Ég hafði kviðið heilmikið fyrir þessu. Í nóvember í fyrra flutti ég eldmessu yfir svokölluðu „Baltic Assembly“ (svokallað Norðurlandaráð Eystrasaltbúa) um það, að fjármálakefi heimsins væri helsjúkt og þyrfti á skurðarborðið. Þarna voru ráðherrar, þingmenn, sérfræðingar, embættismenn, fjölmiðlungar og fleiri. Það hafði verið gert ráð fyrir umræðum á eftir. En það var bara djúp þögn. Ætli þeim hafi ekki ofboðið! Eftir á var orðað við mig, hvort ég vildi þróa þessasr hugmyndir frekar á namskeiði við stjórnmála- og alþjóðamálastofnun háskólans í Vilnu. Ég sagði já takk á stundinni.
Alveg frá fyrstu kynnum hef ég verið skotinn í Vilnius. Ég kom þangað fyrst í janúar 1990. Grámygla kommúnismans allt um kring. Hvergi vottaði fyrir lífsgleði. Allt var grátt og kalt. En þegar Bryndís spurði mig, heimkominn, hvernig Vilnius væri, sagði ég, (og hún hefur oft minnt mig á það síðan): Vilníus er fegurðardrottning í tötrum. Þrátt fyrir tötrana fann ég það strax, að hún bjó yfir innri fegurð. Um leið og við gegnum út úr húsagarðinum og inn á aðalstrætið (23 árum seinna) sagði Bryndís: „þetta er eins og að vera á leiksviði“. Fegurðardrottningin er aftur farin að njóta sín.
Það tók mig fimm mínútur að labba í háskólann. Námsáætlunin hljóðaði upp á sjö dæmisögur (case studies) um, hvernig smáþjóðir gætu séð hlut sínum borgið í samfélagi þjóðanna, eins og það hefði þróast eftir seinni heimstyrjöld: Vanmáttug strandríki gegn flotaveldum heimsins um að breyta alþjóðalögum um hafið (70% af yfirborði jarðar); þetta heitir Law of the Sea Convention, en við köllum það þorskastríð. Næsta var EES – 7 smáþjóðir á jaðri Evrópu í 4ra ára samningum við samningamaskínu ESB; smáþjóðir innan Evrópusambandsins – áhrif og árangur: Lúxemburg, Finnland, Svíþjóð, Danmörk og sérkapituli um Eistland. Næst snerist málið um Norðurlönd – norræna módelið innan og utan Evrópusambandsins. Þetta vakti mestan áhuga nemenda, sem líta á Norðurlönd sem þjóðfélagsfyrirmynd. Þar næst var það fjámálakreppan. Ég fjallaði um málið í sex fyrirlestrum út frá eftirfarandi fullyrðingu: Fjármálakerfi heimsins er helsjúkt – hvernig á að lækna það? Þetta var gert með samanburðargreiningu á því, hvernig þjóðum hefði vegna innan og utan Evrópusambandsins (Finnland- Svíþjóð; Eistland- Litháen; Írland- Ísland; Miðjarðarhafslöndin versus Norður-Evrópa). Það var líf og fjör. Sjötíu stúdentar af sautján þjóðernum. Fullir af áhuga. Næst á dagskrá var um viðbrögð Norðurlanda, smérstaklega, og alþjóðasamfélagsins við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða. Nemendurnir voru flestir að fæðast um það leyti, sem þetta bar við í veraldarsögunni. Mikið voru þeir hissa að heyra sannleikann í staðinn fyrir sögufölsunina, sem er kennd í þeirra eigin skólum. Við lukum þessu með því að horfa til framtíðarinnar: Loftslagsbreytingar og bráðnun Norðurskauts og afleiðingar þess fyrir afganginn af veröldinni.
Ég sagðist hafa verið kvíðinn. Sannleikurinn er sá, að ég þurfti að hafa mig allan við að læra til að geta kennt; og svo kom á daginn, það sem ég átti að vita af fyrri reynslu – að maður lærir mest af því að kenna. Það er óviðjafnanleg lífsreynsla að skiptast á skoðunum við ljóngáfuð ungmenni úr framandi umhverfi; það sem á vantar í lífsreynslu, bæta þau upp með gáfnafjöri. Það eru forréttindi kennarans að upplifa þetta. En svona var þetta – líf og fjör – en stífasta púl að undirbúa sig frá degi til dags.
Á meðan naut Bryndís lífsins. Hún var varla farin út á götu – aðalstræti leikhússins – fyrr en hún var umvafin sálufélögum. Fyrr en varði eignaðist hún vinkonur, sem stýrðu myndlistargalleríum, þjóðlistarsöfnum, fílharmóníum, eða unnu í kvikmyndum, blaðamennsku, fjölmiðlum, eða stýrðu almannasamtökum. Á einni myndlistarsýningunni sveif að Bryndísi ung kona, sem var næstum því ekki þessa heims. Það var hún Gryté. Hún vildi fá að mála Bryndísi. Mynd Gryté af Bryndísi er núna uppi á okkar vegg í Andalús. Hún er klassísk fegurð – Sannleikurinn holdi klæddur. Tær beauty.
Svona var þetta. Andlega örvandi kennsla. Iðandi tónlist, frumleg myndlist, óvænt kynni af fólki, sem kom þér á óvart; óvenjuleg lífsreynsla, frumleg lífskúnst, vegsömun lífs þrátt fyrir grimmd og fólsku fortíðarinnar.
Þetta var stórkostleg lífsreynsla.