ÞEIM VAR ÉG VERST, ER ÉG UNNI MEST – EÐA ÞANNIG

Aldrei varð hún sósíalisti, hún Svandís Nína, ekki einu sinni menntaskólaróttæklingur. Hugvekja hennar í Herðubreið nú um helgina snart satt að segja streng í mínu gamla, sósíaldemókratíska hjarta. Hvers vegna? Svandís Nína segist vera efasemdarmanneskja. Ég líka. Hún er orðin nógu lífsreynd til að vísa á bug Stóra sannleik. Hún segir, að „mannfélagið rúmist (ekki) í einni kenningu“. Sammála. Svo segir hún rétt si svona: „Einstaklingsfrelsi er það fallegasta sem til er“. Það er heilmikið til í því. Spurningin er bara, hvað hún meinar í alvöru?Aldrei varð hún sósíalisti, hún Svandís Nína, ekki einu sinni menntaskólaróttæklingur. Hugvekja hennar í Herðubreið nú um helgina snart satt að segja streng í mínu gamla, sósíaldemókratíska hjarta. Hvers vegna? Svandís Nína segist vera efasemdarmanneskja. Ég líka. Hún er orðin nógu lífsreynd til að vísa á bug Stóra sannleik. Hún segir, að „mannfélagið rúmist (ekki) í einni kenningu“. Sammála. Svo segir hún rétt si svona: „Einstaklingsfrelsi er það fallegasta sem til er“. Það er heilmikið til í því. Spurningin er bara, hvað hún meinar í alvöru?

„Frelsi, jafnrétti, bræðralag“ – þetta var kjörorð frönsku byltingarinnar. Þetta er líka kjörorð okkar kratanna. Við settum frelsið fyrst. En af því að við vitum, að fátækur maður er ófrjáls, gleymdum við ekki því, að það þarf jafnrétti og bræðralag til að gera frelsi einstaklingsins að veruleika fyrir fjöldann. Það hefur vafist fyrir mörgum að skilja þetta. Plútókratarnir (þeir sem eiga jörðina með gögnum hennar og gæðum) hafa reynt að taka einkaleyfi á frelsinu. Í reynd er það bara frelsi til að græða. Óheft frelsi þeirra til að græða endar einatt í ófrelsi okkar hinna. Pólitík okkar jafnaðarmanna snýst eiginlega um fátt annað en að hindra, að þeim takist það.

Sumir halda, að tími jafnaðarstefnunnar sé liðinn í hinum ríka parti heimsins. Velferðarríkið hafi frelsað fólk frá fátækt. Þess vegna sé ekki lengur þörf fyrir pólitík í anda jafnaðarstefnu og með samstöðu verkalýðshreyfingar. Norræna velferðarsamfélagið hefur reynst vera „land tækifæranna“. Ókeypis aðgangur að menntun lyftir börnum hinna fátæku upp í millistétt. Er þá ekki freistandi að snúa baki við fortíðinni – gleyma henni – og ganga í lið með hinum? Skv. skoðanakönnunum er einmitt þetta tilvistarvandi jafnaðarmannaflokkanna á Norðurlöndum um þessar mundir. Allavega segir Svandís Nína hispurslaust, að henni sé „í nöp við velferðarkerfið“. Hún upplifir velferðarkerfið á Íslandi með vísan til fjölskyldusögu sinnar, sem kuldalegt bákn, sem sé þungt haldið af mannfyrirlitningu. Hún segist enga trú hafa á því, að unnt sé að stuðla að jöfnuði með peningatilfærslum. Samt segist hún fá hvort tveggja, barnabætur og vaxtabætur. Vill hún þá skila þeim?

Ég held ég skilji, hvað hún á við, þegar hún segir, að peningar geti ekki hindrað mismunun gagnvart börnum, nema þeir séu framreiddir „án fordóma og skilyrða“. Erum við ekki þarna að nálgast kjarna málsins? Við viljum ekki þiggja ölmusur. Spurningin er, hvort við eigum einhvern rétt sem manneskjur. Það er kallað mannréttindi. En réttindum fylgja líka skyldur. Ef við erum harðdugleg og leggjum okkur fram um að sjá fyrir sjálfum okkur og okkar, borgum okkar skatta og skyldur til samfélagsins, þá vaknar spurningin: Hefur samfélagið nokkrar skyldur gagnvart okkur? Sérstaklega, ef við verðum fyrir áföllum, sem ekki eru af okkar völdum, eins og t.d. slysum, heilsubresti, atvinnumissi, o.s. frv.?

„Erum við ekki öll á bótum? „ spyr Svandís Nína. Ef grannt er skoðað, þá er svarið já. Á æviskeiði mannsins skiptast á skin og skúrir. Við fæðumst ómálga börn, ósjálfbjarga fram eftir aldri, og skólavistin lengist og lengist. Starfsævin er tiltölulega stutt (35-40 ár), og ævilíkurnar lengjast hjá okkur í hinum ríku samfélögum. Börn og unglingar eru ósjálfbjarga. Það þarf að sjá þeim farborða. Þegar gamalt fólk hættir á vinnumarkaði, vaknar spurningin, hvernig það eigi að sjá sér farborða. Og heilsubresturinn gerir ekki boð á undan sér. Oft verður það hlutskipti fólks í blóma lífs. Atvinnuleysi er útbreitt böl í vestrænum samfélögum. Þú getur orðið fyrir því eins og hverju öðru umferðarslysi.

Og þá vaknar enn ein spurning: Er ekki einstaklingsfrelsið bara best? Á ég að gæta bróður míns? Fyrir mitt leyti er ég sammála föður Svandísar Nínu, þegar hún vitnar til orða hans á þá leið, að Guð hjálpi ekki þeim, sem hjálpa sér sjálfir; heldur hjálpi hann þeim samfélögum, sem hjálpa meðlimum sínum, ef þeim skrikar fótur og þurfa á hjálp að halda. Þess vegna er ég jafnaðarmaður.

Þessa dagana er Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur, að skrifa sögu Alþýðuflokksins í tilefni af hundrað ára afmæli Alþýðuflokks og Alþýðusambands, 13. mars, árið 2016. Þessi saga geymir mörg svör við spurningum Svandísar Nínu. Sú var tíð, að fátækt fólk var réttlaust, í besta falli að fleygt var í það ölmusum. Munaðarleysingjar og ósjálfbjarga gamalmenni voru boðin upp – eða öllu heldur niður; þeim var holað niður á bæi, þar sem lægst var boðið. Að sjálfsögðu þótti ekki við hæfi, að slíkt hyski nyti kosingaréttar. Lesið þið Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson. Þetta er svo stutt síðan. Ég man, að sextán ára unglingur vann ég með Tryggva við skurðgröft hjá Rafveitu Reykjavíkur. Lítið vissi ég þá, hvílíka ævi hann átti að baki.

Alþýðuflokkurinn og verkalýðshreyfingin breyttu þessu smám saman, skref fyrir skref. Í staðinn fyrir endalausan þrældóm var hvíldartíminn lögbundinn á togurunum. Vinnulýðurinn fékk viðurkenndan rétt til að semja um kaup og kjör. Það voru byggðir verkamannabústaðir til þess að hýsa fátæklinga,sem áður hírðust í saggakjöllurum eða á hanabjálkum efnamanna. Árið 1936 urðu þáttaskil. Þá voru sett heildstæð lög um almannatryggingar. Allir skyldu framvegis eiga rétt á framfærslueyri í ellinni, njóta slysa- og sjúkratrygginga, og skv. upphaflegu frumvarpi, atvinnuleysistrygginga á kreppuárum. Íhaldið hamaðist gegn þessari mannréttindalöggjöf á þingi og tókst, ásamt Framsókn, að drepa atvinnuleysistryggingar. Það átti sko ekki að verðlauna letina í Grimsbylýðnum. Verkalýðshreyfingin þurfti að beita verkföllum til að knýja fram atvinnuleysistryggingar mörgum áratugum síðar. Verkalýðshreyfingin – ekki löggjafinn – beitti sér fyrir og kom á lífeyrissjóðakerfinu, eins og við þekkjum það í dag. Án þess byggi gamalt fólk á Íslandi enn í dag við sult og seyru. Samt er ótrúlega mörgum í nöp við lífeyrissjóðina. Hvers vegna?

Alþýðuflokkurinn fékk aldrei fjöldafylgi á Íslandi líkt og annars staðar á Norðurlöndum. Þess vegna tókst ekki að byggja upp hér á landi velferðarsamfélag á sömu forsendum og norræna módelið hvílir á. Hvað á ég við? Samkvæmt norræna módelinu er öllum ölmusugjöfum hafnað. Réttindi samborgaranna eru skilgreind sem mannréttindi. Allir eru jafnir fyrir lögum og njóta sömu réttinda. Og eins og Svandís Nína segir svo skemmtilega: allir eru á einhverju tímabili ævi sinnar ýmist gefendur eða þiggjendur í þessu samfélagi. Wallenbergarnir eiga 40% af Svíþjóð. Þeir fá líka barnabætur. Áunnin réttindi þín eftir langa starfsævi til greiðslna úr lífeyrissjóði skerða ekki grunnlífeyri þinn frá ríkinu.

Það er reginmunur á þessu eða íslenska fúskinu. Upphaflega átti þetta að vera samfélagssáttmáli, þar sem réttindi og skyldur eru skilgreindar og ekki háðar skyndibreytingum. En í þjóðfélagi, þar sem gengi gjaldmiðilsins hefur verið fellt samkvæmt pöntun frá útgerðarmönnum ca. 40 sinnum á lýðveldistímanum, stenst ekkert stundinni lengur. Þess vegna stendur Tryggingastofnun ríkisins – sjálfur hornsteinn velferðarríkisins – í því frá degi til dags að elta uppi bótaþega samkvæmt endalausum skerðingarákvæðum til þess að láta þá borga til baka það sem þeir fengu í fyrra. Það er einfaldlega satt, sem Svandís Nína segir, að fjöldi fólks upplifir Tryggingastofnun ríkisins eins og hverja aðra rukkarasjoppu lögmanna, Modus eða Logos. Þvílíkt klúður. Stofnun, sem var hugsuð sem haldreipi fólks í lífsbaráttunni, nýtur orðið svipaðs trausts og pólitíkusarnir, sem hafa klúðrað löggjöfinni.

Hvers vegna er þetta svona? Geta Íslendingar aldrei hugsað neina hugsun til enda? Er þetta menntunarskortur? Er verkfræðilegri hugsun ábótavant? Varðar þetta ekki við Rannís, þar sem Svandís Nína starfar? Þurfa Íslendingar alltaf að búa við skammtímareddingar, upphlaup og klúður? Eða er það efnahagsóstjórnin, sem leiðir allt hitt af sér – nefnilega að vel meint úrræði endar í klúðri í framkvæmd? Þetta er ekki svona annars staðar á Norðurlöndum.

Það er margstaðfest af síendurteknum skoðanakönnunum, að hið sósíaldemókratíska velferðarsamfélag Norðurlanda nýtur yfirgnæfandi stuðnings almennings. Jafnvel þótt hægri öflin komist til valda skamma hríð af og til, dirfast þau ekki að hrófla við undirstöðum kerfisins. En ef Svandís Nína hefur rétt fyrir sér um það, að þeir sem þurfa á þjónustu TR og Vinnumálastofnunar að halda, upplifi viðmótið sem mannfyrirlitningu – þá er það grafalvarlegt mál. Það eru alvarlegustu skilaboðin, sem ég hef heyrt lengi, til forystu Samfylkingarinnar (sem á að heita arftaki Alþýðuflokksins) um, að það eru gerðar kröfur til jafnaðarmannaflokka um að sýna trúnað sinn í verki. Það er ekki nóg að flagga með feminisma, gay pride og druslugöngum. Það þarf að kunna skil á hagstjórn og að taka boðskap jafnaðarstefnunnar um mannréttindi alvarlega í framkvæmd.

Fjölskylda mín bjó um fimm ára skeið í Bandaríkjum Norður Ameríku. Þar í landi standa flestir í þeirri trú, eins og Svandís Nína, að „einstaklingsfrelsi sé það fallegasta sem til er“. Um það snerist ameríski draumurinn. Það þarf ekki að skyggnast djúpt undir yfirborðið, sýndarveruleikann, til þess að komast að raun um, að draumurinn hefur snúist upp í martröð. Einstaklingsfrelsi hinna ofurríku (1%), sem eiga Ameríku, er því sem næst hömlulaust. Á síðastliðnum áratug frjálshyggjunnar hefur þjóðarauðurinn safnast á fárra hendur. Raunlaun vinnandi fólks hafa staðið í stað eða rýrnað að kaupmætti. Réttlaus undirstétt fátæklinga er komin til að vera.

Svandís Nína spyr, hvort markaðurinn geti leyst málin betur en ríkisforsjáin. Hún ætti að kynna sér Ameríku. Tökum dæmi af heilbrigðisþjónustunni. Hún er einkavædd. Einkavædd sjúkrahús þurfa að skila eigendum sínum réttmætum hagnaði. Þetta er dýrasta heilbrigðisþjónusta í heimi. Um 50 milljónir Ameríkana eru utan við þetta kerfi. Ámóta fjöldi býr við tryggingar, sem halda ekki, þegar á reynir. Sjúkratryggingar launþega eru tengdar atvinnunni. Þegar fyrirtæki fer á hausinn, fer sjúkratryggingin. Ef þú verður fyrir slysi eða alvarlegum heilsubresti, endar það gjarnan með gjaldþroti. Ég veit um fjölskyldur, sem urðu að útigangsfólki eftir slík áföll. Svandís Nína sagði okkur einlæglega frá heilsuáföllum foreldra sinna. Pabbi Svandísar Nínu elskaði einkaframtakið og Ísland. Og taldi þau þrátt fyrir allt hólpin að vera Íslendingar. Alla vega veit ég, að þau voru betur sett hér, þrátt fyrir allt, en í landi einkaframtaksins, Ameríku.

Samt segist Svandísi Nínu vera í nöp við velferðarkerfið. Vonandi ekki vegna þess að hún trúi því, að einstæðar mæður, sem þrífa skítinn undan fótum okkar hinna til þess að koma dætrum sínum til mennta, séu „velferðardrottningar á framfæri skattgreiðenda“. Tilvitnunin er tekin úr ræðum Ronalds Reagan, annars flokks leikara í þriðja flokks kvikmyndum, sem var kosinn forseti Bandaríkjanna út á að vera „í nöp við velferðarríkið“. Vonandi ekki heldur vegna þess að hún haldi, að félagsleg samhjálp geri alla að letihaugum og dekurdrósum.

Kannski þarf ég ekki að spyrja svona. Ég sé á grein Svandísar Nínu, að hún veit betur. Ég þarf ekki að taka það fram, að atvinnuþátttaka – og sér í lagi atvinnuþátttaka kvenna – er hvergi meiri en í hinu norræna velferðarsamfélagi. Þar að auki veit Svandís Nína , eins og hún segir sjálf, að við erum öll á bótum. Ekki bara ómálga börn, ósjálfráða unglingar, skólafólk, hinir aldurhnignu, þeir sem hafa fæðst örkumla eða orðið fyrir slysum. Hvað með velferðarkerfi fyrirtækjanna? Við elskum Ísland svo mikið, að við sjáum ekki eftir því að borga þrjá fjórðu af tekjum bænda með sköttum. Ofan á okurverð einokunarinnar. Úthlutun ríkisins á einkaleyfi til að nýta sjávarauðlindina skilar örfáum forréttindaaðilum tugum milljarða á ári. Í samanburði við þetta eru barnabætur, vaxtabætur og húsaleigubætur hreinir smáaurar.

Eftir stendur spurningin: Hvers vegna er svo komið á Íslandi, að þeim, sem ættu að standa vörð um velferðarsamfélagið, er orðið í nöp við það?