ENDATAFL KALDA STRÍÐSINS – HLUTUR ÍSLANDS : MÁ EITTHVAÐ AF ÞESSU LÆRA?

Við erum stödd í Kaupmannahöfn á þjóðhátíðardegi Dana, 6. Júní árið 1990 – fyrir næstum aldarfjórðungi síðan. Utanríkisráðherrar Evrópuríkja, sem og Bandaríkjanna og Kanada, eru hér samankomnir. Fundurinn var einn af mörgum, sem snerust um að binda endi á Kalda stríðið. Á dagskrá þessara funda voru samningar um afvopnun og samdrátt í herafla; um friðsamlega sambúð fyrrverandi fjandmanna; um virðingu fyrir almennum mannréttindum og sjálfsákvörðunarrétti þjóða.Við erum stödd í Kaupmannahöfn á þjóðhátíðardegi Dana, 6. Júní árið 1990 – fyrir næstum aldarfjórðungi síðan. Utanríkisráðherrar Evrópuríkja, sem og Bandaríkjanna og Kanada, eru hér samankomnir. Fundurinn var einn af mörgum, sem snerust um að binda endi á Kalda stríðið. Á dagskrá þessara funda voru samningar um afvopnun og samdrátt í herafla; um friðsamlega sambúð fyrrverandi fjandmanna; um virðingu fyrir almennum mannréttindum og sjálfsákvörðunarrétti þjóða.

1.

Pólitíska landslagið í Evrópu hafði tekið stökkbreytingum. Í nóvember, árið áður, hafði Berlínarmúrinn verið rifinn niður. Þjóðir Mið- og Austur Evrópu voru í óða önn að losna undan oki Sovétríkjanna. Í Póllandi réði Solidarnosc; Í Prag var það flauelsbyltingin. Friðsamleg endursameining Þýskalands var að verða að veruleika. „Glasnost“ (opnunin) og „Perestroika“ (kerfisbreyting), hin pólitísku vörumerki Gorbachevs, vöktu mörgum vonir um lýðræðislegar umbætur innan Sovétríkjanna. Loksins var verið að binda endi á seinni heimstyrjöldina í Mið- og Austur Evrópu.

Kaupmannahafnarfundurinn var haldinn tæpum þremur mánuðum eftir að Litháar höfðu lýst yfir endurheimt sjálfstæðis. Í Eistlandi og Lettlandi höfðu einnig farið fram lýðræðislegar kosningar til þjóðþinga og þingræðislega kjörnar ríkisstjórnir höfðu verið myndaðar. Tvennar táknmyndir úr sjálfstæðisbaráttunni höfðu vakið heimsathygli. Sú fyrri var „Syngjandi byltingin“ í júní 1988; hin sýndi meira en milljón manns, sem héldust í hendur þvert yfir landamærin frá Tallinn í norðri til Vilníus í Suðri, í ágúst 1989. Hvort tveggja var táknmynd um þjóðlega vakningu og grasrótarlýðræði.

Leiðtogar vestrænna lýðræðisríkja vegsömuðu sigur lýðræðisins í ræðum sínum í nafni mannréttinda og sjálfsákvörðunarréttar þjóða. En stundum er bilið milli mælskubragða og raunsæisstjórnmála næstum því óbrúanlegt. Veruleikinn, eins og hann blasti við bak við tjöldin, var allur annar. Bandaríkin töldu sig eiga allt undir því, að Gorbachev héldi völdum í Kreml. Það var mikið í húfi: vonir manna um lýðræðislegar umbætur innan Sovétríkjanna; endurheimt sjálfstæðis þjóða Mið- og Austur Evrópu, án blóðsúthellinga; samningar risaveldanna um gagnkvæma afvopnun og samdrátt herafla. Stríð eða friður.

Endalok vígbúnaðarkapphlaupsins var forsenda þess, að Gorbachev gæti gert sér vonir um að bæta bágborin lífskjör heima fyrir. Friðsamleg endursameining Þýskalands, sem yrði áfram innan vébanda NATO, var algerlega komin undir velvild Gorbachevs. Þýska ríkisstjórnin kostaði heimflutning hernámsliðs Rússa og greiddi að auki fúlgur fjár til að greiða fyrir þessari lausn. Bæði Bandaríkjamenn og Þjóðverjar litu á Gorbachev sem samstarfsaðila við að binda endi á kalda stríðið. Það var viðtekin viska meðal ráðandi afla á Vesturlöndum, að ekkert mætti segja eða gera, sem gæti spillt samstarfinu við Sovétleiðtogann, eða stefnt valdastöðu hans í voða. Væri Gorbachev steypt af stóli, mundu harðlínumennirnir ná aftur völdum. Í versta tilviki mundi það þýða afturhvarf til kalda stríðsins eða jafnvel vopnuð átök í Austur Evrópu.

Það var þess vegna sem Bush eldri, Bandaríkjaforseti, hélt til Kænugarðs í Úkraínu í febrúar 1990 og skoraði á Úkraínumenn að hafna „öfgaþjóðernisstefnu“; og að halda Sovétríkjunum saman, í nafni stöðugleikans. Ræðan sú hefði heldur betur fallið í kramið hjá Pútín, hefði hún verið flutt á Maidan-torginu þessa dagana. Það var þess vegna sem Baker, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heimsótti Milosovich í Belgrad og hvatti hann til að halda Júgóslavíu saman – í nafni stöðugleikans. Það var þess vegna sem Kohl kanslari og Mitterand forseti skrifuðu Landsbergis, leiðtoga sjálfstæðishreyfingar Litháa sameiginlegt bréf, þar sem þeir lögðu fast að honum að fresta því, að sjálfstæðisyfirlýsing Litháa tæki gildi; og að fallast þess í stað á samningaviðræður við Sovétmenn án skilyrða. Og það var þess vegna sem nýskipuðum utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna þriggja, sem hafði verið boðið að ávarpa Kaupmannahafnarfundinn, var skyndilega bannaður aðgangur og þeir gerðir brottrækir. Þeir fengu ekki einu sinni að standa fyrir máli sínu á þessari mannréttindasamkundu, af ótta við að Sovétmenn mundu þá strunsa brott. Og að þar með væri friðarferlið fyrir bí.

2.

Gestgjafi Kaupmannahafnarfundarins, Uffe Elleman Jensen, utanríkisráðherra Dana, fann sig nauðbeygðan að lúffa fyrir þeirri hótun Sovétmanna, að þeir færu út, ef utanríkisráðherrum Eystrasaltsþjóðanna yrði hleypt inn. Þegar þetta spurðist, fannst mér, að ekki yrði undan því vikist að reyna að gefa hugtakinu „samstaða smáþjóða“ merkingu og gildi. Hvenær er það nauðsynlegt, ef ekki þegar stórveldahagsmunir ganga þvert á grundvallarreglur þjóðarréttar og mannréttinda? Það var þess vegna sem ég lagði fyrirframsamda ræðu til hliðar og ákvað að ljá rödd mína þeim, sem höfðu verið sviptir málfrelsi. Samkvæmt útskrift frá danska utanríkisráðuneytinu sagði ég m.a. eftirfarandi:

„Það vill svo til, að forseti Sovétríkjanna, Michael Gorbachev, gegnir nú mikilvægara hlutverki en nokkur annar stjórnmálaleiðtogi á eftirstríðstímanum. Hann hefur gerst boðberi friðsamlegra umbóta. Sú ákvörðun hans að beita ekki valdi til að kæfa lýðræðisbyltinguna í Austur Evrópu í fæðingu, hefur skipt sköpum. En hvert eitt skref, sem hann tekur hér eftir, getur boðið hættunni heim. Sú staðreynd, að lýðræðislegar umbætur og efnahagsleg uppstokkun innan Sovétríkjanna, hafa látið á sér standa, eykur líkur á pólitískri upplausn. Valdbeiting í því skyni að brjóta á bak aftur sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða mun kollvarpa öllu því, sem áunnist hefur hingað til í frelsis- og friðarátt.

Við megum ekki láta eins og við séum nauðbeygð til að fórna lögmætum réttindum Eystrasaltsþjóða í því skyni að bjarga friðarferlinu. Mannréttindi og sjálfsákvörðunarréttur þjóða eru óaðskiljanlegar grundvallarreglur. Það er ekki okkar að útbýta þessum gæðum sem forréttindum til sumra, en neita öðrum að njóta, eftir geðþótta. Það er óumdeilanleg söguleg staðreynd, að Eystrasaltsþjóðirnar voru sjálfstæð ríki, sem nutu viðurkenningar alþjóðasamfélagsins, þ.á.m. Sovétríkjanna sjálfra. Í seinni heimstyrjöldinni máttu þau þola innrás og hernám beggja, þýskra nazista og Sovétmanna, og voru að lokum innlimuð í Sovétríkin með ólögmætum hætti”.

Þegar ég steig niður úr ræðupúltinu, stökk maður í veg fyrir mig, faðmaði mig að sér og sagði: „Það eru forréttindi að vera fulltrúi smáþjóðar og mega þess vegna segja sannleikann“. Þetta var Max Kampelmann, frægur Sovétfræðingur og samningamaður af hálfu Bandaríkjastjórnar. Sem ég stefndi að sæti mínu í salnum, gekk í veg fyrir mig þrekvaxinn maður, steytti að mér hnefann og hrópaði: „Skammastu þín, Jón Baldvin; Það var ekki eitt satt orð í því, sem þú sagðir um Sovétríkin í þessari ræðu“. Þetta var Yuri Rhesetov, síðar sendiherra Rússlands í Reykjavík, en þá í samninganefnd Sovétmanna í Genf. – Eftir þessi viðbrögð hugsaði ég með mér: Úr því að bandaríski fulltrúinn skammast sín og sá sovéski missti stjórn á skapi sínu, er ég trúlega á réttri leið.

3.

Janúar 1991 skipti sköpum. Þann 8. janúar var ákvörðun tekin í Kreml – með vitund og vilja Gorbachevs – að það yrði að koma í veg fyrir, að Eystrasaltsþjóðir segðu skilið við Sovétríkin, með valdi, ef nauðsyn krefði. Í áætluninni fólst að búa til árekstra milli þjóðernishópa til þess að réttlæta hernaðaríhlutun. Síðan yrði lýst yfir neyðarástandi. Moskva tæki stjórn mála í sínar hendur til þess að vernda þjóðernisminnihluta og koma á lögum og reglu. Þar með fóru skriðdrekarnir af stað. Allt hljómar þetta kunnuglega þessi dægrin – ekki satt?

Aðfararnótt 12. janúar var ég vakinn með símtali frá Vilnius. Landsbergis var á línunni og var mikið niðri fyrir. Hann sagði: “Þeir ætla að brjóta okkur á bak aftur. Ef þú meinar eitthvað með því, sem þú hefur verið að segja að undanförnu til varnar okkar málstað, komdu þá strax til Vilniusar. Nærvera utanríkisráðherra frá NATO-ríki skiptir máli”. Það tók nokkra daga að fá visa frá sovéska sendiráðinu. Ég komst ekki á staðinn fyrr en þann 16da – þremur dögum eftir blóðbaðið í Vilnius – og heimsótti Riga og Tallinn í leiðinni.

Ég verð aldrei svo gamall , að ég gleymi þessum dögum. Fólkið fyllti torg og stræti, hélst í hendur og söng þjóðsöngva við varðelda í vetrarkuldanum. Þarna varð ég vitni að því, að þessar þjóðir, vopnlausar, einar og yfirgefnar, stóðu í vegi fyrir skriðdrekum valdsins, í nafni frelsisins, mannlegrar reisnar og sjálfsvirðingar. Það voru forréttindi að fá að vera með þessu fólki þessa örlagaríku daga. Ég sannfærðist um það, að ef hin sovésku hernámsyfirvöld hefðu ekki gugnað á seinustu stundu, hefði þetta endað í ólýsanlegu blóðbaði.

Mundu leiðtogar Vesturveldanna grípa í taumana? Leiðtogar sjálfstæðishreyfinga þessara þjóða voru ekki haldnir neinni slíkri sjálfblekkingu. Þann 16. janúar hrundu Bandaríkin af stað “Operation Desert Storm” til þess að reka Saddam Hussein út úr Kuwait. Það var hvorki í fyrsta né síðata skiptið, sem yfirráð yfir olíulindum hafa orðið “casus belli”. Sovétmenn voru bandamenn Íraka. Bandaríkjastjórn var mjög í mun að Sovétmenn mundu ekki skerast í leikinn í Írak. Þeir áttu það undir velvild Gorbachevs.

Þegar íslenska ríkisstjórnin mótmælti valdbeitingu Sovétmanna í Eystrasaltslöndum og skoraði á Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að koma þegar í stað saman til að stöðva frekari valdbeitingu, lýstu Sovémenn vanþóknun sinni með því að kalla heim sendiherra sinn frá Reykjavík. Það er venjulega síðasta skrefið, áður en stjórnmálasambandi er slitið. Íslenski sendiherrann í Moskvu var kallaður á teppið til þess að taka við harðorðum mótmælum gegn íhlutun Íslands um sovésk innanríkismál. Þetta gefur mér tilefni til tveggja athugasemda:

Það var á þessum tíma útbreidd skoðun, að Ísland, öfugt við aðrar Norðurlandaþjóðir t.d., gæti staðið uppi í hárinu á Sovétstjórninni, án nokkurrar áhættu. Því fór fjarri. Hlutur Sovétríkjanna í utanríkisviðskiptum Íslands var sá hæsti í Evrópu – fyrir utan Finland. Þegar Bretar settu viðskiptabann á Íslendinga, snemma á sjötta áratugnum, í mótmælaskyni við útfærslu íslensku fiskveiðilögsögunnar í áföngum – brást Sovétstjórnin við með því að bjóðast til að kaupa allar þær sjávarafurðir, sem Ísland vildi selja. Í staðinn kom allt eldsneyti fyrir íslenska fiskiskipaflotann, flugflotann og flutninga á sjó og landi – sem er aflvaki hagkerfisins – frá Sovétrikjunum. Stuðningur okkar við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða, sem kallaði á vanþóknun Sovétrikjanna, var þess vegna fjarri því að vera án áhættu. Við einfaldlega tókum þá áhættu.

Hin athugasemdin er þessi: Þegar Sovétstjórnin mótmælti formlega meintri íhlutun Íslands um sovésk innanríkismál, ákvað ég að taka mótmælin alvarlega og svara þeim málefnalega. Ég fól þjóðréttarfræðingi utanríkisráðuneytisins, í nánu samstarfi við sérfræðinga frá Eistlandi, að setja saman skjal, þar sem sýnt var fram á það með lagarökum, að hernám Sovétríkjanna og innlimun Eystrasaltsþjóða í Sovétríkin hefði verið gróft brot á alþjóðalögum. Þessi röksemdafærsla var studd mörgum dæmum um skuldbindingar Sovétríkjanna samkvæmt alþjóðalögum og samningum, sérstaklega skuldbindingum þeirra samkvæmt Helsinki sáttmálanum (Helsinki Final Act) frá1975, um friðhelgi landamæra. Við áréttuðum þessar skuldbindingar með því að minna Sovétstjórnina á, að þjóðfulltrúaráð Sovétríkjanna (Soviet Congress of Deputies) hefði sjálft fallist á þessi rök með því að lýsa Molotov-Ribbentrop samninginn ógildan. Löngu seinna sagði Landsbergis mér, að þetta hefði reynst vera haldbesta þjóðréttarskjalið, sem vísað var til í samningum Litháa við Rússa um brotthvarf sovéska hernámsliðsins.

4.

Þann 19. ágúst, 1991, hófst atburðarás, sem leiddi til viðurkenningar alþjóðasamfélagsins á endurreistu sjálfstæði Eystrasaltsþjóða; og reyndist síðan verða upphafið að endalokum Sovétríkjanna. Þetta byrjaði í götuvígum í Moskvu, en endaði viku síðar með látlausri athöfn í Höfða í Reykjavík. Fimm árum áður hafði Höfði hýst þá Reagan og Gorbachev á leiðtogafundi, sem síðar meir var talinn hafa markað upphafið að endalokum kalda stríðsins. Nú markaði þessi sami staður upphafið að viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á sjálfstæði Eystrasaltsþjóða – ferli , sem reyndist verða óstöðvandi og óafturkallanlegt. Atburðarásin var eitthvað á þessa leið.

  • Valdaránstilraun harðlínumanna gegn Gorbachev í Moskvu hófst mánudaginn 19. ágúst.
  • Tveimur dögum síðar hittust utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins í Brüssel. Fundurinn var haldinn í skugga valdaránsins. Við upphaf fundarins ríkti fullkomin óvissa um, hvort valdaránið hefði tekist eða ekki. Gert var fundarhlé og framkvæmdastjóra NATO, Manfred Wörner, falið að ná beinu sambandi við Boris Yeltsin, í Moskvu. Innan hálftíma flutti framkvæmdastjórinn fundarmönnum eftirfarandi skilaboð frá Yeltsin: Valdaránstilraunin hefði verið kveðin niður. Hann, Boris Yeltsin, væri leiðtogi lýðræðisaflanna, sem nú réðu ferðinni. Yeltsin skoraði á utanríkisráðherra Atlantshafsbandalsríkja, sem saman væru komnir í Brüssel, að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að styðja lýðræðisöflin innan Sovétríkjanna.
  • Þegar röðin kom að mér að bregðast við þessum tíðindum, lagði ég til hliðar undirbúinn texta, rétt eins og áður í Kaupmannahöfn. Ég skoraði á starfsbræður mína að hugsa til enda, hversu gerbreytt staðan væri orðin. Ég minnti þá á, að fyrri viðbrögð, eins og t.d., að ekkert mætti segja eða gera, sem græfi undan stöðu Gorbachevs, því að þá mundu harðlínumennirnir ná aftur völdum – þessi rök væru hér eftir haldlaus. Harðlínumennirnir hefðu reynt, en mistekist að ná völdum. Gorbachev, sem nú ætti það markmið eitt eftir að halda Sovétrikjunum saman, hvað sem það kostaði, undir nýrri stjórnarskrá – væri nú úr leik. Hinn nýi leiðtogi væri Boris Yeltsin. Hann hefði þegar, sem forseti rússneska þingsins, skorað á rússneska hermenn að beita ekki valdi gegn vopnlausum almenningi í Eystrasaltslöndum.
  • Þjóðfulltrúaráð Sovétríkjanna hefði þegar fellt Molotov-Ribbentrop samninginn úr gildi. Þar með hefði hin nýja forysta rússneska sambandslýðveldisins viðurkennt, að hernám og innlimun Eystrasaltsþjóða í Sovétríkin hefði verið ólögleg. Eystrasaltsþjóðirnar hefðu sætt harneskjulegri valdbeitingu af hálfu Sovétríkjanna í hálfa öld, sem m.a. lýsti sér í nauðungarflutningum í þrælabúðir Stalíns og kerfisbundinni atlögu að þjóðtungu og menningu þessara þjóða. Allt væri þetta brot á grundvallarreglum þjóðarréttar og þeim samskiptareglum þjóða í milli, sem nú væri verið að semja um. Við værum þess vegna siðferðilega skuldbundin til að styðja endurreist sjálfstæði þessara þjóða, ekki síður en annarra þjóða Mið- og Austur-Evrópu. Endurreist sjálfstæði Eystrasaltsþjóða gæti orðið hvati að sjálfstæði annarra þjóða, sem hefðu verið innlimaðar með valdi í Sovétríkin.

5.

Ef ég man rétt, fékk þessi ræða mín daufar undirtektir, svo ekki sé meira sagt. Á heimleið af fundinum settist ég upp í sendiráði okkar í Kaupmannahöfn, þar sem ég hékk í símanum langt fram á nótt. Eftir langa mæðu tókst mér að ná sambandi við rétta aðila í Vilnius, Riga og Tallinn. Skilaboð mín voru einföld. Í pólitík getur tímasetningin skipt sköpum. Nú, þegar allt er í upplausn í Moskvu, er rétti tíminn til athafna. Ég sendi formleg boðsbréf til utanríkisráðherra Eystrasaltsríkjanna um að koma til Reykjavíkur, eins og fljótt og auðið væri. Þar og þá mundum við undirrita viðeigandi skjöl því til staðfestingar, að við hefðum endurreist stjórnmálasamband okkar í milli og gengið frá tilnefningu sendiherra og ræðismanna með gagnkvæmum hætti. Ég hélt því fram, að aðrar þjóðir mundu brátt fylgja í kjölfarið. Við yrðum að grípa tækifærið nú, þegar það gæfist, til að hrinda af stað rás atburða, sem yrði óafturkallanleg. Það kom á daginn. Bandaríkin urðu númer 56 til að viðurkenna orðinn hlut – degi á eftir Sovétríkjunum.

Utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna þriggja, Lennart Meri frá Eistlandi, Janis Jurkans frá Lettlandi og Algirdas Saudargas frá Litháen lentu á Keflavíkurflugvelli síðdegis þann 25. ágúst. Daginn eftir, þann 26. ágúst 1991 komum við saman til fundar í Höfða, sem hafði hýst leiðtogafund Reagans og Gorbachevs árið 1986. Við undirrituðum tilskilin skjöl og sögðum fáein orð um þann tímamótaviðburð, sem hér átti sér stað. Fréttirnar höfðu varla fyrr borist út um heiminn en boðsbréfin byrjuðu að streyma inn: Vildu utanríkisráðherrarnir láta svo lítið að heimsækja höfuðborgir Evrópu á næstu dögum og vikum til þess að endurtaka og staðfesta það, sem gerst hafði í Reykjavík. Ferlið var orðið óafturkallanlegt.

Ætlunarverki mínu var lokið: “Mission accomplished”.

6.

Eftir standa áleitnar spurningar um, hvort og þá hvað megi af þessari sögu læra um viðbrögð við þeim atburðum, sem nú eru að gerast á svipuðum slóðum og varða stríð eða frið. Vonandi fáum við ráðrúm til að skiptast á skoðunum um það hér á eftir.
Útganga Eystrasaltsþjóða úr Sovétríkjunum var öðrum þjóðum innan heimsveldisins fordæmi um að lýsa yfir sjálfstæði, þ.á.m. Úkraínumönnum. En þegar við berum saman, hvernig þessi aldarfjórðungur, sem liðinn er síðan, hefur nýst til að treysta innviði og tryggja öryggi ríkjanna, er ólíku saman að jafna. Pólitísk forysta Eystrasaltsþjóða var einhuga um það frá upphafi – þvert yfir pólitískar víglínur – að láta ekki söguna endurtaka sig; að sameiginlegt meginmarkmið skyldi vera innganga í Evrópusambandið og NATO við fyrsta tækifæri. Skilyrðin sem varð að uppfylla, reyndust vera öflugur hvati til að hraða nauðsynlegum umbótum: að byggja upp stofnanir lýðræðis, réttarríkis og markaðshagkerfis undir lýðræðislegri stjórn. Þetta gaf stjórnarfarinu þá festu, sem dugði til að forða pólitískri upplausn. Lýðskrumarar – og af þeim var nóg framboð – komust ekki upp með moðreyk. Reynslan af ógninni að austan, handan landamæranna, hélt öllum við efnið.

Í Úkraínu var þessu þveröfugt farið. Pólitíska forystan brást. Pólitísk og fjárhagsleg spilling á sér lítil sem engin takmörk. M.a. s. Rússland Yeltsins, sem kennt hefur verið við “þjófnað aldarinnar”, stenst þar engan samanburð. Fámenn klíka auðkýfinga hefur, í skjóli pólitísks valds, farið ránshendi um auðlindir þjóðarinnar. Misskipting auðs og tekna sker í augu. Veikburða umbótatilraunir í nafni “Orange-byltingarinnar” runnu út í sandinn. Stjórninni í Kiev mistókst að ná tökum á stjórn héraðanna í suð-austanverðu landinu, þar sem rússneskumælandi fólk er ýmist í meirihluta eða öflugur en hávær minnihluti. Herinn er vanbúinn vopnum, og baráttuþrekið lifir á veiku skari. Við þessi skilyrði má stjórnin í Kiev sín lítils. Hún bregst við rás viðburða samkvæmt mottóinu of lítið – of seint. Hún á við ofurefli að etja.

Fræg eru þau ummæli Pútins, forseta Rússlands, að hrun Sovétríkjanna sé “mesti heimssögulegi harmleikur liðinnar aldar”. Markmið hans er ljóst: Að bæta fyrir mistök forvera sinna og endurreisa hið stórrússneska áhrifasvæði. Pútin veit sem er, að án Úkraínu nær Rússland aldrei aftur fyrri stöðu sem heimsveldi. Hann veit líka sem er, að valdi og áhrifum Vesturveldanna eru takmörk sett í þessum heimshluta. Fjárhagsaðstoð, vopn og tæknibúnaður, já – “but we won´t put troops on the ground”, eins og Obama Bandaríkjaforseti, hefur staðfest. Úkraínumenn verða því einir um það að fórna lífi sínu fyrir sjálfstæði landsins. Hvorki NATO né Evrópusambandið er reiðbúið til að taka áhættu af nýrri stórstyrjöld á Austur-vígstöðvunum.

Frammi fyrir þaulskipulagðri hernaðaráætlun Pútins á stjórnin í Kiev bara tveggja kosta völ – og er hvorugur góður. Vilji hún beita hervaldi, mun það bitna fyrst og fremst á óbreyttum borgurum, konum og börnum og enda í fjöldamorðum á varnalausu fólki í líkingu við hernað Ísraela á Gaza. Það yrði óhjákvæmilega óbærilegt blóðbað. Það mun fyrr en síðar framkalla fordæmingu almenningsálitsins í heiminum og gefa Rússum það tilefni, sem þeir bíða eftir, til beinnar hernaðaríhlutunar. Það er stríð sem litlar líkur eru á, að Úkraínumenn geti unnið. Hinn kosturinn er sá, að sætta sig við málamiðlun, undir þrýstingi frá alþjóðasamfélaginu, um stóraukna heimastjórn austurhéraðanna. Þau munu trúlega lýsa yfir sjálfstæði sínu í framhaldinu. Yfirlýst stefna aðskilnaðarsinna er síðan sú að leita eftir inngöngu í rússneska sambandslýðveldið. Í báðum tilvikum á Úkraína við ofurefli að etja.

Kremlverjum hefur orðið talsvert ágengt með þeim áróðri sínum, að rússneski þjóðernisminnihlutinn í Úkraínu (og öðrum grannríkjum Rússa) eigi samkvæmt lýðræðislegum leikreglum um þjóðaratkvæði og sjálfsákvörðunarrétt þjóða rétt á að velja, hvort hann vilji sameinast rússneska sambandslýðveldinu eða ekki. Máli sínu til stuðnings nefna þeir gjarnan Kosovo, Skotland eða Katalóníu. Allt saman héruð, sem vilja segja sig úr lögum við sambandsríki. En hér er að vísu ólíku saman að jafna. Í Kosovo beitti Milosovich serbneska hernum til að knýja fram þjóðernishreinsanir með hervaldi. Sú valdbeiting varð ekki stöðvuð fyrr en með lofthernaði NATO (les Bandaríkjamanna) gegn Serbíu. Það er enginn að beita rússneska þjóðernisminnihlutann þjóðernishreinsun með hervaldi, hvorki í Úkraínu né annars staðar.

Skotar hafa samið við sambandsstjórnina í London um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu, sem báðir aðilar heita að virða. Það fer engum sögum af því, að stjórnin í Lundúnum áskilji sér rétt til að beita valdi til að vernda enska minnihlutann í Skotlandi. Samlíking við Katalóníu er með sama hætti út í hött. Hverjir hafa beitt þjóðernishreinsunum í stórum stíl í því skyni að uppræta þjóðmenningu og sjálfstæðisvitund þeirra þjóða, sem hér eiga hlut að máli? Tatarar á Krímskaga voru fluttir nauðungarflutningum í gúlagið, en Rússar fluttir inn í staðinn. Sama máli gegndi um Eystrasaltslöndin: Andófsmenn gegn hernáminu sættu nauðungarflutningum til Síberíu, en Rússar voru fluttir inn í stórum stíl í staðinn. Tilgangurinn var að “rússifisera” þessar þjóðir, uppræta sjálfstæðisvitund þeirra og þjóðmenningu. Og það hafði nærri því tekist á hálfri öld. Rússar eru nú næstum því meirihluti í Riga, höfuðborg Lettlands, og ráða stjórn borgarinnar. Í Tallinn, höfuðborg Eistlands, ráða þeir meirihluta borgarstjórnar. Narva, iðnaðarborg á landamærunum, er 95% rússnesk.

En stafar rússneska minnihlutanum einhver ógn af stjórnvöldum í Úkraínu eða Eystrasaltslöndunum? Því fer fjarri. Þeir Rússar, sem fyrir voru í Eystrasaltslöndum fyrir stríð, hafa fyrir löngu aðlagast og njóta fulls ríkisborgararéttar. Hinir, sem fluttir voru inn með hervaldi, eiga val. Þeir sem sýna fram á lágmarkskunnáttu í þjóðtungu ríkisins, geta sótt um og fá ríkisborgararétt. Þeir sem hafna þessum kosti, eiga engu að síður kosningarétt í sveitarstjórnakosningum. Og rússneski minnihlutinn hefur áfram sína skóla. Við Íslendingar gerðum rétt í því að setja okkur í spor Eystrasaltsþjóða, áður en við fordæmum tilraun þeirra til að varðveita þjóðtungur sínar, sem voru í útrýmingarhættu. Mannréttindavakt ESB hefur fylgst grannt með stefnunni og framkvæmd hennar við Eystrasalt og staðfest, að mannréttindi í fjölþjóðasamfélagi séu virt í samræmi við staðla ESB. Geri aðrir betur. Evrópusambandsaðild tryggir reyndar frjálsa för til búsetu og vinnu, hvar sem er innan Evrópusambandsins, sem fjöldi Rússa í Eystrasaltslöndum notfærir sér.

Er sjálfstæði Eystrasaltsþjóða í hættu? Þeir sem taka trúanlegan málflutning Pútins um, að Rússland áskilji sér rétt til hernaðaríhlutunar, til að vernda rússneska þjóðernisminnihluta innan landamæra annarra ríkja, hljóta að svara spurningunni játandi. Seinni heimsstyrjöldin hófst reyndar með því, að Hitlers-Þýskaland áskildi sér sama rétt til hernaðaríhlutunar í grannríkjum á sömu forsendum. Um það snerist innlimun Austurríkis í þýska ríkið (Anschluss) og sundurlimun Tékkóslóvakíu (friðarsamningarnir í München).Og kostaði 50 milljónir mannslífa, áður en hildarleiknum lauk.

Er í alvöru líklegt, að Rússland hætti á styrjöld við aðildarríki ESB og NATO út af kröfum Pútins um að fá skilað aftur herfanginu eftir “the Great Patriotic War” – seinni heimsstyrjöldina?

Evrópusambandið má með réttu gagnrýna fyrir margt: Sundurlyndi, skort á pólitískri forystu og skort á samræmdri og trúverðugri stefnu í varnar- og öryggismálum. Þessi gagnrýni kemur að vísu úr hörðustu átt frá þeim, sem staðfastlega berjast gegn tilfærslu valds frá þjóðríkjunum til samþjóðlegra stofnana ESB. Hægri öfgaöflin, sem vilja Evrópusambandið feigt, eiga það yfirleitt sammerkt, að hafa fagnað innlimun Pútins á Krímskaga. Og voru á sínum tíma andvíg stækkun Evrópusambandsins til austurs.

Eftir stendur, að ESB er stærsta viðskiptablokk heims, sem Rússland þolir engan samanburð við. Það væri of langt gengið að lýsa Rússlandi Pútíns sem “Burkino Faso” með gereyðingarvopn, eins og pólski utanríkisráðherrann á að hafa einhvern tíma misst út úr sér. Samt felst sannleikskorn í samlíkingunni. Rússland er efnahagslega vanþróað land sem hefur enga efnahagslega burði til að efna til hernaðarátaka við ríki Evrópusambandsins. Flest eru aðildarríki ESB jafnframt meðlimir NATO. Og hafi menn efast um tilvistarrök NATO að loknu köldu stríði, þá vita menn nú vonandi betur. Þrátt fyrir misráðinn hernað að undirlagi Bandaríkjanna í Írak og Afganistan, hefur NATO nægan herstyrk til að standa við 5.gr. Stofnsáttmálans um, “að árás á eitt aðildarríki skoðist sem árás á öll”.Og viðbrögðin verði eftir því. Þessi “deterrent” (fælingarmáttur) dugði gagnvart Sovétríkjunum í köldu stríði í hálfa öld. Hann er enn í fullu gildi. Kremlverjar munu því hugsa sig um oftar en einu sinni, áður en þeir láta fallast í þá freistni að hefja hernaðarinnrás í eitthvert aðildarríki Atlantshafsbandalagsins.

En þetta bjargar því miður ekki Úkraínu út úr þeim ógöngum, sem hún hefur ratað í vegna fyrirhyggju- og ábyrgðarleysis hinnar pólitísku forystu landsins á fyrsta aldarfjórðungi hins sjálfstæða ríkis. Úr því sem komið er, á Poroschenko því ekki annarra kosta völ en að semja við óvininn úr veikri stöðu. Þetta staðfestir enn einu sinni, að við eigum engar vinaþjóðir, bara hagsmuni. Hér sannast enn hið fornkveðna, að “þú tryggir ekki eftir á”.