Að læra af reynslunni

Grandi h/f, næststærsti þiggjandi einkaleyfa til að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar – fiskimiðin innan íslensku lögsögunnar – hefur tilkynnt, að þeir ætli að hætta fiskvinnslu á Akranesi. Eftir situr starfsfólkið á atvinnuleysisskrá og byggðarlagið í uppnámi.

Margir spyrja sjálfa sig: Hvað getur komið starfsfólkinu og bæjarfélaginu til varnar, þegar ákvörðun einkaaðila ógnar atvinnuöryggi og afkomu fólks með þessum hætti? Margir – þeirra á meðal sjávarútvegsráðherra – leita nú halds og trausts í fyrstu grein fiskveiðistjórnarlaganna. Það er því ástæða til að rifja upp, hvernig þetta lagaákvæði er tilkomið, og hvernig til hefur tekist um framkvæmdina.

Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur, rifjar upp þá sögu í bók sinni „Úr fjötrum“, sem kom út á s.l. hausti í tilefni af aldarafmæli Alþýðuflokksins.

Þar segir á bls. 470:

Kvótakerfið
Halldór Ásgrímsson, sjávarútvegsráðherra, lagði nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða fyrir þingið 1988, en þá var Alþýðuflokkurinn orðinn aðili að ríkisstjórn, og kom fram mikil andstaða í honum gegn því. Til samkomulags varð það úr, að þeir Sighvatur Björgvinsson,þingmaður Vestfjarða, og Jón Sigurðsson, nú orðinn ráðherra Alþýðuflokksins, sömdu nýja upphafsgrein frumvarpsins, og var hún sett sem skilyrði fyrir samþykki flokksins. Hún átti að girða fyrir myndun einkaeignarréttar á veiðiréttindum. Upphafsgreinin, sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur samþykktu með semingi, hljóðaði svo:

„Fiskistofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“

Spurning: Stenst ákvörðun Granda lög? Hver eru viðurlögin, ef lögin eru brotin? Afturköllun tímabundinna veiðileyfa?

Guðjón heldur áfram upprifjun sinni:

Í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, 1988-91 var unnið að nýrri lagasetningu um fiskveiðistjórnun. Eiður Guðnason (þingmaður Vesturlands) var fulltrúi Alþýðuflokksins í nefnd, sem vann að henni. Í lögunum, sem komu í kjölfarið og samþykkt voru árið 1990, voru gerðar miklar breytingar á fyrri lögum. Stærsta breytingin var framsal aflaheimilda, sem heimilað var í nafni hagkvæmni og arðsemi sjávarútvegs.

Alþýðuflokksmenn höfðu frumkvæði að því að slegnir voru miklir varnaglar. Eiður Guðnason, Jón Sigurðsson og Sighvatur Björgvinsson tóku að sér að semja viðbót við fyrstu grein laganna, sem sett var sem skilyrði fyrir því, að flokkurinn samþykkti þau. Hún hljóðaði svo:

Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Fyrirvaranum var ætlað að tryggja, að tímabundinn nýtingarréttur myndaði hvorki lögvarinn eignarrétt né bótaskyldu á ríkið, ef úthlutun veiðiheimilda yrði breytt síðar.

Skýrara getur það varla verið: Starfsöryggi verkafólks og tilverugrundvöllur sjávarútvegsplássa á landsbyggðinni eru undir því komið, að þessi lög verði virt í framkvæmd.

Guðjón heldur áfram:

Stefna þingflokks Alþýðuflokksins í kvótamálinu var mörkuð á fundi 23. apríl 1990. Í henni kom ótvírætt fram, að besta leiðin til að leysa þær mótsagnir,sem væri að finna í lögunum, væri að innheimta leigugjald fyrir aðgang að hinni sameiginlegu auðlind. Gjaldið átti annað hvort að vera í formi uppboðs veiðiheimilda (myndun markaðsverðs), sem Alþýðuflokksmenn töldu æskilegt, eða í formi stjórnvaldsákvarðana, sem auðlindagjald.

Loks segir Guðjón í sinni sögulegu upprifjun:

Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn fóru með sjávarútvegsmál í ríkisstjórnum, eftir að kvótakerfið komst á eða allt til ársins 2009. Framkvæmd þess var með þeim hætti, að farið var með veiðiheimildirnar, eins og um hreina einkaeign væri að ræða, m.a. leyfð veðsetning þeirra eftir 1990. Aldrei var léð máls á gjaldtöku, sem heitið gæti, en hana taldi Alþýðuflokkurinn forsendu kerfisins í samræmi við ákvæðið um þjóðareign auðlindarinnar. Þessi í stað hafa stórútgerðarfyrirtækin rakað til sín peningum og notað þá m.a. til að styrkja stjórnmálaflokka, sem þeim voru þóknanlegir í þessu máli. Alþýðuflokkurinn var að mestu einn um þá skoðun (á Alþingi), að þjóðin ætti rétt á gjaldi fyrir úthlutun veiðikvóta í hinni sameiginlegu auðlind.

Hvað má af þessu læra?

Ef Alþýðuflokkurinn hefði ekki staðið vaktina á sínum tíma, þá væru fiskistofnarnir á Íslandsmiðum ekki sameign þjóðarinnar að lögum. Ef ekki væri fyrir breytingatillögur, sem Alþýðuflokkurinn knúði fram, væru veiðiheimildirnar fyrir löngu viðurkenndar sem einkaeign, að lögum. Stríðið er því ekki tapað, þrátt fyrir allt. Varnarbarátta verkafólks og lansbyggðarinnar byggir enn í dag á þessum varúðarákvæðum, sem Alþýðuflokkurinn knúði fram.

En stefna Alþýðuflokksins naut aldrei meirihlutafylgis með þjóðinni. Fjarri því. LÍÚ – nú uppnefnd SFS – hafa alla tíð mótað stefnu Sjálfstæðis- Framsóknarflokksins í auðlindamálum. Hvorki Alþýðubandalagið gamla né arftakar þess í Vinstri grænum hafa stutt stefnu okkar jafnaðarmanna í auðlindamálum. Mikill meirihluti kjósenda í Norð-Vesturkjördæmi kaus þessa flokka í seinustu kosningum.

Hvenær ætla Íslendingar að læra af reynslunni?