Þetta er mikið vald á fárra höndum. Í óbeisluðum kapítalisma – eins og t.d. í Bandaríkjunum – er fátt sem hemur þetta geðþóttavald, af því að verkalýðshreyfingin hefur þar verið brotin á bak aftur. Einungis 10% vinnandi fólk er þar í stéttarfélögum. En í blönduðu hagkerfi – stundum kallað lýðræðislegt markaðskerfi – skiptir miklu máli, hverjir fara með pólitíska valdið. Opinberi geirinn spannar víða 4050% af vergri landsframleiðslu og veitir um þriðjungi mannaflans vinnu. Við þetta bætist, að löggjafinn semur leikreglurnar. Ef eigendur fjármagns og fyrirtækja ná að sölsa undir sig pólitíska valdið líka, verður fátt um varnir. Leikreglurnar verða þá sérsniðnar þeim í hag. Afleiðingarnar birtast okkur í samtímanum í sívaxandi ójöfnuði eigna og tekna annars vegar, en í réttleysi, arðráni og öryggisleysi almennings hins vegar.
Helmingaskiptin
Samþjöppun fjármálavalds og stjórnmálavalds býður heim hættunni á klíkukapítalisma og bækluðu lýðræði. Við þekkjum þetta sem ríkisforsjár eða fyrirgreiðslukerfi sérhagsmuna. Ríkisvaldinu er þá beitt til að setja lög og reglur í þágu fjármagnseigenda, sem gera út ráðandi stjórnmálaflokka. Á Íslandi hafa Sjálfstæðis og Framsóknarflokkur farið með þetta sérhagsmunavald í stjórn landsins, lengst af á lýðveldistímanum. Hér áður fyrr gekk þetta undir nafninu helmingaskiptareglan. Hrikalegasta dæmi um þetta er, þegar ríkisvaldið úthlutar hliðhollum aðilum einkarétti til nýtingar á auðlindum í eigu þjóðarinnar. Í staðinn þiggja sérhagsmunaflokkarnir fjárhagsstuðning vegna hallareksturs á málgögnum og fyrir kosningar.
Dæmin um hinn baneitraða kokkteil fjármálavalds og stjórnmála eru mýmörg. Við upplifum afleiðingarnar í daglegri reynslu í formi okurverðs yfir búðarborðið. Ríkisvaldið tryggir hliðhollum aðilum vernd frá samkeppni og lætur afskiptalaust, þótt fákeppni – og jafnvel einokun – sé ráðandi á lykilmörkuðum. Dæmi um þetta finnum við í landbúnaðarkerfinu, þar sem við borgum fyrir daglegar lífsnauðsynjar í tvígang: yfir búðarborðið, þar sem afurðastöðvar njóta verndar frá samkeppni; og svo aftur í sköttum í formi styrkja og niðurgreiðslna til kerfisins. Önnur dæmi af sama toga finnum við í smásölunni, olíuverslun, skipaflutningum, tryggingum o.s. frv.
Ójafnaðarfélagið
Sérstakt dæmi er ríkisábyrgð á fjármálastofnunum. Inneignir sparifjáreigenda í bönkum og sparisjóðum njóta ríkisábyrgðar. Fyrir Hrun breyttust hefðbundnir viðskiptabankar við einkavæðingu í áhættusækna ávöxtunarsjóði fjármagnseigenda. Eftir sem áður nutu þeir ríkisábyrgðar (tryggingar skattgreiðenda). Eftir Hrun höfum við byggt upp nánast óbreytt kerfi. Amerískir ávöxtunarsjóðir – sem í siðmenntuðum löndum er bannað að reka banka – eiga nú Arion banka og njóta áfram ríkisábyrgðar, eins og ekkert hafi í skorist. Engu breytir þótt útlánastefnan sé fyrst og fremst í þjónustu fjármagnseigenda í fasteigna og verðbréfabraski. Ef ekki verður gripið strax í taumana, er voðinn vís.
Það er svo séríslenskt fyrirbæri, að verðtrygging langtímaskulda firrir fjármagnseigendur (lánardrottna) mest allri áhættu, en leggur hana kyrfilega á herðar skuldurum, sem margir hverjir verða skuldaþrælar ævilangt. Þegar við þetta bætist skattkerfi, sem leggur meginþunga skattbyrðarinnar á millistéttina, en lætur afskiptalausan fjárflótta fjármagnseigenda og skattundanskot í skattaparadísum, þá sitjum við uppi með kerfi, sem er sérhannað til að viðhalda sívaxandi misskiptingu auðs og tekna. Hinir ríku verða ríkari, en hinir fátæku verða fátækari. Þetta er að gerast á Íslandi í dag.
Þetta er ekkert náttúrulögmál. Þetta er rökrétt niðurstaða af samþjöppun valds fjármagnseigenda og pólitísku forræði þeirra fyrir atbeina stjórnmálaflokka, sem eru þeim handgengnir. Svívirðilegasta dæmið um þetta er, að arðurinn af sjávarauðlindinni – auðlindarentan, sem hlýst af ríkisverndaðri einokun og nemur tugum milljarða á ári hverju, hefur ekki runnið til almannaþarfa, heldur í sjóði nýríkrar yfirstéttar. Þannig hefur orðið til nýr lénsaðall, sem safnar auði í skjóli pólitísks valds. Ímyndið ykkur, að Norðmenn hefðu farið svona að ráði sínu með olíuauðlindir sínar. Það er með öllu óhugsandi. Arðurinn af olíuauðlindinni norsku hefur runnið í sameiginlegan stöðugleikasjóð norsku þjóðarinnar, sem er nú öflugasti fjárfestingarsjóður í heimi. Ólíkt höfumst við að, frændurnir.
Lausnin: Norræna módelið
Þessi nýríki lénsaðall á Íslandi er nú að kaupa upp fasteignir og fyrirtæki í stórum stíl, m.a. gegnum peningaþvætti í skjóli Seðlabanka Íslands. Fasteignaverðsbólan hefur úthýst ungu kynslóðinni eða læst hana í fátæktargildru leiguokurs. Þannig er kaupmáttaraukning vegna uppsveiflu tekin til baka. Gróðamyndunarkvörn sérhagsmuna af þessu tagi, sem þrífst í skjóli pólitísks valds, væri óhugsandi í norrænu velferðarríki. Ástæðan er sú, að þar hefur fjármálavaldið ekki náð að sölsa undir pólitíska valdið líka.
Þetta snýst allt um pólitískt vald. Þegar fjármagnseigendur og forstjóraveldi fyrirtækjanna nær því að sölsa undir sig stjórnmálavaldið líka, stendur almenningur eftir berskjaldaður og varnarlaus á pólitískum berangri. Svona er Ísland í dag. Þetta er afleiðingin af því, að mótvægið við ofurvald fjármagnsins – öflug verkalýðshreyfing í nánu samstarfi við fjöldahreyfingu jafnaðarmanna – er nú týnt og tröllum gefið. Mér hrýs hugur við þeirri tilhugsun, að ótal pólitískir sértrúarsöfnuðir undirbúa nú framboð í næstu sveitarstjórnarkosningum. Þvílíkt feigðarflan. Er ekki nóg, að kjósendur voru hafðir að fíflum í nafni Viðreisnar og Bjartrar framtíðar – sem nú er orðin svört – í seinustu kosningum!
Hvenær ætla Íslendingar að læra það af reynslunni, að sameinaðir sigrum, við en sundraðir föllum við? Vinnandi fólk á Íslandi má vita það, að fenginni reynslu, að það getur ekki rétt sinn hlut í glímunni við forréttindahópa fjármagnseigenda nema það sameinist í nýrri mannréttindahreyfingu undir merkjum sígildrar jafnaðarstefnu. Norræna módelið vísar enn veginn.