sértrúarsöfnuðir boða framboð til borgarstjórnar Reykjavíkur í komandi kosningum. Þvílíkt feigðarflan.Vinnandi fólk á Íslandi má vita það af fenginni reynslu, að það getur ekki rétt sinn hlut í glímunni við forréttindahópa fjármagnseigenda nema það sameinist í nýrri mannréttindahreyfingu undir merkjum sígildrar jafnaðarstefnu. Norræna módelið vísar enn veginn.