Þetta eru nokkur dæmi um það spillingarorð, sem fór af krötunum – nota bene, löngu fyrir daga Viðreisnar. Íhald og kommar sameinuðust um að koma spillingarorðinu á. Það hefur aldrei þótt bera vott um spillingu, þótt Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn væru skipaðir í embætti á vegum ríkisins. Það þótti – og þykir enn – sjálfsagt mál.Helmingaskiptareglan var jú grundvallarregla, sem gilt hefur um stjórnsýsluna allan lýðveldistímann.
En er spillingin þarna? Einu sinni sem oftar sótti ég fund norrænna krataforingja, í þetta skiptið í Osló. Á leiðinni á flugvellinum keypti ég bók með áhugaverðu heiti: “Norge en-partistat”. Höfundur var hægrisinnaður “rannsóknarblaðamaður”. Í bókinni var það skilmerkilega tíundað, að ríkisstjórnir Verkamannaflokksins/Alþýðusambandsins, sem setið höfðu að völdum áratugum saman, hefði skipað “sína menn” til að veita forstöðu nær öllum ríkisstofnunum í þessu aflanga landi. Fulltrúar flokks og verklýðshreyfingar stýrðu ráðuneytum og Seðlabanka, sátu í bankaráðum og stjórnum fjárfestingasjóða, stýrðu ríkisútvarpinu og ríkisstofnunum um land allt, í þessu ríkisvædda landi.
Fyrir fundinn fleygði ég bókinni á borðið hjá Thorvald Stoltenberg, kollega mínum í utanríkisráðuneytinu (og föður fv. forsætisráðherra, Jens) og sagði: Sovét-Noregur. Og hana nú! Hann tók þessari ertni minni stilliega, en spurði svo góðlátlega: Viltu heldur, að eigendur fyrirtækjanna og fjármagnsins – atvinnurekendurnir – ráði líka yfir þjónustustofnunum ríkisins við almenning? Væri það meira lýðræði? Það er einmitt þetta, sem veldur því, að norræna módelið er öðru vísi en amerískur kapítalismi. Hér eru hagsmunir almennings – vinnuaflsins – ráðandi, en ekki gróðasjónarmið kapítalista. M.ö.o. markaðskerfið eru undir lýðræðislegri stjórn. Þetta er hvorki Sovét né spilling. Þetta er lýðræðið í framkvæmd.
Þegar hinir höfðu bæst í hópinn (og þar munaði mest um Svíana – annað eins-flokks ríki), áttum við áhugaverðar samræður um þetta: Ef fulltrúar almannahagsmuna (forseti ASÍ í bankastjórn) eru skipaðir í embætti á vegum ríkisins – heitir það spilling. Ef fulltrúar (fjármála)valdsins, flokka stórfyrirtækja og atvinnurekenda, eru skipaðir í embætti á vegum ríkisins, þykir það sjálfsagt. Reyndar þekki ég enga frjálshyggjumenn, sem nokkuð kveður að, sem hafa ekki verið á framfæri ríkisins.
Ég spurði áðan: Er spillingin þarna? Hvað segja allar samanburðarkannanir í heiminum um þá spurningu – hvar er minnsta spillingu að finna í stjórnsýslu og á landamærum einkageirans og opinberrar stjórnsýslu? Svar: Á Norðurlöndum. Þarf einhverju við þetta að bæta?