Tvær þjóðir

Það er bullandi uppgangur í atvinnulífinu: Meira en 7% hagvöxtur, gjaldeyrisvarasjóðurinn stútfullur, lítið sem ekkert atvinnuleysi – reyndar vöntun á vinnuafli, sem þúsundir innflytjenda redda. Hinir ríku eru að verða æ ríkari. Tuttugu þúsund fjölskyldur eiga meira en tvo þriðju af öllum eignum. Bankarnir græða á tá og fingri.

Á sama tíma er áleitin umræða um fátækt á Íslandi. Láglaunafólk lifir ekki af launum sínum. Sex þúsund börn búa við fátækt á degi hverjum. Lífeyrisþegar og öryrkjar kvarta sáran undan kjörum sínum. Ungu kynslóðinni hefur því sem næst verið úthýst. Það skortir íbúðarhúsnæði við hæfi. Fasteignaverðið rýkur upp í rjáfur. Fæstir hinna ungu eiga fyrir útborgun. Leiguokrið læsir unga fólkið inni í fátæktargildru. Hin séríslenska verðtrygging léttir allri áhættu af ófyrirséðum áföllum af fjármagnseigendum, en gerir hina skuldugu á sama tíma að skuldaþrælum.

Tvær þjóðir

Það eru tvær þjóðir í landinu. Pólitíkin snýst bara um óbreytt ástand. Er það kannski bara lognið á undan storminum? Hvert er að leita eftir lausnum? Ég verð æ sannfærðari um, að við eigum að leita fyrirmynda í reynslu frændþjóða okkar á Norðurlöndum. Norræna módelið nýtur nú almennt viðurkenningar um víða veröld sem fyrirmyndarþjóðfélag. Lærum af því.

„Þetta snýst allt um vald, kjáninn þinn“. Það fer ekki á milli mála, að vald eigenda fjármagns og fyrirtækja er ráðandi afl í kapítalísku hagkerfi. Ákvörðunarvaldið um fjárfestingar og framkvæmdir er að stærstum hluta í höndum fámenns hóps fjármagnseigenda. Valdið á vinnumarkaðnum til að ráða og reka er í höndum þeirra. Ef stéttarfélög eru veikburða eða jafnvel ekki til staðar, fær vinnandi fólk litlu sem engu ráðið um þessar ákvarðanir.

Þetta ofurvald fjármagnseigenda hefur á seinustu áratugum nýfrjálshyggjunnar vaxið raunhagkerfinu – og þar með flestum þjóðríkjum – yfir höfuð. Fjármagnseigendur gera út stjórnmálaflokka til þess að gæta hagsmuna sinna innan þjóðríkja og í heimshagkerfinu. Í örríkinu íslenska sér Sjálfstæðisflokkurinn um þessa hagsmunagæslu. Eftir hrun SÍS hefur pólitískt eignarhaldsfélag um arfleifð SÍS beitt Framsóknarflokknum í sama skyni, í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Ef þetta samþjappaða fjárhagsvald nær pólitíska valdinu undir sig líka, er lýðræðið sjálft í hættu. Hættan er sú, að lýðræðið breytist í auðræði. Þetta er að gerast fyrir augunum á okkur, t.d. í Bandaríkjum Trumps og Rússlandi Pútíns. Sömu sólarmerkin sjást nú þegar á Íslandi Engeyjarættarinnar.

Norræna módelið

Hvað er svona merkilegt við norræna módelið? Það er þetta: Hægri flokkar (hagsmunagæsluaðilar sérhagsmuna) hafa lengst af verið þar í minnihluta; þeir hafa ekki náð að sölsa pólitíska valdið undir sig líka. Hinn pólitíski armur verkalýðshreyfingarinnar – jafnaðarmannaflokkarnir – hefur verið í meirihluta áratugum saman á mótunarárum hins norræna velferðarríkis. Þótt hægri flokkar hafi stöku sinnum komist til valda skamma hríð, hafa þeir ekki haft bolmagn né stuðning almennings til að hrófla við grundvallarþáttum kerfisins.

Þetta er einstakt í veröldinni. Þetta skýrir grundvallarmuninn, sem er á norræna módelinu annars vegar og hinu blandaða hagkerfi einkarekstrar og opinberrar þjónustu víðast hvar annars staðar- þar með talið á Íslandi. Sú staðreynd, að jafnaðarmannaflokkurinn íslenski náði því aldrei að verða ráðandi fjöldaflokkur, í nánu samstarfi við launþegahreyfinguna, skýrir það líka, hvers vegna Ísland er ekki norrænt velferðarríki, þrátt fyrir viðleitni okkar til að stefna í þá átt.

Mannréttindi – en ekki ölmusur: Það sem einkennir norræna velferðarríkið umfram önnur í þessum samanburði er, að réttur almennings til opinberrar þjónustu er skilgreindur á grundvelli mannréttinda. Víðast hvar annars staðar er fremur um að ræða ölmusur handa þurfalingum. Á þessu tvennu er reginmunur. Ég er að tala um sjúkratryggingar og heilbrigðisþjónustu, aðgengi að skólum, barnabætur, ellilífeyri o.s. frv. Íslendingar þekkja þetta orðið vel af eigin reynslu.

Tökum dæmi: Árið 1936 tókst jafnaðarmönnum, eftir langa baráttu, að leggja grunn að almannatryggingum. Með þessari löggjöf var lagður grundvöllur að velferðarríki á Íslandi. Upphaflega hugmyndin var, að allir Íslendingar, án tillits til efnahags og þjóðfélagsstöðu, skyldu njóta ellilífeyris að lokinni starfsævi. Það var hugsað sem almenn mannréttindi. Í framkvæmd hefur þetta aldrei tekist eins og upphaflega var til ætlast. Æ ofan í æ hefur ellilífeyririnn verið skertur með vísan til annarra tekna. Í stað mannréttinda erum við því að tala um ölmusur handa þurfalingum.

Skrípamynd

Þegar skerðingar af þessu tagi eru réttlættar með vísan til greiðslna úr lífeyrissjóðum, sem öllum er skylt að eiga aðild að, og er eignarréttarvarinn skyldusparnaður viðkomandi, er kerfið farið að láta stjórnast af geðþóttaákvörðunum. Dæmin um ölmusur, sem eru skilyrtar því, að viðtakandi sanni fátækt sína, eru allt of mörg í íslenska kerfinu. Þetta er ævinlega gert í sparnaðarskyni. Þar með hefur Tryggingarstofnun ríkisins verið breytt í rukkunarstofnun ríkisins. Og þar með getur Ísland með engu móti státað af því að vera norrænt velferðarríki. Eftir Hrun höfum við verið að fjarlægjast það æ meir.

Þegar þar við bætist, að arðurinn af auðlindum þjóðarinnar rennur til fámenns hóps einkaleyfishafa á veiðiheimildum, í skjóli pólitísks valds – en ekki til almannaþarfa; að verðtryggingarkrónan ásamt okur vöxtum gerir stóran hluta þjóðarinnar að skuldaþrælum; og skattbyrðin leggst með mestum þunga á millistéttina, á sama tíma og ríkisvaldið lætur óátalið, að viðskiptaelítan flýi með fé sitt í skattaskjól og ávaxti það í útlöndum – þá skilst betur, hversu víðs fjarri það er, að Ísland rísi undir nafni sem norrænt velferðarríki. Nær væri að líkja þessu við skrípamynd af amerískum kapítalisma.

Hvað þarf að gera til að breyta þessu, er svo efni í aðra grein.